Miðvikudagur, 26. ágúst 2009
MP banki beint í spillinguna
Frá því Sparisjóðirnir fóru að bera fé á helstu forystumenn samfélagsins, á fulltrúa í sveitarstjórnum, alþingismenn, sýslumenn, o.s.frv. með því að bjóða þeim eða gefa þeim stofnfé í Sparisjóðnum þá er eins og fjandinn hafi orðið laus í þessu samfélagi.
Það er eins og það þyki sjálfsagt mál í dag að fjármálastofnanir beri fé, gjafir og greiða á helstu trúnaðarmenn almennings.
Nú hefur einn nýjasti banki landsins afhjúpað hvernig hann starfar. Því miður virðist engin munur vera á hvernig hann starfar og hvernig gömlu gjörspilltu bankarnir störfuðu.
Miklar sögur hafa gengið á undanförnum árum hvernig bankarnir unnu. Við þekkjum flest þessar sögur. Eftirlitsaðilar, stjórnmálamenn, embættismenn og forkólfar lífeyrissjóðanna þáðu meðal annars eftirfarandi:
Áfengi sem mælist í baðkörum. Koníak, Viskí, rauðvín og hvítvín, allt það flottasta sem völ var á var sent á hundruð manna fyrir jól, áramót og páska. Kepptust bankarnir um að toppa hver annan í magni og gæðum.
Ferðir á erlenda knattspyrnuleiki voru stöðugt í gangi og ferðir á slíka leiki þáðu flestir þessara manna.
Veiðiferðir, í lax og hreindýr. Í þessar ferðir fór meira og minna öll stjórnsýslan ásamt þingmönnum og stór hluti sveitarstjórnarmanna minnst einu sinni á sumri í boði bankana. Áhugamenn um veiði þáðu ferðir í boði allra bankana og margra sparisjóða.
Sérstakar veiðiferðir til útlanda í lax, hreindýr og til veiða á villisvínum í Austur Evrópu og safaríferðir til Afríku. Háttsettum var boðið í slíkar ferðir. Villisvínaveiðar úr þyrlum voru vinsælar. Þar var mönnum keyrt milli staða í Bens jeppum og gist í glæsihöllum þar sem rauður dregill var út á götu og á móti veiðimönnum tóku logandi kyndlar og þjónar. Inni biðu svo vín og villtar meyjar.
Ferðir á allskonar sýningar, vörusýningar, listviðburði o.s.frv.
Farið var með þetta fólk í endalausar kynnisferðir að sýna starfsemi og fyrirtæki þar sem bankarnir komu að fjármögnun.
Allur kostnaður og allur viðurgjörningur á þessum ferðum var alltaf greiddur af bankanum. Í mörgum þessara ferða var mökum boðið með.
Í slíkum ferðum þekktist það að menn fengu sérstök kredit/debit-kort til notkunar á meðan á ferðinni stóð. Oft var síðan ekki gengið eftir að menn skiluðu þeim þó heim væri komið. Menn voru aldrei rukkaðir fyrir notkun á þessum bankakortum.
Þetta er svo fyrir utan allt fjármagnið sem flóði úr bönkunum til stjórnamálaflokkanna og stjórnmálamannanna. Sagt er að allir þeir sem gengt hafa ráðherraembættum á síðustu árum og fjöldi þingmanna eigi bankareikninga erlendis.
Þetta eru þær sögur sem mér hafa verið sagðar af ýmsum á síðustu 5 til 6 árum og ég sel þær ekki dýrari en ég keypti þær.
Sé bara hluti að þessum sögum réttar þá er stjórnsýslan og kjarninn í þingmannahópnum svo djúpt sokkinn í net bankana og fyrrum eigenda þeirra að þeir geta ekkert gert. Hendur þessa fólks eru bundnar eftir allt það sem það hefur þegið og þeirra heitasta ósk er að þessum málum sé sópað undir teppi og þessi mál öll þögguð niður. Það er það sem stjórnsýslan okkar er að reyna að gera og hefur verið að reyna að gera frá því Valtýr Sigurðsson og Bogi Nílsen voru skipaðir til þess að rannsaka hvort hugsanlega hefðu verið framin lögbrot í tengslum við hrun bankana. Þessum mönnum var falið að rannsaka syni sína. Sá gjörningur var einhver mesta tilraun til yfirhylmingar sem sést hefur í ríki sem telur sig vera réttarríki.
Hér átti svo sannanlega að þagga allt niður.
Dapurlegt að nýr banki skuli vera að að taka upp þessa ósiði. Ég sem vonaði og hélt ...
Mynd: Inni í Fljótsdal.
Fékk sér léttvín með mat | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:12 | Facebook
Athugasemdir
"Hendur þessa fólks eru bundnar eftir allt það sem það hefur þegið og þeirra heitasta ósk er að þessum málum sé sópað undir teppi og þessi mál öll þögguð niður"
Þetta er einmitt kjarni málsins.
Fortíðin er líka ein ástæða þess hve mönnum gengur illa að hætta, en það koma fram ný dæmi nú nánast daglega um áframhaldandi óreiðugjörninga; og úr öllum áttum í þokkabót.
Til allrar hamingju - þó - eru vandaðir stjórnmálamenn innan um í dag og bind ég vonir við þá.
Hákon Jóhannesson (IP-tala skráð) 26.8.2009 kl. 23:41
Sæll, Friðrik. Mjög sammála og í þessu eru engar flokkslínur þó offarið sé misjafnt. Til spornunar er ný stjórnarskrá lykilatriði þar sem þjóðin á alltaf að njóta vafans, ekki tilteknar grúppur eða hagsmunasamtök. Einnig tel ég opið persónukjör nauðsynlegt til að tryggja almennt frammistöðumat þingmanna, ekki bara útvalinnar hirðar. Þakka pistilinn og vildi gjarnan sjá hann víðar.
LÁ
lydur arnason (IP-tala skráð) 27.8.2009 kl. 12:56
Friðrik,
Það er engin trygging eins og samtrygging, með því að koma öllum í sama bát var tryggt að allir högðuð sér!
Andri Geir Arinbjarnarson, 27.8.2009 kl. 13:34
Þetta var nákvæmlega tilfinningin sem ég fékk þegar ég heyrði af sulli Sigmundar hjá þessum ágæta banka.
Margrét (IP-tala skráð) 27.8.2009 kl. 15:17
Góð áminning hjá þér Friðrik. Þar sem ég hef setið í bæjarstjórn Kópavogs í 7 ár vil ég þó taka fram að ég hef aldrei þegið neitt af þessu tagi. Ja nema einu sinni mætti ég við opnun útibús Landsbankans í Hamraborg og fékk þar gosglas og 3-4 litlar snittur. Ég er efins um að stór hluti sveitarstjórnarmanna hafi þegið boð af því tagi sem þú nefnir, heldur aðeins lítill hluti.
Kveðja - Hafsteinn
Hafsteinn Karlsson (IP-tala skráð) 27.8.2009 kl. 18:58