Sunnudagur, 5. apríl 2009
Hvað vill eftirsóttasti og uppteknasti maður í heimi til Íslands?
Óvæntur áhugi Forseta Bandaríkjanna á tækniþekkingu okkar Íslendinga og ósk hans um að koma í heimsókn til landsins kom mér í opna skjöldu. Hvað kemur til að sá maður í heiminum sem er mest upptekinn og með þéttustu dagskrána sýnir áhuga á að koma til Íslands? Allir vilja ná fundum þessa manns, allir vilja fá hann til að beita sér fyrir þessu eða hinu, fá hann til að gera þetta eða hitt eða bara sýna sig hér eða þar.
Hann velur nú í byrjun síns embættisferils að setja heimsókn til Íslands á dagskrá. Af hverju? Af hverju vill hann og starfsmenn hans taka frá tíma á dagskrá þar sem slegist er um hvern einasta klukkutíma til að fara til Íslands? Af hverju ekki til Kína eða Indlands? Og af hverju núna á þessari ögurstund í sögu þjóðarinnar?
Ástæðuna segir Barack vera áhugi sinn á nánara samstarfi Íslands og Bandaríkjanna á sviði jarðhitavinnslu.
Með slíkri heimssókn þá væri Barack að gera miklu meira en baða sig í Bláa lóninu og skoða virkjanirnar á Hellisheiði.
Með honum kæmu margir flugvélafarmar af fréttamönnum. Kastljós heimsins myndi enn á ný beinast að Íslandi. Ísland og allt sem íslenskt er yrði baðað í sviðsljósi fjölmiðlanna þessa daga sem hann dveldi hér. Það yrði enginn sá fjölmiðill í heiminum sem ekki myndi segja frá þessari heimsókn. Í þetta sinn væri það ekki gamla "víkingaeðlið" sem væri að koma okkur í heimsfréttirnar.
Í þetta sinn er það "bændamenning" okkar víkinganna sem hugsanlega er að koma okkur í kastljós heimspressunnar. Hvernig við með elju, dugnaði og þekkingu höfum lært að nýta og nytja náttúru landsins og orkulindir þess þannig að á því sviði stöndum við fremstir meðal jafningja.
Við vitum líka að Barack er að taka til eftir Bush stjórnina um allan heim. Við vitum hvernig samskipti landana hafa verið eftir að bandaríkjamenn fóru héðan án þess að kveðja. Með slíkri heimssókn væri Barack að bæta samskiptin og endurvekja gamlan vinskap þessara þjóða.
Með slíkri heimsókn væri Barack Obama að gefa okkur tækifæri til að sýna þjóðum heims að þó við séum víkingar og í okkur blundi "víkingaeðlið" þá erum við eins og víkingarnir forðum fólk sem setur sér lög og reglur og við búum hér að mikill menningu og tækniþekkingu. Hér er elsta þing í heimi og það var hér fyrir 1000 árum sem þau orð voru mælt sem höggvin eru í stein víða um heim í ólíklegustu byggingum á ólíklegustu stöðum:
"Með lögum skal land byggja en með ólögum eyða".
Komi Barack Obama í heimsókn til Ísland til að skoða hér jarðvarmavirkjanir þá er Forseti Bandaríkjanna að gefa okkur Íslendingum tækifæri til að endurheimta orðspor okkar um allan heim.
Við Íslendingar eigum sem betur fer enn víða vini.
Mynd: Kirkjan á Hofdölum, Skagafirði.
Áhugi á samstarfi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.4.2009 kl. 02:15 | Facebook
Athugasemdir
PR-tækifæri aldarinnar?!
Guðmundur Ásgeirsson, 5.4.2009 kl. 22:18
Nú þarf að vinna heimavinnuna hratt og örugglega...
Haraldur Rafn Ingvason, 5.4.2009 kl. 23:34
Já það eru að mínu mati góðar fréttir að Obama hafi óskað eftir að koma hingað. Obama er maður framtíðar og nýrra leiða.
Hólmfríður Bjarnadóttir, 6.4.2009 kl. 00:52
Eftir þáttinn Silfur Egils - verð ég hálf-smeyk við þá heimsókn þótt ég hafi tröllatrú á Barak Obama!
Alma Jenny Guðmundsdóttir, 6.4.2009 kl. 02:34
Hefur farið fram hjá mönnum hvernig staðið var að kynningu þessa máls ? Er Össur Skarphéðinsson orðinn blaðafulltrúi Hussein Obama ? Getur verið að þessi yfirlýsing hafi eitthvað með kosningar á Íslandi að gera ? Þessi tilkynnig lítur út fyrir að vera afar-afar gamalt bragð !
Loftur Altice Þorsteinsson, 6.4.2009 kl. 11:10
"- - gefa okkur tækifæri til að sýna þjóðum heims að þó við séum víkingar - - "
Ég vil ekki vera víkingur. Ég er ekki stolt af hinu grimma eðli þeirra sem við vorum pínd til að lesa um í Íslendingasögunum með ógeðslegum hrotta-lýsingum sem hæfa engu barni. Ég er ekki stolt af neinum Víkingum og finnst það mikil mistök að lyfta þeim upp á heiðursstall. Þeir eru ekkert merkilegir og eiga engan heiður skilinn fyrir ólýsanlega grimmd.
EE elle (IP-tala skráð) 6.4.2009 kl. 12:06
Og get ég bætt við að hinir grimmu og ómerkilegu Víkingar, gerðu það að leik að stinga hvítvoðunga með spjótum og kasta sín í milli.
EE elle (IP-tala skráð) 6.4.2009 kl. 12:51
Bara að láta hann ekki fara að heimsækja Ólaf Ragnar á Bessastaði. Alvöruforseti á ekkert erindi við svoleiðis "forseta"
Halldór Jónsson, 6.4.2009 kl. 22:14