Laugardagur, 28. febrúar 2009
Af hverju hirti bankinn Moggann og seldi hann aftur?
Ef það er yfirlýst stefna stjórnvalda að selja ekki eignir á brunaútsölu af hverju var Morgunblaðið þá selt? Gáfu stjórnvöld grænt ljós á þessa sölu eða var þetta einkaframtak Íslandsbanka?
Af hverju var eigendum Morgunblaðsins ekki gefinn kostur á frystingu lána þar til krónan réttir úr kútnum og afborganir af erlendum lánum verða skaplegar? Af hverju mátti ekki afskrifa skuldir Árvakurs með óbreytt eignarhald? Af hverju þurfti að skipta um eigendur? Af hverju var ekki hægt að una þeim sem hafa lagt mikla vinnu og fé í að byggja upp fyrirtækið að eiga það áfram ef afskrifa átti skuldir?
Er það krafa frá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum að öll fyrirtæki sem lenda í vandræðum með greiðslur af lánum skuli tekin úr höndum eigenda sinna og seld? Er það krafa frá ríkisstjórninni? Eru þetta vinnureglur sem starfsmenn bankana hafa búið sér til sjálfir? Þessara sömu starfsmanna og keyrðu þessa sömu banka í gjaldþrot og þjóðina í greiðsluþrot. Ætla bankarnir í framhaldi að ganga á röðina og taka samskonar "snúning" á öllum fyrirtækum landsins? Er markmið bankana enn það sama og það var þegar þeir voru í einkaeign, að féfletta viðskipavini sína?
Hvaða lög og réttur heimila nýju ríkisbönkunum að ganga að fyrirtæki eins og Árvakri hf. og hirða það úr höndum eigenda sinna? Voru lánasamningar Árvakurs hf. ekki við banka sem nú eru gjaldþrota?
Þessir bankar sem eru að hirða Moggann, þeir eru ástæða þess að Mogginn er í vandræðum með að borga af lánum sínum. Það eru bankarnir og eigandi þeirra ríkið sem bera alla ábyrgð á stöðu mála. Það eru bankarnir og eigandi þeirra ríkið sem keyrðu þjóðina í mesta bankagjaldþrot sem nokkur þjóð hefur staðið frammi fyrir. Afleiðing þessa er gjaldeyriskreppa og verðfall krónunnar sem hækkað hefur öll erlend lán um 100%.
Ekkert af þessu er af völdum eða á ábyrgð eigenda Moggans. Þessar utanaðkomandi ástæður hafa valdið því að Mogginn og öll önnur fyrirtæki í landinu hafa átt í miklum erfiðleikum að borga af lánum sínum. 70% allra lána fyrirtæja í landinu eru erlend lán og þau hafa öll hækkað um 100%. Allar afborganir af þessum lánum hafa því hækkað um 100%.
Ég spyr hvað er í gangi? Er þetta meðferðin sem býður allar fyrirtækja í landinu sem ekki ná að standa í skilum? Ætla þeir sem unnið hafa mestu efnahagslegu skemmdarverk Íslandssögunnar, bankarnir og starfsmenn þeirra, að halda áfram í umboði ríkisins að valda enn meira tjóni? Sætta eigendur Moggans sig við þessa meðhöndlun?
Ég skora á ríkisstjórnina að sjá til þessa að bankarnir gefi fyrirtækjum í landinu greiðslufrest í eitt eða tvö ár á þeim lánum sem þau geta ekki staðið í skilum á. Gefið eigendum fyrirtækjanna í landinu tækifæri að til að lifa af þessar efnahagshamfarir. Að sleppa böðlum bankana lausum á þessi fyrirtæki eins og staðan er í dag er engum til hagsbóta. Ekki láta bankana auka tjónið í samfélaginu enn meir. Nóg er tjónið hér orðið samt.
Holtasóley dagsins frá Norræna Íhaldsflokknum fær ríkisstjórnin fyrir að samþykkja frumvarp til laga um heimild til að ganga til samninga um byggingu og rekstur álvers í Helguvík.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:10 | Facebook
Athugasemdir
Góður pistill.
Heimir Lárusson Fjeldsted, 28.2.2009 kl. 12:43
Tek heilshugar undir þetta. Það væri svo vert að einhver þessara háu herra myndaðist við að svara þessum fjölmörgu brennandi spurningum, sem þú setur fram hér. Það myndi lina þá angist og óvissu sem ríkir bæði meðal einstaklinga og fyrirtækja, já og þeirra sem er annt um fullveldið og framtíðina. Takk fyrir þarfa ofanígjöf og megi sem flestir lesa.
Jón Steinar Ragnarsson, 28.2.2009 kl. 16:04
Hugmyndin um að setja eignir bankanna í eitt eignaumsýslufélag er einmitt til að koma í veg fyrir að einhverjar skilanefndir með mjög óskýrt umboð og enga pólitíska ábyrgð séu að valsa svona um samfélagið.
Gunnar Axel Axelsson, 28.2.2009 kl. 21:33