Sameinumst á bak við kröfu Framsóknar og fjarlægjum snjóhengjuna

Það er ljóst að Framsóknarflokkurinn mun láta reyna á kröfur sínar um að skrifa niður krónueignir erlendra kröfuhafa og nota það fé til lækka skuldir heimana og ríkisins.

Úr því sem komið er þá eigum því að styðja Framsóknarflokkinn í þessu máli og keyra á þetta.

2012_01_24_EOS60D_4672

Ef það myndast breið samstaða í samfélaginu að hjálpa Framsóknarflokknum að fara þessa leið þá er það besta veganestið sem samningamenn okkar Íslendinga hafa þegar þeir setjast niður og hefja samninga við þessa erlendu vogunarsjóði.

Ef vel tekst til þá verður snjóhengjan horfin um áramótin, skuldir heimilanna og ríkisins hafa þá lækkað verulega og gjaldeyrishöftin horfin.

Ef horft er til þess sem gerst hefur á Kýpur, þar sem allir innistæðueigendur voru teknir í "Haircut / klippingu" og innistæður þeirra skornar niður um 60% til 90% þá er þar komið fordæmi fyrir aðgerðum okkar Íslendinga, þó svo um öðruvísi aðstæður hafi verið að ræða. Fordæmið er eftir sem áður fyrir hendi, innistæður erlendra aðila í Evrópulandi hafa sætt verulegum niðurskurði.

Erlendar innistæður í gömlu bönkunum 

Í annan stað ber einnig að horfa til erlendra eigna gömlu bankana. Þessar eignir eru í dag um 2.500 ma. Íslenska ríkið var skuldlaust 2007 þegar lausafjárkreppan hófst í júlí það ár. Vegna þessarar alþjóðlegu fjármálakreppu þá var hlaðið 1.700 ma. skuld á ríkissjóð, aðallega til að bjaga fjármálakerfinu. Af hverju eru gömlu bankarnir ekki einfaldlega settir í gjaldþrotameðferð skv. íslenskum gjaldþrotalögum? Þá munu lög um gjaldeyrishöft sjá til þess að allur þessi gjaldeyrir rennur inn í Seðlabankann. Af hverju setjum við þessa 2.500 ma. í erlendum gjaldreyri ekki líka í "klippingu" og við notum það fé til að skila ríkissjóði í svipaða stöðu og hann var í þegar lausafjárkreppan skall á? Kröfuhafar hirða svo rest.

Neyðarlögin og Icesave 

Í þriðja lagið þá á þrotabú Landsbankans að greiða Bretum og Hollendingum, skv. neyðarlögunum, um 1.200 ma. vegna Icesave reikningana. Þegar hafa verið greiddir um 700 ma. og allar lámarksinnistæður þar með bættar með fé úr bankanum. Eftir er að greiða um 500 ma. Í ljósi sýknudóms EFTA dómsstólsins, af hverju breytum við ekki neyðarlögunum eða fellum þau niður? Þar með fellur niður skylda bankans að greiða þessa 500 ma. til Breta og Hollendinga. Er ekki eðlilegra að það fé renni til kröfuhafa bankans frekar en að borga meira til Breta og Hollendinga? Þá fær lífeyrissjóðurinn minn og Seðlabankinn eitthvað upp í sínar kröfur. Helst hefði ég viljað að við gerðum þessa 500 ma. upptæka upp í það tjón sem hryðjuverkalögin olli okkur.

Nú þegar við erum laus við helstu varðhunda alþjóðlegra fjármagnseigenda úr ríkisstjórn þá ber okkur að nota þau tækifæri sem okkur bjóðast sem þjóð til að vinna okkur út úr því öngstræti sem við erum í, gjaldþrota þjóð í höftum. Komum okkur út úr þessari stöðu. Framsóknarflokkurinn hefur bent á færa leið.

Styðjum Framsóknarflokkinn í því að fara þessa leið og losa þjóðina úr fjötrum fátæktar. 

 


mbl.is Skuldalækkun kallar á miklar mótvægisaðgerðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sammála.  Við getum rifist um það hvernig eigi að ráðstafa útkomunni en það er lífsspursmál fyrir þjóðina að útkoman verði sem best úr þessum samningum. Ef hún verður bara 300 milljarðar þá er landið í raun gjaldþrota.

Að mínu viti kemur ekki til greina að taka erlendu eignir þrotabúanna út fyrir sviga og leyfa kröfuhöfum bara að ganga að þeim án þess að leysa snjóhengjuvandann. Ríkið skuldar þessum aðilum ekkert og á ekki að skuldsetja sig fyrir gjaldeyri svo þessir aðilar komist úr landi.

Okkar samningsmarkmið hlýtur að lágmarki að vera það að við fáum allar krónueignir í okkar hendur og jöklabréfaeigendur og kröfuhafar í þrotabúin skipti á milli sín erlendu eignunum. Og það er ekki einu sinni víst að það dugi okkur því við verðum að hugsa um að Orkuveitann og opinberir aðilar geti staðið í skilum með erlend lán í framhaldinu. 

Seiken (IP-tala skráð) 30.4.2013 kl. 12:47

2 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Held að það séu allir á þeirri línu að losa um þessa snjóhengju. En held að menn einfaldi hlutina hér dálítið. T.d. hef ég lesið að um 30 til 40% af þessu kröfuhöfum séu bara almennir stórbankar erlendis eða sjóðir í þeirrra eigu sem lánuðu í upphafi hingað.  Held að tal manna um vonda hrægammasjóði og vogunarsjóði sé búið að rugla hér aðeins í fólki. T.d. held ég að fæstir þeirra séu að leyta að skyndigróða heldur séu þeir þolinmóðari en andskotinn og séu með öll lög hér og reglur og stjórnarskrá á hreinu. Þannig að þeir verða varla þvingaðir í aðgerðir sem skerða mikið þann hluta sem þeir reikna með að ná hér út á næstu árum.  Sem og ef þetta eru ekki hrægammasjóðir þá verður málið snúnara með tilliti til að fá hingað nýja erlendar fjárfestingar nema að gefa mönnum aðganga að auðlindum, orku eða skattfrelsi.

Þannig að við losum þetta ekki 1-2 og 3 og þarf örugglega færstu sérfræðinga í heimi til að vinna þetta mál fyrir okkar hönd. 

Magnús Helgi Björgvinsson, 30.4.2013 kl. 16:31

3 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Magnús Helgi þú misskilur. Þegar talað er um hrægammasjóði er fyrst og fremst átt við ríkissjóði Bretlands og Hollands.

Við notum einfaldlega bara Icesave peningana í þetta, enda búið að fá dóm fyrir því að hvaða marki okkur er það heimilt.

Svo hjálpa dómstólar Framsóknarmönnum að uppfylla hin kosningaloforðin varðandi skuldamál heimila.

Hæstiréttur byrjaði meira að segja á því þremur dögum fyrir kosningar með dómi í máli nr. 672/2012.

Þetta er ekki flókið og hefur allt legið fyrir lengi, það tekur bara tíma að mjakast gegnum dómskerfið.

Guðmundur Ásgeirsson, 30.4.2013 kl. 18:59

4 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

P.S. Þessi leið er ekki "leið Framsóknarflokksins" frekar en annað sem þeir hafa lesið á blogginu mínu og notað sér til framdráttar.

Guðmundur Ásgeirsson, 30.4.2013 kl. 19:03

5 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Sæll Magnús.

Hann hittir naglann á höfuðið hann "Seiken" þegar hann segir:

"Ríkið skuldar þessum aðilum ekkert og á ekki að skuldsetja sig fyrir gjaldeyri svo þessir aðilar komist úr landi"

Hvort heldur þetta eru hrægammasjóðir eða Deutche bank þá eigum við ekki að skuldsetja okkur í erlendum gjaldeyrir til að þessir aðilar komist með þetta fé úr landi. Við eigum að skrifa þessa snjóhengju niður um 80% til 90% í einhverja stærðagráðu sem við sem þjóð ráðum við eða alveg niður í núll.

Sammála þér í því að til þess að gera þetta þannig að gangi upp þá þurfum við færustu sérfræðinga í heimi. Þá eigum við að ná okkur í.

Það sem við, almenningur, getum hins vegar gert er það sem þú segir í upphafsorðum þínum. "Held að allir séu á þeirri línu að losa þessa snjóhengju", með öðrum orðum styðja við bakið á Framsóknarflokknum og þeim öðrum stjórnmálamönnum sem ætla að taka þennan slag fyrir okkur.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 30.4.2013 kl. 21:10

6 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

En ert þú ekki sammála því Magnús að við eigum ekki að borga meir til Breta og Hollendinga?

Er ekki rétt að breyta neyðarlögunum og láta kröfuhafana frekar fá þetta fé?

Friðrik Hansen Guðmundsson, 30.4.2013 kl. 21:14

7 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Sæll Guðmundur

Auðvitað eru það hugmyndafræðingar eins og þú sem leggja upp mál eins og þetta.

Gæfa Framsóknarmanna er að sjá snilldina í þessu máli og ná að gera það aðal kosningmálinu í þessum kosningum.

Nú hefst sjálf vinnan að koma þessu af hugmyndastiginu út í raunveruleikann. Til þess að svo geti orðið þarf Framsóknarflokkurinn að fá góðan meðbyr frá samfélginu.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 30.4.2013 kl. 21:26

8 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sammála þér Friðrik, ég held að allir þeir sem hafa komið fram með góðar hugmyndir og ekki aðhyllast framsókn ættu að leggjast á árarnar þegar fram er komið afl sem setur þær á oddinn. Við vitum hvaða flokkar voru meira en tilbúnir til að láta íslenska skattgreiðendur axla gjaldþrot einkabanka.

Magnús Sigurðsson, 1.5.2013 kl. 09:46

9 Smámynd: Samstaða þjóðar

Að ná peningum af Hrægömmunum er einfalt mál, en það verður ekki gert með samningum. Ef menn einblína á samninga, þá geta menn eins gleymt málinu. Einfaldasta leiðin og líklega sú eina færa er að skipta út sýndarpeningnum Krónunni fyrir alvöru peninginn Ríkisdal. Þetta hef ég oft bent á og nú síðast hér:

 

Að bræða Snjóhengju og slökkva eignabruna er auðvelt með fastgengi

 

Loftur Altice Þorsteinsson.

Samstaða þjóðar, 2.5.2013 kl. 17:05

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband