Jöklabréfin voru í raun ríkistryggð. Þjóðin skuldar 400 milljarða vegna þeirra.

sauðféÉg er þess dagana að jafna mig á enn einu sjokkinu. Í þetta sinn eru það Jöklabréfin. Ég er að átta mig á því að þessi Jöklabréf voru í raun ríkistryggð. Seðlabankinn ætlar að greiða þeim sem voru í þessum viðskiptum allt sitt fé til baka. Þeir sem stunduðu þessi viðskipti tapa ekki stærstum hluta af sínu fé eins og aðrir lánadrottnar gömlu bankana.

Jöklabréfin eru skuldabréfaútgáfa erlendra banka í íslenskum krónum og íslenskra banka í evrum. Bankarnir skipta síðan á bréfum þannig að erlendi bankinn fær evrur og íslenski bankinn fær krónur. Okkur er sagt að þetta hafi ekkert með íslenska skattgreiðendur, ríkið eða Seðlabankann að gera. Þannig voru þessi Jöklabréf alltaf kynnt í fjölmiðlum.

Þessi gjörningur með Jöklabréfin gekk fyrir sig eins og lýst er hér fyrir ofan nema að það gleymdist alltaf að segja okkur frá því að íslensku bankarnir fóru með þessar krónur og fjárfestu fyrir erlenda eigendur þeirra í ríkistryggðum skuldabréfum, húsnæðisbréfum eða lögðu þær inn á ríkistryggða innlánsreikninga hjá Seðlabanka eða viðskiptabönkunum. Erlendum eigendum Jöklabréfanna var því tryggð há ávöxtun ásamt því að peningarnir þeirra voru geymdir í öruggu skjóli ríkisábyrgðar.

400 milljarðar króna komu inn í landið með þessum hætti. Útlendingar keyptu ríkistryggð skuldabréf fyrir 270 milljarða. Þeir peningar runni því inn í Seðlabankann. Þetta fé hlýtur Seðlabankinn að hafa þurft að ávaxta. Ekki þurfti ríkið á því að halda. Því hlýtur Seðlabankinn að hafa lánað viðskiptabönkunum þetta fé. Það fé sem Seðlabankinn lánaði bönkunum er væntanlega allt gufað upp. 70 milljarðar eru á eindaga núna 1. júní. Það lendir væntanlega á þjóðinni að borga upp þessi ríkistryggðu bréf og innlánsreikninga sem eru í eigu þessara útlendinga.

Með öðrum orðum íslenski hluti Jöklabréfanna var í raun með ríkisábyrgð og það er að lenda á þjóðinni að greiða þau upp.

Til samanburðar má nefna að erlendar skuldir heimilanna í landinu eru um 130 milljarðar. Landsvirkjun og hin orkufyrirtækin skulda 500 milljarða.

Á síðustu árum hefur Íslenska þjóðin verið skuldsett fyrir eftirfarandi:

  • Banki í einkaeign veðsetur þjóðina á tveim árum fyrir 1.000 milljarða vegna innlánsreikninga sem hann var að safna í útlöndum.
  • Ríkið er látið ábyrgjast Jöklabréfaútgáfu einkabanka upp á 400 milljarða.
  • Fiskveiðiauðlindin er sameign þjóðarinnar, hana er búið að veðsetja í dag fyrir 500 - 900 milljarða. Árlegar vaxtagreiðslur eru 70 milljarðar. Aflaverðmæti upp úr sjó 2007 voru 136 milljarðar.

Í september síðastliðnum kom forsætisráðherra þáverandi og fullyrti að ríkissjóður væri skuldlaus.

Það er ótrúlegt að einkaaðilum skuli hafa tekist að skuldsetja þjóðina með þessum hætti. Þeir sem bera á því ábyrgð, faglega og pólitískt, hljóta að verða látnir axla hana.

 


mbl.is Vill semja um krónubréfin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Jöklabréf á gjalddaga þýðir að nafninu til að Toyota eða KfW þarf að greiða belgískum tannlæknum og ítölskum ekkjum krónur.  Hins vegar er að baki þessari einföldu staðreynd talsverð flækja af fjármálagjörningum þar sem búið er að skipta krónum í evrur og til baka með framvirkum skiptasamningum, setja krónurnar í ávöxtun hér innanlands o.s.frv.  Allir þeir gjörningar eru milli einkafyrirtækja og hafa ekkert með ríkið að gera, nema hvað hluti af peningunum eru ávaxtaðir í ríkisbréfum og bréfum Íbúðalánasjóðs.

Erlendu aðilarnir (bankar og einkafyrirtæki) gáfu út skuldabréf í krónum, þess vegna eru þau kölluð jöklabréf. (Sjá t.d. færslu á Vísindavefnum um jöklabréf eftir núverandi viðskiptaráðherra.)

Seðlabankinn stendur ekki uppi með nein skuldabréf á íslenska banka vegna jöklabréfanna, það er einhver misskilningur.  Millligönguaðilar jöklabréfa hafa hins vegar hugsanlega keypt skuldabréf íslenskra banka eða gert við þá skiptasamninga, og tapa þá þeim peningum eins og aðrir lánardrottnar íslensku bankanna.

Kristján:

a) Þetta eru ekki "forgangskröfur". b) Seðlabanki eða ríkissjóður er ekki ábyrgur fyrir endurgreiðslu jöklabréfa. c) Engar opinberar ábyrgðir eru á þessum bréfum.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 18.2.2009 kl. 12:47

2 Smámynd: corvus corax

"Þeir sem bera á því ábyrgð, faglega og pólitískt, hljóta að verða látnir axla hana" segir bloggsíðueigandi í bloggi sínu. Ég held, og jafnvel veit að engir þeirra sem bera ábyrgðina faglega eða pólitískt verða nokkurn tíma látnir axla sína ábyrgð í málinu. Stjórnvöld vinna að því ljóst og leynt að verja glæpahyskið, stjórnmálapakkið og auðjöfraþjófana með öllum tiltækum ráðum. Þetta skal lenda á almenningi í formi skatta og samdrætti í kostnaði velferðarkerfisins með góðu eða illu. Þannig ætlar stjórnmálahyskið að fara með okkur. Ef við einhvern tíma þurfum á byltingu að halda og algjörri dauðhreinsun af spillingunni, er það núna! Dettur t.d. einhverjum í hug að fjármálaráðherrann Steingrímur J. Sigfússon muni láta rannsaka og rifta sölu rándýrra lúxusbíla RÍKISbankanna á gjafverði til valinna vina og kunningja þeirra sem sáu um söluna? Nei, það mun ekki gerast af því að "spillinguna burt" er bara kosningaslagorð og hefur ekkert með raunveruleikann að gera ...ekki einu sinni hjá VG-liðinu.

corvus corax, 18.2.2009 kl. 15:12

3 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Í framhaldi af umræðum hér á síðunni í dag þá breytti ég ákveðnum atriðum í ofangreindri grein. Leiðrétti ákveðinn misskilning sem þar var að finna. Greinin er nú eins og ég skil þetta mál. Ég leyfði mér að fella út nokkrar athugasemdir sem eiga ekki erindi lengur.

Hér er að finna grein eftir Gylfa Magnússon viðskiptaráðherra sem heitir Hvað eru Jöklabréf.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 18.2.2009 kl. 17:13

4 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Allt er þetta til marks um að peningamálastefna Seðlabankans var galin.  Hávextirnir drógu að gríðarlegar fjárhæðir utan úr heimi, sem styrktu krónuna, földu verðbólgu, blésu út krónuhagkerfið og gerðu bönkum kleift að fjármagna alls kyns ævintýri.  Á meðan safnaði Seðlabankinn allt of litlum gjaldeyrisvarasjóði, sem hann hefði átt að gera af forsjálni vegna þess að ljóst var að jöklabréfaeigendur myndu einn daginn taka pjönkur sínar og fara.  Veislan gat ekki staðið endalaust.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 18.2.2009 kl. 17:56

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband