Miðvikudagur, 18. mars 2009
Gríðarleg vonbrigði að ekki var skipað faglegt bankaráð yfir Seðlabankanum.
Að lesa um skipun þessa fólks í bankaráð Seðlabankans urðu mér mikil vonbrigði. Ég var svo grunnhygginn að halda, eftir allt sem á undan hefur gengið, að stjórnvöld myndu skipa fagfólk í bankaráð Seðlabankans.
Að skipa fólk í bankaráð Seðlabankans sem hefur ekki gripsvit á bankastarfsemi er á þessum tímum bara skelfilegt.
Af hverju voru ekki öll sæti bankaráðsins fyllt af sérfræðingum sem þekkja til reksturs Seðlabanka, sérfræðingum í alþjóðlegri fjármálastarfsemi og sérfræðingum um bankastarfsemi almennt? Nóg er til að slíku fólki.
Af hverju er á þessum tímum ekki leitað til erlendra óháðra sérfræðinga, tveggja eða þriggja og þeim boðin seta í stjórn bankans?
Hvað hefur stjórnmálamaður á áttræðisaldri sem hætti fyrir áratug í pólitík fram að færa í bankaráði Seðlabankans í dag? Er hann ekki vel kominn með sín eftirlaun og hægt að fá sérfræðing, helst erlendan í hans stað?
Þessi skipun í bankráðið veldur miklum vonbrigðum á sama hátt og skipan í stjórn Fjármálaeftirlitsins. Fátt hefur breyst hjá þingmönnum okkar þó allt hafi breyst í samfélaginu. Stjórnarasetu í þessum stjórnum er úthlutað eins og kjötbeinum til vina og vandamanna eins og ávallt áður.
Algjörlega vanhæfar pólitískt skipaðar stjórnir Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins hrökkluðust frá völdum fyrir nokkrum vikum. Þrjár kynslóðir Íslendinga þarf til að borga skaðann sem Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið ollu undir stjórn þessara manna.
Ný ríkisstjórn hefur ekkert lært og skipar á ný pólitískt bankaráð yfir Seðlabankanum og Fjármáleftirlitinu. Helreið okkar Íslendinga ætlar engan endi að taka. Búið er að ráða nýja reiðmenn til starfans, alla af sama sauðahúsi og þeir sem fyrir voru. Reiðlagið verður það sama, ekkert hefur breyst og helreiðin mun halda áfram.
Þetta eru gríðarleg vonbrigði.
Mynd frá Snjóölduvatni, Veiðivötnum
Nýtt bankaráð Seðlabankans | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 20.3.2009 kl. 00:18 | Facebook
Athugasemdir
Kæri Friðrik, veistu ekki að það skiptir máli hver það er sem ræður. Allt sem Jóhanna gerir er "faglegt", þú veist að hún þolir ekki ófagleg vinnubrögð, s.s. að ráða pólitíska samherja, vini eða vandamenn. Þegar Jóhanna sér um að ráða eða skipa fólk þá er það "faglega" gert, aðferðafræðin skiptir ekki máli, jafnvel þó hún sé sú sama sem hún var margbúin að gagnrýna og hafna þegar aðrir sáu um framkvæmdina, en þegar málið snýr að henni þá er það allt á "faglegu" nótunum.
Kær kveðja,
Tómas Ibsen Halldórsson, 18.3.2009 kl. 01:31
Það að krefjast þess að auglýst sé eftir Seðlabankastjóra en að skipa bankaráð pólitískt er séríslensk vitleysa og tvískynungur. Engin önnur lönd auglýsa eftir Seðlabankstjóra eins og verið sé að auglýsa eftir almennum starfsmönnum. Besta og hæfasta fólkið svarar ekki auglýsingum. Að fá ekki erlenda aðila inn í bankaráð sem hafa sambönd við erlenda banka og geta byggt upp traust og trúverðugleika erlendis sýnir vankunnáttu. Ef íslenskir stjórnmálamenn ætluðu sér að ráða fólk eftir faglegu ferli mundu þau fá sér fagfólk til að stjórna því ferli. En það er eitt sem sameinar Jóhönnu, Ingibjörgu, Geir, Davíð, Steingrím og aðra ráðherra og það er að halda fagfólki frá ráðningu hjá ríkinu. Guð hjálpi okkur ef þar kæmi að fólk með sjálfstæða hugsun og skoðanir. Það þarf ekki annað en að skoða hvernig allir íslenskir stjórnmálaflokkar velja sitt fólk! Ekki eftir reynslu, getu og kunnáttu heldur á lokaðri vinsældarsamkomu sem kallast "prófkjör", eins konar "idol" skrípaleikur sem viðheldur gömlum valdastrúktúr og meðalmennsku. Þessi kreppa á eftir að verða mun erfiðari og lengri fyrir Íslendinga því aðeins mannauður sem sem kemst í gegnum flokkssíurnar fær stöður hjá ríkinu.
Andri Geir Arinbjarnarson, 18.3.2009 kl. 08:20
Aldur mannsins sem er "á áttræðisaldri" er ekki hindrun. Hættum að vikja eldra fólki til hliðar vegna aldurs. Eldra fólk er oftast hæfasta fólkið með víðtækustu þekkinguna. Það er mannréttindabrot að mismuna fólki þannig.
EE elle (IP-tala skráð) 18.3.2009 kl. 11:33
Hins vegar er ég þeirrar skoðunar að allir í bankaráði Seðlabankans og allir Seðlabankastjórar ættu að vera faglega skipaðir og bara faglega skipaðir. EKki pólistískt neitt. En höldum aldri mannsins sem er 70 + utan við hvað er ófaglegt.
EE elle (IP-tala skráð) 18.3.2009 kl. 11:40
Ég tek undir þennan pistil þinn að mestu Friðrik.
Ég vara þó við oftrú á sérfræðingum, sérstaklega í hagfræði. Einnig vil ég taka undir orð EE elle, sem oft fer með rétt mál þótt tali undir dulnefni.
Loftur Altice Þorsteinsson, 18.3.2009 kl. 11:44
Ok, kallið mig bara Elle ef þið endilega viljð. En takk Loftur. Sjálfur ferðu oft með rétt mál og sérstaklega finnst mér það hvað varðar gengi og gjaldmiðil.
EE elle (IP-tala skráð) 18.3.2009 kl. 11:58
þó svo ég sé líka á móti því að fólk sé útilokað vegna aldurs, þá er aldur ekkert sem hjálpar, sorglegt staðreynd en að fólki fer hrakandi með aldrei, að halda því fram að eldra fólk sé oftast hæfasta fólkið með víðtækustu þekkinguna, er satt upp að vissu marki, það ræður enginn 105 ára gamlann mann af elliheimili í stöður hjá stofnun sem skiptir jafnmiklu máli og seðlabanki íslands. eftir ákveðinn aldur fer hæfni fólks hrakandi, sorglegt, en staðreynd þrátt fyrir það.
og að einhver vari við oftrú á sérfræðingum, sérstaklega í hagfræði, sammála því, en oftrú og svo hins vegar að hafa hæft fólk, tveir mismunandi hlutir, þú þarft að vita um hvað hlutirnir snúast, að halda því fram að gamalt fólk viti eitthvað um málefni seðlabankans vegna þess eins að það eru gömul.
Egill, 18.3.2009 kl. 15:51
Egill, enginn að ofan hélt því fram að gamal fólk vissi eitthvað um málefni Seðlabankans vegna þess að það er gamalt. Mæli með að þú lesir allt upp á nýtt. Það var verið að tala um mannréttindi og hæfi og þekkingu eldra fólks. Og ég er sammála að eldra fólk sé oft eða oftast hæfast og með mestu þekkinguna. Hann er ekki heldur 105 ára.
Jón (IP-tala skráð) 18.3.2009 kl. 16:25