Þriðjudagur, 27. október 2009
Samstarf Íslands við hin Norðurlöndin verður aldrei aftur eins.
Mikið er ég sammála ræðu Bjarna Benediktssonar sem hann flutti á þingi Norðurlandaráðs þar sem hann gagnrýnir hin Norðurlöndin fyrir að blanda saman fjárhagsaðstoð sinni til okkar og deilu okkar við Breta og Hollendinga. Ég vil sjá meira af þessu frá hinum fulltrúum okkar á þessu þingi. Þetta þing er tilgangslaust ef þessi mál eru ekki rædd þarna hispurslaust.
Við höfum heyrt marga, bæði innlenda og erlenda lögspekinga, gagnrýna mjög þennan Icesave samning.
Þrátt fyrir rökstudda gagnrýni á Icesave samninginn og réttmæti hans þá velja Norðurlöndin að taka einhliða afstöðu með Bretum og Hollendingum í þessu máli gegn okkur.
Af hverju hin Norðurlöndin hafa valið að aðstoða Breta og Hollendinga við að stilla okkur Íslendingum upp við vegg með þessum hætti er mér óskiljanlegt.
Pólverjar og Færeyingar voru með engin slík skilyrði fyrir sínum lánum. Af hverju gerðu hin Norðurlöndin ekki slíkt hið sama?
Af hverju hin Norðurlöndin völdu að taka svona afgerandi afstöðu í þessum Icesave máli á móti okkur er mér óskiljanlegt. Af hverju þau vilja neyða okkur til að við tökum á okkur skuldbindingar sem eru meiri og ná langt út yfir gildandi lög og reglur ESB um innistæðutryggingar skil ég ekki.
Nokkuð hefur verið í umræðunni að Bretar sem eru að fjármagna sig á lánum með 3,6% vöxtum, þeir endurlána okkur með Icesave samningnum á 5,55% vöxtum. Menn telja að Bretar munu vegna þessa vaxtamunar þéna um 270 milljarða króna eða um 1,5 milljarð evra á þessum Icesave samningi.
Við skulum átta okkur á því að sama staðan er uppi með lán hinna Norðurlandanna til okkar. Svíarnir t.d. eru að fjármagna sig með erlendum lánum með 3,6% vöxtum frá Seðlabanka Bandaríkjanna. Þeir endurlána okkur þessa sömu dollara í gegnum Alþjóða gjaldeyrissjóðinn á 5,5% vöxtum. Þessi lán Norðurlandanna til okkar eru því engin góðgerðastarfsemi. Norðurlöndin ætla sér að græða hundruð milljarða króna á okkur með því að hirða sjálf vaxtamunninn, alveg eins og Bretarnir ætla sér að gera.
Við sjáum vel hvað hug forystumenn hinna Norðurlandanna bera til okkar. Skilaboðin geta ekki verið skýrari.
Það er mitt mat að þeir Íslendingar sem nú eru á lífi munu aldrei líta samstarfið við hin Norðurlöndin sömu augum og áður. Þeim hefur án efa fjölgað mikið á Íslandi sem vilja minnka þetta "samstarf".
Þetta Icesave mál og þessi afstaða Norðurlandanna til þess er ekki beint að vinna með okkur íslensku Evrópusinnunum. Núverandi forystufólk Breta, Holendinga og Norðurlandanna er að öllum líkindum að gera út um vonir okkar Evrópusinnanna að við Íslendingar göngum nokkurn tíma í ESB.
Höfnum þessum lánum frá Norðurlöndunum. Látum ekki þvinga okkur til nauðasamninga. Látum Breta og Hollendinga með aðstoð hinna Norðurlandanna og AGS ekki svínbeygja okkur í þessu Icesave máli þó við séum komin niður á annað hnéð.
Engin þjóð á að láta bjóða sér þessa afarkosti.
Mynd: Á hestbaki við Álku, v-Hún.
Ísland stóð eitt í hvirfilbylnum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 28.10.2009 kl. 00:20 | Facebook
Athugasemdir
Þetta er ekkert annað en hagsmunapólítík í harð-kapítalískum heimi, sérstaklega svíar hafa lánað mikið til eystrasaltsríkjanna og austurríkis og hafa ekki efni á því að þumalskrúfunni sé létt af skuldurum, hvorki hér né annars staðar. Þetta kallast víst neo-kapítalismi eða nútíma lénsherrar. Hin norðurlöndin fylgja pilsfaldi ESB.
Þetta er í raun auðskiljanlegt en erfitt að melta :-)
Guðbjörn
Guðbjörn (IP-tala skráð) 28.10.2009 kl. 00:03
Heimurinn verður aldrei samur eftir það sem við höfum upplifað undanfarið ár. Ég hef skömm á íslendkum stjórnmálamönnum sem skipa sér í lið með þeim sem eru að kúga skuldum upp á þjóðina.
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 28.10.2009 kl. 00:51
Friðrik, þú átt enga samleið með þessu liði því ef þú flögrar með þeim stingur það í stúf eins og hvítur hrafn á þingi.
Þessar Evrópuþjóðir vita að Ísland er dvergríki og flestir evrópusinnar eru svo skeytingalausir um hagsmuni Íslands að þeir nenna ekki að halda þeim á lofti. Þvert á móti skuldsetja þeir börn sín og kyssa auðmjúkir á vöndinn.
Þeim dugar ekki að fórna fiskveiðilandhelginni og forræði í tollamálum sem er frumskilyrði þess að við getum flutt út fisk heldur leggja þeir Ísklafa á þ næstu kynslóðir sem kosta sjálfstæðið og valda landflótta og segja að "þjóðin hafi gott af að borga Icesave" (Ólína)
Sigurður Þórðarson, 28.10.2009 kl. 05:22
Við skulum ekki gleyma svari sænska forsætisráðherrans þegar hann svaraði gagnrýni Bjarna. " Íslendirgar verða að átta sig á því að aðir líta þetta mál ekki sömu augum og íslendingar" Við ættum kannski að leggjast undir feld og reyna allavega að skilja hvernig málið lítur út frá hinni hliðinni.
Kristinn Gunnarsson (IP-tala skráð) 28.10.2009 kl. 09:15
Sæll Kristinn
"Hin hliðin" eins og þú kallar hana gengur út á það að skattgreiðendur á Íslandi eiga að taka á sig að tryggja að fullu innistæður í banka sem var í einkaeign. Samkvæmt íslenskum lögum og reglum ESB þá ber okkur að tryggja 20.887 evrur per reikning. Icesave samningurinn gerir hins vegar ráð fyrir að Bretum verði tryggðar allar innistæður að fullu og Hollendingum upp að 100.000 evrur per reikning.
Skv. Icesave er Íslendingum ætlað að tryggja þessa lámarksfjárhæð, 20.887 evrur per reikning og til þess fáum við um 50% af eignum Landsbankans. Dugi þessi 50% af eignum Landsbankans ekki, þá verða Íslenskir skattgreiðendur að borga það sem upp á vantar.
Bretar og Hollendingar tryggja það sem er umfram þessar 20.887 evrur á hverjum reikning. Til þess fá þeir um 50% af eignum Landsbankans.
Íslensk lög og reglur ESB gera ráð fyrir aðeins séu tryggðar 20.887 evrur per reikning. Með þessum Icesave samning þá er verið að þvinga okkur til að samþykkja að þrotabú Landsbankans verið notað til að tryggja miklu hærri innistæður en íslensk lög og reglur ESB gera ráð fyrir.
Ef "hin hliðin" er sú að við "Íslendingar eigum að standa við okkar alþjóðlegu skuldbindingar" þá væri nóg að tryggja þessar 20.887 evrur per reikning. Ef öllum eigum Landsbankans yrði varið í það að tryggja þessar 20.887 evrur per reikning þá væri lítið sem ekkert að falla á Íslenska skattgreiðendur vegna þessa máls. En þetta er ekki þannig. Bretar og Hollendingar eru að fá til sín um 50% af eignum Landsbankans til að tryggja innistæður sem eru umfram þessar 20.887 evrur.
Í þessu Icesave máli er því verið að ganga miklu lengra en lög og reglur ESB um innlánstryggingar gera ráð fyrir.
Þar fyrir utan er mörg ákvæði þessa Icesave samnings hreint fáránleg eins og þú sjálfsagt veist hafir þú fylgst með umræðum um þennan samning og heyrt í þeim innlendu og erlendu sérfræðingum sem hafa gagnrýnt hann.
Bretar og Hollendingar hafa beitt öllum ráðum til þess að knýja fram vilja sinn í þessu máli. Allt frá því að beita hryðjuverkalögum, ekki bara á Kaupþing, Landsbankann og Glitni, heldur einnig beitt þeim á sjálfan Seðlabanka Íslands. Ríki sem setur hryðjuverkalög á Íslenska Seðlabankann, það ríki er einfaldlega í stríði við Ísland. Það er ekki flóknara.
Norðurlöndin hafa ákveðið að vera í liði með Bretum og Hollendingum gegn okkur í þessu máli. Þau neitað okkur um lánafyrirgreiðslu nema við göngum að þessum afarkostum Breta og Hollendinga. Sama gerir AGS og þess vegna hefur lán númer tvö frá AGS til okkur m.a. dregist um níu mánuði.
Pólverjar og Færeyingar hafa ákveðið að blanda ekki saman lánum sínum til okkar og deilum okkar við Breta og Hollendinga.
Í dag vitum við Íslendingar hverjir eru vinir okkar hverjar eru "vinaþjóðir" okkar og við vitum muninn þar á.
Friðrik Hansen Guðmundsson, 28.10.2009 kl. 10:23
Sæll Friðrik - takk fyrir ítarlegt svar, en svar þitt er alfarið frá íslensku sjónarhorni. Ekki nokkur tilraun hjá þér til að líta á málið frá frá "hinni hliðini"
Kristinn Gunnarsson (IP-tala skráð) 28.10.2009 kl. 10:43
Friðrik,
Ég tek undir það sem Kristinn segir hér. Ræða Bjarna hefði verið miklu meira sannfærandi ef hann hefði fyrst útskýrt og viðurkennt að Íslendingar og hans fyrirrennarar gerðu mistök. Hann missti gullið tækifæri til að sannfæra frændur okkar um að nú færi ekki annar Geir eða Davíð fyrir þessum flokki heldur flytti hann inn nýja og ferska vinda og áherslur.
Andri Geir Arinbjarnarson, 28.10.2009 kl. 15:08
Sammála Kristni og sérstaklega Friðriki, B.B virkaði á mig eins og dónalegur og óþekkur frekjukrakki sem með engu móti tengir sig og sinn flokk þessum ósköpum, að nýta sér ekki gullið tækifæri til að sannfæra frædnur okkar um breyttan hugsunarhátt hér á landi er með eindæmum.
Jónína (IP-tala skráð) 28.10.2009 kl. 19:02
Aðrir þegja þarna á Norðurlandaráðsþinginu til að styggja ekki Svía sem fara með forystu í Evrópusambandinu út árið. Þeir taka ekki áhættuna á reiði Svíanna vegna umsóknar Íslands um aðild að ESB.
Ég tek líka ofan fyrir Bjarna, þessi rödd varð að heyrast þarna.
Ágúst Ásgeirsson, 28.10.2009 kl. 20:10
Þetta kjánalið fjórskipta einflokksins er nú varla tekið mjög alvarlega úti eftir háðulega frammistöðu við stjórn landsins. Þetta væl þess minnir einna helst á sífullan og blankan frænda utan af landi sem kemur í bæinn til að reyna að slá ættingjana. Hann er með allt niður um sig og stendur ekki steinn yfir steini en ber sig samt mannalega og allt verður gott á ný amk. í bili ef hann fær lán til að slá á timburmennina.
Baldur Fjölnisson, 28.10.2009 kl. 20:45
við eigum ekki að taka neitt lán. við höfum ekkert að gera með gjaldeyri sem á að nota til að halda genginu stöðgu. að halda genginu stöðugu þýðir að AMF/IMF vill að við notum peningana til að borga út alla erlenda aðila með stöðutökur hér á landi í krónum, út á sem hæsta gengi.
Við höfum ekkert að sækja til ESB nema að eyða pening, tíma og gjaldeyri. Við höfum ekki efni á neinu af þessu.
Ef ríkistjórnin væri að einbeita sér að byggja hérna upp innviði landsins þá værum við langt kominn. í dag er bara vonað að allt reddist ef næsta fix kemur. bara ef við gerum þetta reddast allt. svona svipað og alkinn sem byrjar að þamba rauðsprittið. frekar tilbúinn að fórna öllu heldur en að taka sig á.
við eigum að vinna í þessu hérna heima og ekki hlusta á bullið í nýlenduþjóðunum og stjórntækjum þeirra sem fá falleg alþjóðleg nöfn en eru í raun hlutafélag ekki ósvipað austur indíafélaginu.
Fannar frá Rifi, 28.10.2009 kl. 23:32