Sunnudagur, 22. febrúar 2009
Aðförin að forsetaembættinu - Embættið svipt málfrelsi og er í stofufangelsi á Bessastöðum
Þetta var ekki alltaf svona. Stjórnarskráin gerir ekki ráð fyrir að landinu eigi að stjórna með þessum hætti. Hún hefur bara verið túlkuð svona af þeim sem hafa farið með framkvæmdavaldið síðustu fjóra áratugina eða svo.
Ég vil gera þrennar breytingar á Stjórnarskránni:
- Ég vil breyta orðalagi í 13 greininni og bæta við einni setningu til áréttingar þeirri fyrri. Með þeirri breytingu þá breytist allt.
- Ég vil að Forsetinn skipi dómara, ekki dómsmálaráðherra.
- Ég vil að ráðherrar segi af sér þingmennsku og missi atkvæðisrétt á Alþingi verið þeir ráðherrar.
Ef við gerum þessar breytingar á Stjórnarskránni þá breytum við öllu. Framkvæmdavalið missir mikil völd. Völd sem framkvæmdavaldið hefur sölsað undir sig. Þau völd flytjast til Forseta og Alþingis. Því meira sem við aukum völd Forseta því meira aukum við beint lýðræði í landinu.
Nú skulum við í þessari umræðu ekki horfa til þeirra persóna sem í augnablikinu gegna embættum forseta, ráðherra eða þingmennsku. Þessi mál verður að ræða án þess að fara að blanda persónum inn í þessa umræðu.
Þrettánda grein Stjórnarskrárinnar hljómar svo:
13. grein Forsetinn lætur ráðherra framkvæma vald sitt.
Ég vil breyta þessari grein svona:
13. grein breytt: Forsetinn lætur ráðherra sjá um daglegan rekstur ríkisins. Forseta er ekki heimilt að framselja til ráðherra það vald sem í stjórnarskrá er sérstaklega tilgreint að er á valdsviði forseta.
Ef grein 13 væri breytt á þennan hátt á værum við á vissan hátt að endurreisa lýðveldi Sveins Björnssonar, fyrsta forseta lýðveldisins. Sveinn Björnsson skipaði utanþingsstjórn í sinni tíð. Einnig ráðherrana í stjórn sem sat í tvö ár. Hann var mjög atkvæðamikill forseti, sérstaklega fyrstu árin.
Frá hans tíð á forsetastóli þá hefur framkvæmdavaldinu tekist að setja bæði Alþingi og forsetaembættið til hliðar. Ráherrarnir hafa túlkað 13 grein stjórnarskrárinnar sér mjög í hag og með þeirri túlkun sölsað undir sig öll völd forseta. Þeir hafa heimtað að forsetaembættið sé valdalaust sameiningartákn þjóðarinnar.
Framkvæmdavaldið er búið að svipta forsetann málfrelsi og vill viðhalda því banni. Forsetinn situr í raun í dag í stofufangelsi á Bessastöðum, sé horft til þeirra valdheimilda sem hann hefur samkvæmt Stjórnarskrá.
Að Forsetinn megi ekki tjá sig um utanríkismál hefur líka verið kokkað upp af einhverjum utanríkisráðherranum sem vildi fá frjálsar hendur í utanríkismálunum. Sjá grein 21 hér fyrir neðan. Þvert á móti þá er samkvæmt stjórnarskrá það utanríkisráðherra sem ekki má tjá sig um utanríkismál né gera samninga við erlend ríki. Það er á valdi Forseta að gera slíkt.
Ég held við höfum hér ágætis grunn að stjórnarskrá og með breytingum á henni þá er hægt að styrkja forsetaembættið og Alþingi verulega á kostnað framkvæmdavaldsins. Það er einmitt það sem þarf að gera. Þá þarf að höggva á tengingu framkvæmdavaldsins við dómsvaldið með því að framkvæmdavaldið hættir að skipa dómara.
Ef við bætum nýrri setningu við 15. greinna: Forsetinn skipar dómara og veitir þeim lausn. Þá væri það leyst. Valnefndin sem kemur með tillögur til dómsmálaráðherra um skipun dómara, þessi nefnd heyrði í staðinn undir Forsetaembættið og Forseti skipar alla dómara. Það tryggir best aðskilnað dómsvaldsins frá framkvæmda- og löggjafarvaldinu.
Eðlilegra er að fela forseta þessar valdheimildir sem tilteknar eru í Stjórnarskrá fremur en ráðherrum. Ráðherrar sitja nær alltaf í öruggum sætum á listum flokka sinna. Þeir þurfa því aldrei að bera embættisfærslur sínar beint undir þjóðina. Það eru flokkarnir sem bera stefnu sína í heild sinni undir þjóðina og þjóðin kýs stefnur þeirra. Flokkarnir velja þingmenn sína í lokuðum prófkjörum eða uppstillingarnefndir tilnefna þá. Á lokuðum Landsfundum velja flokkarnir forsætisráðherraefni sín. Forsætisráðherra á hverjum tíma stjórnar í umboði flokksins. Þjóðin á engan kost á að sýna álit sitt á einstökum embættisfærslum hans eða annarra ráðherra. (Nema jú með pottum og pönnum)
Forsetinn þarf hins vegar að endurnýja umboð sitt hjá þjóðinni á fjögurra ára fresti. Það er því eðlilegt að hann beri ábyrgð á störfum ráðherra, á samningum við önnur lönd og öðru því sem stjórnarskráin hefur frá upphafi falið Forseta að bera ábyrgð á. Það er rökrétt og eðlilegt að þessi eini þjóðkjörni embættismaður okkar hann beri ríka ábyrgð á því hvernig landinu er stjórnað. Til dæmis hvort taka á þátt í stríðsrekstri í Írak o.s.frv.. Þjóðin getur kosið sér nýja forseta á fjögurra ára fresti ef henni líkar ekki ákvarðanir hans.
Með þessari breytingu á grein 13 í stjórnarskránni þá værum við ekki bara að endurvekja lýðveldi Sveins Björnssonar. Við værum að auka verulega beint lýðræði í landinu. Með þessari breytingu á 13. greininni þá öðlast Forseti vald til að rjúfa þing og boða til kosninga. Hann getur hvenær sem er sett ríkistjórnir af og skipað utanþingsstjórn í staðinn.
Breytingar eins og þessar eru eins og eitur í beinum þingmanna og ráðherra. Sömuleiðis hugmyndir um stjórnlagaþing eða breytingar á Stjórnarskránni. Ástæðan er einföld. Þeir vita að ef einhverju er breytt þá munu völd flokkanna minnka. Þess vegna hafa allar nefndir sem settar hafa verið í gang til að breyta stjórnarskránni dagað uppi. Flokkarnir vilja standa vörð um óbreytt ástand. Óbreytt ástand tryggir þeim mest völd.
Flokkarnir vilja hafa forsetaembættið áfram bundið í stofufangelsi á Bessastöðum, svipt málfrelsi. Þeir vilja ekki "nýjan Svein Björnsson".
Sjá hér það vald sem forseta er falið samkvæmt stjórnarskrá:
15. grein Forsetinn skipar ráðherra og veitir þeim lausn. Hann ákveður tölu þeirra og skiptir störfum með þeim.
16. grein Forseti lýðveldisins og ráðherrar skipa ríkisráð, og hefur forseti þar forsæti. Lög og mikilvægar stjórnarráðstafanir skal bera upp fyrir forseta í ríkisráði.
17. grein Ráðherrafundi skal halda um nýmæli í lögum og um mikilvæg stjórnarmálefni. Svo skal og ráðherrafund halda, ef einhver ráðherra óskar að bera þar upp mál. Fundunum stjórnar sá ráðherra, er forseti lýðveldisins hefur kvatt til forsætis, og nefnist hann forsætisráðherra.
18. grein Sá ráðherra, sem mál hefur undirritað, ber það að jafnaði upp fyrir forseta.
19. grein Undirskrift forseta lýðveldisins undir löggjafarmál eða stjórnarerindi veitir þeim gildi, er ráðherra ritar undir þau með honum.
20. grein Forseti lýðveldisins veitir þau embætti, sem lög mæla. Engan má skipa embættismann, nema hann hafi íslenskan ríkisborgararétt. Embættismaður hver skal vinna eið eða drengskaparheit að stjórnarskránni. Forseti getur vikið þeim frá embætti, er hann hefur veitt það. Forseti getur flutt embættismenn úr einu embætti í annað, enda missi þeir einskis í af embættistekjum sínum, og sé þeim veittur kostur á að kjósa um embættaskiptin eða lausn frá embætti með lögmæltum eftirlaunum eða lögmæltum ellistyrk. Með lögum má undanskilja ákveðna embættismannaflokka auk embættismanna þeirra, sem taldir eru í 61. grein.
21. grein Forseti lýðveldisins gerir samninga við önnur ríki. Þó getur hann enga slíka samninga gert, ef þeir hafa í sér fólgið afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef þeir horfa til breytinga á stjórnarhögum ríkisins, nema samþykki Alþingis komi til.
22. grein Forseti lýðveldisins stefnir saman Alþingi eigi síðar en tíu vikum eftir almennar alþingiskosningar. Forsetinn setur reglulegt Alþingi ár hvert.
23. grein Forseti lýðveldisins getur frestað fundum Alþingis tiltekinn tíma, þó ekki lengur en tvær vikur og ekki nema einu sinni á ári. Alþingi getur þó veitt forseta samþykki til afbrigða frá þessum ákvæðum. Hafi Alþingi verið frestað getur forseti lýðveldisins eigi að síður kvatt Alþingi saman til funda ef nauðsyn ber til. Forseta er það og skylt ef ósk berst um það frá meiri hluta alþingismanna.
24. grein Forseti lýðveldisins getur rofið Alþingi, og skal þá stofnað til nýrra kosninga, áður en 45 dagar eru liðnir frá því er gert var kunnugt um þingrofið, enda komi Alþingi saman eigi síðar en tíu vikum eftir að það var rofið. Alþingismenn skulu halda umboði sínu til kjördags.
25. grein Forseti lýðveldisins getur látið leggja fyrir Alþingi frumvörp til laga og annarra samþykkta.
26. grein Ef Alþingi hefur samþykkt lagafrumvarp, skal það lagt fyrir forseta lýðveldisins til staðfestingar eigi síðar en tveim vikum eftir að það var samþykkt, og veitir staðfestingin því lagagildi. Nú synjar forseti lagafrumvarpi staðfestingar, og fær það þó engu að síður lagagildi, en leggja skal það þá svo fljótt sem kostur er undir atkvæði allra kosningabærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar með leynilegri atkvæðagreiðslu. Lögin falla úr gildi, ef samþykkis er synjað, en ella halda þau gildi sínu.
27. grein Birta skal lög. Um birtingarháttu og framkvæmd laga fer að landslögum.
28. grein Þegar brýna nauðsyn ber til, getur forsetinn gefið út bráðabirgðalög er Alþingi er ekki að störfum. Ekki mega þau þó ríða í bág við stjórnarskrána. Ætíð skulu þau lögð fyrir Alþingi þegar er það er saman komið á ný. Samþykki Alþingi ekki bráðabirgðalög, eða ljúki ekki afgreiðslu þeirra innan sex vikna frá því að þingið kom saman, fall þau úr gildi. Bráðabirgðafjárlög má ekki gefa út, ef Alþingi hefur samþykkt fjárlög fyrir fjárhagstímabilið.
29. grein Forsetinn getur ákveðið, að saksókn fyrir afbrot skuli niður falla, ef ríkar ástæður eru til. Hann náðar menn og veitir almenna uppgjöf saka. Ráðherra getur hann þó eigi leyst undan saksókn né refsingu, sem landsdómur hefur dæmt, nema með samþykki Alþingis.
Sjá tenging hér inn á Stjórnarskrá Íslands.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 23.2.2009 kl. 10:02 | Facebook
Athugasemdir
Sveinn Björnsson var ríkisstjóri en ekki forseti þegar hann skipaði utanþingsstjórnina í október 1942.
Ómar Ragnarsson, 23.2.2009 kl. 00:07
Rétt Ómar, þetta gerðist á stríðsárunum, á fyrstu árum hans í embætti og þá var embættisheitið Ríkisstjóri, ekki Forseti.
Hér er stutt og góð grein á Vísindavefnum um Svein Björnsson.
Friðrik Hansen Guðmundsson, 23.2.2009 kl. 00:58
Að taka hlutverk frá forsetaembættinu er ekki heillavænlegt. Ég tel margar af tillögum þínum vera mjög góðar. Þú ættir að skrifa til Alþingismannanna og láta þá alla fá kópíu af skjalinu þínu. Þetta væri þeim holl lesning. :)
Baldur Gautur Baldursson, 23.2.2009 kl. 09:33
Það yrði mitt fyrsta verk að pakka niður ef Ólafur Ragnar fengi meiri völd en hann hefur. Hugsaðu maður, hvað yrði um okkur ???
Guðrún Jónsdóttir, 23.2.2009 kl. 10:04
Burt sé frá hver situr í embætti forseta í dag þá get ég ekki séð annað en hann hafi töluverð völd. Það þarf að skerpa á þessum völdum og taka af öll tvímæli um hvernig þau skuli túlkuð. Hvort honum eru svo veitt meiri völd eða minni ræðst af því hvaða stefnu við kjósum okkur í þeirri uppbyggingu sem almennur vilji er til.
Eiríkur Tómasson kom töluvert inn á þetta í gærkvöldi og margt sem hann sagði fannst mér sláandi og sýndi mér í það minnsta hvurslags hró þessi stjórnarskrá er orðin og úr takt við tímann
Hjalti Tómasson, 23.2.2009 kl. 11:25
Sæl Guðrún.
Það má ekki hugsa þetta mál út frá Ólafi Ragnari eða Davíð Oddsyni. Það þarf að stíga ákveðin skref til að minnka það ráðherraræði sem hér er. Það þarf að ræða hver þau skref eiga að vera.
Friðrik Hansen Guðmundsson, 23.2.2009 kl. 11:55
Nokkuð gott Friðrik og takk fyrir það. Ég held að þetta yrði mun eðlilegra fyrir landið.
EE elle
EE (IP-tala skráð) 23.2.2009 kl. 22:58