Umræða um umhverfismál á villigötum? Hafa virkjunamálin stolið athyglinni frá hinum raunverulegu vandamálum?

Árum saman hefur nær öll umræða um umhverfismál á Íslandi snúist um örfáa hektara og hvort setja eigi virkjanir niður á þessum hekturum. Þeir einstaklingar og þau félagasamtök sem hafa leitt þessa umræðu hafa gert það af slíkum krafti að nær öll umræða um umhverfismál hafa snúist um virkjunarmál og restin síðan um hvalveiðar.

Funi ÍsafUmræða um umhverfismál í öðrum löndum  snýst mikið um mengunarmál. Vegna ofuráherslu íslenskra umhverfisverndarsinna á virkjunarmálin þá hafa þessi félagasamtök aldrei beitt sér eins og erlend systursamtök þessara félaga gera í mengunarmálum. Löngu er tímabært að nýjar áherslur komist að hjá þessum félagasamtökum og þessi samtök fari að beita sér í fleiri málum en virkjunarmálum.

Umhverfissamtök og einstaklingar sem "berjast" fyrir umhverfismálum hafa t.d. horft aðgerðarlaus upp á bæjarstjórn Ísafjarðar eitra síðust ár allan Skutulsfjörð með díoxíð og sett allt lífríki og alla íbúa á Ísafirði og nærsveitum í bráða hættu, sjá þessa frétt hér á Eyjunni.

Umhverfissamtök og einstaklingar sem "berjast" fyrir umhverfismálum hafa t.d. horft aðgerðarlaus upp á það að árlega eru flutt til landsins tugir tonna af haglaskotum úr blýi. Veiðimenn dreifa þessum blýi um land allt þegar þeir stunda sínar gæsa- og rjúpnaveiðar. Hundruð tonna af blýi liggur nú á heiðum uppi og eru að menga jarðveg og grunnvatn og munu halda því áfram næstu 100 til 300 árin.

Að leyfa veiðar með blýi á vatnsverndarsvæðum, votlendi eða svæðum sem skepnum er beitt á er tifandi tímasprengja. Hvað höfum við, 10, 30, 50 ár með sama áframhaldi þar til fyrstu vatnsbólin verða ódrykkjarhæf? Hvenær gerist hér heima það sem gerst hefur erlendis að gæsir og vaðfuglar drepast vegna blýmengunar sem blýhöglin valda á botni vinsælla veiðitjarna/vatna?

Ótrúlegt er að bann við notkun blýhagla skuli ekki enn hafa verið komið á hér á landi. Ótrúlegt er að umhverfisverndarsamtök skuli ekki knýja á um slíkt bann. Í Danmörku var bannað að nota blý til veiða í votlendi 1986 og algert bann 1996. Í Finnlandi hefur verið algert bann við notkun á blýi við veiðar frá 1996 og frá 1991 í Noregi.

Ýmsar gerðir eru til af höglum í stað blýhagla. Erlendis þar sem notkun blýhagla er bönnuð eru stálhögl algengust. Stálhögl ryðga hratt og menga á engan hátt eins og blý. Stálhögl eru léttari og draga því ekki eins langt og blýhögl. Því þarf að vera nær bráðinni en ef notuð eru blýhögl. En eru þetta ekki sportveiðar hvort sem er?

Af hverju er verið að dreifa á hverju ári tugum tonna af blýi um allt hálendi Íslands? Til þess að auðvelda veiðar á rjúpu og gæs? Til að auðvelda veiðar á rjúpu og gæs sem takmörkuð sátt er um að sé yfir höfðuð verið að veiða?

Áfram má telja umhverfismál / mengunarmál þar sem við Íslendingar eru langt á eftir frændþjóðum okkar á hinum Norðurlöndunum.

Löngu er tímabært að fólk og félög á Íslandi sem kenna sig við umhverfisvernd fari að horfa til fleiri þátta en virkjunarmála. Bara á Íslandi snýst "umhverfisvernd" eingöngu um nýtingu eða ekki nýtingu á orkuauðlindum og gerð örfárra virkjana í tengslum við þá nýtingu og öll önnur umhverfismál nánast látin í friði og óátalin.

Það er ekki bara í stjórnmálunum þar sem við þurfum nýtt fólk, nýja hugsun og nýjar áherslur.

 

Mynd: Er tekin upp úr þessari frétt hér á visir.is: Mengun yfir viðmiðunarmörkum.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Heyr, heyr!

Haukur (IP-tala skráð) 3.1.2011 kl. 17:51

2 Smámynd: Rauða Ljónið

Sæll. Auðvita hafa virkjunarmál stolið athyglinni frá umhverfismálum eins og blýhögl akstur utan vega ,vantar kort, sorpbrennslan Funi á Ísafirði hafi um árabil mengað umhverfi sitt með eitruðum díoxíngufum sem eru tuttugu falt hærra en meðalgildi um hollustu þætti kveða um. .

Rauða Ljónið, 3.1.2011 kl. 18:17

3 Smámynd: Hörður Þórðarson

Takk fyrir þetta ágæta blogg. Staðreyndin er sú að þeir sem væla hæst vegna þessara virkjana gera það flestir vegna þess að þeir telja að það verði þeim til framdráttar á enhvern hátt, í flestum tilfellum framdráttar í pólitik. Þeir hafa sem sagt notfært sér virkjanamál til að afla sér pólitískra vinsælda, ekki vegna þess að þeim sé ofur annt um umhverfið. Eins og þú bendir á, þá er skellt skolleyrum við öðrum umhverfismálum sem gætu vel haft meiri áhrif á umhverfi landsins. Þessi mál eru ekki "heit" og umfjöllun um þau er ekki líkleg til að skapa pólitískar vinsældir.

Staðreyndin er sú að það eru margir sem ættu virkilega að skammast sín fyrir tvískinnung og eiginhagsmunastefnu. Margir sem þykjast "berjast" fyrir umhverfið eru ekki að berjast fyrir öðru en atkvæðum til handa sér of sínum flokki.

Hörður Þórðarson, 3.1.2011 kl. 19:23

4 Smámynd: Sigurður Ingólfsson

Orð í tíma töluð Friðrik. Við megum til með að nýta óvirkjað vatnsafl til að auka hér lífsgæði sem koma í kjölfar erlendrar fjárfestingar. Það sem við virkjum í dag kemur okkur og afkomendum okkar til góða. Ef ekki verður virkjað er hætta á enn meiri flutningum fólks til útlanda. Vill fólk sem berst hvað harðast gegn virkjunmum hafa það á samviskunni ?

Sigurður Ingólfsson, 3.1.2011 kl. 19:35

5 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Sælir þið sem hafið tjá ykkur hér að ofan. Gott að heyra að þið eruð sammála þessum pistli.

Hörður, raddir þeirra sem tala hæst um umhverfismál á Íslandi þegja þegar rætt er um önnur umhverfismál en þau er lúta að nýtingu orkuauðlinda. Sjálfsagt er mikið til í tilgátu þinni um ástæður þessa.

Sigurður, ef nýja álverið á Reyðarfirði hefði ekki komið til þá væri ekki mánaðarlega 30 milljarða króna afgangur á vöruskiptum við útlönd eins og nú er og hefur verið frá hruni. Ef nýja álverið á Reyðarfirði hefði ekki  komið til þá væri íslensk þjóð nú í miklum vanda.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 3.1.2011 kl. 20:08

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband