"Melurinn"

IMG_2458Við vorum á leiðinni niður fjallið. Þetta var einn af þessum fallegu sumardögum, síðla í júní í fyrra. Lúpínan öll blómstrandi, birkið full laufgað og holtablómin öll byrjuð að blómgast. Veðrið var kyrrt og milt, sól skein í heiði. Dreifðir skýjaflákar voru yfir Bláfjöllunum. Stundin uppi á Þverfjallshorni hafði verið einstök að vanda. Í þetta sinn hafði verið logn. Það er alltaf einstakt að upplifa það. Útsýnið alltaf jafn stórbrotið.

Við vorum að ganga yfir brúna á læknum þegar hann spyr. "Friðrik, værir þú ekki til í að aðstoða mig aðeins á eftir. Ég er sem sex hesta á húsi, náði að hreyfa tvo í gær en hefði þurft að hreyfa hina fjóra á eftir".

Ég vissi að bróðir minn var búinn að vera í þessu hestastússi frá því hann kom heim frá námi. Hann hafði oft boðið mér að koma mér sér á hestbak en það hafði aldrei freistað mín. Ég hafði reyndar verið mikið á hestbaki þegar ég var í sveit í Blönduhlíðinni hjá ömmu og frændfólki mínu þar. Þá var ég daglega á hestbaki, reið berbakt að sækja kýrnar og fór í útreiðartúra á sunnudögum. Skemmtilegast var þó að fara ríðandi að vitja neta í vötnunum. Þar lærði ég að sundríða. En það er svo óralangt síðan þrjátíu, fjörutíu ár eða eitthvað.

Þetta flögraði allt í gegnum huga minn þarna á göngubrúnni og það hefur líklega tekið einhvern tíma því hann bætti við. ´" Ég ætla að fara upp á Laxnes á hestunum á eftir. Ég býð þér upp á kaldan öl á barnum ef þú kemur með". "Ha"? spurði ég forviða. "Er bar þarna"? "Já". Svaraði hann. "Það er hestahótel, ferðaþjónusta og reiðskóli". "Ha"? spurði ég forviða. "Er hestahótel og bar í Laxnesi"?

Tveim tímum seinna var ég eftir alla þessa áratugi aftur kominn á hestbak. Þennan sunnudag var áfangastaðurinn ekki gamla útisundlaugin á Víðivöllum sem við bræður fórum svo oft í á sunnudögum hér áður fyrr. Nú var áfangastaðurinn nýr heimur uppi í Laxnesi. Heimur sem hafði alveg farið framhjá mér.

Hann hringdi rétt áðan. "Friðrik, það þarf að hreyfa hesta í dag. Ég verð uppi í hesthúsi klukkan hálf tvö". Ég sit hér við tölvuna og horfi út um gluggann. Veðrið er hreint óborganlegt hér í borginni í dag, sól, stilla og heiður himinn. Ég hugsa til þeirra Grána og Brúns í hesthúsinu uppi í Mosfellsbæ. Ég hugsa upp í Laxness og finn að ég er lagður af stað í huganum. Ég hugsa til bróður míns og segi hálf upphátt við sjálfan mig. "Melurinn".

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gylfi Björgvinsson

Flott lesning Friðrik ..... Hafðu góðan og skemmtilegan dag 

Gylfi Björgvinsson, 18.1.2009 kl. 13:29

2 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Það virðist góður sunnudagur framundan, njóttu vel.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 18.1.2009 kl. 15:24

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband