Sunnudagur, 24. maí 2009
Njótum kreppuárana framundan.
Í framhaldi af því hruni sem orðið hefur þá þarf nýja hugsun til að takast á við þann raunveruleika sem við okkur blasir og mun blasa við okkur næstu árin. Þó hlutirnir gangi ekki á sama hátt og þeir hafa gert síðasta áratuginn þá er samt engin ástæða til þess að við getum ekki notið lífsins. Við verðum bara að gera það með aðeins öðrum hætti.
Nú þegar heilu atvinnugreinarnar eru hrundar og víða búið að draga verulega saman seglin þá erum við í raun að horfa á gerbreytt samfélag. Þessi kreppa er ekki neitt sem hverfur á einu eða tveim árum. Við erum að horfa upp á fimm til tíu ár ef ekki lengur þar til við komumst upp á svipað stig og var 2004 til 2006. Nú er það verkefni hvers og eins að fóta sig í þessu nýja umhverfi og njóta þessara kreppuára sem framundan eru.
Sú "blessun" sem kreppan er að færa okkur er aukinn frítími. Ef fólk notar þennan frítíma sjálfum sér og öðrum til ánægu þá munu kreppuárin framundan geta orðið að bestu árum ævinnar.
Nú og á næstu árum munu margir hafa tíma til að stunda allskonar tómstundir, sport og útivist. Margt skemmtilegt "sportið" tengist líka því að spara sér matarinnkaup. Það mega allir fara út á sjó og veiða sér í matinn. Margir gera það og eiga alltaf "heimaveiddan" fisk í frystikistunni. Aðrir fara og rækta kartöflur og grænmeti. Fjöldi fólks er á ferðinni þessa dagana að tína svartbaksegg sem mörgum þykja lostæti. Einhverjir eru búnir að koma sér upp þrem, fjórum hænum og eru alltaf með ný egg með morgunmatnum. Svona má áfram telja möguleikana sem nú opnast fjölda fólks með auknum frítíma.
Þar fyrir utan gefst svo tími til ótal margs annars sem hægt er að njóta. Má minna á listasöfnin, menninguna og allar ólesnu bækurnar.
Já, við eigum að gera komandi kreppuár að bestu árum ævinnar. Nú þegar við höfum eignast aukinn frítíma þá eigum að grípa tækifærið og njóta þessa frítíma.
Mynd: Smábátahöfnin á Akranesi.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:17 | Facebook
Athugasemdir
Friðrik: þú segir nokkuð, ég held bara að þú hafir rétt fyrir þér, hugsanlega mun maður sjá til sólar fyrir vinnu, þau leinast víða tækifærin ef tími er á lausu, þakka þér fyrir þessa áhugaverðu færslu.
Magnús Jónsson, 24.5.2009 kl. 18:15
Ég er nú á því að margt jákvætt felist í kreppuástandi, þótt talsverð þjáning verði. Þjáningin er ávöxtur langana segir Búdda og við höfum svo sannarlega gefið þeim lausan tauminn og tapað augsýn á okkur sjálf og hin raunverulegu verðmæti. Nú ætti fólk að leggjast í að lesa Eckhart Tolle og læra að njóta þess sem er. Ég er þó ekki að mæla þeirri afturför bót sem vinstri grænskan, Steinki og Hanna bjóða. Þau vilja senda okkur í torfkofana aftur og undir lénsvald erlendra drottnara. Kannski verður ÞETTA tónninn í endurminningum komandi kynslóða, ef þau fá sínu fram.
Jón Steinar Ragnarsson, 24.5.2009 kl. 19:18
Frábær pistill Friðrik. Það er guðsblessun í kreppunni að dusta rykinu af þeim lífsgæðum sem kosta ekki peninga. Samvistir við fjölskyldu, vinátta, að njóta þess sem fagurt er og skemmtilegt eða þá bara gagnlegt.
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 25.5.2009 kl. 01:13
"Sú "blessun" sem kreppan er að færa okkur er aukinn frítími."
Lengi hef ég viljað að fólk gæti unnið minna ef það kysi. Veit ekki hverjir það voru sem vildu meina að fólk yrði oftast að vinna minnst 40 tíma (fólk fékk oft ekki vinnu nema samþykkja það), og kannski helst 70 - 100, allavega spurði mig enginn. Í ýmsum löndum eru 30 og 35 tímar taldir full vinna.
EE elle (IP-tala skráð) 25.5.2009 kl. 22:07