Miðvikudagur, 13. maí 2009
Eru Jöklabréfin aðallega í eigu Íslendinga?
Nú gengur sú saga fjöllunum hærra að eigendur Jöklabréfanna eru ekki einhverjir Austurískir tannlæknar heldur Íslendingar sem geymdu fé sitt í Íslensku bönkunum í Lúxemborg.
Margir Íslendinga náðu að senda óhemju fé úr landi inn á leynireikninga í Íslensku bönkunum í Lúxemborg. Íslensku bankarnir í Lúxemborg sáu um að ávaxta þetta fé og fengu m.a. bankana í löndunum í kring til að gefa út Jöklabréf í samstarfi við þá og Seðlabanka Íslands.
Þá eru sömu heimildir sem halda því fram að þessi Jöklabréfaútgáfa hafi í mörgum tilfellum verið að frumkvæði Seðlabanka Íslands. Bankinn hafi ekki viljað taka fé að láni erlendis sem honum bauðst á mjög hagstæðum kjörum því slík lán koma fram sem skuld hjá ríkinu. Ofurkapp hafi verið lagt í að sýna ríkissjóð skuldlausan og öllu til kostað þannig að svo mætti vera. Þess vegna hafi þessi rándýra leið verið farin til að útvega erlendan gjaldeyrir inn í landið. Fyrir 18 mánuðum voru útistandandi Jöklabréf fyrir meira en 700 milljarða. Raunveruleg skuldastaða ríkissjóðs var því í mínus upp á 700 milljarða. Jöklabréfin voru því notuð til að "falsa" raunverulega stöðu ríkissjóðs.
Þessi Jöklabréf hvíla nú eins og mara á samfélaginu. Gengið er skráð 50% of lágt vegna þeirra. Þar verður engin breyting á næstu 2 til 3 árin er spáð. Gríðarlega ströng gjaldeyrishöft eru í gildi vegna þessara Jöklabréfa. Þessi gjaldeyrishöft valda því að engir erlendir fjárfestar koma til landsins á meðan þessi höft eru í gildi.
Allar þessar hörmungar vegna Jöklabréfa sem eru að stærstum hluta ef ekki öllu leyti í eigu Íslendinga. Í mörgum tilfellum er þetta illa fengið fé, fé sem svindlað hefur verið út úr þessu samfélagi þar sem menn hafa hirt féð úr landi en skilið skuldirnar eftir. Skuldir sem með einum eða öðrum hætti lenda á almenningi að borga.
Í þessari stöðu er bara einn leikur. Neitum að borga þessi Jöklabréf. Borgum ekki krónu meir af þessum Jöklabréfum. Afskrifum þessi bréf og afléttum gjaldeyrishöftunum. Þá mun krónan ná jafnvægi á tveim til þrem mánuðum í stað tveggja til þriggja ára. Ef gengið lagast þá mun verðbólgan strax lækka og þá nun verðtryggingin á innlendu lánunum hætta að hækka.
Mynd: Á leið upp að Hofsjökli, Sultartangalón og Hekla.
Það versta mögulega afstaðið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:48 | Facebook
Athugasemdir
Við eigum að gera röfu um nafnabirtingu eienda þeirra Algerlega skýlaus krafa !
Alma Jenny Guðmundsdóttir, 13.5.2009 kl. 00:31
Það hefur lengi verið mjög dularfullt að fréttamönnum hafi ekki tekist að draga það upp úr yfirstjórn Seðlabankans eða ráðherra hverjir eru eigendur jökla- og krónubréfanna vegna þess að orðrómur um að eigendur þeirra séu Íslendingar hefur flogið fyrir í marga mánuði. Nefnd hafa verið nöfn mannanna sem bera ábyrgð á hruni bankanna og efnahagskerfisins. Hvern er verið að vernda?
Er sagan um að eigendur jökla- og krónubréfa séu útlendingar e.t.v. jafnsönn og sagan um erlendu fjárfestana á Íslandi sem reyndust vera íslenskir fjárglæramenn sem fluttu peninga frá Íslandi og síðan aftur inn í landið undir annarra nöfnum en þeirra eigin, sbr. emírinn af Kuwait eða var hann frá Óman eða Arabíska furstadæminu? Hann var a.m.k. lygilega sáttur við að tapa "peningunum sínum"!
Eru íslensku fjárglæframennirnir e.t.v. að sjúga síðasta blóðdropann úr Íslendingum undir dulnefninu "erlendir eigendur jökla- og krónubréfa"?
Helga (IP-tala skráð) 13.5.2009 kl. 01:00
Þetta er eitt þeirra leyndarmála sem þarf að svipta hulunni af núna strax! Við eigum heimtingu á að vita hverjir eigendur þessara bréfa eru vegna þeirra áhrifa sem þau setja á afkomu okkar.
Rakel Sigurgeirsdóttir, 13.5.2009 kl. 01:57
Ansi hreint merkilegt ef þetta er satt.
Gústaf Hannibal (IP-tala skráð) 13.5.2009 kl. 02:41
Tek undir það Rakel. Það er mikilvægt að koma þessu á hreint.
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 13.5.2009 kl. 03:22
Ps. Friðrik ég setti þetta inn á bloggið hjá mér. Finnst þetta mjög athyglisvert. Ég er nýlega búin að hringja í seðlabankann og spyrjast fyrir um þessi bréf. Sérfræðingurinn sem ég talaði við sagði að útlendingar ættu þessi bréf.
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 13.5.2009 kl. 03:24
Hvernig geta menn skuldbundið heila þjóð á þennan hátt? Ekki gaf alþingi samþykki sitt fyrir þessum gjörningum sem er forsenda þess að hægt sé að skuldbinda þjóðina sbr. stjórnarskránna sjálfa og ekki sjást þess nein merki í fjárlögum að reiknað sé með útgjöldum v/jöklabréfa eða hvað? Fékk seðlabankinn þetta fé við útgáfuna en ekki einhver annar? Til að átta sig á þessum þyrfti að ligga fyrir útskýring á útgáfu þessara bréfa frá upphafspunkti til lokakaupenda. Hvar getur maður nálgast slíkt?
Arinbjörn Kúld, 13.5.2009 kl. 06:34
Það er mjög grunsamlegt að ekki hefur ennþá verið unnt að upplýsa alla þætti varðandi jöklabréfin. Það er eins og ekki sé vilji til að jafna málin heldur nota þau sem verkfæri til að halda genginu niðri og taka toll af útflutningstekjum landsins. M.ö.o. verkfæri til að að halda atvinnulífinu og heimilunum í skuldakreppu. Kreppan á Íslandi er fyrst og fremst gengiskreppa sem orsakast af gjaldþroti þriggja fyrirtækja og svo þessum áhrifum jöklabréfanna (og annarri skuldasöfnun). Hér eru nokkrar spurningar:
1) Hverjir eru 20 stærstu eigendur jöklabréfa? Svar óskast frá Seðlabanka.
2) Hverjir eru 20 stærstu útgefendur jöklabréfa? Svar óskast frá Seðlabanka.
3) Hversu mikið af jöklabréfum eiga lífeyrissjóðirnir samanlagt og hverjir eru 10 stærstu eigendurnir þar? Svar óskast frá Samtökum lífeyrissjóða.
4) Eignir bankanna í erlendum gjaldeyri eru meir en skuldbindingar. Eignir jöklabréfaeigenda eru í krónu en skuldbindingar í erlendum gjaldeyri. Er ekki unnt að skipa á þessu þannig að þrýstingurinn hverfi?
5) Hversu miklar upphæðir á mánuði fara úr landi í vaxtagreiðslur vegna jöklabréfa?
6) Er bundið í skilmála AGS hvernig fara skuli með jöklabréfin?
Þorsteinn Helgi Steinarsson, 13.5.2009 kl. 08:14
Málið er einfalt frá mínum bæjardyrum. Íslenska ríkið lítur ekki við jöklabréfum þar sem eigendur eru óþekktir. Forsenda þess að þau séu greidd eru upplýsingar um eignarhald. Ef eigandi tiltekins jöklabréfs er síðan íslenskur braskari skal á því tekið.
Kveðja.
Þorvaldur Þórsson (IP-tala skráð) 13.5.2009 kl. 09:23
Sæll Arinbjörn Kúld
Ég hef lengi verið áhugamaður um þessi Jöklabréf og hvernig þau hafa rústað hér efnahagskerfinu á síðustu árum og af hverju í ósköpunum menn hafa valið að fara þá dýrustu leið sem hægt var að fara til að fá erlendan gjaldeyrir inn í landið. Mikil er ábyrgð þeirra manna sem stóðu að útgáfu þessara Jöklabréfa og því vaxtaokri sem þau hafa innleitt hér á landi. Vaxtaokri sem lent hefur á almenningi og fyrirtækjum í landinu. Vaxtaokri en engin önnur þjóð í vestur Evrópu hefur þurft að búa við.
Í febrúar skrifaði ég grein sem heitir "Af hverju á Íslenska þjóðin að borga upp Jöklabréf fyrir hundruð milljarða?" Þar er hægt að sjá ástæðu þess af hverju þeir sem eiga Jöklabréfin eru ekki að tapa sínu fé eins og aðrir lánadrottnar gömlu bankanna
Friðrik Hansen Guðmundsson, 13.5.2009 kl. 09:50
Þakka þér að koma þessu á framfæri. Með þessu verður þjófnaðurinn fullkomnaður. Þjóðin þrautpínd til að skaffa gjaldeyri fyrir útrásargengið. Þetta skal upp á borð. Frábært hjá þér og haltu okkur upplýstum.
Sigurjón Benediktsson, 13.5.2009 kl. 10:11
Ég þekki klára konu sem vill láta setja lög - strax - um að ekki verði greitt meira af þessum bréfum fyrr en réttir eigendur gefa sig fram undir nafni.
Ætla að styðja þá hugmynd.
Og þakka FHG fyrir að vekja máls á þessu.
Hún er ekki einleikin leyndin sem hvílir yfir þessum hörmungarviðbjóð.
Það verður engin sátt meðal þeirra sem nú er ætlað að borga þessi ósköp, fyrr en þetta er upplýst.
Þetta er orðið eins og lénsveldi hérna, fjandinn hafi það.
Þórdís Bachmann, 13.5.2009 kl. 10:44
já, hvernig væri að fá svar við þessu. En það þarf sennilega að kafa djúpt til að komast að hinu sanna í málinu! Vaknið fréttamenn lýðveldisins og spyrjið t.d. fjármálaráðherran áletinna spurninga um málið!
Haraldur Aðalbjörn Haraldsson (IP-tala skráð) 13.5.2009 kl. 11:09
Er rannsókn í gangi á þessum jöklabréfum? Takk fyrir pistilinn, Friðrik.
EE elle (IP-tala skráð) 13.5.2009 kl. 11:19
Takk fyrir þetta Friðrik. Hafi ég haft einhverjar efasemdir um sakleysi útrásartröllana eru þær nú horfnar. Verst er að nú fæ ég álíka efasemdir um heilindi stjórnenda seðlabankans og æðstu stjórnar ríkisins á þeim tíma. Eru þeir jafnsekir um landráð og útrásarvíkingarnir?
Arinbjörn Kúld, 13.5.2009 kl. 11:27
Frá 2004 til 2008 jukust vaxtagjöld þjóðarbúsins úr 3.8% í 34.1% af vergri landsframleiðslu.
Það er ekki trúverðugt að réttnefnd "vaxtagjöld" útskýri aukninguna.
Hitt er líklegra að innlendir aðilar hafi flutt út fjármagn undir fölsku flaggi.
Gunnar Tómasson (IP-tala skráð) 13.5.2009 kl. 14:14
Er ekki nóg að tala dálítið um þetta og taka svo fyrir næsta mál á dagskrá? Það er einkenni á öllum þeim lausatökum sem einkennt hafa vinnubrögð stjórnsýslunnar allt frá því fyrir upphaf bankahrunsins. Strax fyrsta daginn var talað um að öll mál yrðu rannsökuð og "hverjum steini velt við". Fyrstu viðbrögðin voru að fækka starfsmönnum efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra verulega í stað þess að fjölga þeim.
Öllum var ljóst að bankarnir tóku stöðu gegn krónunni ársfjórðungslega til að falsa uppgjörið. Þetta kom hart niður á þeim sem skulduðu erlend lán og seðlabankastjóri sagði sig "gruna" að þetta væri tilfellið. Var þetta rannsakað og hver var niðurstaðan?
Bentu skipanir á fólki í skilanefndir bankanna til þess að til þess væri ætlast að hverjum steini yrði velt við?
Árni Gunnarsson, 13.5.2009 kl. 14:50
Takk fyrir að vekja athygli á þessu. Hef líka heyrt þetta út undan mér en spurningin er;
Af hverju er ekki hægt að komast að hinu sanna í málinu ?
Eru þetta kannski aðilar sem skulda skrattan ráðalausan hér heima og fá svo senda miljarða í vaxtagreiðslur til útlanda ?
Er ekki skýlaus krafa okkar að fá botn í málið og það strax ?
Sigrún Unnsteinsdóttir (IP-tala skráð) 13.5.2009 kl. 15:49
Friðrik,
Athyglisverðar umræður. Eitt sem ég ef aldrei fengið á hreint er hvernig þessi Jöklabréf fengu Seðlabanka ábyrgð sem nú er orðin ríkisábyrgð? Hvenær og hvernig gerðist þetta? Af hverju eru þessi bréf ekki í gömlu bönkunum eins og aðrar kröfur?
Andri Geir Arinbjarnarson, 13.5.2009 kl. 16:42
Andri, lestu athugasemd númer 10 hér fyrir ofan og farðu inn á tenginguna þar. Þar er skýringin á því af hverju lánadrottnarnir sem gáfu út þessi Jöklabréf eru ekki að tapa sínum kröfum.
Friðrik Hansen Guðmundsson, 13.5.2009 kl. 17:35
Eins má benda á þessa grein Gylfa Magnússonar á Vísindavefnum, Hvað eru Jöklabréf.
Þessi grein hans Gylfa skýrir ekki hvernig þessi viðskipting ganga nákvæmlega fyrir sig. Það er flókið og langt ferli hvernig evrur og krónur fara á milli "tannlæknanna" í Lúxemborg og hins erlenda banka annarsvegar og hins vegar kaup þessa erlenda banka á ríkisskuldabréfum þ.e. íslenskum krónum fyrir evrur. Erlendi bankinn fær síðan Seðlabankann eða íslenska bankann til að fjárfesta þessum íslensku krónum hér heima og ávaxta þær. Þær fjárfestingar eru eingöngu í ríkistryggðum fjármálaafurðum, víxlum, innlánsreikningum og húsnæðisbréfum. Íslenski bankinn tekur samhliða útgáfu Jöklabréfanna lán í evrum og lætur erlenda bankann hafa það lán í staðinn fyrir Íslensku krónurnar. Erlendi bankinn ávaxtar þessar evrur fyrir Íslenska bankann.
Þessi lýsing hér er styttri útgáfan á því hvernig þetta fer nákvæmlega fram. Bankarnir fá töluverð þjónustugjöld fyrir að höndla með alla þessa pappíra sem ganga á milli manna.
Friðrik Hansen Guðmundsson, 13.5.2009 kl. 17:57
Þessi kvittur um eigendur Jöklabréfanna er búinn að vera all lengi á kreiki sbr. þessa færslu sem skrifðu var 19. mar. sl.
Sigurjón Þórðarson, 13.5.2009 kl. 21:27
Hættum öll að borga af lánum og reikninga opinberra stofnana þar til leynd verður létt af öllum fjárglæpa-leyndómálum. Það er það eina sem almenningur getur gert til að þrýsta á stjórnkerfið.
Viðar Ingvason (IP-tala skráð) 13.5.2009 kl. 21:48
Ég bloggaði smávegis um þennan möguleika 9. apríl. Sjá hér.
Ágúst H Bjarnason, 13.5.2009 kl. 22:30
Hér er misskilningur á ferðinni eins og oft áður. Það er engin ríkisábyrgð eða Seðlabankaábyrgð á jöklabréfum. Það eru erlendir aðilar sem skulda þessa peninga, í langflestum tilvikum öðrum erlendum aðilum. Listi yfir útistandandi jöklabréf og útgefendur þeirra eru hér á bonds.is, þar eru líka ýmsar aðrar upplýsingar aðgengilegar um þessar útgáfur frá upphafi.
Vandinn varðandi gjaldeyrishöftin er sá að útgefendur bréfanna þurfa að standa skil á krónum, með vöxtum, á gjalddaga bréfanna. Til þess að tryggja sér íslenska vexti hafa þeir því fjárfest í íslenskum ríkisskuldabréfum (keypt þau af ríkinu), sem þeir þurfa svo að selja á gjalddögum. Þá fá eigendur jöklabréfanna afhentar krónur, sem þeir hafa engan áhuga á að eiga og vilja skipta þeim í evrur og komast burt úr krónunni. Þetta er það sem seðlabankastjórinn hefur kallað "snjóhengjuna" sem hann vill bræða burt smám saman svo við fáum hana ekki í hausinn.
Svo mega menn ekki gleyma að jöklabréfin eru tilkomin vegna hávaxtastefnu Seðlabankans, og þenslu vegna stóriðjuframkvæmda, á árunum 2003-2007. Útrásarvíkingarnir blessaðir áttu þarna takmarkaðan hlut að máli.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 14.5.2009 kl. 00:34
P.S. Svo bendi ég á eldri færslu Friðriks um sama mál, og sérstaklega athugasemdir við hana. Óþarfi að endurtaka það sama hér aftur.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 14.5.2009 kl. 00:38
Hér er engin misskilningur á ferðinni. Eðli þessara viðskipta felast í því, eins og þú segir, að erlendi aðilinn fjárfestir krónunum sem hann eignast vegna þessara viðskipta í ríkistryggðum fjármálaafurðum. Stæði þeim ekki þessi ríkistryggðu fjármálaafurðir til boða, ríkisskuldabréf, ríkisvíxlar, ríkistryggðir innlánsreikningar eða húsbréf þá væru engin Jöklabréf. Að fullyrða eins og þú gerir að það sé engin ríkisábyrgð á Jöklabréfunum er því bæði rétt og rangt.
Það er rétt að því leiti að ríkið tryggir ekki sérstaklega sjálf bréfin.
Það er rangt að því leiti að krónurnar sem útlendingarnir eignast með þessum viðskiptum þeir geyma þær í eitt til fjögur ár í ríkistryggðum fjármálaafurðum sem gefa þeim þessa háu vexti.
Um annað sem þú þarna skrifar er ég sammála, það er allt rétt og í samræmi við það sem fram kemur hjá mér.
Friðrik Hansen Guðmundsson, 14.5.2009 kl. 11:54
OK, þá erum við sammála um efnisatriði málsins.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 14.5.2009 kl. 12:10
Það er ágætt að þetta komi fram Vilhjálmur. Þessi misskilningur er víða í þjóðfélaginu og þar á meðal hjá mastersnemum í hagfræði. Í flestum tilfellum eru þetta erlendir bankar sem eru útgefendur bréfana.
Guðmundur Pétursson, 15.5.2009 kl. 01:22
Friðrik,
Ef Íslendinga eiga þessi bréf er máið þá ekki pólitískt? Hvergi í heiminum skiptir þjóðerni í fjárfestingum meira máli en á Íslandi. Þetta er hættulegt.
Andri Geir Arinbjarnarson, 15.5.2009 kl. 06:40