Af hverju á Íslenska þjóðin að borga upp Jöklabréf fyrir hundruð milljarða?

hestar bNú þegar bankarnir eru fallnir og Seðlabankinn er fjárvana þá stendur þjóðin allt í einu frammi fyrir því að eiga að borga upp Jöklabréf fyrir hundruð milljarða. Hvernig má það vera að Íslenska þjóðin eigi að greiða upp þessi Jöklabréf?

Af hverju eru þeir aðilar sem stunduðu viðskipti með Jöklabréf ekki að tapa sínu fé eins og aðrir lánadrottnar bankana? Af hverju eigum við að borga?

Skýringin er sú að þessum Jöklabréfum hefur greinilega verið stýrt inn í fjárfestingar á Íslandi þar sem þetta fé var tryggt með fullum ábyrgðum frá ríkinu og með íslensku þjóðina sem ábekking.

Jöklabréfin eru skuldabréfaútgáfa erlendra banka í íslenskum krónum og íslenskra banka í evrum. Bankarnir skipta síðan á bréfum þannig að erlendi bankinn fær evrur og íslenski bankinn fær krónur. Okkur er sagt að þetta hafi ekkert með íslenska skattgreiðendur, ríkið eða Seðlabankann að gera. Þannig voru þessi Jöklabréf alltaf kynnt.

Þessi gjörningur með Jöklabréfin gekk fyrir sig eins og lýst er hér fyrir ofan nema að það gleymdist alltaf að segja okkur frá því að íslensku bankarnir fóru með þessar krónur og fjárfestu fyrir erlenda eigendur þeirra í ríkistryggðum skuldabréfum, húsnæðisbréfum eða lögðu þær inn á ríkistryggða innlánsreikninga hjá Seðlabanka eða í viðskiptabönkunum. Erlendum eigendum Jöklabréfanna var því tryggð há ávöxtun ásamt því að peningarnir þeirra voru geymdir í öruggu skjóli ríkisábyrgðar.

Þetta erlenda fé sem þannig kom inn í Seðlabankann og aðra banka í formi íslenskra króna, þær krónur hlýtur Seðlabankinn og bankarnir þurft að ávaxta með útlánum til viðskiptavina. Ekki þurfti ríkið á fé að halda. Seðlabankinn hlýtur að hafa lánað viðskiptabönkunum það fé sem hann fékk með þessum hætti. Það fé sem Seðlabankinn lánaði viðskiptabönkunum er væntanlega allt tapað. 

Bankarnir virðast hafa leitað allra leiða til þess að ná sér í fjármagn. Ein af þeim leiðum var að selja útlendingum aðgang að íslenskum ríkistryggðum bréfum og ríkistryggðum innlánsreikningum í gegnum útgáfu á Jöklabréfum. Á þennan hátt fengu bankarnir hundruð milljarða að láni erlendis frá og Íslenska þjóðina var ábekkingur. Bankar í einkaeign "gömbluðu" síðan með þetta fé og hafa tapað því öllu.

Erlendir eigendur 400 milljarðar króna vilja nú fá sitt fé til baka. 70 milljarðar eru á gjalddaga núna, 1. júní. 

Til samanburðar má nefna að erlendar skuldir heimilanna í landinu eru um 370 milljarðar. Landsvirkjun og hin orkufyrirtækin skulda 500 milljarða.

Á síðustu árum hefur Íslenska þjóðin verið veðsettsett fyrir eftirfarandi:

  • Banki í einkaeign safnar á tveim árum yfir 1.000 milljörðum í útlöndum inn á innlánsreikninga sem Seðlabanki Íslands ábyrgist og þjóðin er ábekkingur.
  • Útgefendur Jöklabréfa koma með hundruð milljarða inn í landið og setja í ríkisskuldabréf og innlán þar sem ríkið er í ábyrgð og þjóðin er ábekkingur. Bankarnir töpuðu öllu þessu fé.
  • Fiskveiðiauðlindina er búið að skuldsetja fyrir 500 - 900 milljarða. Árlegar vaxtagreiðslur eru 70 milljarðar. Aflaverðmæti upp úr sjó 2007 voru 136 milljarðar. Þessi auðlind er sameign þjóðarinnar og þjóðin er því í raun ábekkingur á þessum skuldum. Ef útgerðin og bankarnir fara í þrot en erlendir lánadrottnar eru með veð í veiðiheymildunum, þá verður þjóðin að yfirtaka og borga þær skuldir vilji hún nýta auðlindina.

Í september síðastliðnum kom forsætisráðherra þáverandi og fullyrti að ríkissjóður væri skuldlaus. Af hverju var aldrei minnst á allar þessar ábyrgðir sem hvíldu á þjóðinni? Af hverju var þjóðinni ekki sagt frá þeim fyrr en nú þegar við eigum allt í einu að borga?

Það er ótrúlegt að einakaðilum skuli hafa tekist að veðsetja þjóðina með þessum hætti. Það skelfilega er að þessar ábyrgðir eru nú allar að falla á þjóðina. 

Þeir menn sem þetta gerðu og þeir sem þetta heimiluðu eru ekki beint að reynast þjóð sinni vel. Þeir menn sem leyfðu sér að "gambla" með þjóð sína með þessum hætti eru ekkert annað en landráðamenn.

Þeir sem þetta gerðu hljóta að verða látnir axla ábyrgð.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hvenær verða svo eigendur og stjórnendur bankanna kallaðir til yfirheyrslu

efnahagsbrotadeildar og fá þar með réttarstöðu grunaðra fyrir þessi LANDRÁÐ ?

Maður spyr sig.

Sigrún Unnsteimsdóttir (IP-tala skráð) 20.2.2009 kl. 16:03

2 Smámynd: Gunna Jons

þetta er alveg fáheyrt hvernig að að fara með okkur svo heldur til dæmis Ólafur Ólafsson að hann geti bara stofnað sjóð og gert góðverk og fái fyrirgefningu, ekki frá mér hann ætti að skammast sín, hinir eru ekki betri

Gunna Jons, 20.2.2009 kl. 16:24

3 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Friðrik.

Gæti það hugsast að Geir hafi ekki haft vitneskju um fyrirkomulag krónubréfanna.   Fyrst eftir hrunið var eins og þetta kæmi stjórnvöldum á óvart.

Kveðja að austan

Ómar Geirsson, 20.2.2009 kl. 22:17

4 Smámynd: Elinóra Inga Sigurðardóttir

Mjög áhugaverð færsla hjá þér Friðrik

Elinóra Inga Sigurðardóttir, 21.2.2009 kl. 11:47

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband