Miðvikudagur, 4. nóvember 2009
Hvað gerir fjárbóndinn á Svörtuloftum á morgun?
Á morgun, 5. nóvember, tekur fjárbóndinn á Svörtuloftum og húskarlar hans ákvörðun um hve mikið á að gefa á garðann því fé sem þeir hafa á húsi. Ákveði þeir að hafa gjöfina óbreytta þá mun fátt af því fé sem nú hímir á húsi þora út í leit að betri bithögum. Þetta fé mun una sælt við sitt í öruggu skjóli fjárhúsanna á Svörtuloftum.
Taki fjárbóndinn og húskarlar hans hins vegar ákvörðun um að minnka gjöfina á garðann þá verður þetta fé fljótt svangt og sprækasta féð fer að leita sér að grænum nálum í bithögum bóndans utan fjárhúsanna.
Utan fjárhúsanna bíða smalarnir á Svörtuloftum þess óþreyjufullir að féð byrji að leita út. Þeir ætla sér að fara með það beint í bestu bithagana þar sem bíður kafgras, kvist- og fjörubeit. Inni í fjárhúsi Svörtulofta gerir féð lítið meira en rétt hanga í holdum. Fari féð út og á beit þá verður það fljótt bústið og fallegt segja smalarnir.
En það er beygur í fjárbóndanum á Svörtuloftum. Það varð mikill fjárfellir hjá honum frostaveturinn mikla 1918 (+ 90) þegar mikil ofsaveður og frosthörkur gengu yfir. Hann óttast frekari fjárfelli og hefur líka miklar áhyggjur af því að ef hann fer að gefa minna á garðann þá muni féð fara að flykkjast úr húsi. Sérstaklega er hann hræddur um féð frá Suðurheimum. Bóndi óttast að fari það fé úr húsi þá muni það ekki stoppa við í landi Svörtulofta heldur leita út yfir lækinn. Fátt óttast bóndi meir en að féð fari yfir lækinn. Hann óttast að það fé muni hann ekki sjá meir.
Þess vegna hefur fjárbóndinn á Svörtuloftum verið með húskarla sína í girðingavinnu. Hafa þeir verið í rúmt ár að girða og dytta að girðingum í landi Svörtulofta, sérstaklega þó upp með læknum. Girðingarnar eru nú vel fjárheldar þannig að þó féð sé tekið af húsi þá rennur það ekki í burtu. Búið er að sjá til þess að féð kemst ekkert og verður að vera kyrrt í heimahögum.
Fjárbóndinn á Svörtuloftum er samt kvíðinn og hræddur og óttast að girðingarnar haldi ekki eða nýtt óveður skelli á. Bóndi hefur viljað gefa svo vel á garðann að féð fari helst ekki af húsi. Hann er hræddur um að annars falli féð eða það strjúki.
Húsfreyjan á Svörtuloftum, smalarnir, skyldmenni og sveitungar eru ekki par ánægðir með þetta ráðslag bónda enda hefur húsfreyjan þurft að taka af fjölskylduarfi sínum til heykaupa fyrir bónda svo hann geti haldið fénu inni á gjöf allt árið.
Fjárbóndinn á Svörtuloftum hlýtur að vera farinn að sjá villu síns vegar og tekur ákvörðun um það á morgun að gefa minna á garðann á næstunni þannig að eitthvað af þessu fé fari úr húsi og byrji að bíta heimahagana.
Við þetta þá mun fækka á fóðrum hjá bónda og með fleira fé í haga þá mun búskapurinn færast fyrr í eðlilegt horf.
Mynd: Grafarvogskirkja, 1.11.09.
Ræða ágreining um skatta | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 7.11.2009 kl. 18:24 | Facebook
Athugasemdir
Vel fært í stílinn og skemmtilega sett fram. Fjárbóndin er í erfiðri stöðu greinilega.
Kveðja að norðan.
Arinbjörn Kúld, 4.11.2009 kl. 17:17
Flottur pistill
Þráinn Jökull Elísson, 4.11.2009 kl. 18:36