Ákærum þá fyrir landráð vegna Icesave

482547Eftir Íslensku bankakreppuna 2006 þegar m.a. Danske Bank spáði gjaldroti Íslensku bankana minnkuðu verulega möguleikar þeirra að fjármagna sig með lánum frá öðrum bönkum. Það var með vilja og vitund Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands að Íslensku bankarnir hófu að safna innlánum erlendis þegar flestir erlendir bankar höfðu lokað á Íslensku bankana.

Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn áttu að vita og hlutu að vita allt um tilskipun Evrópusambandsins (94/19/EC), sem samþykkt var á Alþingi 12. janúar 1993 og lagði þær kvaðir á Seðlabankann að hann ábyrgðist alla innistæðureikninga Íslenskra banka upp að 20.887 evrum.

Það var með vitund og vilja Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands að Landsbankinn tók að safna sparifé útlendinga inn á innlánsreikninga sem voru skráðir á Íslandi og voru þar með á ábyrgð Seðlabanka Íslands með íslensku þjóðina sem ábekking. Að Landsbankanum skyldi leyft að safna þessum innlánum án þess að Seðlabankinn gerði kröfu um aukna bindiskyldu eða stóraukin framlög í tryggingasjóð innlánsreikninga eru óskiljanleg afglöp. 

Landsbankanum var þar með heimilað að safna innlánum í Evrópu, innlánum sem voru með beinni og óskorðaðri ábyrgð Íslenskra skattgreiðenda.

Með því að safna þessum innlánum erlendis var verið að veðsetja almenning á Íslandi og gera hann ábyrgan fyrir þúsund milljarða króna. Til þess að safna þessum innlánum hlýtur að hafa þurft að koma meira til en grænt ljós frá Fjármálaeftirlitinu og Seðlabanka Íslands. Valdið til að veðsetja þjóðina liggur ekki hjá starfsmönnum þessara stofnanna. Það vald hlýtur að liggja hjá þeim ráðherrum sem stýra þessum stofnunum og ríkisstjórninni.

Komi það í ljós að Fjármálaeftirlitið og Seðlabanki Íslands fengu ekki umboð ráðherra til þess að heimila bönkunum að veðsetja þjóðina með þessum hætti þá vil ég að þeir embættamenn sem bera ábyrgð á því að þjóðin var veðsett fyrir þúsund milljarða án þess að bindiskylda væri aukin og án þess að safnað hafi verið í tryggingasjóð innlána verði ákærðir fyrir landráð.

Eins verði þeir sem sem sátu í bankastjórn Landsbankans á þessum tíma svo og bankastjórar og framkvæmdastjórar ákærðir fyrir landráð.

Ég vil að þessir aðilar verði ákærðir fyrir landráð vegna þess að þeir gerðu þjóðina ábyrga fyrir þvílíkum skuldbindingum að þjóðin hefði ekki með góðu móti geta greitt þær ábyrgðir ef þær hefðu allar fallið á okkur. Ef við hefðum lent í því að þurfa að greiða þúsund milljarða vegna Icesave þá hefði það haft slíkar efnahagshörmungar í för með sér að við hefðum ekki séð út úr því næstu áratugina. Að leggja slíkar ábyrgðir á þjóðina vegna þessara Icesave reikninga er ekkert annað en landráð. Þeir sem "gambla" með þjóð sína með þessum hætti eru ekkert annað en landráðamenn.

Mótmæli nUmboð Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands til að heimila bönkunum að safna þessum innlánsreikningum og þar með að veðsetja Íslensku þjóðina um 20.887 evrur í hvert sinn og stofnaður var nýr Icesave reikningur hlýtur samt sem áður að hafa komið frá ráðherrum og ríkisstjórn. Forsætisráðherra, fjármálaráðherra og viðskiptaráðherra hljóta að hafa gefið Fjármálaeftirlitinu og Seðlabankanum og þar með bönkunum sitt samþykki með aðgerðum sínum eða aðgerðarleysi.

Ég spyr, höfðu þessir ráðherrar umboð til þess að veðsetja Íslensku þjóðina fyrir þúsund milljarða á tveim árum?

Ef svarið við þeirri spurningu er nei, ríkisstjórnin hafði ekki umboð til þess að veðsetja þjóðina fyrir þúsund milljarða á tveim árum þá vil ég að það fólk sem sat í ríkisstjórn og heimilaði með aðgerðum sínum eða aðgerðarleysi þessa veðsetningu verði ákært fyrir landráð.

Ég hélt það væri skýrt í stjórnarskrá að Alþingi eitt hefði fjárveitingarvaldið og þar með væri það bara Alþingi sem getur og má veðsetja þjóðina. Ég spyr veitti Alþingi ríkisstjórninni umboð sitt, með aðgerðum sínum eða aðgerðarleysi, til að veðsetja þjóðina fyrir þúsund milljarða? Ef svarið við þeirri spurningu er já, Alþingi veitti leyfi sitt til þessarar veðsetningar þá vil ég að allt það fólk sem sat á Alþingi þegar Landsbankinn safnaði fé inn á þessa Icesave reikninga verði ákært fyrir landráð.

Ég legg til að þeir sem eru sammála mér í þessu við tökum höndum saman og byrjum að undirbúa slíka ákæru. Búinn verði til vinnuhópur til að takast á við þetta mál. Vonlaust er að ætlast til að þeir sem eru hér undir sök, þingmenn, ráðherrar og embættismannakerfið,  muni neitt aðhafast.

Ákæra sem þessi verður að koma frá hópi almennra borgara.

Látum reyna í fyrsta sinn á ákvæði stjórnarskrárinnar um landráð.


mbl.is Hægt að leysa jöklabréfavanda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Sveinsson

Þetta er góður pistill. Mörg okkar eru orðin hundleið á gömlu lummunni um að ekki megi persónugera hlutina né leita að sökudólgum. Við viljum réttlæti. Það þarf einmitt að finna sökudólgana, rétta yfir þeim og dæma þá. Afleiðingar gerða þessara manna hafa komið þúsundum fólks á vonarvöl. Fólks sem enga ábyrgð ber á ástandinu. Nema kannski að hafa kosið hluta af þessu glæpahyski yfir sig. Landráðalýðurinn veit ekki hvað samviska er og er í algjörri afneitun. Ákærum hann og látum hann taka afleiðingum gerða sinna. Með lögum skal land byggja. Þakka þér fyrir að tala tæpitungulaust og ég sendi þér baráttukveðjur.

Sigurður Sveinsson, 10.2.2009 kl. 04:12

2 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Ágætis grein hjá þér, en er ekki ráð fyrst að klára að rannsaka málið og ákæra menn síðan. Verðum við ekki að gera hlutina í réttri röð? Við búum enn í réttarríki og fólk er saklaust þar til það er dæmt sekt. Um meðferð sakamála er sérstök löggjöf og eftir henni á að fara í þessu tilfelli sem öðrum.

Fjármálaeftirlitið heyrir undir Viðskiptaráðuneytið en ekki Fjármálaráðuneytið og Seðlabanki Íslands heyrir undir Forsætisráðuneytið. Viðskiptaráðuneytið hefur undanfarið 1 1/2 ár verið undir stjórn Samfylkingar og þar áður undir stjórn Framsóknarflokksins í langan tíma.

Ég veit spurði Árna Mathiesen um ábyrgð hans fyrir nokkrum dögum síðan. Sagðist hann axla ábyrgð líkt og aðrir ráðherrar í ríkisstjórnum undanfarinna ára. Hins vegar hefði málaflokkur fjármálafyrirtækja og banka ekki verið á hans könnu, heldur ríkisfjármálin og sjávarútvegsmál og þau mál hefðu við fall bankanna verið í góðu lagi. Hann sagði að ráðherrar almennt hefðu treyst seðlabankastjórn og stjórn fjármálaeftirlitsins, en þaðan hefðu ekki heyrst mjög alvarlega viðvörunarraddir fyrr en mjög seint.

Með þessu vil ég ekki gera lítið úr ábyrgð ráðherra í ríkisstjórnum undanfarinna ára eða Sjálfstæðisflokksins, því ábyrgð beggja aðila er gífurleg og ábyrgð embættismannanna sem í hlut áttu og þó sérstaklega hjá Fjármálaeftirlitinu og í aðeins minna mæli hjá Seðlabankanum einnig. Ábyrgð bankamannanna og starfsmanna fjármálafyrirtækja og útrásarvíkinganna er þó allra mest.  Ábyrgðist dreifist hins vegar á marga aðila og það verður erfitt að dæma allt þetta fólk fyrir landráð og benda beint á hver nákvæmlega klikkaði hvar. Hins vegar er ljóst að ráðherrar og alþingismenn ættu að axla ábyrgð á því sem gerst hefur með því að hætta afskiptum af stjórnmálum og hleypa nýju fólki að stjórn landsins. Þeir embættismenn sem einhvern snefil hafa af sjálfsvirðingu ættu að segja af sér.

Guðbjörn Guðbjörnsson, 10.2.2009 kl. 08:17

3 Smámynd: Hjalti Tómasson

Ég er sammála Guðbirni um að áríðandi sé að gera hlutina í réttri röð. Við eigum að halda í heiðri þá hugsun að menn séu saklausir þar til sekt er sönnuð. Ég er ekki viss um að okkur myndi vegna betur ef við tækjum upp þann sið að dæma menn eingöngu eftir líkum en ekki sönnunum.

Annars er greinin góð eins og fleira sem kemur frá fhg. Það væri bara óskandi að þeir sem að þessum gjörningum stóðu sæju sóma sinn í að víkja til hliðar meðan þetta er rannsakað ofan í kjölinn. Vonandi munum við í framtíðinni bera gæfu til að kjósa yfir okkur fólk sem er meðvitaðra um ábyrgð sína og æru. Ég væri til með að vera með í samtökum sem hefðu það á stefnuskrá sinni að knýja á um og fylgja því eftir að þessi mál verði rannsökuð, ekki eftir pólitískum leiðum heldur lagalegum og þá með stjórnaskrá Íslenska Lýðveldisins að leiðarljósi. Stjórnarskráin, hversu ófullkomin eða gamaldags hún annars er, er og á að vera æðsta stjórnvald landsins. Lagasetningar eða gjörningar sem brjóta í bága við hana hljóta að dæmast ómerkir og þá um leið refsiverðir.

Áfram Ísland 

Hjalti Tómasson, 10.2.2009 kl. 12:16

4 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Eftirfarandi pistill birtist á dv.is í framhaldi af viðvörunum Davíðs Oddssonar upp úr miðju ári 2007. Sömu viðvaranir kom Geir H. Haarde með í upphafi desember 2007 einnig :  

  

  

Bjargbrúnarkenning seðlabankastjóra slegin af

None

Laugardagur 17. nóvember 2007 kl 14:13

Höfundur: (johannh@dv.is)

Guðmundur Ólafsson hagfræðingur segir ekki sjá betur en að bandaríski hagfræðingurinn Arthur B Laffer hafi í fyrirlestri hér á landi fyrir helgina slegið af kenningu Davíðs Oddssonar seðlabankastjóra um að þjóðin væri á bjargbrúninni vega skuldasöfnunar fyrirtækja og einstaklinga erlendis. "Þetta er bara órökstutt bull. Það veit enginn almennilega hvað við er átt með að þenslan sé of mikil og að hagkerfið geti ofhitnað. Laffer blés af bjargbrúnarkenningu Davíðs Oddsonar seðlabankastjóra heyrðist mér. Hún felst í því að bankastjórinn hefur miklar áhyggjur af skuldasöfnun almennings og fyrirtækja í útlöndum og að við séum komin að mörkum þess sem þjóðfélagið þolir í þeim efnum. Það var í fyrsta skipti í veraldarsögunni sem seðlabankastjóri kvartaði yfir því um daginn að almenningur keypti leikföng," segir Guðmundur. Nánar er rætt við Guðmund um þetta í nýju viðtali hér á vefsíðu dv.is.

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 10.2.2009 kl. 14:48

5 Smámynd: Finnur Bárðarson

Skelfilega ar gott þegar menn eru farnir að tala tæpitungulaust eins og þú gerir Friðrik í frábærum pistli. Sérstaklega hugnast mér þessi setning

"Að leggja slíkar ábyrgðir á þjóðina vegna þessara Icesave reikninga er ekkert annað en landráð. Þeir sem "gambla" með þjóð sína með þessum hætti eru ekkert annað en landráðamenn".

Finnur Bárðarson, 10.2.2009 kl. 15:56

6 identicon

Sammála þessu.

"Ákæra sem þessi verður að koma frá hópi almennra borgara."

Byrja að vinna í þessu strax. Hvernig er árangursríkast að hefjast handa?

Bjarni Hafsteinsson (IP-tala skráð) 10.2.2009 kl. 17:00

7 Smámynd: Árni Gunnarsson

Ágætis pistill Friðrik og viðbrögðin eins við mátti búast. Nú er Sigurður Sveinsson lögmaður og honum ætti að vera treystandi til að vísa veginn. Inn í þessar hugleiðingar vantar þó einn þátt sem er það regluverk sem við gengum undir við inngöngu í EES. Þessar reglur eru í dag það skjól sem stjórnvöld hafa skriðið í þegar þessi umræða hefur orðið áleitnust. En mér kemur þá oft í hug setning sem Geir Haarde lét frá sér fara í Kastljósþætti s.l. haust. Undir þrýsingi frá fréttamanni sneri hann sig út úr vandanum með eftirfarandi orðum: (áreiðanlega ekki orðrétt munað) "Áttum við kannski að stöðva, eða hindra með einhverju móti útrás bankanna á erlendri grund?- Ætli það hefði þá ekki heyrst í einhverjum?"

En mér finnst ég og jafnvel fleiri eiga rétt á því hvort þessar reglur frá EES meinuðu stjórnvöldum að taka í taumana og stöðva þessa helreið?

Árni Gunnarsson, 10.2.2009 kl. 18:29

8 Smámynd: Baldur Gautur Baldursson

Auðvitað liggja þessir stolnu fjármunir einhversstaðar. Þannig er það nú!  Liechtenstein, Cayman Islands, Sviss eða í einhverri skattaparadís annarri?

Baldur Gautur Baldursson, 10.2.2009 kl. 19:47

9 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Guðbjörn og Hjalti, er ekki fyrsta skrefið að ákæra. Í því fellst enginn dómur, það er bara ákæra. Berist ákæra þá er menn saklausir þar til sekt er sönnuð.

Það að banka í einkaeign var heimilað að veðsetja þjóðina fyrir þúsund milljarða á tveim árum án þess að bankinn legði fram neinar ábyrgðir á móti eru landráð að mínu mati. Þeir sem eru sekir um þessi landráð eru í fyrsta lagi mennirnir í bankanum.

Auk þess þeir í stjórnkerfinu sem með aðgerðum sínum eða aðgerðarleysi heimiluðu þessa veðsetningu. Það er þá einhver þessara þriggja, embættismennirnir, ríkistjórnin eða Alþingi. Allt eftir hver veitti þetta umboðið og hvort einhver gerði eitthvað umboðslaus. Gildir þá einu hvort menn samþykktu eitthvað með aðgerðum eða með aðgerðarleysi.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 10.2.2009 kl. 20:30

10 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Þetta mál er allrar skoðunar vert. Tel samt að vanda verði afar vel undirbúnung og málatilbúnað, svo ekki verði vísð frá vegna formgalla. Þarna er ekki verið að fást við litla gullfiska, heldur hákarla sem kunna ýmislegt fyrir sér.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 10.2.2009 kl. 23:59

11 Smámynd: Hjalti Tómasson

Fyrsta skrefið er að rannsaka. Ef ég fer rétt með, og þú leiðréttir mig þá bara, þá er gangurinn í okkar annars ágæta réttarríki sá að komi upp grunur um misferli þá skuli það rannsakað af þar til bærum aðilum og ákært ef efni standa til. Nú er ég ekki að mótmæla því að menn séu látnir svara til saka en fyrir alla muni, við skulum ekki tapa okkur í reiðinni. Reiðir menn gera mistök sem oft er erfitt að laga eftir á og ég hefði viljað sjá þessa hluti skoðaða af utanaðkomandi sérfræðingum sem fengju til þess alla þá aðstoð og aðstöðu sem hægt er að veita. Það væri ekki í fyrsta skipti sem rannsóknaraðstoð væri fengin utanlands frá samanber fræg sakamál á fyrri árum. Að auki reikna ég með að til séu stofnanir sem sérhæfa sig í slíku.

Annars vakna hjá mér tvær spurnigar sem ég vildi gjarna fá álit á :

1. Hver á að rannsaka ?

2. Hver ætti þá að ákæra ?

Samkvæmt íslenskum lögum þarf þetta að vera hvort á sinni hendi

Hjalti Tómasson, 11.2.2009 kl. 22:03

12 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Sæll Hjalti

Það sem þú ert að lýsa er hinn eðlilegi gangur ef um sakamál er að ræað eða grunur er á misferli eins og þú nefnir og það er ríkið sem ákærir. Hér er hins vegar verið að ræða um mál sem er af öðrum toga en venjulegt sakamál. Hér erum um að ræða svo alvarleg afglöp í starfi embættismanna og æðstu stjórnenda ríkisins á þessum tíma að ég vil kalla þau landráð.

Þessir embættismenn og þessir æðstu stjórnendur ríkisins eru búnir að skipa rannsóknarnefnd sem falið hefur verið að rannsaka ástæður hruns bankana. Trúðu mér, niðurstaða þeirrar skýrslu verður að enginn verður ákærður og þeir sem ég vil að verði ákærðir fyrir landráð verða hvítþvegnir í þeirri skýrslu. Ég veit þú veist þetta líka. Þetta veit öll þjóðin.

Ef við viljum réttlæti þá verður hópur almennra borgara að taka sig saman og ákæra. Í þeirri ákæru þurfa ákæruatriðin að koma fram og rökstuðningur fyrir ákærunni. Fyrir liggja í dag opinberar upplýsingar um flest það er varðar Icesave reikningana.

Ef þú ert á gangi með vinum þínum og það ræðst á ykkur hópur manna og misþyrmir ykkur á kærir þú þá fyrir líkamsárás. Með þeirri ákæru leggur þú fram þín sönnunargöng, framburð vitna og vottorð læknis. Á þeim grunni ákærir þú.

Þess vegna þá þarf það að vera hópur almennra borgara sem ákærir. Ekki ríkið. Ríkið mun aldrei ákæra sína æðstu embættismenn fyrir landráð. Fyrsta skrefið er þess vegna ekki að rannsaka, öll göng liggja fyrir eins og í dæminu um líkamsárásina. Í okkar tilfelli þá hefur líkamsárásin átt sér stað, landráð hefur verið framið. Öll gögn liggja fyrir eða hægt að nálgast þau.

Fyrsta skrefið er því að safna gögnum, útbúa ákæruna og sækja um gjafsókn.

Annað skref er að senda inn ákæruna á ofangreinda þrjá hópa.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 11.2.2009 kl. 23:51

13 Smámynd: Ólafur Þórðarson

Áhugavert, vægast sagt.

Ekki hefur skilað neinu að henda snjóbolta í rassinn á Jóni Ásgeiri. Auðvitað eru allar líkur á að rannsókninni misfarist að negla upp við vegg þá sem eru ábyrgir fyrir landráð. Rétt orðnotkun með landráð, sammála því að best sé að byrja þar og þú ert að tala eins og svo margir aðrir.

Að setja ferlið í gang er lágmark og láta á reyna. Úrtölumenn eru alltaf fljótir að koma með útskýringar á af hverju eitthvað gengur ekki, en ég held það megi halda lífi í þessu með aukinni umræðu og halda henni lifandi. Þegar fer að kreppa að hjá fólki verður enn nauðsynlegra að komast til botns í þessu -einu stærsta máli íslandssögunnar-. Það má ekki leyfa að strauja umræðuna niður í ekkert.

Því umræðan, hún kemur jú á undan aðgerðunum.

Ólafur Þórðarson, 14.2.2009 kl. 02:58

14 Smámynd: Hjalti Tómasson

Point taken Friðrik

Annars var ég að hlusta á sérstakan saksóknara, ef ég fer rétt með tiltilinn, þar sem fram kom sá ferill sem ég lýsti. Það þarf ekki ákæru til að mál séu rannsökuð, aðeins rökstuddan grun. Séu mál vanreifuð eru mestar líkur á að þeim sé vísað frá eða sakborningur sýknaður, hversu öflugar sem sannarninar eru.

Ég er sammála því að rannsaka skuli þennan þát efnahagshrunsins en ég persónulega vil ekki búa við réttarfar sem ekki tryggir mér eða öðrum eins réttláta málsmeðferð og unnt er að koma við. Þá gætum við eins flutt inn Mugabe eða einhvern álíka til að vinna í þessu fyrir okkur í stað sómakærra embættismanna.

Enn og aftur, rannsökum þessa kalla en gerum það rétt og látum reyna á réttakerfið. Ef það hefur ekki bolmagn eða forsendur til þess þá eru til alþjóðalög um hryðjuverk og þau eigum við að nota því það sem hér hefur farið fram er ekkert annað en hryðjuverk, sama hvaða mælikvarði er notaður. Og til þess að það gerist þarf breytt hugarfar á æðstu stöðum.

Eitt að lokum.

Sómatilfinningu fólks á Íslandi er misboðið og eðlilegt að menn vilji skjótar ákvarðanir en við ættum ekki að gleyma þeim gildum sem við erum sjálf að prédika yfir börnunum okkar. Látum reiðina ekki stjórna okkur, notum lögin og skynsemina.

Bestu kveðjur

Hjalti Tómasson, 18.2.2009 kl. 10:55

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband