Falla bankarnir og gríðarlegar ábyrgðir lenda á þjóðinni?

Sífellt fleiri og fleiri spurningar vakna hvort rétt hafi verið að endurreisa bankana. Frá því þeir fóru í gjaldþrot í haust hefur þeim verið haldið sofandi á lífi í gjörgæslu. Til þess að halda þeim á lífi þá hefur þjóðin verið látin brjóta hvern siðferðilega þröskuldinn á fætur öðrum.

Þingvellir 2009061Bara það eitt að fara í kennitöluflakk með bankana og stofna upp úr gjaldþrota bönkum nýja banka á nýrri kennitölu var þannig skref að þá skammaðist ég mín í fyrsta sinn á ævinni fyrir að vera Íslendingur. Að fara í kennitöluflakk með banka eða fyrirtæki sem eru komin í vandræði er ekkert nema þjófnaður, í besta falli tilraun til þjófnaðar. Með slíku kennitöluflakki halda eigendur áfram rekstri en skilja skuldirnar eftir á gömlu kennitölunni og lánadrottna eftir með sárt ennið. Að ríkið skuli hafa farið úr í slíkt og gert þjóðina að þjófsnaut sínum með sér í þessu máli er hreint ótrúleg svívirða. Hvernig verður "mórallinn" hjá Íslenskum atvinnurekendum eftir að þeir hafa horft upp á ríkið gera þetta? Eftir höfðinu dansa limirnir.

Í annan stað þá eru bankarnir enn á lífi og ekki búið að taka þá til gjaldþrotaskipta vegna þess að hér voru sett neyðarlög. Þessi neyðarlög þverbrjóta margar þær grundvallarreglur er varða mismunun fólks vegna þjóðernis. Þessi neyðarlög eru engin lög, þetta eru ólög. Það er með ólíkindum að þjóð eins og við skulum hafa sett slík lög til þess eins að bjarga þrem einkafyrirtækjum í fjárhagsvandræðum. Öllum okkar fyrri gildum var hent út í ystu myrkur í þeim tilgangi að verja illa fengið fé þessara fyrirtækja. Fyrirséð eru endalaus málaferli erlendra aðila við bankana, fjármálaeftirlitið, Seðlabankann og ríkið vegna þessara neyðarlaga og þeirra athafna sem þessir aðilar hafa framkvæmt á grundvelli þessara laga.

Þau málaferli sem fyrirséð eru vegna þessara neyðarlaga er þess eðlis að tapist eitthvað af þessum málum þá verða þessir bankar gjaldþrota og gott ef ekki Íslenska þjóðin líka. Þessi neyðarlög eru líkleg einhver versti gjörningur og verstu lög sem nokkur ríkisstjórn hefur sett. Um leið og Alþingi var illi heilli búið að samþykkja þau þá sáu Bretar sig tilneydda að verja sig og sitt fólk og beittu sínum hryðjuverkalögum á Íslensku bankana og Seðlabankann.

Tjónið sem þessi neyðarlög eru búin að valda þjóðinni er þegar orðið gríðarlegt og ekki fyrirséð hvernig það muni enda.

Ég spyr verður einhvertíma hægt að taka þessi neyðarlög úr gildi? Verður að framlengja gildistíma þeirra um tvö ár í viðbót svo ekki verði hægt að lögsækja bankana og ríkið? Liggur ekki fyrir að ef málaferli fara í gang sem snúast um rétt Íslenska ríkisins til að mismuna innistæðueigendum eftir þjóðerni, að þeim málaferlum tapar Íslenska ríkið?

Liggur það ekki fyrir að ef neyðarlögunum verður aflétt þá tapast slík málaferli og nýju bankarnir fara allir í gjaldþrot og tvö til þrjú þúsund milljarðar falla á ríkið og þar með Íslensku þjóðina? Verðum við þá eins og Hondúras með neyðarlög í gildi til að halda bönkunum gangandi næsta aldarfjórðunginn?

Allt þetta til þess að tryggja innistæður íslenskra aðila í Íslensku bönkunum að fullu, óháð upphæð.

Innistæður sem ríkið er að ábyrgjast með þessum neyðarlögum eru eftir því sem ég best veit 2.300 milljarðar. Inni í þessari upphæð er Icesave upp á um 300 milljarða. Falli dómar þannig að ríkinu verður ekki stætt að mismuna innistæðueigendum með þessum hætti og því beri að ábyrgjast allar innistæður óháð upphæð og óháð þjóðerni þá sjálfsagt tvöfaldast eða þrefaldast þessi upphæð. Við vitum að það er ekki til fé í bönkunum til að ábyrgjast þessa 2.300 milljarða. Hvað þá ef þessi tala er tvöfölduð eða þrefölduð.

Ég spyr, var nokkurt vit í því í október að setja þessi neyðarlög? Getur þjóðin nokkurn tíma staðið undir því að ábyrgjast innistæður í bankakerfi sem er 10 sinnum stærra en landsframleiðslan? Af hverju nægir það ekki að ríkið tryggi innistæður að ákveðinni upphæð eins og 100.000 evrum eins og gert er í Evrópu? Þá losnum við við fullt af málaferlum. Af hverju er verið að skuldsetja þjóðina og axla ábyrgð á öllu reikningum óháð upphæð?

Er ekki fyrirséð að þegar neyðarlögunum sleppir eftir 15 mánuði þá verður bönkunum stefnt og í framhaldi fara þeir í gjaldþrot og gríðarlegar skuldbindingar falla á þjóðina? 

Mynd: Kirkjan á Hvanneyri

 

 

 

 

 


mbl.is Óvíst um ábyrgð á Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Róbert Viðar Bjarnason

Tek undir þetta - voru þessi neyðarlög og kennitöluflakk kannski eitt stærsta bankarán mannkynssögunar?

Þó að seint sé, ætli það sé hægt að rúlla þessu til baka og láta bankanna fara á hausinn? Og þá að nota þessa 230 milljarða sem á að fara að setja inn í "nýju" bankanna til að stofna einn raunverulega nýjan banka.  Síðan að hjálpa þeim sem tapa öllum sínum innistæðum í gegnum viðlagatryggingar?

Róbert Viðar Bjarnason, 7.7.2009 kl. 14:34

2 Smámynd: Margrét St Hafsteinsdóttir

Ég er algjörlega sammála þér.

Margrét St Hafsteinsdóttir, 7.7.2009 kl. 15:23

3 Smámynd: Sindri Karl Sigurðsson

Alveg sammála. Það átti aldrei að gera neitt annað en að setja bankana í þrot og afhenda lánardrottnum þá með öllu saman, hurðum og körmum. Auðvitað hefðu mjög margir innistæðueigendur farið illa út úr því dæmi en það er allt annað mál og hægt að leysa án þess að setja alla hina á hausinn. Að auki þá gilda allt önnur lög varðandi gerðir stjórna í félögunum og skiptastjóri getur ómerkt gjörninga stjórnar aftur í tímann ef þær gjörðir eru til þess valdandi að skerða eignir félaganna.

Ef þetta hefði verið gert væri eflaust komin í gang bankastarfsemi í landinu og þeir í erlendri eigu. Ríkið hefði þá getað púkkaðu undir sparisjóðakerfið sem mótvægi við erlenda bankastarfsemi í landinu.

Auðvelt að vera vitur eftirá.

Sindri Karl Sigurðsson, 7.7.2009 kl. 17:09

4 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Nýju bankarnir eru algjörlega gjaldþrota. 1. þeir hirtu selektíft eignir úr þrotabúum gömlu bankanna en skildu skuldirnar eftir en verða fyrr eða seinna að gefa út skuldabréf fyrir því sem þeir hirtu og rúlla þá strax á hausinn. 2. skuldarar nýju bankanna eru að missa vinnuna í hrönnum og fara í þrot og bankarnir munu fara sömu leiðina. 3. nýju bankarnir hafa tekið yfir mörg gjaldþrota fyrirtæki ekki síst tengd byggingarstarfsemi og þau eru enn í rekstri á margyfirmettuðum og vonlausum markaði og hafa enga möguleika á að lifa af frekar en bankarnir sjálfir.

Baldur Fjölnisson, 7.7.2009 kl. 21:38

5 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Auðvitað átti að láta þá fara lóðbeint á hausinn eins og hvert annað fyrirtæki. Hvernig sem fer í framtíðinni þá verður hún afar forvitnileg fyrir utanaðkomandi og dýrmæt lexía fyrir næstu kynslóðir.

Arinbjörn Kúld, 8.7.2009 kl. 01:50

6 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Fæstir átta sig á að ICESAVE-lánið er kostnaður af því að bjarga öllum innstæðum í botn á Íslandi. Það að allar innistæður voru lýstar SAVE á Íslandi gerir vangaveltur um hvort EES-reglugerðin um innistæðutryggingar setji ábyrgð á ríkið eða ekki að algeru aukaatriði, því það að allar innistæður voru lýstar SAVE ætti líka að ná til ICESAVE.

Helgi Jóhann Hauksson, 8.7.2009 kl. 02:32

7 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Bara að benda á smá staðreyndir varðandi það ef bankarnir hefðu farið í gjalþrot t.d. 6 október.

  • Sama dag hefðu öll kort hætt að virka
  • Allar innistæður orðið fastar í bankanum
  • Öll laun sem nú eru borguð rafrænt hefðu frosið þar inni
  • Öll viðskipti stoppað
  • Sennileg þá enginn innflutningur vegna þessa ofan á aðgerðir Breta.
  • Ríkið hefði sennilega orðið að koma upp nýjum banka strax og til þess hefði þurft mörg hundruð milljaða. Sem við höfðum ekki aðgang að.
  • Því hefði landið sennilega verið lýst gjaldþrota og þar með hefði AGS verið falið að taka hér yfir tímabundið og Parísarklubburinn verið fengin að við að endurskipuleggja, semja við lánadrottna og við setið eftir með skuldir sem við sennilega hefðum ekkert um að segja.
  • Og verst við það að innistæður yfir 3 milljónum hefðu horfið
  • En lán hefðu áfram verið eignir þrotabúana og verið því væntanlega seld erlendum fjárfestum með leyfunum af bönkunum

Magnús Helgi Björgvinsson, 8.7.2009 kl. 02:36

8 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Sæll Magnús (7)

Ég hef aldrei skilið þessa mýtu að öll kort hefðu hætt að virka þó bankarnir hefðu farið í gjaldþrot.

Fyrir það fyrsta þá eru það sjálfstæð fyrirtæki sem sjá um rekstur á þessum kortum, þ.e. Valitor og Borgun og þau hefðu haldið áfram sínum rekstri þó einhverjir bankar færu í þrort. Þar fyrir utan þá sér Reiknistofnun bankana í grunninn um rekstur á netbönkum og heldur utanum allar bankafærslur.

Í annan stað þá hefðu bakvinnslur í bönkunum geta haldið áfram með eðlilegum hætti þó bankarnir hefðu verið lýstir gjaldþrota. Starfsfólk bankana hefði verð látið sinna sínum störfum á uppsagnartímanum undir stjórn skiptastjóra meðan hann væri að semja við lánadrottna hvernig gera ætti bankana upp.

Að laun hefðu stoppað skil ég ekki heldur. Launareikningar eru rafrænir reikningar og netþjónarnir sem halda utanum þessa reikninga sem eru geymdir hjá Reiknistofu bankana. Starfsemi Reiknistofunnar hefði haldið áfram óháð þessum gjaldþrotum, enda hefði Reiknistofan þurft að sinna Sparisjóðunum o.s.frv.

Varðandi innflutninginn þá stöðvaðist hann hvort sem var. Það var bara Icebank sem var með nothæfa gjaldeyrisþjónustu í kjölfar bankahrunsins þar til Seðlabankinn tók einnig það hlutverk að sér.

Það hefði verið og er enn góður valkostur að ríkið stofni alveg nýja banka og setji þessa þrjá banka í gjaldþrot. Eftir því sem ég skil þá setti ríkið hátt í 400 milljarða inn í bankana í nóvember. Bankarnir settu það allt inn í peningamálasjóði sína til að tryggja að allir fengju 75% til 85% greitt út úr þeim. Hefði það fé ekki nýst betur sem hlutafé í nýjum banka sem þá hefði geta stutt við fyrirtæki og einstaklinga í landinu?

Hvort aðkoma Alþjóða gjaldeyrissjóðsins hefði verið með öðrum hætti en nú er ef bankarnir hefðu verið gerðir gjaldþrota og nýr banki óháður þeim gömlu verið stofnaður skal ég ekki segja um.

Staðan í dag er hins vegar sú að við erum með gjaldþrota banka sem við ætlum að fara að setja enn meiri fjármagn inn í, 280 milljarða, banka sem eiga ekki fjármagn til að greiða út þær innistæður sem voru inni í þessum bönkum fyrir hrun. Eignir Landsbankans duga ekki fyrir Icesave og fara ekki allar eignir Kaupþingi upp í Edge reikningana? Hvað þá með allar hinar innistæðurnar í þessum bönkum? Það er ekkert til upp í þær. Hvernig á þjóðin að standa undir Icesave plús það að ábyrgjast allar aðrar innistæður í þessum gríðarstóru bönkum?

Mér er sagt að allar innistæður séu í dag frosnar inni í þessum bönkum. Menn eiga í dag einhverja tölu á blaði inni í þessum bönkum, tölu sem ekki er hægt að fá borgaða út, hlaupi upphæðin á einhverjum tugum milljóna eða meir.

Fyrir utan Icesave þá eru þær skuldbindingar sem þjóðin er að taka á sig vegna þessara innistæðna og ábyrgjast með því að setja þessa banka aftur á flot hátt í 2.000 milljarðar. Á bara að frysta þessar innistæður í bönkunum um ókomin ár eða þar til þjóðin er búin að skrapa saman fé til að borga innistæðueigendum þetta út?

Friðrik Hansen Guðmundsson, 8.7.2009 kl. 12:36

9 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Sæll, Friðrir - athyglisverð rök.

Ég, held að enn, sé alveg hægt að bakka úr þessu. 

Það er enginn vafi á, að nú eftir að frysting eigna, hefur verið afnumin, af breskum stjórnvöldum, þá eru aðilar máls að hugsa sér til hreyfings, með að fella 'Neyðarlögin.'

Það var frekar, ódýr afgreiðsla, af hendi breskra og hollenskra, stjórnvalda, að lýsa því yfir fyrir sitt leiti, að þær myndu ekki reyna að fella, 'neyðarlögin'.

Að sjálfsögðu, eru einkaaðilar, sem hagsmuna hafa að gæta, ekki bundnir af þeim yfirlísingum, að nokkru leiti.

Líkur þess að 'Neyðarlögin' falli, verða að teljast miklar. Þá, að sjálfsögðu er megnið af Icesave láninu, fallið á þjóðina. 

Ég held, að óhætt sé að kalla Viðeyjarstjórnina, verstu ríkisstjórn Íslandssögunnar.

Ég bendi, á mína eigin bloggsíðu.

Það er sennilega rétt hjá þér, að betra hefði verið að láta bankana, falla beint í gjaldþrot. Helsti galli þess, er sá að í því tilviki, eru kröfuhafa að víxla, með beinum hætti með okkar húsnæðisskuldir. En, á hinn bóginn, hefði verið hægt að nota það fé, sem þegar hefur verið eytt í þessa hít, til að kaupa húnsæðislán af kröfuhöfum gagnvart sanngjörnum afslætti.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 8.7.2009 kl. 13:25

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband