Hvalveiðarnar enn ein mistökin

Það er ljóst að útgerðarmenn landsins geta alls ekki sætt sig við að ferðamannaiðnaðinum verði látið eftir að nytja hvalastofnana við landið.

112_1284Það er dapurlegt að horfa upp á enn ein mistökin eiga sér stað hér á landi í kjölfar bankakreppunnar.

Það grátlega við þetta er að málið snýst ekki um peninga. Þessar veiðar snúast ekki um að ná hagnaði út úr þessum veiðum. Það vita það allir sem vilja vita að þessar veiðar verða reknar með bullandi tapi því það er enginn til að kaupa af okkur þetta hvalkjöt.

Því miður snúast þessar veiðar um eitthvað allt annað en peninga.

Á örfáum árum hefur risið hér upp í landinu umfangsmikill iðnaður sem gengur út á það að sigla með ferðamenn út á hvalamiðin og sýna þeim þessa hvali sem þar halda sig.

Í fyrra fóru yfir 100.000 manns í slíkar hvalaskoðunarferðir. Það samsvarar því að þriðjungur þjóðarinnar hafi farið út á sjó að skoða hvali.

Útgerðarmenn virðast vera að fara á límingunum yfir því að verið sé að nýta miðin umhverfis landið til annarra hluta en veiða.

Ég er orðin algjörlega á móti þessum hvalveiðum. Hvalveiðar eru atvinnugrein gærdagsins. Hvalaskoðun er atvinnugrein framtíðarinnar. Tekjumöguleikar okkar eru margfaldir ef við veðjum á hvalaskoðun í stað hvalveiða.

Hvenær verður það í þessu samfélagi að hagkvæmnissjónarmið verða látin ráða för en ekki einstrengingsháttur og sérhagsmunir einstakra manna?

Ég skora hér með á stjórnvöld að stöðva þegar í stað þessar hvalveiðar, gera hvalskipin hjá Hval hf. upptæk og láta breyta þeim í hvalaskoðunarskip og gefa síðan eitt slíkt á hvern landshluta sem framlag ríkisins til uppbyggingar í ferðaþjónustu á sviði hvalaskoðunar.

Hættum síðan þessu bulli að ætla að fara að veiða hval þvert ofaní vilja alþjóðasamfélagsins.

Mynd: Við ósa Vatnsdalsár.

 


mbl.is Fyrsta hrefnan veidd í kvöld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hildur Helga Sigurðardóttir

Þessarri hvalveiðidellu virðist aldrei ætla að linna !

Hildur Helga Sigurðardóttir, 27.5.2009 kl. 01:04

2 identicon

Er einhver ástæða fyrir því að við getum ekki haft báðar atvinnugreinarnar? Það er nóg af "fiski" í sjónum (Ekki reyna að hanka mig á þessu, ég veit vel að hvalir eru ekki fiskar).

P.S. Íslenskt hvalkjöt var étið af Íslendingum, Norðmönnum og Japönum.

Magnús F. (IP-tala skráð) 27.5.2009 kl. 01:49

3 identicon

Það er sjálfsagt að veiða hvalinn, við eigum að nýta það sem hafið gefur. Ég bendi þér á Friðrik að skoða ársreikninga hvalaskoðunarfyrirtækjana. Öll rekin með bullandi tapi

Ómar Sigurðsson (IP-tala skráð) 27.5.2009 kl. 02:12

4 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Sæll Friðrik,

Þó þreytan sé farin hrjá mig "útvörð Íslands" í skjóli Klettafjalla, yfir mörgum misvitrum ákvörðunum í kjölfar þessa gjörhruns, þá þreytist ég seint að taka undir þá staðföstu skoðun, að hvalveiðar í trássi við allt alþjóðlegt samfélag sem við viljum svo gjarnan bera okkur saman við, metast um, og sperrast helst hæst á þeim tindum; er algjörleg firra.

... og nú þarf að fara að endurhanna íslenska orðarbók yfir lýsingarorð; sem geta lýst þeirri andúð sem ég hef á þessari "samfélags-þjóðanna þroskahafti".

Jenný Stefanía Jensdóttir, 27.5.2009 kl. 02:51

5 Smámynd: Jón Valur Jensson

Er Friðrik Hansen Guðmundsson hættur í Sjálfstæðisflokknum og kominn yfir til Vinstri grænna? "Ég skora hér með á stjórnvöld að stöðva þegar í stað þessar hvalveiðar, gera hvalskipin hjá Hval hf. upptæk ..." Þetta er bullandi sósíalismi, maður minn, og hann ekki af linari gerðinni. Og læturðu fylgja með að beita gerviröksemdum, eða hefurðu bara ekki fylgzt með? Ég er hér að vísa til þessara orða þinna, sem standast ekki: "það er enginn til að kaupa af okkur þetta hvalkjöt." Svo er ennfremur hin mesta þvæla að tala um, að hvalveiðar okkar séu " þvert ofan í vilja alþjóðasamfélagsins," því að nefnt samfélag tekur nánast ekki eftir þessu. Ég vissi það vel á mínum hálfa áratug erlendis, að þetta mál er ekki í vitund almennings og skiptir engu máli á þeim vettvangi, þó að einhverjir grænfriðungar geti fengið eitthvað út úr einhverri skoðanakönnun, sem fæstir fylgja eftir í verki. Norðmenn veiða yfir 800 hrefnur árlega, og enginn segir neitt við því. Hættum þess vegna að skjóta okkur sjálf í fótinn, nýtur frekar auðlindir okkar eins og menn, og Friðrik, þjóðnýtingarsósíalisminn var strax búinn að afsanna gildi sitt árið 1918.

Jón Valur Jensson, 27.5.2009 kl. 09:14

6 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Sæll Jón

Það er engin að tala um að nýta ekki þessa auðlind sem hvalstofninn er.

Við eigum hins vegar að gæta þess að þessi auðlind sé nýtt þannig að hún gefi okkur sem mest í aðra hönd. Það gerum við með því að láta ferðaþjónustunni eftir að nýta þessa auðlind.

Kostnaðurinn og vesenið við að hefja hér hvalveiðar og byrja að veiða langreyðar er atvinnustarfsemi sem mun ekki standa undir sér. Hver er þá tilgangurinn með því að veiða þennan hval?

Ég get svo sem samþykkt það sjónarmið að hér séu veiddar hrefnur til neyslu hér innanlands. Ég get hins vegar ekki skilið að þær skuli veiddar á sama tíma og hvalaskoðunarferðir eru í gangi og þær séu þar að auki veiddar á á sömu veiðislóðum og hvalaskoðunarfyrirtækin eru að nytja. Af hverju veiða menn þessar hrefnur ekki á veturnar, vorin eða haustin og þá helst úti fyrir Vestfjörðum eða Austfjörðum þar sem engir erum með Hvalaskoðunarfyrirtæki í gangi?

Hvað varðar tillögu mína að úreldingu þessara hvalveiðibáta þá minni ég þig á Jón minn að undir forystu Sjálfstæðisflokksins þá hafa aldrei fleiri skip og bátar verið gerð upptæk. Sjálfstæðisflokkurinn stóð meira að segja fyrir að stofna sérstakan sjóð, Úreldingarsjóð, sem stóð og stendur enn í dag fyrir því að úrelda skip og báta og gera þau upptæk.

Þjóðnýtingarsósíalisminn lifir því enn góðu lífi á Íslandi þrátt fyrir að 1918 sé löngu liðið með Spænsku veikinni og frostaveturinum  mikla og öllum þeim lærdómi sem menn áttu að draga af því ári. Þjóðnýtingarsósíalisminn hefur reyndar aldrei verið vinsælli en einmitt nú og hefur verið að koma gríðarlega sterkur inn þessi misserin. Á Íslandi er búið að þjóðnýta alla banka landsins og öll helstu fyrirtæki hafa orðið þessum þjóðnýtingarsósíalisma að bráð á síðustu misserum. Og ekki bara hér á Íslandi heldur um allan heim. Í vöggu kapítalismans, Bandaríkjunum, hefur ríkisstjórn landsins orðið að grípa í til þjóðnýtingarsósíalismans til að bjarga húsnæðiskerfinu, bankakerfinu, bílaiðnaðinum og svo má áfram telja. Kommúnisminn hrundi þegar Járntjaldið féll fyrir tæpum tveim áratugum. Kapítalismans eins og við þekkjum hann í sinni tærustu mynd er nú líka hruninn.

Upp úr þessum rústum standa traustum öruggum fótum blönduð hagkerfi hinna Norðurlandanna. Þar er okkar fyrirmynd að finna.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 27.5.2009 kl. 10:46

7 identicon

Það er ansi erfitt að ræða þessi hvalveiðimál án þess að trúarbragðamenn eins og Jón Valur fari að blanda sér í hana. Í mínum huga er það bara einfaldlega ískalt, fjárhagslegt mat, að það borgar sig alls ekki að veiða þessa hvali. Þeir skaða útflutningsatvinnuvegina, framlegð til þjóðarbúsins er því minni en engin og svo er það sem ekki má nefna; það er enginn til að kaupa afurðirnar erlendis. Það er engin sala að flytja kjötið með ærnum kostnaði til Japans og geyma það þar í frystigámum þar til það verður ónýtt.

Ronald (IP-tala skráð) 27.5.2009 kl. 14:47

8 Smámynd: Jón Valur Jensson

Ég samþykki alls ekki þessar röksemdir þínar, Friðrik.

Það er þó gott, að þú ljáir máls á hrefnuveiðum, því að ég var farinn að hafa áhyggjur af því, að þessi hvalveiðiandstaða þín væri einhver angi af meðvirkni við Evrópubandalags- (EB)-innlimunarhyggjuna, en eins og kunnugt er, bannar EB ekki aðeins hvalveiðar af öllu tagi, heldur selveiðar líka og bannar sölu á hákarli að auki. (Og þetta fyrirbæri dettur sumum í hug að kjósa yfir sig!) – Gegn þessu velja velja sannir þjóðernis- og alþjóðahyggjusinnar frelsi okkar til þeirra atvinnuvega, sem við höfum stundað öldum saman, og viðskiptafrelsi okkar til að selja þessar vörur þvert yfir alla heimskringluna, án þess að þurfa að beygja okkur fyrir banni kommissaranna ofríkisfullu í Brussel.

Þjóðnýtingarsósíalismi fólst ekki í eignaupptöku þar sem fullar bætur voru goldnar fyrir, heldur þvert á móti, og líktu ekki stefnu flokks okkar við það fyrirbæri Leníns og annarra álíka.

Þjóðnýtingarsósíalismi er það heldur ekki að taka yfir gjaldþrota fyrirtæki og reyna að búa til úr þeim eitthvað nýtt eða öllu heldur að lágmarka skaðann fyrir viðkomandi þjóð.

PS. Eins og sjá má á þessu innleggi mínu, veiti ég hér einungis svör við þeim gagnsvörum til mín, sem svaraverð eru.

Jón Valur Jensson, 27.5.2009 kl. 16:01

9 identicon

"Hættum síðan þessu bulli að ætla að fara að veiða hval þvert ofaní vilja alþjóðasamfélagsins."

Friðrik, þetta er góður punktur.  

EE elle (IP-tala skráð) 27.5.2009 kl. 20:09

10 identicon

Ég held að málið hljóti að snúast um peninga. Varla fer Kristján Loftsson að kosta hundruðum milljóna í hvalstöðina í Hvalfirði þar sem nú eru fjöldinn allur af iðnaðarmönnum að gera upp hvalstöðina og hvalveiðibátana tvo sem eiga að veiða hvalina ef ekki von til þess að hann gæti losnað við afurðirnar á ásættanlegu verði. Svo er hitt málið að ferðatengja iðnaðinn. Það mætti t.d. sýna ferðamönnum hvalskurð uppi í Hvalfirði eins og gert var í den. Einnig mætti setja minjagripabúð það, þar sem að lystamenn gætu selt handverk unnið  úr hvalbeini og ýmsu öðru.

kveðja Rafn.

Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 27.5.2009 kl. 21:01

11 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Hringdu í mig eða sendu mér netpóst!

Guðbjörn Guðbjörnsson, 27.5.2009 kl. 21:10

12 identicon

Það gat nú verið að Jón Valur myndi snúa hvalveiðum uppá eigin hugmyndir um fullveldi Íslands og yfirgang Evrópubandalagsins. Maður bíður bara eftir því að hann spyrji hvaða álit Jón Sigurðsson hefði haft á hvalveiðum!

Jón Valur vísar hér hvað eftir annað í flokkshollustu, en virðist þó ekki gera sér grein fyrir því að á meðan sjálfur Davíð Oddson réði hér ríkjum, þá datt honum ekki í hug að leyfa nema bara svokallaðar "vísindveiðar" á hvölum.

 Og sjálft rökfræðitröllið kemur með viðlíka virðingar á málflutning Friðriks:

"Og læturðu fylgja með að beita gerviröksemdum, eða hefurðu bara ekki fylgzt með? Ég er hér að vísa til þessara orða þinna, sem standast ekki: "það er enginn til að kaupa af okkur þetta hvalkjöt.""

Það mætti kannski upplýsa Jón Val um að aldrei hafa fengist neinar upplýsingar um hvað það kostaði okkur að fá Japana til að kaupa af Kristjáni Loftsyni þetta eldgamla hvalkjöt. Og að sjálfsögðu hafa Japanir ríka hagsmuni af því að halda sjálfir áfram að veiða hvali og leitast við að finna farveg fyrir það.

Eins er kannski við hæfi að benda fullveldissinnanum Jóni Vali á að Utanríkisráðuneytið hefur þurft að eyða ómældum tíma og kostnaði til að réttlæta þessa þjóðrembu okkar um áratuga skeið gagnvart flölmörgum þjóðum.

En Jón Valur svarar því líkast til með álíka röksemdum:

"Ég vissi það vel á mínum hálfa áratug erlendis, að þetta mál er ekki í vitund almennings og skiptir engu máli á þeim vettvangi,"

Þvílíkt endemis bull! Líkt og þegar hann vísar í skoðanakannanir hjá Útvarpi Sögu máli sínu til stuðnings.

Hér er meiri þvættingur hjá honum: 

"Gegn þessu velja velja sannir þjóðernis- og alþjóðahyggjusinnar frelsi okkar til þeirra atvinnuvega, sem við höfum stundað öldum saman"

Það mætti kannski upplýsa Jón Val um að við höfum ekki stundað hvalveiðar öldum saman.

Jón Valur er líka haldinn þeirri firru að með því að stunda hvalveiðar þá aukum við afrakstur nytjastofna okkar. 

En það er önnur Saga...

Jóhann (IP-tala skráð) 27.5.2009 kl. 23:11

13 Smámynd: Jón Valur Jensson

Við höfum víst einmitt stundað hvalveiðar öldum saman, Jóhann fáfróði!

Og Jón Sigurðsson forseti snerist sannarlega ekki gegn þeim, enda stundaði t.d. langafi hans þær, Ólafur Jónsson (f. 1687), lögréttumaður og lögsagnari (settur sýslumaður) á Eyri í Seyðisfirði vestra, og ýmsir frændur hans af þeirri Eyrarætt. Hygg ég að það hafi m.a. gert forfeður mínir Þórður í Vigur og Magnús bóndi í Súðavík, synir Ólafs.

Það vill svo til, að ég þekki vel til mála um þetta, skrifaði t.d. um verzlun og stórútgerð Vestfirðinga allmikla ritgerð hjá sagnfræðikennara mínum á lokaári í MR, Bergsteini Jónssyni, síðar prófessor. Og Ólafur Olavius kammersekreteri, sonur Ólafs lögsagnara, skrifar um þetta í ferðabók sinni (Ökonomisk Rejse, Kh. 1780). Og svo má rekja hvalveiðarnar enn lengra aftur, eins og ég hef þegar séð í heimildum og hef raunar ætlað mér að skrifa ýtarlegar um.

Rugli Jóhanns um að Japanir vilji ekki kaupa þetta hvalkjöt þarf naumast að svara, þetta kom allt vel fram í fréttum í vetur, og anza ég ekki frekar þessu misheppnaða innleggi hans.

Eitt sinn var uppi Jóhann landlausi. En hver er þessi Jóhann föðurlausi?

Fyrirgefðu, Jóhann, en þú ert ekki föðurlaus, og skrifaðu þá eins og uppréttur maður undir fullu nafni, sér í lagi ef þú ætlar að ásaka einhvern.

Jón Valur Jensson, 28.5.2009 kl. 01:43

14 identicon

Jón Valur skrifar af fyllstu kurteisi:

“Við höfum víst einmitt stundað hvalveiðar öldum saman, Jóhann fáfróði!”

...enda skrifaði hann allmikla ritgerð á síðasta ári sínu í Menntó, fyrir utan alla áa hans sem lögðu stund á hvalveiðar!

Olafur Olavíus skrifar víst um hvalveiðar Baska, en kannski er Jón Valur orðinn svo mikill alþjóðasinni að hann telji það jafngilda veiðireynslu Íslendinga?

Íslendingar röru á opnum árabátum til fiskjar hér á öldum áður og stóð mikill stuggur af hvölum. Gagn þeirra af hvölum fólst í þvi þegar hvali rak á land. Því er talað um hvalreka sem mikinn happafeng.

Jóni Vali ætti einnig að vera kunnugt, eftir að hafa skrifa allmikla ritgerð hjá Bergsteini Jónssyni, síðar professor, að það voru Norðmenn sem rányrktu hvali fyrst á Vestfjörðum, en færðu sig síðan skamma hríð á Austfirði, þar til nær enga hvali var þar lengur að finna. Þá fór einn þeirra til S-Afríku til frekari hvalveiða og með honum a.m.k einn Íslendingur. Jón Valur vill kannski guma að veiðireynslu Íslendinga þarumslóðir?  

Íslendingar hófu sjálfir veiðar á hvölum á síðustu öld. Punktum og pasta.

Jón skrifar ennfremur:

“Rugli Jóhanns um að Japanir vilji ekki kaupa þetta hvalkjöt þarf naumast að svara, þetta kom allt vel fram í fréttum í vetur, og anza ég ekki frekar þessu misheppnaða innleggi hans.”

Eitthvað virðist Jón torlæs, því þessu hélt ég ekki fram. Ég spurði hvað það hefði kostað okkar að fá Japani til að kaupa af okkur trosið. Enda hefur það líkast til verið óhæft til manneldis eftir svo langa geymslu og farið í dýrafóður. Eða einfaldlega urðað.

Að lokum sýnir Jón Valur aftur kurteisu hliðina á sér og biðst forláts:

“Eitt sinn var uppi Jóhann landlausi. En hver er þessi Jóhann föðurlausi?

Fyrirgefðu, Jóhann, en þú ert ekki föðurlaus, og skrifaðu þá eins og uppréttur maður undir fullu nafni, sér í lagi ef þú ætlar að ásaka einhvern.”

Fyrirgefðu Jón Valur, en þetta er ekki þín bloggsíða þar sem þú getur uppnefnt menn og ritskoðað eftir eigin hentisemi. Meint föðurleysi mitt kemur þér ekki við.

Reyndu að halda þig við málefnin.

Jóhann (IP-tala skráð) 28.5.2009 kl. 18:19

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband