Neyðarástand á Íslandi?

Írska þingið var að samþykkja neyðarlög sem gera ráð fyrir því að írska ríkið ábyrgist bæði innistæður í írskum bönkum og skuldbindingar þeirra. Seðlabankar allra landa eru að dæla út fé til viðskiptabanka sinna til að halda rekstri þeirra og viðskiptavina þeirra gangandi. Óheyrilegir fjármunir hafa verið lánaðir í þeim tilgangi. Bandaríkjamenn eru í dag að fara að samþykkja neyðarlög sem eru þannig á skjön við grundvallar hugmyndir þeirra síðustu 200 ára að Bandaríki Norður Ameríku verða aldrei söm eftir. 

Efnahagskreppan sem geisar erlendis margfaldast hér upp með 50% gengisfalli krónunnar, falli sem enginn sér fyrir endann á. Með þessari gríðarlegu gengisfellingu krónunnar ofaní erlendu fjármálakreppuna þá  fullyrði ég að ástand mála er hvað allra verst hér á landi.  

Til viðbótar þessari alvarlegu stöðu þá er annar af tveimur leiðtogum ríkistjórnarinnar úr leik í bili. Leiðtogar ríkisstjórnarinnar hafa leitt þetta stjórnarsamstarf farsællega. Brotthvarf annars þeirra nú veikir ríkisstjórnina, veikir samstarf flokkanna og veikir Samfylkinguna sem nú er formannslaus. Hefur ríkisstjórnin burði til að takast á við aðsteðjandi vanda með formann annars ríkisstjórnarflokksins úr leik? Aðgerð eins og neyðarlögin í Írlandi og í Bandaríkjunum, væru slíkar aðgerðir mögulegar hér á landi eins og pólitíska staðan er?  

Hvað eru íslensk stjórnvöld að gera, eru þau að undirbúa neyðarlög? Hvernig ætla þau að rétta skútuna af, hvernig ætla þau að minnka það tjón sem orðið er og afstýra því mikla tjóni blasir við að verði?  

Í mínum huga er alveg ljóst hvað á að gera. Ég tel að grípa verði tafarlaust inn í með neyðarráðstöfunum sem felast í því að taka á upp fastgengisstefnu og festa á gengið til næstu ára í einhverri eðlilegri tölu. Í framhaldi á að tilkynna að innan fjögurra ára sé stefnt að inngöngu í Evrópusambandið og upptöku Evru. Þá verði búið að uppfylla skilyrðin um inngöngu í myntbandalagið. Látum síðan kjósa um aðildina þegar samningur liggur fyrir og þegar allt er orðið rólegt og eðlilegt aftur. Þjóðin ræður þá hvort hún vill inn eða ekki.  


mbl.is Írska þingið samþykkir neyðarlög um bankakerfið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband