Sunnudagur, 12. september 2010
Þau ákváðu að ræna Deutche bank, Seðlabanka Evrópu, HSBC og alla hina bankana.
Í ákærum þingmannanefndarinnar er eingöngu horft til vanrækslu ráðherra í aðdraganda hrunsins. Ekkert er horft til þess sem gerðist í hruninu. Í hruninu stóð ríkið fyrir einu stærsta ráni í Evrópu og það sem ég vil kalla glæp gegn þjóðinni.
Ekkert er horft til þess að ríkisstjórnin ákvað að tryggja að fullu allar innstæður í bankakerfi sem var 10 sinnum stærra en landsframleiðslan. Þar með talið Icesave. Það að ríkisstjórnin tók ákvörðun um að tryggja að fullu allar innistæður í bankakerfi sem var 10 sinnum stærra en landsframleiðslan er ekkert annað en glæpur gegn þjóðinni.
Þetta er ekkert annað en glæpur gegn þjóðinni því þær ábyrgðir sem verið var að leggja á þjóðina með því að láta hana ábyrgjast þessar innistæður, þær skuldbindingar er tvöfaldar þær stríðsskaðabætur sem lagðar voru á hvern þjóðverja eftir fyrri heimstyrjöldina. Bætur sem þá þóttu óheyrilegar. Hitler komst m.a. til valda í Þýskalandi þegar hann lofaði að hætt yrði að borgar þessar háu bætur. Uppreiknað þá samsvara stríðsskaðabætur þjóðverja til 4.700 evra á mann. Það sem ríkisstjórnin og Alþingi ætlar Íslendingum að greiða til að tryggja allar innistæður að fullu eru 8.800 evrur á mann. Sjá nánar um þessar tölur hér.
Það var eitt að tryggja þessar innistæður að fullu. Annar var að að taka ákvörðun um að ræna Deutche bank, Seðlabanka Evrópu, Seðlabanka Svíþjóðar, HSBC bankann, Commercebank og allar hinar fjármálastofnanirnar sem áttu í viðskiptum við gömlu bankana.
Með neyðarlögunum var framið eitt stærsta rán sem framið hefur verið í Evrópu frá dögum sjóræningja soldánanna í Alsír sem rændu Evrópu í um 300 ár, frá 1500 til 1800, þar á meðal Vestmannaeyjar.
Með neyðarlögunum þá var röð kröfuhafa breytt þannig að við uppgjör gömlu bankana er fé sem Deutche bank, Seðlabanki Evrópu og HSBC áttu að fá, það fé er tekið og sett í hendur innistæðueigenda.
Með þessu ráni þá var Íslandi breytt á einni nóttu úr réttarríki í ræningjabæli.
Að ræna viðskiptavini gömlu bankana með þessum hætti og breyta þjóðinni í ræningjabæli það er ekki bara glæpur gegn þjóðinni, það er einnig glæpur gegn alþjóðasamfélaginu.
Þó ríkisstjórn og Alþingi hafi séð fyrir að fjöldi einstaklinga, félagasamtaka og fyrirtækja myndu tapa stórum hluta af innistæðum sínum, færu bankarnir í þrot, þá var engin ástæða til þess fyrir ríkið að fara út í þjófnað og rán.
Það var engin ástæða að eyðileggja orðspor Íslensku þjóðarinnar næsta mannsaldurinn með því að ríkið fór í það að ræna fé frá öllum helstu fjármálastofnunum heimsins. Það var engin ástæða til að breyta Alþingi í ræningjabæli þó einhverjir væru að tapa fé.
Þingvallastjórnin fórnaði orðspori heillar þjóðar og æru elsta samfellt starfandi þings í heimi í þeim tilgangi að tryggja fjármuni auðmanna Íslands.
Er að furða þó Orkuveitan og Landsvirkjun fái hvergi lán? Auðvita þorir engin að lána þessum opinberu fyrirtækum af hættu við að peningunum verði stolið með nýrri lagasetningu frá Alþingi. Sama fólkið er hér meira og minna enn við völd.
Þeir þingmenn og ráðherrar sem ákváðu að ræna þessar erlendu fjármálastofnanir með lagasetningu að næturlagi, tveir þriðju hlutar þessa fólks situr enn á þingi.
Einu sinni þjófur, alltaf þjófur.
Engin sátt verður í þessu samfélagi fyrr en þetta fólk er allt horfið á braut úr trúnaðarstörfum á Alþingi.
Ekkert traust verður hægt að byggja upp, hvorki hér heima né erlendis, fyrr en það fólk sem setti þessi Neyðarlög og stóð að þessu ráni er horfið á braut.
Það er á ábyrgð okkar kjósenda að sjá til þess að slík endurnýjun eigi sér stað sem fyrst.
Að kalla saman Landsdóm og rétta yfir þessum ráðherrum er óhjákvæmilegt skref á þeirri leið.
Sjá einnig: Skjaldborg slegin um stræsta rán Íslandssögunnar.
Mynd: Göngustígurinn upp Esju.
Röng niðurstaða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:01 | Facebook
Athugasemdir
Þetta er hryggilega rétt staðhæfing hjá þér. Mér líkar að þú skulir hafa kjark til að segja þetta sem allt of fáir geta orðað.
Á fyrstu dögum hrunsins eftir neyðarlögin sem þáverandi stjórnarandstaða hafði ekki manndóm í sér að andæfa héldu stjórnarmenn í alvöru að Íslendingar myndu verða sviptir frelsi sínu í bókstaflegri merkingu þess orðs. Þegar um hægðist og þeim var sagt að nóg væri að þeir gerðu upp Icesafe-reikninginn létu þeir strax tilleiðast. Að vísu fylgdi með AGS sem í raun tók fram fyrir hendurnar á "frjálsri" fjármálastjórn íslensku afglapanna en tryggði áfram að þjóðin þyrfti ekki að gera meira en að horfast í augu við annað en að "hurð skall nærri hælum". Spurningin er hvers vegna vorum við skorin niður úr snörunni?
Teflonmaðurinn Geir Haarde vildi ekki láta neitt óhreint festast við sig og Sjálfstæðisflokkurinn ætlar sér að reyna að koma skítnum yfir á Ingibjörgu Sólrúnu sem einsog allir vita var með heilaæxli á háu stigi í aðragandanum. Það er kannski ekki nægileg ástæða til að Ingibjörg hafi hugsað óskýrt og þó, mér finnst það skýra hvers vegna Ingibjörg fór í þetta ferðalag með Geir á sínum tíma. Hún var ekki með öllum mjalla.
Landsdómur ef saman verður kveðinn þarf að taka afstöðu til slíkra heilsufarsvandamála. Ef Landsdómur verður ekki kveðinn saman af þessu tilefni þá á að ráða bráðan bug að því að leggja hann niður.
Gísli Ingvarsson, 12.9.2010 kl. 16:57
Það þarf kjark til að skrifa svona pistil. Kalla gjörningana og þátttakendur réttu nafni í stað þess að þvæla kring um kjarna málsins.
Hér var framinn glæpur gegn almennum borgurum Íslands. Eftir krókaleiðum hafa borgarar verið sviftir ævisparnaði sínum. Stolið. Hér var framinn glæpur gegn erlendum borgurum sem treystu fjársvikamönnum bankanna fyrir sparnaði sínum. Þar á meðal eldri borgarar. Barnalíknarheimili í Bretlandi. Gjörningarnir, viðskiptaferlarnir liggja alveg skýrt fyrir. Varðaðir ábyrgðarleysi, lygum og svikum. Afleiðingarnar blasa við.
Ljóst er að mikil ábyrgð hvílir á stjórnmálamönnum, en allir þingmenn á Hrundag eiga að hverfa til annarra starfa. Mest ábyrgð er á gerendunum - þjófunum. Hví gangar augljósir þjófar og brotamenn Hrunsins lausir ?
Hákon Jóhannesson (IP-tala skráð) 12.9.2010 kl. 17:39
Flottur.
Aðalsteinn Agnarsson, 12.9.2010 kl. 20:17
Það þarf ekki kjark til að segja sannleikann. Sá sem hræðist sannleikann hefur eitthvað að fela.
Garðar (IP-tala skráð) 12.9.2010 kl. 22:05
Þetta er sjónarmið, að hér sé mögulega komin refsilaga vínkil sem menn sakna úr þessu pólitíska sjónarspili.
En var það ekki svo að mynduð var þverpólitísk samstaða við að semja og samþykkja neyðarlögin - man ekki betur en allir á Alþingi hafi komið að setningu þeirra laga jafnt VG og Framsókn sem stjórnarflokkarnir. Var ekki stofnaður neyðarhópur allra flokka á Alþingi til að semja lagaramman um það sem þú kallar þjófnað aldarinnar. Misminnir mig þetta ?
Sveinn (IP-tala skráð) 13.9.2010 kl. 07:07
Sæll Sveinn
Þetta er rétt hjá þér, það dapurlega við þetta mál er að allir flokkar stóðu að Neyðarlögunum. Það tóku allir flokkar þátt í því taka ákvörðun um að tryggja allar innistæður að fullu og í framhaldi að ræna þessa erlendu fjármálastofnanir, þar með talin Jóhanna, Össur og Steingrímur J.
Ég skil ekki hvað þetta fólk var að hugsa þegar það ákvað þessa gjörninga, að steypa þessu samfélagi í botnlaust skuldafen um ókomin ár með því að trygggja þessar innistæður og gera þjóðina að ræningjalýð í augum þjóða heims með því að ræna þessar fjármálastofnanir.
Friðrik Hansen Guðmundsson, 13.9.2010 kl. 08:59
Erlendu bankarnir lánuðu íslensku bönkunum þó þeir vissu að þeir stæðu höllum fæti, vegna þess að þeir stóluðu á að íslenska ríkið myndi veita ábyrgð á öllu, sem það hefði í raun aldrei getað.
Þegar hrunið varð varð að bregðast við í samræmi við það ástand sem hafði skapast þá. Auðvitað átti ekki að leyfa kerfinu að þenjast út áður, en á þessum tímapunkti var það orðinn hlutur. Þetta var ekki eins vel gert og hefði verið hægt, þ.e. það var t.d. rangt að tryggja innistæður í peningamarkaðssjóðum sem voru ekki lagalega tryggðar eins og innlánsreikningar.
Það er nú annars meira hvað þú hefur mikla samúð með Deutsche bank o.fl. Þú vilt kanski meina að tæma hefði átt alla gjaldeyrissjóði í Seðlabankanum og gera ástandið verra bara til þess að greiða erlendum glæpamönnum út, sem voru/eru jafn slæmir og þeir íslensku?
Þorgeir Ragnarsson (IP-tala skráð) 13.9.2010 kl. 12:19
...meira til:
Það að skera erlenda hluta íslenska bankakerfisins frá og "dömpa" honum snerist um að minnka skuldbindingar Íslands, miðað við að þurfa að taka allt kerfið yfir. Það varð að hafa eitthvað bankakerfi í landinu (skilyrði nútíma þjóðfélags) en það var ekki hægt að taka allt kerfið yfir og yfirtaka allar skuldbindingar, það var bara of stór biti. Ef allt kerfið hefði verið látið falla án nokkurra ábyrgða hefði viðskiptalíf og greiðslumiðlun farið í frost og samdráttur landsframleiðslu orðið mun meiri en raunin hefur orðið.
Þorgeir Ragnarsson (IP-tala skráð) 13.9.2010 kl. 12:25
Góður pistill Friðrik. Með neyðarlögunum vorum við að kaupa okkur ákveðinn gálgafrest en hann verður dýr og fellur að mestu leyti á næstu kynslóðir.
Í fyrsta lagi munu útlendingar varla treysta Íslendingum fyrir lánum nema að miklar tryggingar komi til. Þeir eru auðvita skíthræddir við "Venezuela style" lagasetningu frá Alþingi og þess vegna er ESB aðild svo mikilvæg, þá er kominn lagarammi sem þeir þekkja og treysta. ESB aðild snýst að miklum hluta um að endurvekja traust.
Í öðru lagi, mun næsta kynslóð alltaf þurfa að borga "hrunálag" ofan á þau takmörkuðu lán sem þeim tekst að betla. Áhættan af því að lána til Íslands er alltaf til staðar og byggir að miklu leyti á sögulegum staðreyndum, hún hverfur ekki á næstu áratugum.
Í þriðja lagi munu erlendir aðilar alltaf geta fjármagnað verkefni hér á landi ódýrara en Íslendingar og þar með fengið hærri arð en innlendir aðilar.
Eins og Íslendingar skelltu skuldunum yfir á útlendinga í hruninu þannig munu útlendingar skella kostnaðinum yfir á Íslendinga og hirða arðinn í framtíðinni. Það verður þeirra leið til að fá eitthvað upp í gamlar skuldir.
Eina leiðin fyrir næstu kynslóð til að komast hjá þessu er að flytja úr landi. Þeir sem vilja búa á Íslandi verða að borga háa skatta, sætta sig við lélega velferðarþjónustu og borga "hrunálag" á erlent fjármagn.
Það kemur alltaf að skuldadögum.
Andri Geir Arinbjarnarson, 13.9.2010 kl. 16:56
Sæll Andri
Einhvern veginn hljómar þessi greining þín jafn hræðilega rétt og raunsæ og þessi pistill minn.
Góður pistill segir þú.
Í pistlinum er mitt mat á neyðarlögunum og mitt mat á því hvað ríkistjórnin og Alþingi var að gera með því að setja þau. Ég hef rætt þetta mat mitt við nokkra aðila og þeir hafa verið mér sammála en hins vegar hef ég engan annan séð ræða þessi neyðarlög með sama hætti og ég er að gera hér.
Góður pistill segir þú, ert þú þá sammála þessari greiningu minni?
Var Alþingi að samþykkja allt of háar og í raun "svívirðilegar" skuldbindingar á almenning á Íslandi þegar samþykkt var að tryggja allar innistæður að fullu?
Er rétt að kalla það rán þegar Alþingi ákvað að færa fjármuni frá lánadrottnum gömlu bankana til innstæðueigenda?
Ef þetta var ekki rán, hvað var það þá?
Friðrik Hansen Guðmundsson, 13.9.2010 kl. 21:28
Sæll aftur Andri
Ef þessi greining mín í þessum pistli er jafn rétt og raunsönn og ég tel hana vera þá er ljóst að mjög margir og hugsanlega hluti þingmanna, jafnvel stór hluti, gerði sér enga grein fyrir því hvað þau voru að gera þegar neyðarlögin voru samþykkt.
Áttaði forsetinn sig á því að með því að staðfesta lögin með undirskrift sinni þá var hann að heimila ríkisstjórninni að fremja eitt stærsta rán sem framið hefur verið í Evrópu?
Ég er ekkert viss um að þetta fólk hafi áttað sig á því hvað það var að gera, eða hvað? Var þetta bara kaldur og yfirvegaður þjófnaður?
Friðrik Hansen Guðmundsson, 13.9.2010 kl. 21:42