Mánudagur, 16. mars 2009
Milljónatjón er gæðingur fótbrotnar og knapi slasast á hættulegum reiðstíg í Mosfellsbæ.
Um miðjan dag á laugardaginn fór ég í reiðtúr með Kristjáni bróður mínum frá hesthúsahverfinu í Mosfellsbæ og út að Blikastaðanesi. Út á Blikastaðanes liggur nýlegur reiðstígur sem Mosfellsbær lagði fyrir um tveim árum. Þetta er vinsæl reiðleið meðal hestamanna sem halda hesta sína í þessu hesthúsahverfi og er hún mikið farin.
Síðasta laugardag gengu yfir landið hlýindi með mikilli rigningu. Á miðri leið út á nes missti klárinn sem ég var á annan afturfótinn niður í gegnum mölina á reiðstígnum. Við vorum þá að fara yfir ræsi og héldum kannski að það væri að renna úr ræsinu í þeim vatnavöxtum sem var í öllum smálækjarsprænum þennan dag. Við hægðum því á för okkar þegar við fórum yfir önnur ræsi sem urðu á okkar leið. Þegar við vorum komnir lang leiðina út á nes þá fælist við hesturinn sem ég var með í taumi, en ég reið fremst, og um leið sé ég að klárinn sem Kristján teymdi hleypur á harða stökki fram hjá mér.
Ég snéri við og sé hvar Kristján stendur á stígnum og horfir á vinstri framfót á reiðhesti sínum. Hesturinn hélt upp framfætinum en fóturinn dinglaði laus tíu sentímetrum fyrir ofan hnéð. Fóturinn hafði kubbast í sundur. Knapi og hestur voru allir ataðir út í sandi og möl. Ég sá seinna að það var möl ofaná hnakknum.
Það sem gerst hafði var það sama og gerst hafið fyrir klárinn minn fyrr í ferðinni en hér hafði afturfóturinn ekki farið niður í gegnum mölina heldur annar framfóturinn. Skipti engum togum að hesturinn fellur niður að framan, kubbar í sundur á sér framfótinn og knapi og hestur fara kollhnís. Kristján taldi að hann að væri með brotið hné eða hefði slitið þar öll krossbönd.
Guði sé lof fyrir GSM símana. Hjálpsamir hestamenn úr hesthúsahverfinu voru mættir innan stundar og dýralæknir. Sá upplýsti að þetta væri ekki fyrsta slysið sem hefði orðið á þessum stað. Fyrir ári síðan þá urðu knapi og hestur fyrir því sama einmitt þarna. Hesturinn fótbrotnaði ekki en hann heltist samt það illa að hann náði sér ekki og það varð að fella hann.
Nú er komið í ljós að Kristján er minna skaddaður á hné en haldið var í fyrstu, samt illa meiddur.
Mikið lán var að hann slasaðist ekki verr. Mikill gæðingur er fallinn.
Nýr reiðstígur á hreint frábærri leið, sem liggur rétt ofan við fjöruna í Leirvoginum út á Blikastaðanes er dauðagildra í leysingum og rigningartíð. Þessari reiðleið verður að loka þegar þannig viðrar þar til búið er að styrkja og laga þennan reiðstíg. Ef ekki, þá verða þarna fleiri slys og það mun enda með því að þessi stígur, réttnefndur "Leggjabrjótur", verður ekki bara hestum að fjörtjóni.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 17.3.2009 kl. 15:42 | Facebook
Athugasemdir
Hörmulegt að heyra af þessu slysi og þennan stíg verður að laga svo ekki verði fleiri óhöpp. Skilaðu kveðju kveðju minni til bróður þíns. Hann syrgir auðvitað sinn góða hest og vin. Vona að hann verði fljótt jafngóður af sínum líkamlegu meiðslum
Hólmfríður Bjarnadóttir, 16.3.2009 kl. 23:14
Hvernig stendur á því, að í hvert sinn sem hross slasast eða hleypur í veg fyrir bíl og drepst, breytast þeir allir í milljóna klára og lúxus gæðinga? Þetta hefur nær undantekningalaust verið svona frá því ég man eftir mér. Mér þykir þetta óhapp skelfilegt, en vekur mig til umhugsunar. Hver fer á svona gæðingi í þessari færð? Ég bara spyr.
Davíð Löve., 17.3.2009 kl. 02:03
Takk Hólmfríður, kem því til skila.
Menn vilja gjarnan hreyfa reiðhesta sína minnst einu sinni í viku, helst oftar. Reiðleiðir umhverfis hesthúsahverfi eru nær undantekningalaust mjög öruggar og þær hafa menn riðið daglega áratugum saman. Helsta hættan fyrir reiðmenn stafar af hjólastígum sem bæjaryfirvöld leggja oft við eða hjá reiðstígum. Undantekningalaust fælast ungir óvanir hestar við þegar hjólreiðarmaður kemur skindilega brunandi á móti þeim. Konur með barnavagna eru einnig stórhættulegar í augum sumra hesta. Þannig verða slysin oftast á reiðleiðum í kring um hesthúsahverfin.
Hér er hins vegar um það að ræða að stígurinn gefur sig undan hófum hestanna þegar þannig viðrar. Þarna er um að ræða nýjan stíg, malborinn, sem liggur fallega í landinu á fallegri leið. Hann er mikið sóttur og mikið riðinn alla daga ársins.
Við þær aðstæður sem þarna voru var snjólaust, hláka og rigning. Tveir hestanna stíga niður úr mölinni sem er á stígnum. Annar dettur og fótbrotnar. Þegar fréttist af svipuðu slysi á sama stað fyrir ári síðan þá er ljóst að þessi reiðstígur er ekki eins og hann á að vera.
Friðrik Hansen Guðmundsson, 17.3.2009 kl. 10:46