Verður öllum háskólum utan Reykjavíkur lokað?

113_1346Gríðarlegur samdráttur er fyrirséður á útgjöldum hins opinbera á næsta ári. Heyrst hafa tölur eins og 30% samdráttur. Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn, AGS, ætlar að láta hné fylgja kviði. Í lok febrúar áttum við að fá greiðslu frá þeim númer tvö. Ekkert hefur sést til þeirrar greiðslu. 

Ljóst er að AGS vill sjá útgjöld ríkisins skorin hressilega niður og að tryggt verði að þjóðin standi við greiðslur af lánum sínum og skuldbindingum, þar á meðal Jöklabréfunum og Icesave.

Til að geta staðið við kröfur AGS þarf að grípa til grundvallar breytinga á rekstri hins opinbera. Hvernig á að leysa þetta í skólakerfinu? Hvernig er hægt að skera skólakerfið niður um 30%?

  • Verður að fækka í yfirstjórn allra framhaldsskóla og háskóla?
  • Verður að fækka skólum og sameina skóla?
  • Verður að fækka kennurum?
  • Verður að lækka laun kennara?
  • Verður að loka öllum háskólum utan Reykjavíkur?
  • Verður að sameina alla háskólans landsins í einn skóla og sameina allar deildir sem kenna lögfræði, viðskiptafræði, verkfræði o.s.frv á einn stað?
  • Verður að neita nemendum um aðgang að framhaldsnámi?
  • Verður að hætta kennslu í meistaranámi hér heima, standa vörð um grunnnámið og hvetja og benda nemendum á að fara í framhaldsnám erlendis?

Hvað er framundan hér á næstu tveim til þrem árum? Hvernig er hægt að skapa hér 20.000 störf um leið og ríkisútgjöld eru skorin svona hressilega niður?

Þessu verða frambjóðendur að svara nú í aðdraganda kosninganna. Um þessi mál hljóta þessar kosningar að snúast.

Ætlum við að ganga þessa götu sem AGS hefur lagt við fætur okkar? Höfum við tök á að snúa af þessari leið og hvaða valkosti höfum við þá?

Mynd: Nafnlaust gil rétt við Sultartanga.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Friðrik,

Útgjöld ríkisins á síðasta ári voru um 600 ma kr en tekjur á þessu ári eru áætlaðar um 400ma (alla vega um síðustu jól)  Hallinn er því um 200 ma fyrir utan Icesave og krónubréfin, vextir af þeim eru um 50 ma að ég best veit.  (Alveg hræðilegt að hafa ekki Þjóðhagsstofnun svo hægt sé að fá haldbærar tölur).  Fjármagnsþörf ríkisins er því um 250ma og sennilega hærri því það er alltaf að dúkka upp eitthvað nýtt sem enginn vissi um! 

30% niðurskurður svara til 180ma sparnaðar sem enn skilur eftir gat upp á 70ma kr.  Ef brúa á það með sköttum erum við að tala um vask upp á 30%, hæst hátekjuþrep um 55% eins og í Danmörku, eignarskatt upp á 2-3% og minnsta kosti tvöföldun á fjármagnstekjuskatti og erfðafjárskatti.  Skattstofnarnir eru svo veikir að það er ekkert nema hressileg hækkun sem mun ná einhverju inn a.m.k tímabundið þar til landflótti fer virkilega af stað.

Þetta er mjög gróflega áætlað en það er með ólíkindum að engin stofnun eða háskóli skuli þora að reikna þetta út og birta á auðskiljanlegu máli.  Ætli þeir séu ekki hræddir um að þeir yrðu þá fyrstir undir hnífinn?

Andri Geir Arinbjarnarson, 14.4.2009 kl. 07:47

2 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Friðrik,

Til að gefa samanburð þá jafngildir 80ma skattahækkun 83,000 kr á mánuði á hverja 4 manna fjölskyldu.  Samsvarandi tala hjá Írum er 69,000 kr á mánuði. 

Við erum því að tala um 20% meiri skattahækkanir en Írar tilkynntu í síðustu viku í fjárlagafrumvarpi sem nefnt hefur verið "Budget from Hell"  Hvaða nafn ætli íslensku fjárlögin fá?

Er ekki kominn tími til að gera búsáhöldin klár!

Andri Geir Arinbjarnarson, 14.4.2009 kl. 08:07

3 identicon

já þetta eru góðar pælingar, ég held að við getum ekki tekið á okkur Icesave enda kom íslenskur almenningur ekki nálægt þeim gjörningi. Það hlýtur að segja sig sjálft að við eigum og getum ekki borgað það. Þá er verkefnið strax orðið viðráðanlegra, AGS lánið þarf ekki að snerta enda erum við með björgunarhring frá norrænu frændum og frænkum okkar og pólsku vinum okkar sem voru nú í dag að banka á dyrnar hjá AGS. Ríkið á bara að taka ábyrgð á sínum skuldbindingum og ekkert umfram það. Hins vegar eru jöklabréfin snúin og forvitnilegt væri að vita hver eigi þau? þetta eru öfl sem eru að setja allt á annan endann hér hjá okkur, það er eitthvað mikið að þegar spákaupmenn hafa svo mikið vægi, kveðja jón

jón (IP-tala skráð) 14.4.2009 kl. 16:01

4 identicon

Hvað er annað í boði? Hvar ætla Íslendingar að fá fé til þess að reka sitt þjóðfélag? Er bara ætlast til að við fáum gjafafé erlendis til þess að halda öllu batteríinu gangandi?

Staðreyndin er sú að það er ekki til nema mjög takmarkað rekstrarfé og hið opinbera alltof stórt miðað við greiðslugetu og fámenni landsins.

Það er löngu kominn tími á niðurskurð hjá hinu opinbera og að landið fari að lifa eftir getu hverju sinni. Þessi þjóð er ekki nema 300.000 manns og því varla pláss né greiðslugeta fyrir nema 1 háskóla, 1-2 sjúkrahús og sem minnsta yfirbyggingu hins opinbera.

Þá er ég alls ekki að tala um neitt "minimal state" samkvæmt frjálshyggjunni. Ég er alls ekki frjálshyggjumaður og trúi því að hægt sé að reka öflugan einkageira og opinberan rekstur hlið við hlið.
En ég er raunsæismaður og veit að þegar ekki eru til peningar, þá eru ekki til peningar.

Hermann Sig (IP-tala skráð) 14.4.2009 kl. 17:27

5 Smámynd: TARA

Þeir hljóta að hafa einhverjar töfralausnir undir jakkanum, sem þeir hrista svo fram til að vekja aðdáun okkar....en vonandi þarf ekki að loka neinum skóla...en laun þarf að lækka og yfirbákninu fækka.

TARA, 14.4.2009 kl. 18:02

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband