Stjórnmálamenn allra flokka sameinaðir gegn lýðræðisumbótum forsetans.

Þær lýðræðisumbætur sem forsetinn er að standa fyrir með því að vísa í annað sinn máli til þjóðarinnar, þessar lýðræðisumbætur virðast vera eitur í beinum núverandi og fyrrverandi þingmanna og ráðherra.

IMG_0042Þessir stjórnmálamenn okkar og valdaklíkurnar sem á bak við þá standa ætla ekki að líða það að málum verði með þessum hætti vísað til þjóðarinnar. Þetta fólk vill halda öllu óbreyttu og það stendur vörð um fjórflokkinn og þau völd sem hann hefur sölsað undir sig undanfarna hálfa öld af Alþingi og af forsetaembættinu. Afleiðingin er að hér hefur náð að þróast nánast hreint flokks- og ráðherraræði þar sem eftir situr nánast valdalaust þing og búið að setja forsetaembættið í stofufangelsi á Bessastöðum og svipta það málfrelsi. Samkvæmt stjórnarskráinni þá á málum ekki að vera háttað með þessum hætti.

Þess vegna leggja núverandi stjórnvöld allt kapp á það að komast hjá því að halda þessa þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þess vegna hefur meðal annars verið lagt fram "einnota" frumvarp um þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir þingið. Tilgangurinn er augljós: Svona atkvæðagreiðslur eiga ekki að eiga sér stað.

Þess vegna eru jafnvel menn eins og Þorsteinn Pálsson að leggja stjórninni lið og er í grein í Fréttablaðinu í dag að mæla á móti þessum lýðræðisumbótum forsetans og er að mæla á móti því að hér verði haldin fyrsta þjóðaratkvæðagreiðsla lýðveldissögunnar frá 1944. Þjóðaratkvæðagreiðsla sem mun virkja að fullu málskostrétt forseta og þar með málskotsrétt þjóðarinnar. Þetta er ekki það sem þessir stjórnmálamenn vilja. Þeir vilja geta ráðið öllu sjálfir eða í það minnsta fengið tækifæri til að koma að málum og semja um þau, tryggt þeim brautargengi og fengið sínar dúsur í staðin.

Með því að þessi þjóðaratkvæðagreiðsla verður haldin þá mun margt breytast. Völd Alþingis munu aukast, völd forsetaembættisins munu aukast en völd flokkanna og völd ráðherra munu skerðast að sama skapi.

Þetta vita og sjá valdaklíkurnar í samfélaginu og þetta vilja þær alls ekki að gerist. Mönnum gæti þá jafnvel dottið í hug að fara að kjósa um kvótamálin og fleiri álíka hagsmunamál. Hver vill það? Almenningur auðvita en ekki valdaklíkurnar sem standa á bak við flokkana og fulltrúa þeirra.

Það er ekki nema að vonum að málpípur þessara valdaklíkna, málpípur sem flestar hafa verið keyptar með húð og hári með fjárframlögum, gjöfum og greiðum í prófkjörum undanfarinna ára, blási hátt þessa dagana og heimti að engin þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram og setja máli sínu til stuðnings fram öll möguleg rök.

Við eigum ekki að láta gegnumrotnar valdaklíkur fjórflokksins stjórna þessu.

Við eigum heimtingu á að fá þessa kosningu.

Við eigum heimtingu á þeim lýðræðisumbótum sem felast í því að hér fari fram þjóðaratkvæðagreiðslur þegar forseti synjar lögum staðfestingar.

Mynd: Göngustígurinn upp Esju á vetrarsólstöðum.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Laukrétt. Spurning hvað við kjósendur ætlum að gera í því.

Birgir (IP-tala skráð) 27.2.2010 kl. 21:40

2 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Við gætum komið af stað byltingu til dæmis.

Arinbjörn Kúld, 28.2.2010 kl. 00:00

3 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Ég er sammála því að við eigum heimtingu á þjóðaratkvæðagreiðslunni, ef það verður svikið verður bylting. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 28.2.2010 kl. 00:43

4 identicon

Öll meiriháttar mál ætti að leggja í dóm þjóðarinnar með þjóðaratkvæðum,afnema flokksræðið sem er búið að sýna sig að er fullt af spillingu og eiginhagsmunapoti.Miðstjórn flokkanna leggja línurnar og krefjast þess af flokkunum að fara eftir þeim línum.Í miðstjórnum veljast aðilar sem eru eiginhagsmuna seggir og er alveg sama um hinn almenna borgara vilja einungis ná fram sínum sjónarmiðum í gegnum stjórnmálamennina.Hreinsa þarf til í æðstu stöðum stjórnarspillingar,byrja á toppunum og ekki gleyma Háskólanum þar sem frjálsræðiskennslan hefur farið fram og smitast út í þjóðfélagið með afleiðingum er meðal annars olli hruninu 2008.

S.Árnason. (IP-tala skráð) 28.2.2010 kl. 11:32

5 Smámynd: Geir Guðjónsson

Er ekki nokkuð ljóst að það er brot á 26. grein Stjórnarskrár Lýðvelsisins að halda ekki þessa þjóðaratkvæðagreiðslu ?

Kv,  Geir

Geir Guðjónsson, 28.2.2010 kl. 13:02

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband