Fimmtudagur, 3. september 2009
Umhverfisvænar veiðar framtíðin.
Ég er ekki sammála framkvæmdastjóra LÍÚ þegar hann gagnrýnir auknar línuveiðar á kostnað togveiða. Í mínum huga ætti að vera búið að takmarka mjög ef ekki banna alveg togveiðar. Veiðar með snurvoð átti aldrei að leyfa að yrðu hafnar á ný hér á Íslandsmiðum.
Ég hefði vilja sjá okkur Íslendinga taka upp vistvænar veiðiaðferðir að fyrirmynd Normanna og Rússa og bannaðar verði veiðar með botntroll og snurvoð. Hættum að slétta hafsbotninn umhverfis landið og breyta með því vistkerfinu og þar með lífsskilyrðum nytjastofnanna.
Markmið Normanna og Rússa er meðal annars að vernda kóralinn og svæðin þar í kring. Gríðarlegt lífríki er í kring um þennan kóral, þar eru miklar uppeldisstöðvar. Mikill kórall er allt í kringum Ísland og þennan kóral er verið að brjóta daglega niður á miðunum um allt land. Við það eyðileggjast lífsskilyrðin og fiskgengd minnkar.
Áratuga rannsóknir liggja fyrir hjá Normönnum og Rússum á skaðsemi þessara veiðarfæra. Veiðar með botntroll eru bara leyfðar á ákveðnum svæðum þar sem botninn er sléttur og mat fiskifræðinga að þar sé ekki verið að eyðileggja neitt með því að nota þessi veiðarfæri. Eins til veiða á rækju og skel.
Við ættum að taka áratug eða svo í slíka aðlögun og færa aflaheimildir yfir á neta, línu- og krókabáta. Íslenskir bátasmiðir eru að búa til slíka báta hér heima. Við eigum í framhaldi að geta átak í því að setja í þessa báta þessar nýju metanvélar sem m.a. eru komnar í fullt af bílum.
Þá getum við sótt þennan afla á bátum sem við smíðum sjálf og notað til þess orku sem við framleiðum sjálf.
Þessir bátar skipa öllum sínum afla á land í sjávarplássunum kring um landið. Aukin hlutur dagróðrarbáta mun veita á ný súrefni inn í þessa bæi. Landsbyggðin mun þá ganga í endurnýjun lífdaga sinna.
Þegar allar aflaheimildir eru að mestu komnar á hendur dagróðrabáta og aflanum öllum þar með landað á Íslandi þá erum við um leið búin að tryggja dreifða eignaraðild á auðlindinni og að nýting hennar verður um ókomin ár í höndum aðila sem lifa og búa í sjávarplássunum á Íslandi.
Mynd: Sér yfir Vopnafjörð.
Sérkennileg aðferðafræði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:38 | Facebook
Athugasemdir
Jæja? Ég ólst upp í stærstu verstöð landsinns. Á árunum 50 og 60 voru trillukarlar um allar bryggjur. Þetta voru upp til hópa stolltir menn, en skít blánkir. þier unnu allra manna mest og höfðu minnst fyrir. Troll og nótabátarnir voru allt annað mál. það sem villir fyrir 'sjónum' í dag eru þeir sem eiga sport bátana og eru ríkir, og munar ekkert um að skreppa á haf út og ná í nokkra titti til að grobba sig af. Í dag er ekki hægt að ættlast til þess af nokkrum manni, að trillukarlar vinni, éti og sofi allt árið í kring svo að milli-manninn verði ríkur af að selja fyrsta flokks fisk frá þeim til útlanda í gámum. Púntur og basta!
JASi (IP-tala skráð) 4.9.2009 kl. 13:34