Mánudagur, 31. ágúst 2009
Að missa auðlindir landsins í hendur útlendinga.
Svo illa er nú komið fyrir þessari þjóð að erlendir fjárglæframann eru byrjaðir að kaupa upp auðlindir þjóðarinnar og gengur það vel. Fjárglæframenn segi ég því það er ekki hægt að kalla þá annað, menn sem bjóðast til að kaupa hlut Reykjavíkurborgar í hitaveitu þeirra Suðurnesjamanna með því að greiða út 25% kaupverðs og fá 75% kaupverðsins lánað hjá Seljanda á 1,5% vöxtum með veði í bréfunum sjálfum.
Svona og svipaða "díla" höfum við séð á síðustu árum hjá þeim mönnum sem gerðu þessa þjóð gjaldþrota. Þeir þurrkuðu upp allt fé úr bönkum landsins og allt fé í öllum okkar helstu og stærstu fyrirtækjum hvort heldur voru tryggingarfélög, flutningsfyrirtæki eða fisksölufyrirtæki og voru langt komnir með að féfletta lífeyrissjóðina þegar ruglið loks stöðvaðist.
Er ekki komið nóg að svona "dílum" í þessu samfélagi? Erum við ekki búin að sjá nóg af vinnubrögðum af þessum toga?
Er stór hluti forystumanna okkar í sveitarstjórnum og á Alþingi virkilega orðnir eins og þessar "meðvirku" konur sem alltaf sækja í ný og ný sambönd við drykkfelda menn sem berja þær?
Liggur ekki ljóst fyrir hvað þessir menn ætla sér að gera við þetta félag ef þeir ætla sé að fá 75% af kaupverðinu lánað hjá Seljanda og einu veðin eru bréfin sjálf? Hversu mikils virði verða þessi bréf þegar búið er að tvöfalda skuldir Hitaveitunnar frá því sem nú er?
Er ekki öllum ljóst að þessir menn líta ekki á þessi kaup sem langtíma fjárfestingu? Skilja menn það ekki að ef þetta væri langtíma fjárfesting hjá þessum aðilum þá kæmu þeir með sitt eigið fé og keyptu þennan hlut OR?
Liggur ekki fyrir að nái þeir meirihluta í félaginu þá munu þeir "taka á því snúning". Eftir mun standa orkufyrirtæki enn verr sett en það er í dag, skuldsett upp fyrir haus og þær skuldir munu eins og allt hitt ruglið lenda á þjóðinni. Þegar búið verður að veðsetja og taka lán út á vinnsluleyfi Hitaveitunnar sem er til 65 ára með vilyrði um framlengingu í önnur 65 ár þá munu allar skuldir Hitaveitunnar á endanum lenda á þjóðinni ætli menn að nýta orkuna á þessu svæði til húshitunar og rafmagnsframleiðslu. Og af hverju er verið að veita mönnum vinnsluleyfi í svona mörg ár? Erlendis eru slík leyfi veitt í 5 til 10 ár með vilyrði um framlengingu.
Þessa taglhnýtinga Alþjóða gjaldeyrissjóðsins eigum við að senda til síns heima. Þessa menn sem koma hér og vilja komast yfir orkuauðlindir þjóðarinnar þegar hægt er að kaupa þær fyrir tíu sent á dollar en finnst það ekki nóg og hafa til að bera þá óskammfeilni að reyna að komast yfir þær án þess að borga fyrir þær með því að reyna að fá kaupverðið lánað hjá okkur Reykvíkingum, slík fyrirtæki og slíka menn getum við verið án.
Við eigum sjálf nóg til af fólki af þessu sauðahúsi. Það er óþarfi að vera að flytja slíkt fólk til landsins.
Þar fyrir utan þá eiga auðlindir þessa lands að vera í höndum og eigu þjóðarinnar. Það minnsta sem við getum gert nú þegar Alþingi er nýbúið að samþykkja að skuldsetja næstu kynslóð upp fyrir haus með því að samþykkja Icesave er að við höldum auðlindunum í eigu þjóðarinnar þannig að afraksturinn af þeim nýtist þjóðinni um ókomin ár, ekki útlendingum.
Mynd: Á Löngufjörum.
![]() |
Eignast meirihluta í HS Orku |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:09 | Facebook
Athugasemdir
Það er slæmt nú á síðustu og verstu að þá sé flest útlent af hinu illa. Ekkert réttlætir svona heimóttarlega gagnrýni í ljósi þess allt það sem var í innlendri eigu og laut innlendri stjórnun sökk neðar því mögulega í spillingu og skít. Með erlendu eignarhaldi og stjórnun er hægt að koma í veg fyrir þessi endalausu ættar-vina-fjölskyldutengsl sem hér er svo mosavaxin að ekkert þrífst á eðlilegan hátt. :) Samt sem áður þá er ég sammála eins og sannur þjóðarrembingur, við viljum eiga og stjórna en ekki borga :)
Þórhallur V Einarsson (IP-tala skráð) 31.8.2009 kl. 10:29
Magna er þvinguð sala. Orkuveitan er að hlýða tilskipun Samkeppniseftirlits og VERÐUR að hlýða henni. Steingrímur j. Sigfússon, fjármálaráðherran sem hafði efni á að eyða 16 milljörðum í Sjóva, er núna að blása reyk útum afturendann, með allt annað en ásetning um að ganga inn í kaupin. Vinstri Græn eru svo hjákátlega sorglegur flokkur án skoðana.
Ef þeim er þetta hjartans efni, hví er þá ekki slegið til og hluturinn keyptur ? Hvers á Orkuveitan að gjalda fyrir það að hafa reynt að selja þennan hlut hér innanlands án´árangur, fær gott tilboð frá Magma og þarf nú að taka þátt í leikriti Steingríms J.
Rísið undir stefnu ykkar Vinstri Græn og kaupið þennan hlut strax í dag, eða hættið uppfærslu þessa leikrits.
Haraldur Baldursson, 31.8.2009 kl. 11:15
Sæll Þórhallur
Vandamálið er að þeir sem nú vilja kaupa hlut okkar Reykvíkinga í Hitaveitu Suðurnesja þeir vilja líka „eiga og stjórna en ekki borga“.
Ef þessir menn væru að bjóðast til að kaupa hlutinn í Hitaveitu Suðurnesja og borga fyrir hann með peningum þá hefði ég ekki kallað þessa menn „fjárglæframenn“.En þessir menn eru ekki að borga fyrir þennan hlut með peningum. Þeir ætla að kaupa hann með því að ég og aðrir Reykvíkingar lánum þeim fyrir 75% af þessum kaupum og veðið fyrir láninu eru hlutabréfin sjálf.
Þessi hlutabréf geta þeir gert verðslaus ef þeir vilja. Það gera þeir með því meirihluti nýrrar stjórnar veðsetur Hitaveitan Suðurnesja upp í rjáfur með því að gefa út veðbréf fyrir segjum 50 til 100 milljarða með veði m.a. í þessum 65 ára nýtingarrétti sem þeir hafa á sínu svæði. Þetta bréf selja þeir eða afhenda sjálfum sér eða félögum í eigin eigu.
Þú mátt vel kalla það heimóttarskap hjá mér Þórhallur að vilja ekki lána þessum mönnum fyrir 75% kaupverðsins. Hafi þeir ekki fjármuni til að kaupa þennan hlut þá eiga Reykvíkingar ekki að lána þeim fyrir honum. Og þú mátt kalla þessa afstöðu mína hvaða nöfnum sem þú vilt.
Þar fyrir utan eigum við nú sem aldrei fyrr að standa vörð um okkar auðlindir. Eftir aðför og hernaðaraðgerð Breta gegn okkur þegar þeir settu á okkur Hryðjuverkalögin sem ollu okkur gríðarlegu fjárhagstjóni, tjóni sem má líkja við að þeir hafi jafnað stóran hluta Höfuðborgarsvæðisins við jörðu með loftárásum, þá erum við í raun komnin í nýja sjálfstæðisbaráttu.
Sú sjálfstæðisbarátta gengur út á að standa vörðu um auðlindir okkar. Missum við auðlindir okkar í hendur útlendinga þá missum við í framhaldi af því okkar efnahagslega sjálfstæði. Missum við okkar efnahagslega sjálfstæði þá er ekki langt í að sjálfstæðið og fullveldið fari líka.
Friðrik Hansen Guðmundsson, 31.8.2009 kl. 11:46
Þetta er stormur í vatnsglasi!!!
GG, 31.8.2009 kl. 17:42
Það lá eiginlega alltaf fyrir frá fyrsta degi í hruninu að þetta myndi gerast. Viðskiptahættirnir eru einnig siðlausir og fáránlegir líkt og allt annað hér á landi. Við misstum okkar efnahagslega sjálfstæði á degi eitt. Það er klárt. Allar okkar auðlindir hvort sem það eru hitinn í jörðu, vatnið okkar, orkan í fallvötnunum eða fiskimiðin eiga að vera í ævarandi eigu þjóðarinnar og nýtt af innlendum fyrirtækjum í bland við erlendar fjárfestingar sem við getum ekki komið í veg fyrir en ættum að setja í lög að erlend eignaraðild megi ekki fara yfir 49% eða svo. Við eigum svo ekki að fjármagna kaup erlendra aðila, þeir eiga að gera það sjálfir.
Kveðja að norðan.
Arinbjörn Kúld, 2.9.2009 kl. 10:41