Fimmtudagur, 5. mars 2009
Böðlar bankana blóðugir upp að öxlum, brosandi út að eyrum og Alþingi lítur undan.
Forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar "beina þeim tilmælum" til banka að þeir mildi innheimtuaðgerðir.
Fréttir berast hins vegar um samfélagið að þar sé í engu slakað á. Þvert á móti eru bankarnir að herða tökin. Þeir eru sem aldrei fyrr að hirða af fólki fasteignir og fyrirtæki. Þeir virðast láta sig það litlu varða hvað stjórnmálamennirnir eru að segja.
Þeir nota tækifærið nú til hins ýtrasta að féfletta almenning og reyna með öllum ráðum að ná til sín eins mikið af eignum og þeir geta áður en gengið styrkist of mikið. Nú sjá þeir tækifæri að ganga að viðskiptavinum sínum meðan bankakerfið er fjárvana af því að ríkið hefur enn ekki lagt inn í það þessar 385 milljarða og því hvergi neina fyrirgreiðslu að fá.
Böðlar bankana eru blóðugir upp að öxlum, brosandi út að eyrum og Alþingi lítur undan.
Þó bankastjórarnir hafi verið látnir fara hefur í engu verið hróflað við innviðum bankana. Í bönkunum er meira og minna allt sama fólkið að sýsla sem stjórnendur og millistjórnendur og var í bönkunum þegar þetta fólk sigldi samfélaginu okkar í strand. Ásamt bankastjórunum ber þetta fólk alla ábyrg á mesta bankahruni og í framhaldi efnahagshruni sem gengið hefur yfir land í Evrópu frá lokum seinni heimstyrjaldarinnar. Nú er þetta fólk að ganga kerfisbundið að almenningi í landinu og er að svipta það fyrirtækum, fasteignum og bílum, öllu fémætu sem það kemur höndum sínum á í nafni bankana.
Eitthvað er búið að hreinsa út úr Kaupþingi en ég spyr á ekki að skipta út öllum stjórnendum í þessum bönkum? Eftir hverju er verið að bíða? Er tjónið sem þetta fólk hefur þegar valdið Íslenskri þjóð ekki þegar orðið nóg?
Holtasóley dagsins frá Norræna Íhaldsflokknum fær Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta. Stelpurnar okkar lögðu á Algarve-bikarmótinu eitt allra besta kvennalandslið heims í fótbolta undanfarinna ára, Norðmenn. Það eru svona sigrar sem blása okkur þjóðarstolt í brjóst og hvetja okkur öll til að takast af djörfung og dáð á við þau verkefni sem við erum að fást við hvert og eitt. Ef stelpurnar gátu þetta þá hljótum við að geta það líka.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:20 | Facebook
Athugasemdir
Efalaust er hárrétt að bankarnir séu að herða tökin við innheimtuaðgerðir. En svo frásagnir þar um hafi eitthvert vægi er nauðsynlegt að koma með dæmi, studd einhverjum gögnum, til dæmis bréfum frá bönkum og innheimtufyrirtækjum. Ella verða frásagnirnar algjörlega máttlausar og hreinlega vatn á myllu þeirra sem nú rukka af röggsemi.
Kveðja,
Sigurður Bogi
Sigurður Bogi Sævarsson (IP-tala skráð) 5.3.2009 kl. 10:20
Sæll Friðrik,
Bankarnir eru núna í ríkiseign og skipaðir pólitískum bankaráðum. Það skyldi aldrei vera pólitískt bragð af þessum hertu innheimtuaðgerðum? Bankaráð og bankastjóri geta aldrei skýlt sér á bak við almenna bankastarfsmenn eða millistjórnendur.
Andri Geir Arinbjarnarson, 5.3.2009 kl. 11:32
Holtaþokuvælið um að "bjarga heimilunum í landinu" er orðið óþolandi og móðgun við íslenska menningu að framlengja þá áþján eina ofan á alla alvöru málsins. Þessu verður að fara að linna með ákvörðunum stjórnvalda um aðgerðir sem fólki eru skiljanlegar.
En hún er hlýleg myndin af torfbænum og vekur upp minningar frá því skeiði sögu okkar þegar aðkallandi mál voru afgreidd á hreppsfundum og síðan boðið í nefið.
Aldrei var minnst á "fjandsamlegar yfirtökur" þó stungið væri undan bóndanum á næsta bæ. Og ómerkilegi svikahrappar í viðskiptum voru hýddir ef þeir létu sjá sig aftur í kirkjusókninni en ekki kallaðir útrásarvíkingar.
Árni Gunnarsson, 6.3.2009 kl. 00:26
Þessi mynd var tekin fyrir fjórum árum fram á Kjálka á leið inn að Merkigili.
Friðrik Hansen Guðmundsson, 6.3.2009 kl. 00:50
Fyrst hægt var að setja neyðarlög vegna greiðsluerfiðleika bankanna, hvers vegna er þá ekki hægt að setja neyðarlög um greiðsluvanda heimilanna og fyrirtækjanna ?
Við eigum að hjálpast að í þessum hremmingum og það á við um bankana og aðrar lánastofnanir líka. Þeir geta haft veruleg áhrif í að létta á þjóðinni. Þeim mun fjölga enn sem ekki geta staðið í skilum og vandséð hverjum er greiði gerður með aðgangshörku eins og þeirri sem lánastofnanir sýna, þrátt fyrir ástandið. Innheimtustofnanir og lögfræðingar fitna eins og púkinn á fjósbitanum og virðast helst vera þeir aðilar sem minnst kveinka sér um þessar mundir.
Ef lánastofnanir gætu komið þeim eignum sem þeir ganga að, í verð erlendis þá væri hægt að skilja þessi vinnubrögð. Þá væri í það minnsta að koma gjaldeyrir inn í landið og hið besta mál. En þannig er það ekki. Þessar eignir verða í eigu bankanna eða þeirra lánastofnanna sem lánað hafa til íbúðakaupa, og auka aðeins á þann kostnað sem þjóðfélagið ber, að stórum hluta af þeirra völdum ( tryggingar, skattar, viðhald oflr. ). Það er kostnaður sem þjóðin verður á endanum látin borga með einum eða öðrum hætti, eins og við vitum, ekki þeir einstaklingar eða fyrirtæki sem annars myndu standa straum af þeim kostnaði
Ég vildi óska þess að menn bæru gæfu til að hugsa þessi mál upp á nýtt og finna leiðir sem þjóðin, ekki bara lánastofnanir, bankar, lögfræðingar og innheimtufyrirtæki, kæmu að bestum notum.
Hjalti Tómasson, 6.3.2009 kl. 21:30