Miðvikudagur, 18. nóvember 2009
Ráðherrar dregnir fyrir Landsdóm?
Mun nást fram réttlæti og verða þeir sem bera ábyrgð á því mikla tjóni sem hér hefur orðið dregnir til ábyrgðar?
Fyrir helgi hefði ég svarað þessari spurningu neitandi.
Nú hefur vaknað von. Fyrir því eru tvær ástæður.
Í fyrsta lagi er það hið óvænta útspil sérstaks saksóknara í gær að frysta eigur ráðuneytisstjórans fyrrverandi í fjármálaráðuneytinu sem seldi hlutabréf sín í Landsbankanum fyrir á annað hundrað milljónir króna nokkrum dögum fyrir yfirtöku ríkisins á bankanum.
Ef ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu sem sat ótal fundi hér heima og erlendis að ræða stöðu Landsbankans með helstu sérfræðingum í málefnum bankans, ef hann telst ekki hafa haft aðrar og betri upplýsingar en almenningur hafði um stöðu bankans og ef hann telst ekki vera innherji í þessu máli hver telst þá vera innherji? Í augum flestra er maðurinn innherji og honum bar því að tilkynna sölu á þessum hlutabréfum sínum í bankanum. Ef þetta er ekki rétt þá er nú líka eins gott að maðurinn verði hreinsaður af þessum áburði.
Í öðru lagi eru það þessi ummæli Styrmis Gunnarssonar í þessari nýju bók hans þar sem hann ræðir þann möguleika að rannsóknarnefnd Alþingis leggi það til í skýrslu sinni að ráðherrar sem sátu í ríkisstjórn Geirs Haarde verði kærðir fyrir Landsdómi vegna aðgerða þeirra og aðgerðarleysis í aðdraganda hrunsins.
Mín tilgáta er sú að Styrmir sé það vel tengdur að hann væri ekki að setja slíkar vangaveltur inn í bók sem á eftir að bera nafn hans og hróður um ókomin ár nema fyrir þessu sé nokkur fótur ef ekki klár vissa.
Vegna þessara tveggja atburða nú í vikunni þá myndi ég í dag ekki svara spurningunni sem ég set fram fremst í þessum pistli neitandi eins og ég hefði gert fyrir helgi.
Ég svara henni heldur ekki játandi í dag en nú hefur vaknað von.
Mynd: Við Fossvoginn, nýbygging HR, 1.11.09.
Ráðherrar fyrir dóm? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:44 | Facebook
Athugasemdir
Hélt einhver að sérstakur saksónari væri bara upp á punt með Evu Joly sem ráðgjafa. Ég hef alltaf talið að það væri bara tímaspursmál hvenær eitthvað svona gerðist, þá er ég að meina aðgerð eins og kyrrsetningu eigna Baldurs Guðlaugssonar. Hvað varðar að draga ráðherra fyrir Landsdóm þá er það líka eitthvað sem vel getur gerst og þarf ekki Styrmi Gunnarsson til að segja til um slíkt.
Það er verið að taka til, en það tekur tíma.
Hólmfríður Bjarnadóttir, 18.11.2009 kl. 14:56
Þessir tveir atburðir gefa vonarglætu. Vonandi gerast fleiri slíkir til að stytta okkur biðina eftir skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis um bankahrunið, aðdraganda þess og orsaka og hvort þar hafi orðið mistök eða vanræksla við framkvæmd laga og reglna um fjármálastarfsemi landsins og eftirlit með henni.
Er það kannski líka jákvæð frétt að Forsætisnefnd Alþingis hugleiði að skipa sérstaka þingnefnd til að ákveða hvernig vinna skuli úr niðurstöðum rannsóknarnefndarinnar?
Agla (IP-tala skráð) 18.11.2009 kl. 16:59
Það er rétt Hólmfríður, þetta tekur tíma.
Tortryggnin er svo mikil Agla. Eina tilgáta sem ég hef heyrt um þessa sérstöku þingnefnd er að hún eigi að taka við skýrslunni og fara yfir hana áður en hún verður birt. Þessi nefnd eigi að ritskoða skýrslu Rannsóknarnefndarinnar og ákveða hvað úr henni megi birta opinberlega.
Ég vona að þessi tilgáta sé röng.
Ég heyrði í forseta Alþingis útskýra tilgang þessarar sérstöku þingnefndar og við verðum að vona að það sé tilgangur nefndarinnar að vinna með þessa skýrslu en ekki að ritskoða hana og ákveða hvað úr henni má birta almenningi.
Friðrik Hansen Guðmundsson, 18.11.2009 kl. 17:25
Væri þá ekki hægt að kæra Ráðherra fyrir landráð ef við lítum á ESB málið í heild sinni.
Valdimar Samúelsson, 18.11.2009 kl. 19:29
Sæll Valdimar
Ef þjóðin samþykkir samninginn um aðild að ESB sem lagður verður fyrir hana í þjóðaratkvæðagreiðslu, hvað lög er þá verið að brjóta?
Ef þjóðin hafnar samningnum um aðild að ESB sem lagður verður fyrir hana í þjóðaratkvæðagreiðslu, hvað lög er þá verið að brjóta?
Friðrik Hansen Guðmundsson, 18.11.2009 kl. 20:17
Já Friðrik, það kviknaði smá von um helgina. Tekur tíma eins og Hólmfríður segir. Fáum við ekki réttlæti þá verður hér engin uppbygging. Vonandi er mönnum að verða það ljóst.
Kveðja að norðan.
Arinbjörn Kúld, 18.11.2009 kl. 20:43