Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Mánudagur, 28. júlí 2008
Á að þjóðnýta bankana.
Þessi staða íslensku bankana er í raun hræðileg. Ekki bætir úr skák ef forsætisráðherra og menntamálaráðherra sem staðgengill hans ætla að venja sig á að svara gagnrýni erlendra og innlendra sérfræðinga og blaðamanna á þann hátt sem gert hefur verið.
Það ætti öllum að vera það ljóst að íslensku bankarnir eru í miklum vandræðum. Skuldatryggingarálagið er komið yfir 10% og lítil batamerki eru á erlendum lánamörkuðum. Hvað gerist hér á næstu 6 til 12 mánuðum verði ekki gripið til róttækra aðgerða til að efla trú erlendra og innlendra fjárfesta á Íslandi? Fyrirtækin og almenningur á gríðarlega mikið undir að vel gangi hjá bönkunum. Þetta eru því mjög slæmar fréttir.
Erlendir sérfræðingar halda því fram að það eigi ekkert að gera því ríkið ætli sér að ná bönkunum aftur undir sig og þjóðnýta þá. Gríðarlegt vald færist þá aftur í hendur stjórnmálamanna sem þá munu aftur taka sín fyrri sæti í Landsbankanum, Búnaðarbankanum og Útvegsbankanum. Er það planið?
Ætlar ríkisstjórnin að sölsa undir sig það vald sem fylgir fjármagni bankana og þingmenn voru búnir að láta af hendi. Á að nota tækifærið nú og láta bankana og þar með fyrirtækin í landinu keyra í strand og í framhaldi af því þjóðnýta bankana. Á síðan að stokka upp íslenskt atvinnulíf og munu það þá verða þingmenn sem ákveða hvaða fyrirtæki í landinu lifa og hver munu deyja.
Forystumenn Sjálfstæðisflokksins harðneita að ræða af einhverri skynsemi þá einu leið sem hægt er að fara, þ.e. að ganga í Evrópusambandið og taka upp evruna. Ljóst er að "íslenska tilraunin" með seðlabankann við stýrið og verðbólgumarkmiðin fyrir Stafni er gjaldþrota leið. Það þarf alvöru lausnir núna. Tími "efnahagstilrauna" er liðin. Ég vil sjá alvöru lausnir sem duga og halda. Ég vil ganga í Evrópusambandið og taka upp evruna.
![]() |
Skuldatryggingarálag yfir þúsund punktar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:00 | Slóð | Facebook
Mánudagur, 7. júlí 2008
Útlendingastofnun á að ráða þessu
Hér held ég að Ágúst Ólafur og fleiri verið að stíga mjög gætilega til jarðar. Það er stofnun í landinu sem hefur með mál þessara útlendinga að gera. Sú stofnun vinnur eftir ákveðnum reglum. Á grundvelli þeirra hefur hún úrskurðað. Þessi úrskurður Útlendingastofnunar á að standa. Það er skilda dómsmálaráðherra að standa fast að baki Þessari stofnun nú þegar um hana blæs. Verkefni starfsmanna Útlendingastofnunnar er ekki auðvelt. Ekki heldur hlutverk barnaverndanefnda eða annarra opinberra stofnanna sem falið er að taka á fjölbreyttum og erfiðum málum ólíkra einstaklinga. Starfsmenn þessara stofnanna hafa öll gögn um mál þeirra einstaklinga sem þeir fjalla um. Það hefur almenningur sem nú hefur hvað hæst ekki. Ég hef enga trú á því að þetta hafi verið auðveld ákvörðun fyrir þá starfsmenn Útlendingastofnunnar sem hana tóku. En reglur eru reglur og lög eru lög og starfsmönnum stofnunarinnar ber að fara eftir þeim lögum og reglum sem um starfshætti stofnunarinnar gilda.
Rangt er að blása mál eins og þetta upp í fjölmiðlum. Rangt er að gera mál eins og þetta, mál nafngreinds einstaklings, að pólitísku deilumáli. Sé vilji fyrir því að rýmka reglur um innflutning flóttamanna / útlendinga til landsins þá á Alþingi að taka ákvörðum um það. Útlendingastofnun mun þá úrskurða á grundvelli nýrra reglna í stað þeirra sem nú gilda. Sé þá meirihluti fyrir slíkum breytingum á Alþingi.
Að standa í mótmælum fyrir utan dómsmálaráðuneytið, taka einn einstakling út og heimta fyrir þennan eina mann og hans fjölskyldu sérmeðferð og undanþágur er engum til framdráttar. Það gilda ein lög í landinu og undir þeim lögum eru allir jafnir.
![]() |
Vill að dómsmálaráðherra endurskoði ákvörðun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:20 | Slóð | Facebook
Mánudagur, 30. júní 2008
Góðar fréttir, útflutningur og Björk
Þetta eru mjög góðar fréttir. Góðu fréttirnar felast í því að útflutningur er að aukast. Þetta gerist þrátt fyrir gríðarlegan niðurskurð í þorskafla á síðast ári og þessu.
Það að útflutningstekjur okkar skuli vera að aukast á sama tíma og mikill samdráttur er í þorskveiðum er fyrst og fremst að þakka uppbyggingu orkufreks iðnaðar hér á landi og tekjum sem sá útflutningur skapar. Hvernig haldið þið að vöruskiptajöfnuðurinn væri í dag ef álverið á Reyðarfirði og stækkunin á Grundartanga hefði ekki komið til?
Björk og Sigurrós eru glæsilegir fulltrúar Íslands og frábært að við skulum eiga svona listamenn. Ég er hinsvegar algjörlega ósammála þeim í þeim áherslum sem þau vilja leggja í atvinnumálum. Sömu leiðis er ég algjörlega ósammála Vinstri Grænum í þeirra áherslum. Reyndar skal ég viðurkenna að ég bara skil ekki þetta fólk.
Ég vil halda áfram á fullu uppbyggingu orkufreks iðnaðar á Íslandi. Nú þegar tækifæri gefst að nýta ónotaðar orkuauðlindir okkar þá eigum við að grípa það tækifæri. Ef við nýtum þá möguleika sem okkur bjóðast nú til sölu á raforku þá verður staða okkar eftir sex til sjö ár sú að vöruskiptajöfnuður Íslands við útlönd verður hagstæður í áratugi eftir það.
Það fjárhagslega sjálfstæði og þeir möguleikar sem það skapar okkur íslendingum sem þjóð að vera áratugum saman með hagstæðan vöruskiptajöfnuð við útlönd er algjörlega ómetanlegt. Ef Ísland og við íslendingar eru ekki fjárhagslega sjálfstæðir þá verðum við ekki til sem þjóð eftir 50 til 100 ár.
Við eigum þess kost nú að tryggja þetta fjárhagslega sjálfstæði með áframhaldandi uppbyggingu virkjana og stóriðju. Þetta vil ég, ég vil virkja áfram og ég vil halda áfram að byggja álver og byggja upp annan orkufrekan iðnað hér.
Sjávarútvegurinn getur á þessari öld aldrei orðið sú burðarstoð samfélagsins sem hann var á þeirri síðustu. Annað og meira þarf til og þetta annað og meira er í hendi ef við höfum vilja og þor til.
![]() |
Dregur úr vöruskiptahalla |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:36 | Slóð | Facebook
Föstudagur, 27. júní 2008
Ísland brennur
Allar fasteignir og öll fyrirtæki á Íslandi eru í dag á brunaútsölu. Allt sem íslenskt er geta Danir, Evrópubúar og reyndar heimsbyggðin öll keypt í dag með 40% til 80% afslætti.
Gengisfall krónunnar, um 40% frá áramótum, þýðir að hús í Þingholtunum sem í lok síðasta árs kostaði 10 milljónir danskar krónur kostar í dag 6 milljónir danskar. Verðmæti allra fasteigna á Íslandi er í dag 40% lægra mælt í erlendri mynt en var um áramótin.
Enn alvarlegri er staða íslensku fyrirtækjanna. Verðmæti allra okkar glæsilegustu og öflugustu fyrirtækja hefur að jafnaði fallið á síðustu 12 mánuðum um 50%. Ofaní þessar lækkanir á hlutabréfum kemur 40% gengisfall. Með öðrum orðum, verðmæti allra fyrirtækja á íslandi, mælt í erlendri mynt, hefur fallið að jafnaði um 70% á síðustu 12 mánuðum, sum meira. Danir og aðrir útlendingar geta keypt íslensk fyrirtæki með 70% til 80% afslætti frá því var fyrir ári síðan.
Umsamin lámarkslaun almenns verkamanns á Íslandi með 7 ára starfsreynslu eru 777 íslenskar krónur á tímann. Samsvarandi laun í Danmörku eru 101 danskar krónur á tímann. Í dag gera það 1.700 íslenskar krónur á tímann. Það er ekki bara að eignirnar okkar séu á brunaútsölu, kaupmáttur launa hefur lækkað gríðarlega og finnst vel séu menn á ferð erlendis. Bjórinn í Kastrup kostar 65 danskar krónur. Það gera í dag 1.100 íslenskar krónur. Það tekur danskan verkamann, að teknu tilliti til skatta, rúman klukku tíma að vinna fyrir honum. Það tekur íslenska verkamanninn rúma tvo tíma.
Við erum ekki að tala í dag um einhverja lendingu í íslensku efnahagslífi, það er búið að lenda og það var brotlending. Spurningin í dag er ekki hvort takist að bjarga einhverju af farangrinum, hann er allur brunninn, spurningin er hve margir komast lífs af. Gjaldþrot núverandi stefnu í peningamálum með fljótandi gengi krónunnar og verðbólgumarkmiðum Seðlabankans er algjört.
Sú staða sem við Íslendingar erum í þessa dagana er óþolandi og ólíðandi. Til að koma í veg fyrir að svona brotlendingar verði og til að kom í veg fyrir að svona geti nokkurn tíma gerst aftur er þá um annað að ræða en stefna að inngöngu í myntbandalag Evrópu og upptöku Evru? Það kostar ákveðnar fórnir og fjármuni en aldrei neitt í neinni líkingu við það sem núverandi ástand er að kosta okkur.
Verðmæti eigna okkar Íslendinga er að fuðra upp. Þjóðarauðurinn stendur þessa dagana í björtu báli. Lítið sést til slökkvistarfsins.
Neró lét kveikja í Róm og horfði á hana brenna til að ná fram réttri stemmingu þegar hann orti ákveðinn kvæðabálk. Eru menn að yrkja niðri við Arnarhvol þessa dagana?