Miðvikudagur, 25. febrúar 2009
Morgunblaðinu bjargað úr klóm hrægamma Alþjóða gjaldeyrissjóðsins.
Mér fannst hræðilegt að hlusta á þennan Ástrala í sjónvarpinu áðan. Það setti að mér hroll. Hann er fulltrúi þeirra hrægamma sem elta Alþjóða gjaldeyrissjóðinn um allan heim. Hann boðaði komu margra slíkra til landsins á næstunni. Það er nöturlegt að slíkir menn skuli vera komnir til landsins og fleiri vera á leiðinni.
Mikil er ábyrg þeirra manna, eigenda og stjórnenda bankana sem með embættismönnum og stjórnvöldum leiddu þjóð sína út í þetta fen og skilja hana þar eftir helsærða. Blóðlyktina leggur um heimsbyggðina og hingað flykkjast menn sem hafa það að atvinnu sinni að rífa í sig leifarnar af þjóðarauði þeirra þjóða sem lenda í höndum Alþjóða gjaldeyrissjóðsins.
Í dag eins og staða krónunnar er þá er hægt að kaupa fyrir evrur og pund allar lendur og lóðir, fasteignir og fyrirtæki á Íslandi á 80% til 90% af raunvirði.
Þessi maður er mættur hér með gríðarlega fjármuni til að kaupa eignir okkar Íslendinga á brunaútsölu í skjóli Alþjóða gjaldeyrissjóðsins. Ef ég fengi einhverju ráðið þá myndi ég henda þessum manni og öllum hans líkum úr landi eins og gert var við dönsku Vítisenglana sem hingað skolaði á land fyrir nokkrum misserum og ætluðu sér að græða hér fé á heróín- og hasssölu.
Sáuð þið hvernig hann svo hótaði Íslandsbanka? Talaði um að hér væri á ferðinni fyrsta eignin sem væri verið að selja úr þrotabúi bankana. Að erlendis væri fylgst vandlega með þessari fyrstu sölu og því hvort hann fengi ekki örugglega að kaupa Moggann. Ef það yrði ekki raunin þá myndi það misbjóða "bankanum" og það skyldu menn ekki voga sér.
Tókuð þið svo eftir hvernig hann hótaði þeim sem eru að bendla hann við íslenska fjárfesta og að hann væri leppur þeirra? Hann teldi sig vita hverjir væru að bera þann orðróm út og það yrði stoppað snarlega!!?
Maður sem mætir hér og hótar í sjónvarpsviðtali bönkunum og fjölmiðlum, hver heldur hann að hann sé?
Þetta var góður dagur í dag hjá Íslenskri þjóð og starfsmenn Íslandsbanka fá Holtasóley dagsins frá okkur í Norræna Íhaldsflokknum fyrir að hafa bjargað Morgunblaðinu úr klóm hrægamma Alþjóða gjaldeyrissjóðsins.
Ljóst er að mikil átök eru framunda um Íslenska þjóðarauðinn sem ríkisstjórnin ætlar greinilega að setja á brunaútsölu á vegum bankana. Allt bendir til þess að útlendingar eignist allt það sem verðmætast er á Íslandi.
Íslands óhamingju verður allt að vopni þessi misserin.
Nú verður að snúa vörn í sókn. Sala Moggans til Íslendinga var gott skref.
Við getum ekki losað okkur við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn en hrægamma hans getum við losað okkur við.
Þórsmörk kaupir Árvakur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 26.2.2009 kl. 15:57 | Facebook
Athugasemdir
Það setti líka að mér að hlusta á manninn. Og hvað hann hreykti sér af auði sínum!
Sigurður Þór Guðjónsson, 26.2.2009 kl. 01:26
Segi það sama og nafni minn. Rekum þennan djöflamerg heim til sín strax.
Sigurður Sveinsson, 26.2.2009 kl. 06:56
Þú villt auðvitað frekar að íslenskir hrægammar takai dótið til sín aftur? Þú villt auðvitað og réttara sagt að íslenskir hægrimenn fái draslið á útsölu og haldi áfram hinum óskemmtilega klíkuskap í íslensku þjóðlífi?
Valsól (IP-tala skráð) 26.2.2009 kl. 07:12
Friðrik Hansen: Þakka þér góða úttekt á þessu viðtali sem ég missti af. Stundum vekur hrár sannleikurinn upp ofurlítinn hroll innra með manni.
Árni Gunnarsson, 26.2.2009 kl. 10:01
Ég veit það ekki, ég get ekki séð að þessir íslensku kórdrengir hafi gert þjóðinni nokkuð gott með sínu eignatengsla og klíkubrölti síðustu áratugi. Kannski það sé bara ágætis tilbreyting að gefa útlendingum tækifæri líka.
Þessi ágæti maður ætlar m.a. að staðgreiða sem eru beinharðir peningar inn í hagkerfið, en það er eitthvað sem segir mér að yfirtaka af hálfu íslendinga væri skuldsett upp úr öllu valdi að venju......
Þórarinn (IP-tala skráð) 26.2.2009 kl. 12:31
Ég er ekki sammála þessari útleggingu þinni á aðkomu þessa manns. Ef það er eitthvað sem okkur vantar núna er einmitt erlent fjármagn inn í landið. Þessi hræðsla við útlendinga virðist ætla að verða lífseig hér á landi. Það er margyfirlýst stefna stjórnvalda að selja ekki á brunaútsölu og engin ástæða til að rengja það. Við eigum að taka þeim aðilum sem hingað koma og vilja fjárfesta með jákvæðum huga og skoða hvað þeir hafa fram að færa. Komi það í ljós að þeir séu á höttunum eftir skjótfengnum gróða á að kveðja þá kurteislega og bjóða þeim að koma seinna þegar þeir hafi áttað sig á að landið er ekki til sölu. Það er munur á hvort menn koma hingað til að kaupa fyrirtæki eða fyrirtækjahluta til að fara með burt eða hvort menn vilja leggja pening í langtímaverkefni. Nú þekki ég lítið til þessa manns sem um ræðir en ég sá viðtalið við hann og fannst hann leggja sitt mál vel fram og segja með berum orðum það sem allir vita, það er lítið hingað að sækja fyrir þá sem eru að leita eftir skyndigróða þ.e. ef stjórnvöld halda vöku sinni og horfa til framtíðar.
Við þurfum að hafa allar klær úti við að efla íslenskan efnahag og þetta er einn þeirra kosta sem við eigum að skoða.
Hjalti Tómasson, 26.2.2009 kl. 12:52
Ef það er yfirlýst stefna stjórnvalda að selja ekki eignir á brunaútsölu af hverju er þá verið að selja Morgunblaðið? Gáfu stjórnvöld grænt ljós á þessa sölu? Er þetta einkaframtak bankana?
Af hverju var núverandi eigendum Morgunblaðsins ekki gefin kostur á frystingu lána þar til krónan réttir úr kútnum og afborganir af erlendum lánum verða skapleg?
Bara vegna falls gengisins þá eru allar eignir á Íslandi á 50% lægra verði en þær voru fyrir ári. Vegna banka- og gjaldeyriskreppunnar hefur verðmæti allra fyrirtækja á Íslandi fallið um 70% til 90% í íslenskum krónum. Til viðbótar kemur 100% gengisfelling. Af hverju vilja bankarnir selja þessar eignir þegar staðan er þannig?
"Það er margyfirlýst stefna stjórnvalda að selja ekki á brunaútsölu og engin ástæða til að rengja það." segir þú. Ég spyr hvað er salan á Morgunblaðinu í dag við þessar aðstæður hægt að kalla annað en brunaútsölu?
Hvað varðar erlenda fjáfesta sem láta ekki sjá sig í venjulegu árferði en koma hingað þegar staða mála er eins og hún er, þegar þeir telja sig geta keypt allar eignir með 80% til 90% afslætti, við slíka menn leyfi ég mér að setja alla fyrirvara. Þessir fjárfestar koma inn í skjóli Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, heimta að eignir bankana séu boðnar upp og þeim gefist tækifæri að bjóða í. Þeir eiga þessar eignir í 2 til 10 ár. Þeir selja þær þegar árferði er orðið gott og tvöfalda til tífalda sitt fé. Það fé hverfur síðan allt úr landi. Þannig mun þjóðarauðurinn verða dreneraður burt.
Íslenskir fjárfestar er búsettir hér, giftir hér og eiga hér börn. Þær eignir sem þeim áskotnast og sú verðmætaaukning sem verður þegar eðlilegt ástand skapast á ný, sá auður verða eftir í landinu. Þann auð erfa börn þeirra og fjölskyldur. Þessi auður verður þá áfram til á Íslandi og það verða Íslendingar, ekki útlendingar, sem njóta hans og munu miðla af honum inn í samfélagið. Auðurinn sem hverfur til útlanda, ekkert íþtóttafélag mun njóta hans í formi styrja svo eitthvað sé nefnt.
Erlendir fjárfestar eru velkomnir til landsins. Þessum manni hefði verið tekið opnum örmun hér síðasta aldarfjórðunginn hefði hann láti sjá sig þá. Þá hefði hann verið að koma hér til að fjárfesta á sömu forsendum ao aðrir í Íslensku atvinnulífi. Þessi maður er ekki að koma hér í þeim tilgangi. Hann er kominn hingað til að kaupa eingir á slikk til að selja eftir nokkur ár með ofsagróða.
Friðrik Hansen Guðmundsson, 26.2.2009 kl. 14:14
Tek unidr með ykkur hér að ofan - leist ekki hót á þennann mann - eins og einvher sagð þá montaði hann sig af auðnum - dettum ekki í þá grifju að eins manns dauði sé annars manns brauð - vinnum frekar saman að lausninni
Jón Snæbjörnsson, 26.2.2009 kl. 15:21
Ég er sammála flestu því sem ég hef lesið eftir þig frá því ég fór að fylgjast með umræðum á blogginu en hér greinir okkur á. Ég ber mikla virðingu fyrir skoðunum þínum en um þetta get ég ekki verið þér sammála.
Við vitum vel að þessir viðskiptajöfrar reka enga góðgerðastarfsemi og auðvitað horfa þeir þangað sem þeir sjá tækifæri. Ástandið hér á landi er þannig að við þurfum að horfa á hvert tækifæri með opnum huga og jafnvel taka á okkur einhver skakkaföll, þannig eru tímarnir bara. Hinn möguleikinn er að horfa á þessi fyrirtæki falla hvert af öðru eða í besta falli draga saman seglin með afleiðingum sem hvorugur okkar vill leiða hugan að. Það er svo annað mál að hér má mikið laga til í rekstrarumhverfi, skattamálum, og gjaldeyrismálum til að tryggja að eins stór hluti hagnaðar verði til ráðstöfunar hér innanlands eins og unnt er.
Mér er það vel ljóst að margir þessara manna koma hér með því hugarfari sem þú lýsir en við ættum þá frekar ( og þá er ég að tala um pólitíska forystumenn okkar ) að búa svo um hnútana að hér verði ekki stokkið inn og ryksugað út úr landinu. Þá má vera að áhuginn utan frá minnki eitthvað en það er þá af litlu að sjá. Okkur vantar erlent fjármagn inn í landið, ekki er að sjá að okkar eigin landsmenn sem stórar fúlgur eiga erlendis séu á leiðinni heim með þær.
Það sem við höfum til sölu er verðminna en það var en þetta eru samt sem áður hluti af okkar auðlindum og við eigum að skoða hvernig við fáum mest út úr þeim áður en við gefum okkur að menn séu hér í annarlegum tilgangi. Það er aldrei að vita nema með aðkomu erlendra fjárfest léttist róðurinn
Hjalti Tómasson, 26.2.2009 kl. 15:23
Ég er ekki hrædd við útlendinga en ég er hrædd við erlent auðmagn. Hingað bárust þúsundir milljarðar af erlendu auðmagni í "góðærinu" og hefur skilið þjóðina eftir í sárri fátæk.
Þeir sem halda að áframhaldandi lausnir af þessum toga eigi eftir að kalla yfir okkur annað en eitthvað verra eru villuráfandi.
Satt að segja finnst mér þeir sem vilja selja landið undan íslensku þjóðinni vera litlu skárri en þjóðníðingarnir.
Fólk sem hugsar svona skilur ekki að við berum ábyrgð á framtíð þjóðarinnar og afkomu barna okkar en ekki bara þægindum líðandi stundar.
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 26.2.2009 kl. 20:22
Ekki hef ég hugsað mér að fara að lofsyngja þennan Ástrala set hinsvega spurningarmerki við þessa aðila sem virðst vera að kaupa Moggann. Það sem skiptir öllu máli í því sambandi er að fá upp á borðið hvert kaupverðið er og hvaða eignir standa á bak við það. Ekki er síður mikilvægt að skoðað verði ferill þeirra sem standa að þessu og hvernig og hvort þeirra fjármál tengjast bankahruninu með einhverju móti. Það er víst nokkuð ljóst að afskrifa þarf vel á annan milljarð, að mig minnir að Birna bankastjóri hafi sagt, og því er nauðsynlegt að sjá þessar tengingar. Ég er ekki par hrifinn af því að hafa sömu andskotana áfram í áskrift af fjármagni hjá bönkunum.
Haraldur A. Haraldsson (IP-tala skráð) 27.2.2009 kl. 12:54