Föstudagur, 3. október 2008
Vandi Sjálfstæðisflokksins
Meðan þjóðin er klofin í tvær ámóta fylkingar í aftöðu sinni í stærsta hagsmunamáli þjóðarinnar, afstöðunnar til Evrópusambandsins og upptöku Evru, þá er þingflokkur Sjálfstæðisflokksins það ekki. Það er mjög einkennilegt að þessi fjölmenni þingflokkur skuli ekki endurspegla afstöðu þjóðarinnar í málinu. Ég vildi óska að í þingflokknum væri bara einn sem talaði fyrir upptöku evru og inngöngu í sambandið. Það gerði flokkinn svo mikið trúverðugri. Það er hreint ótrúlegt að þetta skuli geta hafa gerst þegar meirihluti kjósenda flokksins vill Evrópusambandsaðild. Eins einkennilega og það hljómar þá er eins og ósýnileg hönd hafi stýrt og stjórnað vali á þingmönnum flokksins síðustu áratugi því eingöngu hafa valist til starfans andstæðingar Evrópusambandsins.
Nú er ég harður fylgismaður þess að Íslandi gangi inn í Evrópusambandið og tekin verði upp Evra. Því fyrr, því betra. Eins og staða mála á Íslandi er í dag þá er þetta mál málanna. Kjósi ég Sjálfstæðisflokkinn í mínu kjördæmi, eins og ég hef alltaf gert, þá er ég jafnframt að gefa varaformanni Heimsýnar, Sigurði Kára, atkvæði mitt. Illugi Gunnarsson situr einnig í stjórn Heimsýnar. Ef ég kýs Sjálfstæðisflokkinn þá er ég að kjósa gegn aðild að Evrópusambandinu. Ég vil ekki kjósa gegn aðild að Evrópusambandinu. Ég vil ekki kjósa varaformann Heimsýnar á þing fyrir mig.
Það verða þung skref að kjósa Sjálfstæðisflokkinn í dag þar sem ekki einn einasti þingmaður flokksins styður inngöngu í Evrópusambandið og upptöku Evru. Þar fyrir utan bætist það forustuleysi í efnahagsmálum sem þjóðin horfir nú uppá þar sem embættismenn virðast stjórna för.
Verði engin breyting á næstu misserum þá vil ég sjá annan valkost fyrir næstu þingkosningar. Ég vil geta kosið hægri flokk sem vill inngöngu í Evrópusambandið.
Íhuguðu að slíta stjórnarsamstarfinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:43 | Facebook