Þriðjudagur, 11. ágúst 2009
Fasteignamarkaðurinn og byggingaiðnaðurinn látinn taka höggið.
Stjórnvöld, bæði ríkisstjórn og sveitastjórnir, eru sammála um að láta fasteignamarkaðinn og byggingaiðnaðinn taka á sig stærsta höggið í þessari kreppu. Á undanförnum árum hafa okkar helstu stjórnmálamenn lofað því og sagt að ríki og sveitarfélög muni halda að sér höndunum í framkvæmdum í uppsveiflunni til þess að geta komið sterk inn þegar og ef að kreppti. Orð þessa fólks eru í dag jafn mikils virði og orð eigenda og stjórnenda bankana. Efndirnar á loforðunum þær sömu.
Eftir situr ein best menntaða og fjölmennasta starfsgrein þessa samfélags í rústum. Allir arkitektar og tæknimenn þessa lands ganga um stofur sínar og reita hár sitt. Ekkert er í sjónmáli og engin von er gefin. Það eina sem kemur frá opinberum aðilum og ráðgjöfum þeirra er að atvinnuhorfur í Noregi og Kanada séu ekki svo slæmar.
Frekar virðast menn vilja borga milljarða á mánuði í atvinnuleysisbætur en brydda upp á einhverju nýju og nýta með öðrum hætti það fé sem fer í atvinnuleysisbætur. Af hverju nýta menn þessa milljarða ekki frekar í opinberar framkvæmdir?
Verkefnin eru ótæmandi. Af hverju fækka menn ekki á atvinnuleysisskrá og fara í að tvöfalda eitthvað af þessum einföldu brúm sem enn eru á hringveginum kringum landið. 80% til 90% af kostnaði við slíka brúarsmíð er innlent hráefni (steypa) og vinna. Stálið og timbur í mót er það eina sem þarf að kaupa að utan.
Á heimasíðu Vegagerðarinnar undir "Fyrirhuguð útboð" stendur í dag:
"Verkum, sem áætlað var að bjóða út á síðari hluta þessa árs, er frestað um óákveðinn tíma vegna lækkunar á fjármagni til vegagerðar."
Af hverju velja menn að fara þessa niðurskurðarleið í bullandi atvinnuleysi í byggingariðnaðinum? Af hverju velja menn að fjölga enn á atvinnuleysisskrá og setja hundruð manna á atvinnuleysisbætur? Af hverju nálgast men þessi atvinnumál ekki með öðrum hætti og setja í gang þjóðhagslega arðbær verkefni og nýta í þær framkvæmdir það fé sem annars færi í að borga atvinnuleysisbætur? Þetta er leiðin sem löndin hér í kring eru að fara og hafa alltaf valið þegar kreppir að, af hverju förum við þessa leið ekki líka?
Ef opinberir aðilar vilja ekki fara sömu leið og nágrannar okkar og fjölga atvinnutækifærum með sama hætti og þar er gert með því að setja fjármagn í framkvæmdir af hverju skipta menn þá þessum byrgðum ekki jafnt á milli þjóðfélagshópa? Af hverju er í lagi að þúsundir manna sem starfa í byggingariðnaði missi vinnuna en ekki má segja upp einum einasta opinbera starfsmanni?
Er ekki tími til komin að við förum að sjá nýjar áherslur í atvinnumálum?
Mynd: Ein af gömlu brúnum í Róm.
65 makaskiptasamningar í júlí | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:40 | Facebook
Athugasemdir
Keyrði byggingariðnaðurinn ekki sjálfur í þrot í geðveikislegu kapphlaupi þar sem fjöldi og magn bygginga var langt umfram þörf, glórulausri verðlagningu sem nú kemur í hausinn á mönnum með verðhruni á fasteignamarkaði.
Ég held að menn megi líta sér nær áður en þeir fara að áfellast stjórnvöld. Hvernig væri nú að sinna viðhaldi sem hefur verið vanrækt síðustu ár þar sem ekki var hægt að fá nokkurn iðnaðarmann í slík verk nema þá á bankastjóralaunum. Staðreyndin er sú að byggingariðnaðurinn hefur setið við kjötkatlana að undanförnu, á lánsfjárfylleríi og glórulausri útþenslu. Þar var ekkert heilagt og lítt hugsað til mögru áranna.
Sveinn Ingi Lýðsson, 11.8.2009 kl. 14:55
Sæll Sveinn
Þegar bankarnir drógu sig með sín lán út af fasteignamarkaðnum haustið 2007 þá var ekki ein einasta ný fullbúin íbúð óseld á Höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum, Akranesi eða Selfossi. Eftir að Íbúðalánasjóður varð einn eftir á markaðnum með sitt 14 milljón króna hámarkslán þá snarstoppaði öll sala. Þegar fjármögnunarleigur bankana hættu að geta lánað almenningi til kaupa á fólksbílum í febrúar 2008 þá var fasteignamarkaðurinn að botnfrjósa. Ef eðlileg lánafyrirgreiðsla býðst ekki fasteignakaupendum þá kaupir enginn neitt. Byggingaiðnaðurinn stöðvaðist ekki af því að það vantaði kaupendur heldur af því að engin eðlileg lán voru í boði.
Hvað varðar hina glórulausu verðlagningu þá var það svo að 2002 þá voru sveitarfélög að selja byggingarétt á íbúð í fjölbýlishúsi á kr. 300.000 til kr. 500.000. Eftir uppboð Reykjavíkur og fleiri sveitarfélaga þá var þessi sami byggingaréttur seldur á 5 til 8 milljónir 2007. Hluturinn sem sveitarfélögin ætluðu sér í söluverði tveggja herbergja íbúðar sem kostar t.d. 17 milljónir hafði hækkar úr 3% í rúm 30%.
Það voru sveitarstjórnarmennirnir hér á Höfuðborgarsvæðinu sem höfðu blindast af græðgi og kepptust um að sýna sem besta afkomu sveitarsjóða sinna með því að selja sem mest af lóðum. Þetta sama fólk og lofar nú starfsmönnum sveitarfélaganna að engum þeirra verið sagt upp störfum og sameinast um að skera niður allt sem heitir opinberar framkvæmdir.
Þá er rétt að minna á að þeir byggingaaðilar sem sækja um lóðir þegar sveitarfélögin auglýsa úthlutanir eða þeir fá lóðir í útboðum sem sveitarfélögin standa fyrir, þessum byggingaraðilum ber skylda að hefja framkvæmdir fyrir ákveðinn tíma og ljúka framkvæmdum fyrir ákveðinn tíma. Það eru og voru því stjórnvöld, aðallega sveitarfélögin, sem ákváðu hve hratt og mikið var byggt af þeim nýju hverfum sem búið var að samþykkja að ætti að byggja. Þessi sveitarfélög hafa með sér samráðsvettvang sem er "Svæðisskipulagið" og öll gögn þaðan fara fyrir ráðherra sem endanlega samþykkir uppbygginguna. Á þessum samráðsvettvangi var og er ákveðið hve hratt og hve mikið á að byggja á hverjum tíma.
Það er ekki trésmíðameistarinn sem sækir um lóð undir raðhús hjá Hafnarfjarðarbæ, sem hann ætlar að hafa atvinnu af að byggja, sem stjórnar því hve mikið og hve hratt er byggt í Hafnarfirði, svo menn hafi það á hreinu.
Friðrik Hansen Guðmundsson, 11.8.2009 kl. 17:16
Já Friðrik þetta var allt á sömu bókina lært. Þessar einkaframkvæmdir, sem voru fjármagnaðar af bönkunum og voru eiginlega fyrir utan allt skipulag og langt umfram þörf, var ekki síst það sem kom þeim á kné. Það er hárrétt að sveitarfélögin ætluðu ekki hvað síst að hagnast á lóðasölu og allt varð til að byggingarkostnaður hækkaði fram úr hófi. Nú sé ég ekki aðra lausn en að sveitarfélögin sameinist bæði fjárhagslega og skipulagslega ("svæðisskipulagið" hefur reynst algjörlega máttvana) til að vinna úr skipulagsleysinu og til að geta áhveðið í hvaða röð eigi að ljúka lítt- eða hálfbyggðum hverfum. Og til að gera vitrænt skipulag til framtíðar sem byggist ekki á glórulausri keppni um íbúa.
Kveðja
Sigurdur Ingólfsson (IP-tala skráð) 11.8.2009 kl. 21:55
ég er alveg sammála Sveini. Þegar lánahlutfallið í fasteignakaupum var hækkað árið 2004 þá sagði í skýrslu til félagsmálaráðherra þess tíma að uppsveifla myndi verða í byggingariðnaðinum, fasteignir myndu hækka í verði, gríðarlegur hagnaður myndi verða í fyrstu sem svo myndi hverfa og að lokum tæki svo við niðursveifla. Auk þess myndi hagkerfið verða brothættara vegna mikillar skuldsetningar og lítillar eignar, almenningur yrði fátækari, dýrara yrði í framtíðinni að kaupa sér húsnæði og þeir högnuðust nær einungis sem áttu skuldlausar eignir fyrir breytingar. Þeir sem kæmu inn í kerfið, td. nýir kaupendur, myndu verða verr staddir en áður.
Handritið að því sem er að gerast nú á fasteignamarkaði er að finna í þessari skýrslu Seðlabankans til félagsmálaráðherra. Ekkert annað er að gerast nú eða eitthvað sem ætti að koma okkur á óvart.
Höggið er vegna þess að það var mikil þennsla í þessum greinum og um leið og markaðurinn færi í eðlilegra horf þá myndu fyrirtæki hverfa af yfirborðinu. Nú bætast við vandræði vegna heimskreppu en með hærra lánahlutfalli þá ákvað ríkisstjórnin að landið yrði berskjaldaðra og tæki dýpri sveiflur en áður. Það á við um allt landið, ekki bara verktakafyrirtæki og fasteignamarkaðinn.
Ný stefna í atvinnumálum væri td. minni opinber afskipti, sérstaklega þegar hið opinbera er að kynda undir óeðlilegan vöxt greina, verðbólgu og óstöðugleika. - Nú verðum við að krefjast vandaðri vinnubragða.
Lúðvík Júlíusson, 12.8.2009 kl. 08:31
Sæll Lúðvík
Sammála þér með að nú verður að krefjast vandaðra vinnubragða.
Þessi misserin er verið að byggja enn eina stífluna hér heima. Fasteignamarkaðnum hefur verið haldið í frosti að verða í tvö ár. Sömuleiðis byggingaiðnaðinum. Um leið og staða mála breytist þá brestur stíflan og fasteignamarkaðurinn fer á yfirsnúning. Á tveim árum hefur safnast upp mikil þörf hjá mörgum að breyta til með húsnæði. Þar fyrir utan hafa nokkrir stærstu árgangar Íslandssögunnar á þessum tveim árum komið inn á fasteignamarkaðinn og enn stærri árganga er að vænta.
Sveitarfélög og ríkið fara væntanlega á sama tíma í gang með óhemju framkvæmdir sem þau bíða nú með að setja í gang en frá ársbyrjun 2006 hefur verið útbosbann hjá ríkinu. Þegar stíflan brestur þá er viðbúið að það ástand skapist á skömmum tíma að íbúðir seljist áður en menn byrja að byggja þær. Byggingaiðnaðurinn neyðist þá væntanlega aftur til að flytja inn útlendinga í stórum stíl til að sinna þessu öllu.
Er þetta ekki staðan, núna er verið að byggja stífluna með því að stöðva nær alveg fasteignamarkaðinn og byggingariðnaðinn?
Er ekki eina spurningin í þessu dæmi hvenær stífla brestur?
Liggur ekki fyrir hvað gerist þá?
Eina spurningin í mínum huga er hve stór hluti íslenskra byggingarmanna verður þá fluttur úr landi. Með þeim áherslum sem stjórnvöld hafa í dag þá er fyrirséður stórfelldur innflutningur á erlendum byggingarmönnum til landsins þegar stíflan brestur.
Af hverju vilja menn ganga um þessa þjónustugrein sem byggingaiðnaðurinn er með þessum hætti?
Friðrik Hansen Guðmundsson, 12.8.2009 kl. 09:32
Þú ert nokkuð fyndinn,Friðrik, vissirðu það ??
Ef einhver atvinnugrein hefur makað krókinn undanfarin ár, þá eru það EINMITT atvinnugreinarnar sem þú vilt setja í píslarvotta-mengið í pistli þínum !!
Hækkandi fasteignarverð, fasteignasölur fengu þóknun eftir prósentum, byggingariðnaðurinn ofhitnaði, allstaðar nema í launakostnaði, blessaðir Pólverjarnir sáu um það.
Ef gráta skal ill örlög atvinnugreina, þá er nokkuð ljóst, að upptaldir tveir atvinnuvegir eru ekki táranna virði !!
Með réttu ættu þeir að sitja á HAUGUM af peningum eftir geðveikina undanfarin 6 ár !!!
runar (IP-tala skráð) 12.8.2009 kl. 14:20
Sæll Rúnar
Án efa standa mörg fyrirtæki vel eftir atgang síðustu ára, ekki ætla ég að deila um það. Það breytir þó ekki því að þessi fyrirtæki eru að segja upp starfsmönnum á fullu og sum hafa þegar lokað vegna verkefnaskorts þó þau fari ekki í gjaldþrot.
Svo eru það hin fyrirtækin sem stóðu mörg hver mjög vel en voru að byggja í eigin reikning þegar bankarnir lokuðu á fyrirgreiðslu til þeirra í aðdraganda bankahrunsins og eftir hrun. Þessi fyrirtæki hafi ekki enn náð að ljúka sínum verkum og selja. Stærstur hluti þessara aðila er á leiðinni í þrot eða farin í þrot. Ég held því miður að þau séu miklu fleiri fyrirtækin sem eru að fara svona en þau sem standa vel því áður en lausafjárkreppan skall haustið 2007 þá seldist allt það sem byggt var og margir voru því með mikið undir því eftirspurnin var mikil.
Það sem ég er að vísa til í þessari grein minni er ekkert frekar staða fyrirtækjanna en alls þess starfsfólks sem vinnur í þessum greinum. Þúsundir fjölskyldna hafa haft lífsviðurværi sitt af vinnu við byggingariðnað, fasteignasölu og tengdum greinum. Og eins og þú nefnir þá hækkuðu laun þessa starfsfólks ekkert upp úr öllu þó hér væri mikið að gera vegna þess að þúsundir útlendinga voru fluttir hingað til lands til að vinna þessi störf.
Blóminn úr Íslenska byggingariðnaðinum gengur nú um atvinnulaus. Þau fyrirtæki sem ekki eru búin að loka leita sér nú að verkefnum erlendis, allt faglærða fólkið okkar er á leið úr landi og menn eins og þú segja "þessir menn og fjölskyldur þeirra eru ekki táranna virði".
Það er því miður ekki bara þú sem sendir okkur sem "höfum" atvinnu okkar af byggingariðnaðinum þessa kveðu. Það gera stjórnvöld líka.
Menn eru að brjóta hvern samfélagssáttmálann á fætur öðrum.
Mottóið í dag er að verða, það er í lagi að rústa og brjóta niður hér og þar og allstaðar nema hjá mér.
Friðrik Hansen Guðmundsson, 12.8.2009 kl. 15:48
Nei, vinur, nú ert þú að snúa út úr orðum mínum. Fjölskyldur starfsmanna þessa iðnaðar eiga tár skilið, mest þó þegar geðveikin gekk yfir og svínað var viðbjóðslega á launum og réttindum starfsmanna byggingageirans.
Þetta þekki ég frá fyrstu hendi, þekki marga sem vinna/unnu í þessum geira.
Ég blótaði þessari þróun harkalega hér á blogginu 2005-2007. Eftir það gafst ég upp því enginn sá neitt að þessu og umræðunni var oftar en ekki snúið upp í rasisma, "hvað hefur þú á móti Pólverjum" var t.d vinsæll frasi.
Blóðsugurnar, aftur á móti, sem eiga fyrirtækin eru ekki tára virði, þeir mega skammast sín !!
runar (IP-tala skráð) 13.8.2009 kl. 11:54