Föstudagur, 19. júní 2009
Mun ekkert fást upp í Icesave úr þrotabúi Landsbankans?
Mín tilgáta er sú að það muni lítið sem ekkert fást upp í Icesave skuldirnar úr þrotabúi Landsbankans. Ástæðurnar eru tvær:
Í fyrsta lagi þá munu ákvæði neyðarlagana þar sem lánadrottnum er mismunað, það er, kröfur innistæðueigenda eru gerðar rétthærri en aðrar kröfur, það ákvæði mun ekki halda fyrir dómi. Þessi neyðarlög munu falla úr gildi eftir 15 mánuði og þá geta lánadrottnar bankana lögsótt þá. Ríkinu og bönkunum verður örugglega stefnt vegna þessarar mismununar. Í öllum réttarríkjum er það grundvallaratriði að kröfuhöfum sé ekki mismunað. Að gera þetta svona eftirá eins og gert var þegar neyðarlögin voru sett á hlýtur að vera mjög hæpið. Mín tilgáta er sú að enginn af stóru kröfuhöfunum muni sætta sig við þetta. Mín tilgáta er sú að það verði erlendir dómstólar sem muni ákvarða hvort Íslenska ríkinu sé stætt á að mismuna kröfuhöfum með þessum hætti. Mín tilgáta er sú að ríkið muni tapa slíku dómsmáli. Það sem kemur þá til skiptana úr þrotabúi Landsbankans mun þá skiptast milli lánadrottnana. Lítið mun þá fást upp í Icesave og þjóðin mun borga rest.
Í öðru lagi þá er það mín tilgáta að Breska fjármálaeftirlitið sem er búið að sýsla með eignir Landsbankans í Bretlandi frá því í október, í tæpa níu mánuði, það er þegar búið að ráðstafa öllum eignum bankans í Bretlandi til breskra aðila. Mín tilgáta er sú að þessi eignaupptaka hafi þegar átt sér stað og Íslenska fjármálaeftirlitinu verði tilkynnt fljótlega eftir að Íslendingar hafa undirritað Icesave samninginn og tekið á sig að fullu allar ábyrgðir vegna Icesave, þá tilkynni Breska Fjármálaeftirlitið því Íslenska hvað hafi fengist fyrir eignir Landsbankans í Bretlandi. Mín tilgáta er sú að þá muni koma í ljós að Breska fjármálaeftirlitið hafi afhent þessar eignir breskum aðilum fyrir slikk. Með þessum hætti fá Bretar eitthvað upp í það tjón sem bankarnir þeirra urðu fyrir vegna tapaðra útlána til Íslensku bankana. Yrði það ekki þannig sem Íslendingar myndu höndla Grænlenskan banka sem hefði hagað sér á Íslandi eins og Landsbankinn hagaði sér á Bretlandi? Ég held það sé alveg fyrirséð að það verður ekki mikið sem Íslendingar fá til skiptana úr eignasafni Landsbankans á Bretlandi.
Ef Alþingi samþykkir þennan Icesave samning þá er það mitt mat að það eru allar líkur á því að það muni lítið sem ekkert koma úr þrotabúi Landsbankans upp í þessa Icesave reikninga og þeir muni lenda með fullum þunga á þjóðinni.
Mynd: Við Norðurá.
Enginn sýnt fram á að samningurinn stofni Íslandi í hættu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:07 | Facebook
Athugasemdir
Einhverra hluta vegna hef ég það á tilfinningunni að "gæði" þessara lánasafna/eigna Landsbankans í Englandi sé afar lítið ef marka má framkomu bankans þar í landi og afhafnir allar.
Arinbjörn Kúld, 19.6.2009 kl. 02:51
Þetta er athyglisverð kenning. Skil ekki afhverju það er ekki hægt að sjá hvaða eignir liggja þarna á bak við.
Jón Gunnar Bjarkan, 19.6.2009 kl. 12:41
Friðrik,
Ég held að það sé rétt hjá þér að erlendir kröfuhafar hafa haldið að sér höndum og ekki viljað byrja á lögsóknum fyrr en Icesave er í höfn með ríkisábyrgð. Nú byrjar ballið.
Andri Geir Arinbjarnarson, 19.6.2009 kl. 16:07
Gerist þetta fer ríkið óskup einfaldlega í gjaldfall og held ég að það sé óhjákvæmilegt hvort sem það verður í gegnum ICESAVE eða önnur lán sem hvíla á þjóðarbúinu. Við stöndum ekki undir vöxtunum, hvað þá afborgunum og því munu skuldirnar hækka þar til lánadrottnar okkar eru tilbúnir að taka þeim afskriftum sem verða meira og meira augljósar og þá ekki síst eftir því sem landflóttinn verður meiri. Gjaldþrot íslenska þjóðarbúsins er óumflýjanlegt en það má seinka því um nokkra mánuði og jafnvel einhver ár með hjálp lánadrottna ef það er talið vera ákjósanlegt. Kannski verður auðveldara fyrir þá sem það vilja að flýja land að fá smá tíma til þess áður en aðalkreppan skellur á okkur.
Héðinn Björnsson, 19.6.2009 kl. 16:43
Líkleg skýring á þessum samningi er sú að Bretar hafi engan hug á að við stöndum í skilum, þeir vilja geta gengið að bæði fiskimiðunum og mögulegri olíu á Drekasvæðinu um leið og við stöndum ekki í skilum. Þeir hafa með þessum samningi náð að koma sér í fullkomna stöðu til að hirða af okkur það sem verðmætt er, sýnist þeim svo, að ekki sé talað um þá aðstöðu sem þeir eru í til að "skemma" fyrir okkur að ná að koma eignum Landsbankans í verð.
Og þessu fagna Steingrímur og Jóhanna - afsal fullveldis, fórn fiskimiða og auðlinda, ánauð þegnanna, skuldafangelsi heimilanna.... allt til að fá að komast í ESB klúbbinn.
Jóhanna og Steingrímur eru landráðafólk.
Liberal, 19.6.2009 kl. 21:44
Ég vona að þú hafir rangt fyrir þér en óttast að þú hafir rétt fyrir þér
Gestur Guðjónsson, 20.6.2009 kl. 11:34