Mánudagur, 26. janúar 2009
Stefnir Forsetinn á utanþingsstjórn?
Eftir að hafa hlustað á Forsetann áðan þá er það mín tilgáta að hann muni mynda utanþingsstjórn.
Ástæður þessarar tilgátu eru eftirfarandi:
- Formenn tveggja stærstu stjórnarflokkanna er báðir að fara í veikindaleyfi. Eins og flokkakerfið er byggt upp þá er svo mikið umboð falið í höndum formanna flokkanna að þingflokkar þeirra eru í erfiðri stöðu að taka á málum ef formenn þeirra eru fjarverandi. Varaformennirnir munu veigra sér við að taka óvinsælar en nauðsynlegar ákvarðanir og vita að þeir munu síðar þurfa að vinna slaginn í flokknum um formanninn.
- Engin hefð er fyrir minnihlutastjórn á Íslandi. Að gera tilraun með slíka stjórn núna í einhverja örfáa mánuði í aðdraganda kosninga á einum mesta örlagatíma í sögu þjóðarinnar er ekki fýsilegur kostur.
- Flokkarnir og forystumenn þeirra þurfa nú að snúa sér að kosningabaráttunni og allur tími þeirra fram að kosningum mun fara í hana. Stjórn landsins mun ekki verða forgangsmál þingsins og þingmanna fram að kosningum. Þar mun hver höndin vera upp á móti annarri eins og vera ber í kosningabaráttu. Það er bara ekki það sem þjóðin þarf nú.
- Forsetinn vill að ákveðin verk séu unnin á næstu mánuðum. Ef hann vill vera öruggur um að þeim verði hrint í framkvæmd þá er utanþingsstjórn vænlegasti kosturinn.
- Forsetinn hefur áhuga á að styrkja Forsetaembættið. Að skipa nú starfstjórn sem starfar í þrjá til fjóra mánuði fram að kosningum er hæfilegt inngrip sem mun þó breyta forsetaembættinu og efla það verulega og í raun gera það að valdamesta embætti á Íslandi.
Vegna þessara þátta og hvernig Forsetinn talaði þá er það mín tilgáta að forsetinn stefni á utanþingsstjórn.
Skapa þarf samfélagslegan frið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:49 | Facebook
Athugasemdir
Athyglisvert!
Heyrði í Baldri stjórnmálafræðingi í dag. Hann taldi minnihlutastjórn líklegasta þar sem VG og fleiri voru að rotta sig saman fyrir helgi. En svo var hann alveg kjaftstopp þegar hann heyrði ræðu forsetans og þessi fjögur skilyrði slógu hann alveg út af laginu. Skyldi þetta reynast rétt spá hjá þér? Ja nú verður gaman að sjá!
Helgi (IP-tala skráð) 26.1.2009 kl. 18:44
Með því að mynda utanþingsstjórn þar sem hann skipar sjálfur ráðherrana þá kæmi mér ekki á óvart að þar yrðu menn eins og Njörður P Njarðvík með sínar hugmyndir um nýtt lýðveldi, háskólaprófessorar slíkir sómamenn.
Friðrik Hansen Guðmundsson, 26.1.2009 kl. 18:55
Ég myndi telja utanþingsstjórn langbesta kostinn. Einfaldlega vegna þess að fólk treystir ekki þingmönnum þessa lands lengur til að leysa úr vandasömu verkefnum sem eru framundan. Alþingi nýtur ekki trausts og flokkarnir þurfa að ráðast í algjöra endurnýjun allir sem einn fyrir kosningar. Þjóðin er búin að fá upp í háls af þessu eiginhagsmunapoti. Spillingunni er troðið framan í mann en ekkert er gert. Nákvæmlega ekki neitt!
Ég styð hugmyndir Njarðar sem eru afar skynsamlegar. Stjórnarskráin verður að fá algjöra yfirhalningu. Það verður að koma í veg fyrir þetta einræði ráðherra og þrískipta valdinu. Mér finnst að Páll Skúlason þyrfti einnig að koma að þessari vinnu. Hann hefur tjáð sig á skýran hátt um það sem miður hefur farið í samfélaginu út frá siðfræðilegu sjónarmiði og ég held að hann sé lykilmaður í ritun nýrrar stjórnarskrár.
Nú er bara að vona að útrásarforsetinn reyni að vinna sér inn prik aftur með því að gera eitthvað af viti!
Helgi (IP-tala skráð) 26.1.2009 kl. 19:32
Ég er sammála þér, ég held líka að það sé besta lausnin fyrir alla að skipuð verði utanþingsstjórn fram að kosningum.
Ég er líka sammála Geir, kosningar eiga að vera í fyrsta lagi í maí. Það verður af gefa öllum tíma til að undirbúa kosningar.
Ef þessi tilgáta mín er rétt þá getur samt vel farið svo að slík starfsstjórn starfi lengur, t.d. í eitt ár og kosið verði vorið 2010, ef slík stjórn er skipuð á annað borð. Forsetinn láti þá slíka stjórn starfa þar til öllum fjórum verkefnum hennar er lokið.
Líklegastur finnst mér þó 9. maí sem kosningadagur, þá er "þingárinu" lokið og allt hefðbundið eins og á kosningaári.
Auk þess held ég að stjórnarandstaðan yrði í raun mjög fegin ef slík utanþingsstjórn yrði mynduð. Þeir væru þá ekki búnir að "óhreinka á sér hendurnar" með því að vasast í stjórn landsins fram að kosningum, skipa fyrir um niðurskurð í heilbrigðismálum, menntakerfinu o.s.frv.. Þeir færu þá "óflekkaðir" inn í kosningabaráttuna. Þrír til fjórir mánuður í stjórn við þessar aðstæður er eitthvað sem enginn vill og kosningar framundan. Annað mál að fara í stjórn eftir kosningar og fjögur ár til að vinna úr málunum.
Friðrik Hansen Guðmundsson, 26.1.2009 kl. 19:55
Ólafur Ragnar er afar skynsamur maður, sem skynjar vel þarfir þjóðarinnar. Hann talaði í dag um nauðsyn þess að leggja nýjann grunn, semja nýjar leikreglur og það er vel. Þær tillögur/hugmyndir sem Njörður P Njarðvík kom með inn í umræðuna í Silfrinu hjá Agli Helgasyni 11. jan sl og fréttablaðinu skömmu áður, komu til þjóðarinnar á því líkri ögurstundu að það var sem eldingu hefði lostið niður á nánast hvert heimili í landinu á sömu stundu. Aðeins liðu 11 sólarhringar þar til búið var að hrinda af stað undirskriftasöfnun á netinu og viðbrögðin eru söguleg. Mér finnst ég upplifa mikil tímamót í sögu þjóðar minnar.
Hólmfríður Bjarnadóttir, 27.1.2009 kl. 01:17
Auðvitað verður þetta ekki. Það sem er ekki búið að stela frá okkur er að brenna upp. Við þurfum styrk, dugmikla stjórn sem getur tekið á málunum. Hún er ekki að fara að semja nýja stjórnarskrá eða stofna nýtt Lýðveldi. Það þarf að hefja undirbúning að því verkefni fjarri Alþingishúsinu. 4flokkarnir líta á það sem landráð að láta sig dreyma um utanþingsstjórn og í þetta sinn er ég sammála þeim.
Ingvar Þórisson, 27.1.2009 kl. 02:12
Ég gæti vel trúað þessu að forseti skipi utanþingsstjórn, ástæðan hann er nokkuð viss um að vinstriflokkarnir tapa miklu fylgi við það að fara í stjórn þennan tíma fram að kosningum. Hann vill örugglega hafa vit fyrir þeim.
Ragnar Gunnlaugsson, 27.1.2009 kl. 03:29
Ég aðhyllist skoðun þína um utanþingshugsanagang Bessastaðavaldsins.
Heimir Lárusson Fjeldsted, 27.1.2009 kl. 08:06