Þriðjudagur, 23. júní 2009
Verkefni ríkisstjórnarinnar hvert öðru erfiðara.
Þau verkefni sem það fólk sem nú situr í ríkisstjórn og á Alþingi er að glíma við eru svakaleg. Það er sama hvar borið er niður. Allstaðar er staðan svipuð, allar leiðir sem hægt er að fara eru vondar leiðir. Tekjutap ríkissjóðs samsvarar því að segja þarf um þriðja hverjum ríkisstarfsmanni til að koma fjármálunum í jafnvægi. Gjaldeyristekjur af fiskveiðum hafa dregist saman um þriðjung mælt í evrum. Álverð hefur fallið úr 3.500 $/tonn í 1.200 $/tonn. Ég þori ekki einu sinni að reikna út hvað það þýðir í tekjutapi í evrum fyrir þjóðarbúið og Landsvirkjun.
Þar fyrir utan er bankakerfið gjaldþrota og óstarfhæft. Afleiðingar þess eru að verða skelfilegar, gjaldþrot fyrirtækja og fjöldaatvinnuleysi. Atvinnuleysi er í sögulegu hámarki. Vextir eru svo háir að engin ný atvinnutækifæri eru að verða til og gjaldeyrishömlur koma í veg fyrir erlendar fjárfestingar.
Þessu til viðbótar þarf ný ríkisstjórnin að takast á við ævintýralegan rekstur á Seðlabankanum sem lánaði viðskiptabönkunum 350 milljarða án ábyrgða. Landsbankanum sem veðsetti þjóðina fyrir 700 til 1.500 milljarða, allt eftir hvernig á það er litið. Og samkomulagið við Breta og Hollendinga um þetta Icesave mál þar sem fyrri ríkisstjórn virðist alveg hafa spilað rassinn úr buxunum þegar hún gerði þann samning um þau mál í haust. Svo má endalaust telja.
Mitt mat er það að það væri alveg sama hvaða flokkar og hvaða einstaklingar það væru sem nú gengdu ráðherraembættum, á þá yrði deilt gríðarlega og um þá stæði orrahríð.
Þegar maður horfir fram á veg og hugsar um allar þær erfiðu ákvarðanir sem bíða stjórnvalda þá er nú eins gott að þeir sem nú sitja á ráðherrastólum hafi sterk bein og bakland þeirra sé gott. Ég held það séu ekki margir sem hafa áhuga á sitja á ráðherrastól á Íslandi á næstu þrem árum. Það má kannski líkja því við pólitískt sjálfsmorð að taka að sér ráðherraembætti í dag. Í besta falli er það Rússnesk rúlletta. Það eru allar líkur á því að pólitískum ferli sé lokið eftir ráðherradóm við þessar aðstæður.
Guð blessi það fólk sem nú situr á Alþingi með öll þessi þungu mál í fanginu.
Mynd: Refur við Arnarpoll, Veiðivötnum.
Eignir duga ekki fyrir Icesave | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:31 | Facebook
Athugasemdir
Sæll, þetta er fyrirtaks pistill og sannur. Það má ekki gleyma því í gagnrýni á það fólk sem er við stjórnvölinn hversu hrikaleg verkefnin eru.
Kv.
Ólafur Eiríksson, 23.6.2009 kl. 00:50
Jamm og hvar eigum við svo að fá gjaldeyri til að greiða þó ekki nema vextina? Það er jú í gjaldeyri sem þeir eiga að greiðast í.
Arinbjörn Kúld, 23.6.2009 kl. 13:56