Í tvígang hefur þjóðin sett ríkisstjórnum Samfylkingarinnar stólinn fyrir dyrnar.

Nú verða ráðherrar ríkisstjórnarinnar að taka sér tak og hætta að munnhöggvast við forsetann og hætta að fjargviðrast yfir því að hér eigi að fara fram þjóðaratkvæðagreiðsla um Icesave lögin.

IMG_0009Vilji ráðherrar munnhöggvast við einhverja vegna synjunar forseta þá eiga þeir að munnhöggvast við þessa 60.000 Íslendinga sem undirrituðu áskorun til forseta Íslands að synja lögum um þennan hræðilega lélega Icesave samningi staðfestingar. Ráðherrar verða að fara að gera sér grein fyrir því að það voru 25% kjósenda á Íslandi sem stöðvuðu þessi Icesave lög.

Öllum á að vera ljóst að ef ekki hefði komið til þessi gríðarlegi fjöldi áskorana þá hefði forsetinn staðfest lögin. Engin þjóðkjörinn forseti gat hunsað áskorun 25% kjósenda í landinu. Ríkisstjórnin verður að gera sér grein fyrir því að það lifir enn glatt í glæðum búsáhaldabyltingarinnar þó í þetta sinn hafi byltingaraðgerðirnar komið fram sem fjöldaáskorun til forsetans.

Í janúar í fyrra stöðvaði almenningur ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks með eldi, hávaða í búsáhöldum og átökum við lögreglu. Í janúar í ár stöðvar almenningur ríkistjórn Samfylkingar og Vinstri grænna með  því að neyða forsetann til að synja Icesave lögunum staðfestingar með 60.000 áskorunum og með eldi og rauðum reyk við athendingu þessara undirskrifta á Bessastöðum. Forsetinn var "brenndur inni" á Bessastöðum þennan dag.

Það hlýtur að vera mikið áhyggjuefni fyrir forystufólk Samfylkingarinnar að hafa setið í tveim ríkisstjórnum, ríkisstjórnum sem hafa farið þannig fram að þjóðin hefur í tvígang á einu ári risið upp og sett þessum ríkisstjórnum Samfylkingarinnar stólinn fyrir dyrnar. Þar á bæ hljóta menn að endurskoða sína starfshætti.

  • Góð byrjun væri að fara að ákvæðum stjórnarskrárinnar og halda þessa þjóðaratkvæðagreiðslu. 
  • Góð byrjun væri að taka þátt í því að móta hér nýjar lýðræðishefðir þar sem beint lýðræði og þjóðaratkvæðagreiðslur eru hluti af nýjum stjórnarþáttum og koma til móts við kröfur búsáhaldabyltingarinnar um aukin áhrif almennings.

Fyrir forystufólki Samfylkingarinnar lauk Búsáhaldabyltingunni kannski þegar Davíð Oddssyni var velt úr Seðlabankanum. Fyrir  þessum 60.000 Íslendingum sem skrifuðu undir áskorun til forsetans er Búsáhaldabyltingunni ekki lokið.

Forystufólk Samfylkingar, ekki ögra þjóðinni með því að koma í veg fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna og leggja í þriðja sinn meira eða minna óbreyttan Icesave samning fyrir þingið.

Ef þið teljið að þið getið ekki náið betri samningum, saltið þá þetta Icesave mál í nokkur ár frekar en að ögra þjóðinni með því að leggja fram í þriðja sinn svona hræðilega lélega samninga.

Mynd: Göngustígurinn upp Esju á vetrarsólstöðum.

 


mbl.is Jóhanna: Skynsamlegra að leysa án þjóðaratkvæðagreiðslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Sæll Friðrik. Ríkisstjórnin er ekki að munnhöggvast við forsetann, en hún hefur neyðst til að leiðrétta hans málflutning þegar hann hefur ekki verið að túlka stefnu stjórnvalda rétt, eins og honum ber að gera. Jóhanna Sigurðardóttir hefur ekki eytt sínum dýrmæta tíma í að munnhöggvast við einn eða neinn í starfi sínu sem Forsætisráðherra, hún hefur unnið að uppbyggingunni eftir að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur rústuðu fjármálakerfinu.

Samfylkingin var að vísu með Sjálfstæðisflokknum í ríkisstjórn þegar allt hrundi. Tillögur flokksins til að sporna við hruninu, hefðu ekki fengið hljómgrunn hjá Íhaldinu, því í Seðlabankanum sat Davíð Oddsson í skjóli Geirs H Haarde. Sá síðarnefndi hlýddi skipunum Davíðs í einu og öllu og neitaði svo að víkja Davíð úr Seðlabankanum, þrátt fyrir eindregin tilmæli Samfylkingarinnar. Ólafur Arnarson segir í lok bókar sinnar Sofandi að feigðarósi.

"Hin síðari ár var Davíð Oddsson stærsta efnahagsvandamál Íslands og hann sat í skjóli Geirs H Haarde."

Það var ekki verið að setja Samfylkingunni stólinn fyrir dyrnar síðastliðinn vetur, heldur að standa við bakið á henni í þeirri aðgerð að hætta samstarfi við sjálfstæðisflokkinn. Ingibjörg Sólrún fárveik og það var fundir Samfylkingarfólks í Þjóðleikhúskjallaranum sem fólkið á götunni studdi. Nú er ekki verið að setja Samfylkingunni stóllinn fyrir dyrnar, heldur þjóðinni í heild. Það verður svo undir forystu Samfylkingarinnar sem málið verður sett í enn eitt samningaferlið. Ef Bretar og Hollendingar er ekki tilbúnir að samningaborðinu, mun fara fram þjóðaratkvæðagreiðsla um breytingartillögu frá Alþingi og enn undir forystu Samfylkingarinnar. Höfum hlutina á hreinu.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 15.1.2010 kl. 18:22

2 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Sæl Hólmfríður.

Ég er þér að mestu sammála og get tekið að langmestu leiti undir það sem þú segir hér og takk fyrir þessa athugasemd. Það eru samt þrjú atriði sem ég mig langar að benda þér á.

a)  Okkur greinir á um hlutverk forsetans. Það er ekki að undra, þjóðin öll er að átta sig að því valdi sem stjórnarskráin felur forsetaebættinu og þessi kynslóð okkar er að sjá forsetaembættinu beitt með svipuðum hætti og gert var í tíð Sveins Björnssonar og Ásgeirs Ásgeirssonar.  Sjá þessa pistla mína.

b)  Ég held þú sért að gera Davíð Oddsyni of hátt undir höfði. Ekki skilja þetta þannig að ég sé að verja hann.

c)  Minn skilningur á því að 25% þjóðarinnar undirritar áskorun til forseta að synja þessum Icesave lögum staðfestingar, er að þá er verið að setja ríkistjórninni stólinn fyrir dyrnar í þessu ákveðna máli.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 15.1.2010 kl. 18:57

3 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Nú verð ég að leiðrétta mig.

Mér er sagt að Kristján Eldjárn forseti hafi í forsetatíð sinni í þrígang verið tilbúinn með utanþingsstjórn.

Þá áttu flokkarnir í miklum vandræðum með að mynda starfhæfa stjórn. Það kom aldrei til að Kristján Eldjárn þurfti að beita valdi sínu. Hann fékk heldur aldrei aðrar eins áskoranir eins og núverandi forseti hefur fengið í tvígang.

Ef þetta er rétt með utanþingsstjórnirnar þá tek ég það hér með til baka að Kristján Eldjárn hafi ekki verið "athafnasamur" forseti.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 15.1.2010 kl. 23:05

4 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Sæll Friðrik. Þú talar um að ég sé að gera Davíð Oddssyni "of hátt undir höfði". Ég var nokkuð viss um að þáttur Davíðs í hruninu væri stór, bæði beint og óbeint, en eftir að hafa lesið bókina hans Ólafs Arnarsonar, sé ég að vanmat mitt á Davíð var töluvert. Við erum ekki sammála um forsetann, það erljóst. Ég sé því ekki ástæðu til að rökstiðja mína skoðun á honumfrekar að sinni. Vænti þess heilshugar að það takist sem fyrst að koma þessari ICESAVE deilu frá.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 15.1.2010 kl. 23:40

5 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Erum heldur ekki sammála með stólinn og þannig er það bara.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 15.1.2010 kl. 23:42

6 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Sæl Hólmfríður

Ég hef ekki lesið bók Ólafs Arnarssonar. Ég áskil mér allan rétt að skipta um skoðun að þeim lestri loknum eins og maður þarf ávalt að gera eftir því sem vitneskjan verðu víðtækari.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 16.1.2010 kl. 00:49

7 Smámynd: Þórður Bragason

Skemmtileg umræða hjá ykkur tveimur, takk fyrir það.  Ég er get tekið undir með Hólmfríði að hlutur Davíðs Oddssonar sé sennilega stór.  Ég tek heilshugar undir með Friðriki að hátt í 60þúsund manns hafi sett ríkisstjórninni stólinn fyrir dyrnar.

Ég held hins vegar að ríkisstjornir fyrri ára hafi þurft mikið meir aðhald.  Stjórnarandstaða er nánast engin á Íslandi, það þarf eitthvað skelfilegt til að ríkisstjórn fái sínum málum ekki framgengt.  Ég held að það verði að skilja milli alþingis og ríkisstjórnar svo meirihluti á alþingi sé ekki múlbundinn til að samþykkja nánast hvað sem er.

Sem sagt, mótmæli og búsáhaldabylting beindust að ákveðnum flokkum en flokkarnir höguðu sér samt bara rökrétt miðað við umhverfi þeirra.  Það er mín skoðun.

Þórður Bragason, 16.1.2010 kl. 01:54

8 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Sæll Þórður Bragason. Tek heilshugar undir þér með lítið aðhald ríkisstjórna frá minnihluta hverju sinni. Þetta er ein af mörgum ástæðum fyrir því að endurskoða þarf stjórnarskrána okkar. Eiríkur Tómason lagaprófessor segir að einhverskonar heimild til málskotsréttar fyrir minni hluta þjóðþinga, sé í stjórnarskrám ýmissa landa sem geri það að verkum að meirihlutinn verður að semja við minnihlutann um málamiðlun, sé þess óskað. Get ekki útfært þetta nánar, við benda á www.nyttlydveldi.is þar sem safnað er undirskriftum  þeirra sem krefjast vilja endurskoðunar á Stjórnarskránni. Vefur þessi fór í loftið fyrir um ári og þar eiga að vera inni ýmsar upplýsingar um vankanta á stjórnarskránni okkar og fleira

Hólmfríður Bjarnadóttir, 16.1.2010 kl. 12:20

9 Smámynd: Haukur Baukur

Hárrétt Friðrik,

Það er löngu kominn tími til að stjórnvöld beiti nýjum aðferðum og stjórnarhefðum sem eru í takt við þjóðfélagið.  Sá dagur mun koma að þjóðin kýs ekki þá sem síendurtekið hafa reynst vanhæfir.   Það er vanhæfi í mínum huga að vaða áfram í sérplægni og hafa ekki heyrn nema á kjördag.

(Smá sneið til Hólmfríðar). Hólmfríður, í janúar í fyrra söng búsáhaldabyltingin "Vanhæf ríkisstjórn", ekki " hluti af ríkisstjórn er vanhæf". Ári síðar er þjóðin að kalla á aðgerðir forseta vegna vanhæfi Ríkisstjórnar. 

Það er ekkert mál að kenna einhverjum manni eða flokki um, en þá er það annað hvort þröngsýni þess sem ásakar, eða vanhæft stjórnkerfið sjálft sem hefur brugðist hlutverkinu og leyft þeim aðilum að vaða uppi.  

Í dag þýðir ekkert að standa og verja þá sem sátu að borðum á þeim tíma sem siðblinda, ábyrgðarleysi og græðgi stjórnuðu fólki og flokkum.  Það þarf að taka á vandanum, ekki treysta vandanum til að lagast. 

Það skilur enginn virkan fíkil eftir einan í Ríkinu og treystir því að í þetta sinn horfi hann bara á flöskurnar eins og hann lofaði. 

Haukur Baukur, 16.1.2010 kl. 13:30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband