Föstudagur, 27. júní 2008
Ísland brennur
Allar fasteignir og öll fyrirtæki á Íslandi eru í dag á brunaútsölu. Allt sem íslenskt er geta Danir, Evrópubúar og reyndar heimsbyggðin öll keypt í dag með 40% til 80% afslætti.
Gengisfall krónunnar, um 40% frá áramótum, þýðir að hús í Þingholtunum sem í lok síðasta árs kostaði 10 milljónir danskar krónur kostar í dag 6 milljónir danskar. Verðmæti allra fasteigna á Íslandi er í dag 40% lægra mælt í erlendri mynt en var um áramótin.
Enn alvarlegri er staða íslensku fyrirtækjanna. Verðmæti allra okkar glæsilegustu og öflugustu fyrirtækja hefur að jafnaði fallið á síðustu 12 mánuðum um 50%. Ofaní þessar lækkanir á hlutabréfum kemur 40% gengisfall. Með öðrum orðum, verðmæti allra fyrirtækja á íslandi, mælt í erlendri mynt, hefur fallið að jafnaði um 70% á síðustu 12 mánuðum, sum meira. Danir og aðrir útlendingar geta keypt íslensk fyrirtæki með 70% til 80% afslætti frá því var fyrir ári síðan.
Umsamin lámarkslaun almenns verkamanns á Íslandi með 7 ára starfsreynslu eru 777 íslenskar krónur á tímann. Samsvarandi laun í Danmörku eru 101 danskar krónur á tímann. Í dag gera það 1.700 íslenskar krónur á tímann. Það er ekki bara að eignirnar okkar séu á brunaútsölu, kaupmáttur launa hefur lækkað gríðarlega og finnst vel séu menn á ferð erlendis. Bjórinn í Kastrup kostar 65 danskar krónur. Það gera í dag 1.100 íslenskar krónur. Það tekur danskan verkamann, að teknu tilliti til skatta, rúman klukku tíma að vinna fyrir honum. Það tekur íslenska verkamanninn rúma tvo tíma.
Við erum ekki að tala í dag um einhverja lendingu í íslensku efnahagslífi, það er búið að lenda og það var brotlending. Spurningin í dag er ekki hvort takist að bjarga einhverju af farangrinum, hann er allur brunninn, spurningin er hve margir komast lífs af. Gjaldþrot núverandi stefnu í peningamálum með fljótandi gengi krónunnar og verðbólgumarkmiðum Seðlabankans er algjört.
Sú staða sem við Íslendingar erum í þessa dagana er óþolandi og ólíðandi. Til að koma í veg fyrir að svona brotlendingar verði og til að kom í veg fyrir að svona geti nokkurn tíma gerst aftur er þá um annað að ræða en stefna að inngöngu í myntbandalag Evrópu og upptöku Evru? Það kostar ákveðnar fórnir og fjármuni en aldrei neitt í neinni líkingu við það sem núverandi ástand er að kosta okkur.
Verðmæti eigna okkar Íslendinga er að fuðra upp. Þjóðarauðurinn stendur þessa dagana í björtu báli. Lítið sést til slökkvistarfsins.
Neró lét kveikja í Róm og horfði á hana brenna til að ná fram réttri stemmingu þegar hann orti ákveðinn kvæðabálk. Eru menn að yrkja niðri við Arnarhvol þessa dagana?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook