Miðvikudagur, 28. janúar 2009
Hækka verðtryggð lán um 50% á tveim árum?
Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 18,6%. Á sama tíma hefur allur erlendur gjaldeyrir hækkað í krónum talið um 100%. Helmingur af vörunum sem vísitala neysluverðs er reiknuð út frá er innflutt vara. Þessi innflutta vara, með óbreyttu gengi, mun og er að hækka um 100%. Þetta þýðir að vísitala neysluverðs ætti að hækka um 50%. Í dag hefur einungis orðið hækkun upp á 18,6%. Við eigum því verulega hækkun inni sem á eftir að smitast út í verðlagið með þeim nýju vörum sem hingað er verið að flytja inn á þessu lága gengi krónunnar.
Það er því ekki bara að "Jöklabréfin" sem Seðlabankinn samþykkti að ábyrgjast sem hanga yfir okkur eins og snjóhengja. Allt stefnir í að vísitala neysluverðs muni hækka um samtals 50% á árunum 2008 og 2009 verði ekki snögg og mikil breyting á gengi krónunnar á allra næstu dögum. Gerist það ekki þá mun verðbólgan á þessum tveim árum verða 40% - 50% og öll verðtryggð lán hækka um 40% - 50%.
Kostnaður okkar að halda hér úti sjálfstæðum gjalmiðli er kominn langt út fyrir öll sársaukamörk. Mikil er ábyrgð þeirra manna sem neitað hafa að horfa til annarra kosta í gjaldeyrismálum en að hafa hér sjálfstæðan gjaldmiðil.
Það hlýtur að vera forgangsatriði númer eitt, tvö og þrjú að frelsa þjóðina undan þessu bulli og taka hér upp annan gjaldmiðil og það strax.
Sjá stefnu Norræna Íhaldsflokksins í ríkisfjármálum hér.
Verðbólgan 18,6% | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:17 | Facebook
Athugasemdir
Laun og húsnæðiskostnaður er stór hluti af smásöluverði líka á innfluttum vörum en hafa ekki hækkað. Því mun smásöluverð ekki hækka jafn mikið og innkaupaverð vöru svo framarlega sem allt haldist eðlilega. Sé hagkerfið okkar er á leið í þrot gilda aðrar reglur. Vöruskortur getur snarhækkað verðlag án þess að innkaupsverð hækki einfaldlega vegna aukinnar álagningar. Þar sem matarskortur er verður brauðhleyfurinn dýr.
Héðinn Björnsson, 29.1.2009 kl. 02:25