Laugardagur, 8. nóvember 2008
Verða nýju bankarnir líka gjalþrota
Spurningin sem ég velti fyrir mér þessa dagana snýst ekki um spillingu heldur hvað ætla trygginga- og vogunarsjóðirnir sem tryggðu lán til íslensku bankana að gera núna. Nánast ekkert fékkst fyrir bréf íslensku bankana á uppboðum nú í vikunni þannig að þeir sem tryggðu lánin til þeirra þurfa að greiða þau upp. Vogunarsjóðirnir eru þessa dagana að borga út 7,5 milljarða evra til banka sem lánuðu íslensku bönkunum.
Þessir vogunarsjóðir eiga þar með öll lán sem gömlu bankarnir tóku og þar með eiga vogunarsjóðirnir allar eignir gömlu bankana. Þessir vogunarsjóðir eru í dag hinir eiginlegu lánadrottnar gömlu bankana. Er þetta ekki þannig? Þar með eiga þessir vogunarsjóðir væntalnega lánið frá gamla Kaupþingi sem hvílir á skrifstofunni þar sem ég vinn. Má ekki ætla að vogunarsjóðirnir reyni nú að lámarka sitt tjón og reyni að fá sem mest út úr þessum eignum sínum, þ.e. eignum gömlu bankana.
Nú mun reyna á hvort kennitöluflakk íslenska ríkisins gengur upp. Nú mun reyna á hvort nýju bönkunum tekst að halda þeim eignum sem þeir eru búnir að festa sér og hvort vogunarsjóðirnir samþykki yfirtökuverð þessara eigna. Og Nota Bene það yfirtökuverð á eftir að greiða.
Vogunarsjóðir eru ekki lánastofnanir. Þeir vilja væntanlega fá lánið sem hvílir á skrifstofunni þar sem ég vinn greitt upp nú fyrir jól. Nýja Kaupþing þarf þá væntanlega að greiða þeim það lán upp ætli nýja Kaupþing að yfirtaka það. Nýja Kaupþing þarf því að endurfjármagna þetta lán nú fyrir jól ætli þeir að eiga þetta lán. Sama hlýtur að gilda um öll lán sem nýju bankarnir hafa yfirtekið.
Ef þetta er rétt ályktað hjá mér hvað gerist ef ekki nást samningar milli nýja Kaupþings og þessara vogunarsjóða um þetta lán? Ef nýja Kaupþing getur ekki keypt upp lánið á skrifstofunni af vogunarsjóðunum hvað gerist þá? Munu vogunarsjóðirnir gjaldfella lánið og í framhaldinu hirða skrifstofuna á uppboði? Hvernig vinna lögfræðideildir þessara vogunarsjóða? Ekki veit ég það en ég óttast að það verði ekkert gefið eftir af þeirra hálfu og þeir munu einskis látið ófreistað að gera sér eins mikinn mat úr þessum eignum eins og þeir geta.
Ég held þetta bankamál sé rétt að byrja. Ég held menn labbi ekkert út úr 10 milljarða þrotabúi og hirða út úr því þær eignir sem mönnum langar í og skilji skuldirnar eftir. Ég óttast kröfur og hugsanlegar lögsóknir vogunarsjóðanna sem eiga í dag skuldir og þar með eignir gömlu bankanna. Ég myndi ekki þora að kaupa hlutafé í þessum nýju bönkum næstu árin.
Við vitum ekkert nema þessir nýju bankar verið allir komnir í þrot innan árs. Það fer allt eftir hvernig staðið var að kennitöluflakkinu og hvort þeir geti fjármagnað þær eignir sem þeir eru búnir að yfirtaka. Framhaldið ræðst nú af því hvernig þessir vogunarsjóðir og lögfræðideildir þeirra vinna.
Nú vil ég taka það fram að ég ekki mesti sérfræðingur í heimi á þessu sviði. Ég sit hér og er eins og fleiri að reyna að giska á hvert framhald verður á þessum hörmungum sem yfir okkur eru að ganga. Svona blasir þetta hins vegar við mér og þetta er mín greining á stöðu mála.
Kjörumhverfi fyrir spillingu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:59 | Facebook
Athugasemdir
Í þessu viðtali talar Tryggvi Þór um að gríðalegar eignafærslur eigi sér nú stað hjá bönkunum. Hann varar við því að flanað sé að neinu þar og kallar á gagnsæi. Nefnir afsal stórs hluta Nokia í erlendar hendur fyrir slikk í tilfellum Finna og illbætanlegt tjón af þeim sökum, sem þeir eru enn að sýta. Hvaða eignir er verið að selja hér og til hverra og fyrir hve mikið? Hve nærri heggur það sjálfstæði okkar? Hvaða risar eru að kaupa? Hverjir verða drottnarar okkar í náinni framtíð? Þetta verðum við að fá að vita. Þetta er algert lykilatriði. Í bönkunum liggja hlutir í orkufyrirtækjum og orkudreifingu landsins og það jafnvel ráðandi hlutir. Þar liggja gríðarlegar landa og hlunnindaeignir, laxár og guð veit hvað. Þar liggur einnig stór hluti fiskveiðikvóta Íslendinnga. Hreinlega fjöregg og framtíð þjóðarinnar á silfurfati.
Stjórnvöld tala um að borga ekki skuldir óreiðumanna en eru ekki í neinni aðstöðu til slíkrar kokhreysti. Það er verið að gera það nú þegar með sölu á eignasafni og veðum bankanna. Eignasafni, sem snertir sameign okkar og sjálfstæði.Það er verið að borga skuldir óreiðumanna og það með útsölu á auðlindum okkar! Áttarðu þig á þessu? Auðvitað verða erlend lán ekki notuð til að borga óreiðuna. Það veit raunar enginn hvað menn ætla að gera við þá peninga eins og ég nefndi í fyrri pósti. Ef eitthvað þarf virkilega upp á yfirborðið nú, þá er það þetta. Red Alert! Menn verða að fara að lesa rétt í gegnum stofnanamálið og lagajaronið. Það er eins og að lesa í garnirnar á kjúlla, en það er verið að segja okkur mikið á milli málsgreina, sem hefur úrslitaþýðingu fyrir landið okkar.
Jón Steinar Ragnarsson, 9.11.2008 kl. 06:52
Svarið við spurningunni þinni: "Já - ef sömu stjórnendur eða stjórmálamenn koma að sögu".
Baldur Gautur Baldursson, 9.11.2008 kl. 21:32