Laugardagur, 28. nóvember 2009
Eru sjómenn yfirstétt eða ölmusumenn?
Eru sjómenn yfirstétt á Íslandi? Yfirstétt sem nýtur sérstakra forréttinda? Yfirstétt sem borgar ekki skatta af launum sínum á sama hátt og aðrir þegnar þessa samfélags?
Eða eru sjómenn ölmusumenn sem eru á svo lágum launum og búa við svo bág kjör að öllum finnst rétt og eðlilegt að jafnvel einstæðar mæður og ekkjur þessa lands borgi hærra hlutfall af launum sínum en þeir til að hægt sé að senda börn sjómanna í skóla og tryggja heilsugæslu þeirra sjálfra?
Hvernig má það vera að ákveðin stétt mann býr hér við sérstök skattafríðindi áratugum saman? Af hverju er það svo að ákveðnir hópar í þessu samfélagi leggja lægra hlutfall af launum sínum til samneyslunnar, til skólanna, heilsugæslunnar o.s.frv. en aðrir þegnar þessa lands?
Ég fagna tillögum fjármálaráðherra um afnám þessara forréttinda. Þessar tillögur eru þar fyrir utan eins mildar og hægt er að hafa þær. Þessi sjómannaafsláttur nemur að meðaltali á sjómann um kr. 190.000 á ári og sjómenn og útgerðarmenn fá fimm ár til að leysa þetta mál sín á milli.
Í hálfa öld hefur engin fjármálaráðherra haft pólitískan kjark né þor til að taka á þessu misrétti, þessum forréttindum, fyrr en nú. Steingrímur J. Sigfússon á heiður skilið nái hann þessu í gegn.
Í hálfa öld höfum við Íslendingar þurft að bíða eftir að eignast fjármálaráðherra sem skynjar það ranglæti sem felst í þessum sjómannaafslætti og hefur haft pólitíska burði til að taka á þessu máli. Ég fagna því að við höfum eignast slíkan ráðherra.
Fyrir sjómenn hlýtur afnám þessa sjómannaafsláttar að vera ákveðið fagnaðarefni. Þeir verða efir 50 ára mismunum aftur fullgildir þegnar í þessu samfélagi og taka þátt í því á jafnréttisgrundvelli.
Gangi afnám þessa sjómannaafsláttar eftir þá verður hvorki litið á þá sem yfirstétt né heldur ölmusumenn.
Mynd: Við Nauthólsvík, horft til Öskjuhlíðar.
Sjómenn búa við betri kjör | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:21 | Facebook
Athugasemdir
Ég get nú ekki skilið þessa andúð þína út í sjómannaafsláttinn sem ég held að sé mynduð af vanþekkingu á kjörum sjómanna eða öfund út í laun þeirra,sem eru góð á nokkrum skipum á öðrum er rétt trygging.
Ég er búinn að vera til sjós í um 30 ár og er ekki sáttur við afnám á sjómannaafslættinum! Afhverju eigum við að taka á okkur launalækkun en aðrir ekki? Mér er öllu ómögulegt að skilja það!
Nóg er búið að krukka í laun okkar í gegnum árin og er mér til efs að nokkur önnur stétt myndi taka í mál að borga eldsneyti á þau tæki og tól sem nota þarf hverju sinni eins og sjómenn gera með olíukostnaðarhlutdeildinni!
Sem var nú reyndar umsamið áður en ég byrjaði til sjós,en er mikill kostnaður svo ekki sé talað um 7% sem sjómenn þurfa að borga af launum sínum til útgerðarmanns ef honum dettur í hug að endurnýja sitt skip,minnir að það séu 5 ár veit vel að þetta var samþykkt í samningum en það breytir ekki þeirri staðreynd að við borgum þetta!
Væri ekki nær að byrja á svínaríinu í kringum dagpeninga Alþingismanna og annarra embættismanna einnig dreifbýlisstyrk landsbyggðarþingmanna sem flestir ef ekki allir eiga húsnæði í RVK og þurfa ekkert á þessu að halda.
Lengi mætti sennilega telja en ég nenni því ekki núna,enda nýkominn heim eftir erfiða sjóferð.
Hjalti
Hjalti Þór Þorkelsson, 28.11.2009 kl. 18:20
Af minni hálfu er hvorki um andúð né öfund að ræða.
Ég held þetta sé mikið réttlætismál og ekki síst fyrir sjómenn sjálfa að afnema þennan sjómannaafslátt.
Sjómenn fara þá á dagpeninga og verða skattlagðir eins og aðrir launþegar þessa lands.
Útgerðarmenn verða þá eins og aðrir atvinnurekendur að standa undir launum starfsmanna sinna, ekki skattgreiðendur.
Friðrik Hansen Guðmundsson, 28.11.2009 kl. 18:25
Mér finnst meira réttlætis mál að uppræta dagpeningasukkið hjá opinberum starfsmönnum,sem örugglega eru meiri upphæð en þessi afsláttur,einnig dreifbýlistyrkirnir sem eru kjarabót,er það ekki?
Þessi aðgerð er og mun örugglega draga dilk á eftir sér því það er verið að ota starfstéttum saman að mínu viti.
En hvernig ætli standi á því að ekkert heyrist um þessar ölmusur sem þingmenn og aðrir á vegum hins opinbera þiggja ekki hef ég heyrt að það eigi að afnema þessa styrki?
Hjalti Þór Þorkelsson, 28.11.2009 kl. 18:38
það þarf víða að taka til í okkar samfélagi, rétt er það.
Það má samt ekki blanda saman greiðslum sem launamenn fá þegar þeir eru á ferðalögum hér heima og erlendis og eru ætlaðar til að greiða kostnað starfsmanna vegna fæðis, ferða og húsnæðis meðan á ferð stendur.
Reglur um dagpeninga allra venjulegra launamanna miðast við að greiða kostnað við gistingu á venjulegum hótelum og keyptur "eðlilegur" matur. Þessar reglur um dagpeninga venjulegra launamanna eru allar hinar eðlilegustu.
Ég þekki ekki reglur um dagpeninga ráðherra og þingmanna en auðvita á að skoða þær ef þær eru óeðlilega háar. Sjálfsagt er miðað við að þetta fólk gisti á dýrum hótelum og hafi risnu til að geta boðið gestum í mat, en eins og ég segi ég þekki þessar reglur ekki.
Friðrik Hansen Guðmundsson, 28.11.2009 kl. 19:12
Ef sjómannaafslátturinn er óréttlátur þá eru "eðlilegu" dagpeningarnir það líka. En auðvita á ekki að kalla þetta sjómannaafslátt, frekar útgerðarmannaafslátt eins og Ómar Ragnarsson bendir á í sínum pistli um afsláttinn.
Undrandi (IP-tala skráð) 28.11.2009 kl. 20:34
Vissulega eru laun sjómanna misjöfn eins og annarra stétta. Afnám sjómannaafsláttar er mjög tímabær og það á ekki að vera hlutverk ríkisins að niðurgreiða laun einnar stéttar frekar en annarra. Það er hvorki óvild né öfund í garð sjómanna sem ræður minni skoðun, heldur jafnaðarmennska af bestu gerð.
Hólmfríður Bjarnadóttir, 28.11.2009 kl. 23:17
Ólíkt því sem margir halda er sjómannaafsláttur ekki séríslenskt fyrirbrigði.
Flestir íslenskir farmenn borga nú skatta í Færeyjum þannig að væntanleg breyting hefur engin áhrif á þá.
Sigurður Þórðarson, 29.11.2009 kl. 00:13
Sjómaður sem fer átta 30 daga túr á ári og hefur 250 þúsund í laun fyrir túrinn fær 166 þúsund útborgað að meðaltali á mánuði, 147 eftir að sjómannaafslátturinn hefur verið afnuminn.
Ég veit um menn sem höfðu þessi kjör og fór sjálfur túra á þessum kjörum, en aðeins nokkra þó.
Þessi hópur mun borga 11,5% meira í skatta eftir breytingu, þeir sem hafa eina milljón fyrir túrinn borga 3% hærri skatta eftir breytinguna og þeir sem hafa 2 milljónir fyrir hvern túr borga aðeins 1,5% hærri skatta eftir breytingu. Þetta er algjörlega andstætt þeim markmiðum ríkisstjórnarinnar um sanngjarnara skattkerfi.
Þeir sem eru hlynntir afnámi afsláttarins eru hlynntir því að byggja endurreisn landsins á herðum láglaunafólks.
Ég vona bara að fólk á þessari skoðun sé í minnihluta í landinu enda virðist það skorta almenna siðferðisvitund og réttlætiskennd. Þessi breyting á ekkert skylt við jafnaðarmennsku.
Þið megið ekki gleyma því að sjómenn eru langtímum saman í burtu frá fjölskyldum sínum, oft símasambandslausir, án heilsugæslu, læknisþjónustu, án aðgangs að þyrlu landhelgisgæslunnar nema í verstu tilfellum ásamt mörgu öðru sem þeir borga fyrir en fá ekki aðgang að. Það er jafnvel ekki ástæða til að ræsa út þyrlu þó menn missi fingur og 14 tímar geta liðið frá slysi þangað til sjómenn komast undir læknishendur. Þetta finnst ykkur allt mjög sjálfsagt.
Sé verið að niðurgreiða laun útgerða þá ætti þetta að vera mál á milli ríkisins og útgerða en ekki sjómanna og ríkisins.
Lúðvík Júlíusson, 29.11.2009 kl. 00:20
Áhugamaður um stjórn mál hér á Íslandi á að vita að núverandi ríkisstórn er að koma hlutum hér á landi í sama horf (eða jafnvel betra)en er á hinum norðurlöndunum(hefur nokkur heirt þetta sagt á alþingi nýlega)það þíðir að skattlagning á sjómenn hér verður svipuð og á norska sjómenn 13% sem mér skilst að þeir fái að mestu endurgreitt um áramót..Til þess að koma þessu á, þarf Steingrímur að sjálfsögðu að taka sjómanna afsláttin af.hann er ekki svo vitlaus að vita ekki að afslátt af eingu ,er óraunhæfur.. p.s Hvað starfar þú Friðrik Hansen ef ég má spira.
Júlíus kristjánsson (IP-tala skráð) 29.11.2009 kl. 00:47
Friðrik þú ert algerlega að misskilja málið. Þessi "afsláttur" er rúmar 900 á sólarhring þá daga sem verið er á sjó. Sjómenn vinna hættulegustu störf hér á landi og eru í löngum fjarvistum frá heimili. Þorri sjómanna er ekki hátt launaður.
Kristinn Pétursson, 29.11.2009 kl. 01:58
talandi um laun sjómanna, yrði fólk í landi ánægt með að fá útborgað 15. hvers mánaðar eins og sjómenn fá í staðinn fyrir 1. hvers mánaðar???
Maríella Sigmundsdóttir (IP-tala skráð) 29.11.2009 kl. 02:46
Þannig var að bróðursonur minn fór að kalla mig pabba vegna þess að hann sá mig oftar heldur en raunverulega pabba sinn, hann var nefnilega sjómaður. Ég fékk sting í hjartað að heyra litla barnið hans bróður míns kalla mig pabba og hugsaði hvað það er í rauninni mikil fórn sem sjómenn færa þjóð sinni með fjarveru sinni frá börnum sínum og fjölskyldu. Bróðir minn á fimm börn, börn sem hann hefur ekki fengið að sjá taka fyrstu skrefin, segja fyrsta orðið o.s.frv. Fyrir mér er þetta næg ástæða til að réttlæta sjómannafrádrátt.
Valsól (IP-tala skráð) 29.11.2009 kl. 09:40
Sjómenn okkar er sú stétt manna sem sótt hefur verðmæti út á haf, sem skapað hafa þann gjaldeyri sem kom þessari þjóð á lappirnar, með mikilli vinnu, oft við ótrúlega erfiðar og hættulegar aðstæður, og það skal athuga líka að vinna þeirra er heiðarleg vinna, það er meira en hægt er að segja um allan þann fjölda landkrabba sem komið hafa öllum efnahag hér fjandans til með brútal þjófnaði og ómerkilegu braski, vesælir krimmar sem frændur okkar á norðurlöndum bera enga virðingu fyrir, þeir bera hinsvegar mikla virðingu fyrir sjómönnum Íslands. Þeir eiga þennan smálega afslátt skilið og þótt meira væri.
Robert (IP-tala skráð) 29.11.2009 kl. 09:53
Það virðist sem svo að fólk sem ekki hefur verið á sjó þekki ekki hvað það þýðir eða hvernig aðstæður eru, að vera á sjó er nefninlega ekki bara að fá há laun og "njóta" skattfríðinda. Eins og fram hefur komið hér að ofan eru þetta miklar fórnir sem við þurfum að horfast í augu við eins og t.d. að vera frá fjölskyldum og að borga fyrir ýmissa þjónustu sem við notum ekki.
Friðrik segir að við ættum að fagna því að loksinns sé kominn fjármálaráðherra sem þorir að taka á þessu misrétti. Hann Steingrímur er ekki hæfur til að taka þessa ákvörðun og þekkir greinilega ekki sjómennsku, ætlar hann heldur ekki að gera þetta með skemmtilegum og réttlátum hætti eða á góðum tímum. Hann ætlar að byrja á því að lækka sjómannaafsláttinn þegar það á að fara í endurgerð kjarasamningja sjómanna, er það að vera hugaður og með kjark?
Eitt má þó þessi ríkisstjórn eiga, hún kunna svo sannalega að rúlla af stað stórum snóbolta til að lama þjóðfélagið.
Benedikt Þórðarson (IP-tala skráð) 29.11.2009 kl. 10:29
Ég held að flestir þeir sem mótfallnir eru sjómannaafslættinum er fólk sem þekkir lítið sem ekkert til þeirra starfa sem sjómen inna af hendi og við hvaða skilyrði, svo ekki sé talað um þær aðstæður sem fjölskyldur þeirra búa oft við. Sjómennska hefur um langt árabil verið eitt hættulegasta starfið sem boðið er upp á hér á Íslandi, og hafa mörg okkar sem höfum búið við sjávarsíðuna upplifað það að skip hefur farið út að morgni og ekki komið að landi aftur, slíkt hefur einnig átt sér stað með einstaka sjómann þó svo ekki hafi farið heilu áhafnirnar. þetta hefur sem betur fer lagast á seinni tímun með aukinni menntun sjómanna og betri með betri skipum. Sjómen eru sú stétt sem löngum hefur dregið björg í bú fyrir þessa þjóð og staðið undir stórum hluta af okkar velferðarþjóðfélagi og gera enn, eða hvaðan ætla menn að taka gjaldeyrir fyrir þeim útgjöldum sem ríkið stendur frami fyrir núna. Ég held að þeir sem tala um háar tekjur sjómanna þeki lítið til þeirra stéttar, víst eru launin há hjá þeim skipum sem afla best en það eru bara ekki allir íslenskir sjómen á þeim. Sjálfur van ég við sjóinn hér áður fyrr og man að það komu heilu mánuðirnir þar sem ekki fiskaðist fyrir hlut eða ekki gaf til róðra og var þá einungis um strípaða trygginguna að ræða og varð engin ríkur af henni. Sömu kjör búa sjómen við enn í dag, það eru hér en skip sem eru háð veðrum til róðra og fiski sæld hefur enn stórt vægi í kjörum sjómanna, en aukinni aflasæld fylgir einnig aukin vinna og lengri vaktir því ekki geri fiskurinn að sér sjálfur. Nei það kann vel að vera að vissum landkröbbum svíði það að sjómen fái skattaafslátt í því formi sem nú er og það væri stéttinni sjálfsagt fyrir bestu að hann væri afnumin að því marki að útgerðarmenn greiddu þetta í staðin svo að þessi eilífðar þrætu linni, en að taka þessa launauppbót af þeim með einu penna striki án samninga um leiðir til að færa þetta til útgerðarinnar er að kasta stríðhanskanum og það ætti ríkisstjórnin að vita manna best.
Rafn Gíslason, 29.11.2009 kl. 12:06
Getur einhver frætt mig á því ,við kvað Friðrik Hansen starfar..mig langar svo dæmalaust mikið til að geta borið saman tíma kaupið hanns og mitt og annara sjómanna.
Júlíus kristjánsson (IP-tala skráð) 29.11.2009 kl. 12:53
Ég þekki lítið til starfa til sjós. En samt nóg til þess að ég hef ekki sóst eftir slíku starfi. Það má alveg leggja niður þennan sjómannaafslátt ef á móti kemur að þeir sleppi við að taka þátt í olíukostnaði. Ég hef sjálfur verið sjálfstætt starfandi og þar gat ég dregið allan kostnað frá áður en til skatts var reiknað. Almenningur getur hinsvegar ekki gert það óháð því hvort menn geti labbað eða ekið langa leið til vinnu með tilheyrandi kostnaði.
Offari, 29.11.2009 kl. 13:46
Friðrik telur að dagpeningar eigi að standa undir fæði og gistingu þegar fólk er fjarri heimili sínu,oftar en ekki fær fólk þetta greitt samkvæmt framvísuðum reikningum og svo dagpeninga ofan á mánaðarkaupið síðan tollfrjálst áfengi og tóbak þegar heim er komið þegar það fer erlendis. Meðan þetta viðgengst styð ég sjómanna afslátt.
Ragnar Gunnlaugsson, 29.11.2009 kl. 15:26
Auðvitað á ríkið (skattgreiðendur) ekkert að vera borga staðaruppbót (aka sjómannaafslátt) sem útgerðum ber í raun að greiða. Á sama hátt mætt rökstyðja afnám fríhafnar í Keflavík, sem og tollfríðinda til þeirra sem hafa efni á að ferðast til útlanda (eða ferðast vinnunnar vegna).
Sveinn (IP-tala skráð) 29.11.2009 kl. 16:41
Öfund og alger vanþekking á umræðuefninu. Þetta er það sem ég hugsaði þegar ég las þennan pistil.
Kannski að þessir aumingjar sem eru að skammast útí sjómannaafsláttinn prófi að fara á sjó. Það myndi sennilega breyta því hvernig margir af þessum aulum hugsa!
Jakob Jörunds Jónsson, 29.11.2009 kl. 16:47
Sveinn, tillaga Steingríms felst ekki í því að útgerðirnar eigi að greiða því sem samsvarar sjómannaafslætti heldur að ríkið hætti að veita hann.
- - - - -
sjómenn sem róa átta 30 daga túra á ári eru ekki allir á ofurkaupi! Þeir sem fá 250 þúsund krónur fyrir túrinn þurfa að borga aukalega 11,5% hærri skatta á meðan þeir sem fá 2 milljónir fyrir túrinn borga einungis 1,5% hærri skatta.
Afnám sjómannaafsláttar þýðir því miklu þyngri skattbyrðar á tekjulága.
Miðað við rök þeirra sem vilja afnám sjómannaafsláttar þá ættum við að afnema persónuafsláttinn, er ekki sanngjarnt að allir borgi skatt?
Eigum við þá ekki líka að hækka það sem einstaklingar borga fyrir afnot af heilbrigðiskerfinu? Það er auðvitað ósanngjarnt að fólk sem notar hana ekki og sundar heilsusamlegt líferni sé að niðurgreiða þjónustuna fyrir aðra.
Eigum við þá ekki að hætta allri hlutfallslegri skattlagningu og taka upp jafna skattlagningu, þe. að allir greiði sömu upphæðina í skatt ásamt því að greiða meira fyrir alla þjónustu sem fólk fær óháð launum? Það finnst ykkur örugglega sanngjarnt.
Lúðvík Júlíusson, 29.11.2009 kl. 16:59