Sveitarstjórnarmenn, sýnið samfélagslega ábyrgð.

 

Hugtakið samfélagsleg ábyrgð var kynnt fyrir okkur Íslendingum fyrir nokkrum árum. Þetta hugtak var einkum notað af stjórnmálamönnum sem svipa á fyrirtæki landsins, að þau ættu að sýna samfélagslega ábyrgð og taka þátt í hinum og þessum verkefnunum og leggja eitt og annað til samfélagsins. Almennt tel ég að fyrirtæki á Íslandi sýni mikla samfélagslega ábyrgð og þau taka öll, eftir efnum og aðstæðum, mikinn þátt í þeim samfélögum þar sem þau eru starfandi. Sem þátttakandi í Lionshreyfingunni á Íslandi og íþróttahreyfingunni þá þekki ég hvað gott er að leita til íslenskra  fyrirtækja.

Byg penNú er hins vegar komið að því að ríki og sveitarfélög sýni samfélagslega ábyrgð í þeirri kreppu sem nú gengur yfir. Það finnst mér ríki og sveitarfélög ekki vera að gera. Stærstu sveitarfélög landsins hafa nýverið kynnt fjárhagsáætlanir sínar. Í kreppunni ætla þau að keyra blákalt með óbreytt góðærismarkmið í fjármálum sínum, þ.e. að vera með hallalausa bæjarsjóði. Ekkert annað virðist skipta þau máli. Þetta er hræðileg stefna og alröng við núverandi aðstæður. Nú eiga og verða þessir aðilar að koma sterkir inn með mannaflsfrekar framkvæmdir.

Á þremur mánuðum hafa ellefu þúsund íslendingar skráð sig atvinnulausa. Á sama tíma ætla stærstu bæjarfélög landsins ekki að taka mikinn þátt né axla miklar byrgðar til að minnka það atvinnuleysi. Gömul góðærismarkmið yfirskyggja allt, hallalausir bæjarsjóðir. Jafnvel vel stæð sveitarfélög eins og Seltjarnarnesbær virðist einnig ætla að halda að sér höndunum.

Hvað ríkið varðar þá hefur það verði með útboðsbann í meira en hálft ár. Fátt er þaðan að frétta og ekkert sem er til þess fallið að draga úr atvinnuleysinu.

Ótrúlegt er að horfa upp á þetta aðgerðarleysi og ótrúlegt er að horfa upp á stærstu og öflugustu sveitarfélög landsins ekki ætla að taka á sig neinar byrgðar aðrar en þær sem rúmast innan hallalausra bæjarsjóða. Einmitt nú þegar þessir aðilar þurfa að koma inn með mannaflsfrekar framkvæmdir.

Opinberir aðilar eru búnir að rifta öllum samningum sínum við arkitekta- og verkfræðistofur landsins. Búið er að fresta eða slá af allar framkvæmdir og með því eru opinberir aðilar að skapa gríðarlegt atvinnuleysi.

Þegar á reynir er ekkert gert með allt talið um sveiflujöfnun. Í uppsveiflunni var sagt að ríki og sveitarfélög væru að halda að sér höndunum. Í niðursveiflu ætluðu þau að koma öflug inn með framkvæmdir og atvinnu. Hvað erum við ekki búin að heyra þetta oft frá núverandi og fyrrverandi fjármálaráðherra?

Hverjar eru efndirnar? Efndirnar eru þær að þegar niðursveiflan kemur þá hleypur ríkissjóður og sveitarfélögin á undan öllum öðrum og sker niður allt sem heita opinberar framkvæmdir og setur á útboðsbann. Ekkert gert með fyrri loforð, ekkert gert með fyrri áætlanir og plön. Hér er stjórnað frá hendinni til munnsins, engar áætlanir og engin ábyrgð. Og hverjum datt í hug að á mesta kreppuári í okkar samtímasögu þá eigi að reka Borgarsjóð Reykjavíkur suldlausan? Ef Reykjavíkurborg ætlar ekki að taka þátt og skapa hér atvinnu hvað er þá hægt að ætlast til af öðrum sveitarfélögum?

Opinberir aðilar eru ekki að axla þá samfélagslegu ábyrgð sem þeim ber í því ástandi sem hér ríkir.

Skorað er á sveitarfélögin að falla frá markmiðum sínum um hallalausa bæjarsjóði á þessum tveim til þrem kreppuárum sem framundan eru. Setjið í gang mannaflsfrekar framkvæmdir, þ.e. byggingaframkvæmdir við skóla, leikskóla og íþróttahús. Borgum síðan "Kreppulánin" í góðærinu sem hefst hér eftir tvö til þrjú ár. Þá geta opinberir aðilar dregið úr framkvæmdum og nýtt tekjurnar til að greiða þessar skuldir niður.

Sveitarstjórnarmenn, sýnið samfélagslega ábyrgð.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband