Færsluflokkur: Dægurmál

Sjúk hross í miðju hesthúsahverfi?

Ótrúleg var sú ráðstöfun að taka þessi sýktu hross og fara með í hesthúsahverfið í Mosfellsbæ. Mikil er ábyrgð þeirra sem tóku þá ákvörðun. Í þessu hesthúsahverfi eru fyrir á annað þúsund hross og mikill umgangur þar sem allir eru nú að taka hesta á hús.

Ég veit dæmi þess að hestaeigendur í nálægum húsum hafa ekki þorað taka hesta sína á hús vegna þess að dauðsjúkir hestar eru þarna enn í húsum og ekki er búið að sótthreinsa húsin, gerðið og næsta nágreni. Menn spyrja sig líka, verður þeim hestum sem lifa þetta af leyft að vera í þessum húsum í vetur? Þó þessir hestar lifi eru þeir ekki smitberar næstu mánuði? Þarf annað en mús að skjótast á milli húsa til að þetta smit berist um allt hverfið? Stafar mönnum hætta af þessu salmonellusmiti? Nú eru menn að járna og með hendurnar á kafi í hófum hesta sinna. Þurfa allir í hverfinu að gæta sérstaklega að hreinlæti umfram það sem vaninn er á komandi misserum? Mönnum er jú bannað að heilsa fólk sem er með salmonellusmit og það fær sér salerni á spítölum. Verða þessi hús þar sem þessi hross eru ónothæf fyrir ósýkt hross í hálft ár, eitt ár eða lengur? Gildir það sama um gerðin?

Berist salmonellusmit í aðra hesta er þá hægt að sækja bætur til þeirra sem heimiluðu að fársjúkt hestastóð með alvarlegan smitsjúkdóm var sett inn í mitt hesthúsahverfið? Hver ber ábyrgð á því og hver borgar þá það tjón? 

Það er tilfinnanlegt það tjón sem þeir eigendur eru að verða fyrir sem eru að missa sína hesta vegna þessa og þeir eiga alla mína hluttekningu. Það er hins vegar enginn bættari með því að setja aðra hesta þarna í hverfinu og hestamennina sjálfa í hættu.


mbl.is Óbreytt ástand á hrossunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öll stóriðjuáform í uppnámi?

Áhrif fjármálakreppunnar og ofan í hana 50% gengisfelling er alltaf að koma betur og betur í ljós. Er staðan orðin sú að öll stóriðjuáformin eru komin í uppnám? Fær Orkuveitan lán fyrir þeim virkjanaframkvæmdum sem framundan eru hjá fyrirtækinu? Er einhver banki í stakk búinn til að lána þeim í dag? Ef banki eins og Glitnir fær ekki lán og ef Seðlabankinn getur ekki útvegað sér lánsfé nema með 6% “Íslandsálagi” fær þá Orkuveitan lán eða Landsvirkjun og hvaða vextir verða þá á þeim lánum? Ef lán fást er hagkvæmni framkvæmdarinnar horfin með slíkum vaxtakjörum?  

Er hætta á því í dag að einhverjum eða öllum stóriðjuáformum verði frestað um hálft ár, ár eða lengur vegna fjármálakreppunnar og “Íslandsálagsins” á lánin. Hún ætlar að verða okkur dýr, krónan, ef hún mun kosta okkur þá stóriðjuuppbyggingu  sem var í hendi. Eru menn tilbúnir til að fórna öllu fyrir það að vera hér með sjálfstæðan gjaldeyrir?


mbl.is Orkuveitan í kröppum dansi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Martröð í Kaupmannahöfn

Var í Kaupannahöfn í nokkra daga í vikunni. Verðlagið þar er orðið ævintýralegt. Kippa af bjór í matvöruverslunum er jafn dýr og sumstaðar dýrari en kippa af bjór í Ríkinu hér heima. Vandfundinn er sá veitingastaður sem selur hálfs lítra bjór undir þúsund krónum íslenskum. Verð á mat og fatnaði er í sama dúr. Það setur að mér hroll að hugsa til þess að þessa dagana eru íslenskir kaupmenn að kaupa inn fyrir jólin og eru að senda jólavarninginn heim. Maður svitnar við að hugsa til verðhækkananna framundan hér heima. 

Undanfarin ár hefur danska krónan verið að rokka á milli 10 og 12 krónur íslenskar. Nú er hún komin yfir 18 krónur. Við íslendingar erum í sama pakkanum og allir aðrir hvað varðar lækkun á verði hlutabréfa og fasteigna. Til viðbótar bætist ofaná almenning hér heima gríðarlegt gengisfalla íslensku krónunnar sem gerir ástandið nöturlegt. Kaupmáttur okkar er að engu orðinn á erlendri grundu. Okkar launalægsta fólki erum við að greiða um 900 íslenskar krónur á tímann.  Lægstu laun sem Danir greiða sínu fólki eru í dag rúmar 1.800 íslenskar krónur á tímann. Launamunur milli Íslands og Danmerkur milli þessara hópa er aftur orðin tvöfaldur eins og hann var lengst af á síðustu öld.  

Eignir okkar íslendinga standa í björtu báli, kaupmátturinn fuðrar upp á fórnaraltari íslensku krónunnar. Sú staða sem við Íslendingar eru í þessa dagana er óþolandi og ólíðandi. Eina leiðin til að koma í veg fyrir að svona geti gerst nokkurntíma aftur er að ganga í Evrópusambandið og taka upp Evruna. Það eigum við að gera, þangað eigum við að stefna.


Er þetta vendipunktur fjármálakreppunnar

Það er vonandi að yfirtaka bandarísku Alríkisstjórnarinnar á þessum tveim stærstu fasteignalánasjóðum þar í landi í síðustu viku marki endalok lausafjárkreppunnar. Þessi svokallaða lausafjárkreppa á upptök sín í Bandaríkjunum í fasteignalánum sem bankar þar í landi veittu gríðarlegum fjölda fólks, fólki sem þessir bankar vissu eða hefðu átt að vita að gæti aldrei staðið í skilum með afborganir af þessum lánum.  

Skuggi ótrúverðugleika hefur í  framhaldinu fallið á öll bandarísk fasteignabréf og þar á eftir á allar bankastofnanir sem eiga slíka bréf eða talið er að eigi slík bréf. Með þessum aðgerðum Alríkisstjórnarinnar er verið að taka á vandanum þar sem hann varð til. Með þessum aðgerðum er verið að reyna með mikilli alvöru að stöðva miklar afskriftir á bandarískum fasteignalánum.  

Ef alþjóðlegar fjármálastofnanir hætta að tapa gríðarlegum fjárhæðum á bandarískum fasteignabréfum þá jafnar fjármálastarfsemi heimsins sig fljótt og færist í eðlilegt horf.


mbl.is Markaðir á uppleið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvítabjörn felldur á Hrauni á Skaga

Eftir að hafa fylgst með atburðarásinn á Hrauni á Skaga úr öruggri fjarlægð héðan úr Reykjavík þá sitja í kollinum fjöldi spurninga. 

 Var leigð sérstaklega heil þota til að fljúga með þennan “danska sérfræðing” og timburkassann sem nota átti undir ísbjörninn frá Kaupmannahöfn til Akureyrar? 

Hverjum datt í hug að fá Dana úr dýragarðinum í Kaupmannahöfn sem aldrei hefur veitt ísbjörn, og að því er virðist aldrei veitt neitt, til stjórna aðgerðum? Hann hefði ekki einu sinni geta komist í gott skotfæri við hrossin á Hrauni hafi hann ætlað að nálgast þau úr bíl.  

Var ekki hægt að fá senda á faxi/tölvupósti teikningu af þessum timburkassa sem nota átti undir ísbjörninn? Trésmíðaverkstæðið á Blönduósi hefði með slíka teikningu geta slegið saman slíkum kassa á tveimur tímum. 

Hverjum datt í hug í alvöru að það væri forsvaranlegt að eyða tugum milljóna króna í að reyna að fanga þennan ísbjörn lifandi? Frá landnámsöld hafa öll bjarndýr sem hingað hafa komið verði drepin. Það er hefðin, það er reglan. Nei, nei, í dag er þyrla og varðskip send á staðinn,  umhverfisráðherra drífur sig frá útlöndum og er á þjóðhátíðardaginn mættur í kaffi í stofunni á Hrauni á Skaga. Hefur gripið hér um sig slíkt náttúruverndaræði að öll skynsemi er á bak og burt? 

Fyrst Umhverfisráðuneytið hefur svona rúm fjárráð og getur eytt botnlausum fjármunum í “fár” eins og þetta þá er rétt að benda þingmönnum og fjárlaganefnd á “Kraft”  Stuðningsfélag fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur þess. Níu manna hópur á vegum þess félags ætlar að sigla í kringum Ísland í sumar til að safna fjárframlögum.( http://www.krafturikringumisland.com/page/18299/ ) Er skattfé okkar og annarra ekki betur varið til slíkra málefna en að umhverfisráðuneytið sé að soprtast við að reyna að ná lifandi ísbirni í æðarvarpinu á Hrauni á Skaga? 

Á Grænlandi er sá háttur hafður á að ef ísbjörn þvælist í nánd við bæi eða þorp þá eru þeir umsvifalaust skotnir. Ég á von á að sömu reglur gildi í Kanada, Noregi og Svíþjóð. Á Grænlandi segja menn að birnir sem einu sinni hafa lagt leið sína í nánd við mannabústaði þeir munu koma þangað aftur, þetta er orðið hluti af veiðislóð viðkomandi dýrs. Það skapi íbúunum stórhættu í framtíðinni og því eigi og verði að fella slík dýr.  

Fyrir einu eða tveim sumrum síðan varð ísbjörn konu að bana á Svalbarða, vinkona hennar komst við illan leik til byggða en þær höfðu farið þangað til  að ganga um eyna. Þessi atburður rifjast upp þegar ég hugsa til þessa að til stóð að ég færi að veiða í þessum fengsælu vötnum á Skagaheiðinni nú fyrrihluta júní. Þar eru í dag sjálfsagt á annan tug mann við silungsveiðar. Fyrri björninn gekk um þær veiðislóðir. Ég er sæll með það í dag að hafa ekki farið og ég mundi hugsa mig tvisvar um í dag að fara til silungsveiða upp á Skagaheiði með flugustöngina og vasahnífinn einan að vopni.  

Ef eyða á fjármunum í eitthvað í tengslum við þessar bjarndýrakomur er þá ekki rétt að senda vopnaða menn með hunda um Skagaheiðina og um norðanverða Vestfirði og ganga úr skugga um hvort fleiri dýr kynnu að vera hér á ferð, svona áður en aðal ferðamannatíminn fer í hönd?  


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband