Enn leggja hagfræðiprófessorar fram rök í Icesave deilunni sem "meika engan sens".

Þau rök hafa verið borin á borð fyrir okkur Íslendinga fyrir nýjum Icesave samningi að það að hafa Icesave ófrágengið hafi haft slæm áhrif á fjármögnun íslenskra fyrirtækja, til að mynda orkufyrirtækja. Vegna þessa eru meðal annars virkjaframkvæmdir Landsvirkjunar við Búðarháls nánast stopp og stoðtækjafyrirtækið Össur hf. hafi átt í vandræðum með að fá lán.

21122009333Þessi rök "meika engan sens" fyrir mér.

Í fyrsta lagi þá er Icesave mál á ríkisstjórnarplani. Þetta eru samningar / deilur milli ríkisstjórna Íslands, Bretlands og Hollands. Þetta mál snertir hvorki einstaklinga eða fyrirtæki í löndum Evrópu, Asíu eða BNA. Hvernig má það vera að slíkir ófrágengnir samningar milli þessara þriggja ríkisstjórna komi í veg fyrir að bankar í einkaeigu í löndum eins og Þýskalandi, Japan og BNA láni sveitarfélögum eða fyrirtækjum á Íslandi? Auðvita er það ekki þannig. Ef einkabankar í Þýskalandi, Japan og BNA vilja ekki lána til Íslands þá er það af einhverjum allt öðrum ástæðum en að ekki er búið að skrifa undir einhverja fjármálagjörninga milli ríkisstjórna Íslands, Bretlands og Hollands.

Í öðru lagi þá þarf engin frekari erlend lán inn í landið frekar en vill. Samkomulagið við AGS tryggir nægan gjaldeyrisforða og þar með greiðslugetu ríkisins. Þar fyrir utan er nægt fé til í landinu til að standa fyrir öllum þeim virkjanaframkvæmdum sem við einu sinni kærum okkur um að fara í. Hátt í 2000 milljarðar króna eru sagðar liggja inni í bankakerfinu og lífeyrissjóðirnir eru fullir af fé. Ekkert mál er að fjármagna allar þær orkuframkvæmdir sem við viljum fara í með innlendu sparifé. Til þess að svo megi vera þurfa þessar framkvæmdir einfaldlega að geta staðið undir lágmarks ávöxtunarkröfu lífeyrissjóðanna.

Er það þannig að Landsvirkjun er að fara í framkvæmdir sem geta ekki staðið undir lágmarks ávöxtunarkröfu lífeyrissjóðanna upp á 3,5% og þess vegna verði Landsvirkjun að leita eftir ódýrara lánsfé erlendis? Erum við að leggja orkuauðlindirnar í verkefni sem ekki bera 3,5% vexti? Er þá kannski eins gott að ekkert verði af slíkum framkvæmdum? Á ekki að gera þá kröfu til Landsvirkjunar að félagið leiti sér að verkefnum sem geta staðið undir lámarks ávöxtunarkröfu lífeyrissjóðanna í landinu?

Hvað gengur þessu góða og greinda fólki til sem nú leggur að þingi og þjóð að Icesave 3 verði samþykkt og þjóðin taki vegna þessa á sig tug ef ekki hundruð milljarða kostnað?

  • Er það til þess að Landsvirkjun geti farið í framkvæmdir sem standa ekki undir 3,5% lámarks ávöxtunarkröfu lífeyrissjóðanna?
  • Er það til þess að Landsvirkjun geti farið í framkvæmdir sem krefjast þess að taka þarf lán í útlöndum á lægri vöxtum en lífeyrissjóðir landsmanna geta boðið?
  • Á þjóðin að taka á sig Icesave vegna hrossakaupa stjórnvalda við að útvega Landsvirkjun svo ódýr lán að Landsvirkjun getur sniðgengið lífeyrissjóði landsmanna og geti þar með boðið erlendum álfyrirtækjum rafmagn á lægsta verði í heimi?

Ég veit ekki með þig lesandi góður en það verða að koma haldbærari rök fyrir mig en þessi til þess að ég fari að leggja til að við samþykkjum Icesave 3 og tökum á okkur þann milljarða kostnað sem því fylgir. Notum þessa milljarða frekar í skólana og sjúkrahúsin og gerum þá kröfu að þær framkvæmdir sem farið er í standi undir 3,5% vöxtum svo lífeyrissjóðirnir geti komið að fjármögnun þeirra.

Mynd: Gönguleiðin upp Esju.

 


mbl.is Ekki sami þrýstingur á lausn Icesave og áður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk Friðrik fyrir góða færslu.

Hún er enn einn bautasteinninn í lygi þess fólks sem vill fórna þjóð sinni fyrir sinn pólitíska metnað.

Það eru hvorki efnisleg eða lagaleg rök fyrir ICEsave.

Og ekki heldur pólitísk, því ICEsave er fortíð.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 11.1.2011 kl. 15:42

2 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Þeir sem leggja að þinginu að greiða icesave eru ekki að hugsa um Landsvirkjun, hvort það fyrirtæki fái lánafyrirgreiðslu erlendis. Eina ástæða þess að nokkrir einstaklingar vilja að icesave reikningurinn verði greiddur, er að meðan ekki er gengið frá honum er hann til trafala í ESB aðlögunarferlinu.

Að halda því fram að aukin skuldabyrgði þjóðarinnar liðki fyrir enn frekari lánum er eins og að segja að svart sé hvítt.

Gunnar Heiðarsson, 11.1.2011 kl. 16:34

3 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Sæll Ómar

Sammála þér, það eru hvorki efnisleg né lagaleg rök fyrir því að samþykkja Icesave.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 11.1.2011 kl. 16:40

4 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Sæll Gunnar

Ég skrifaði þennan pistil út frá fréttinni sem hún er tengd við. Þar er Friðrik Már Baldursson hagfræðiprófessor að telja upp ástæður þess að hann vill að þjóðin samþykki Icesave. Sú helsta að hans mati er að illa gengur að fá erlenda lánafyrirgreiðslu. Eins og ég rek í þessum pistli þá eru það engin rök að mínu mati.

Hvort Icesave trufli aðildarviðræðurnar við ESB veit ég ekki. Ef svo er þá mun það að koma í ljós. Það hlýtur þá að verða eitt af skilyrðunum fyrir samningnum af hálfu ESB verði Icesave enn út af borðinu þegar þar að kemur.

Það er þá ágætt að fá það á hreint, bæði fyrir okkur sem erum hlynt því að fara í samningaviðræður sem og hina þegar við metum hvort við að krossum við já eða nei.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 11.1.2011 kl. 16:51

5 identicon

Þótt mikið sé af peningum á íslenskum bankareikningum er líklega fremur erfitt að nota þá til að kaupa aðföng, tæki og vélar erlendis frá. Það er nánast aðeins íslensk vinnulaun sem hægt er að nota þá til. Því er þörf á erlendu lánsfé.

Röksemdin fyrir Icesave frá upphafi hefur verið sú að áhættan af því að neita að borga og vera hugsanlega þvingaður til þess af dómstólum er einfaldlega of mikil. Þá er áhætta vegna áhrifa á lánstraust íslenska ríkisins. Áhættan á sínum tíma þegar menn óttuðust jafnvel um matarskort vegna stöðvunar utanríkisverslunar leiddi til samningsdraga með 6,7% vöxtum. Síðasti samningurinn er sýnu bestur, enda hefur mjög dregið úr lánstraustsáhættunni. Nú er það hins vegar áhætta af óhagstæðri dómsniðurstöðu sem ber hæst.

Ómar Harðarson (IP-tala skráð) 11.1.2011 kl. 20:07

6 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Sæll Ómar

Þetta eru miklu betri rök hjá þér en hjá hagfræðiprófessornum. Þetta eru rök sem ég skil.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 11.1.2011 kl. 20:28

7 Smámynd: Jón Valur Jensson

Við eigum allan rétt í þessu Icesave-máli, en það eiga Bretar ekki í sínu ófrágnegna hryðjuverkamáli, þó að ráðherra þar hafi stamað upp einhverri eftirsjá (sem staðfestir bara rangindin).

Við höfum ekkert að óttast, ef við látum þá heyja málið hér, en þeir hafa aldrei viljað það. Ef rétt væri, að þeir væru nú að minnka bótakröfuna margfalt, þá hefðu þessir fantar fremur farið dómstólaleiðina, hefði hún verið þeim fær.

Rétt hjá þér, Friðrik, að hamra á þessu í greininni. Landvirkjun, Icelandair Group og Marel hafa reyndar öll fengið nýjar lánalínur erlendis nýlega og engin bagi að ófrágenginni deilu um þessa Icesave-lygaskuld sem vesalingar hér við völd hafa ólmir viljað semja um.

Áfram Ísland – EKKERT ICESAVE!

Jón Valur Jensson, 11.1.2011 kl. 20:48

8 identicon

Það er nú eflaust erfitt að finna mörg verkefni sem standa undir 3,5% raunávöxtunarkröfu sem er alveg út í hött hjá lífeyrissjóðunum og býr til allt of áhættusækna hegðum þeirra. Það þarf ekki alltaf þetta daður við ,,erlent lánsfé" heldur bara lækka vexti á Íslandi og þá fara þessir hundruðir milljarða sem eru í lausum innlánum, í eigu erlendra aðila og laust fé lífeyrissjóða (samtals amk 500 ma) að leita sér að fjárfestingum og ný fyrirtæki verða til, önnur geta endurfjármagnað sig á hagstæðum kjörum og hagkerfið fer í gang mjög hratt. ef raunvextir verða núll út þetta ár þá mun það duga til að koma hlutunum í gang. spár gera ráð fyrir um 2% verðbólgu á árinu svo seðló þarf að lækka repó vexti um 2,5% sem allra fyrst hið minnsta. (neikvæðir raunvextir víða í evrópu einmitt með þetta að markmiði)

Gísli (IP-tala skráð) 11.1.2011 kl. 23:49

9 identicon

Sammála þessu með ýkta fjármögnunarþörf. En aðalástæðan fyrir því að samþykkja Icesave er hættan á málið fari fyrir alþjóðlegan dómstól og við töpum því. Vilja menn taka þá áhættu? Núna er m.a.s. Indefence-hópurinn farinn að mæla með samningum og nánast blessa þetta samkomulag. Menn eins og Jón Valur eru alltaf í skotgröfunum og myndu ekki vilja borga þó að reikningurinn væri eitt þúsund krónur.

ábs (IP-tala skráð) 12.1.2011 kl. 11:21

10 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Sæll Gísli

Sammála þér í því að lífeyrissjóðirnir eru hvattir til að taka miklar áhættur í fjárfestingum sínum með því að krefjast þess að þeir skili langtíma ávöxtun upp á 3,5%. Það er allt of há ávöxtunarkrafa.

Hins vegar finnst mér að nýting náttúruauðlinda og tengdar framkvæmdir eigi að geta staðið undir 3,5% vöxtum.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 12.1.2011 kl. 12:19

11 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Sæll ábs.

Ég vil nú kannski ekki taka svo djúpt í árinni að InDefence "blessi" samkomulagið. Umsögn InDefence um Icesave 3 má finna hér.

Við lestur þessarar umsagnar InDefence fannst mér áhugaverðast að lesa Fylgiskjal lll (bls 46) en þar reyna þeir InDefence menn að greina þann kostnað sem fellur á Ísland ef málaferlin við Bretland og Holland tapast. Þetta er fyrsta og eina tilraunin sem ég hef séð þar sem reynt er að reikna út og meta þann kostnað sem fellur á Ísland tapist málaferlin að einhverju eða öllu leiti.

Niðurstöður þeirra eru.

  • Núverandi samningur kostar Ísland:   75 milljarða króna
  • Ef við vinnum málið verður kostnaður Íslands:  0 krónur
  • Ef við verðum dæmd til að greiða lámarksinnistæður, 21.000 evrur, kostnaður Íslands:   22 milljarðar króna
  • Ef við verðum dæmd til að greiða allar innistæður að fullu, kostnaður Íslands:   140 milljarðar króna.

Horfandi á þessar tölur og horfandi til þess að engin lagaskylda hvílir á ríkinu / þjóðinni að trygga innistæður í bönkum þá hlýtur dómsmálaleiðin að vera áhugaverður kostur.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 12.1.2011 kl. 12:39

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband