Fer Geir að fordæmi Guðna Ágústssonar?

483463Það er orðið daglegur viðburður að hrópað er á afsagnir ráðherra. Skipulögð fjöldamótmæli af stærðargráðu sem við höfum aldrei séð áður eru það einnig. Margt hefur breyst á örskömmum tíma.

Hér í byrjun nýs árs, horfandi á þau ósköp sem yfir okkur eru að ganga þá hvörfluðu eftirfarandi hugleiðingar að mér:

Þegar þessi ríkisstjórn var mynduð þá spáði ég því að hér væri verið að mynda ríkisstjórn sem myndi sitja að lámarki tvö kjörtímabil. Ég taldi að með myndun ríkisstjórnar þessara stóru flokka þá hafi ekki verið tjaldað til einnar nætur. Formenn þessara flokka ætluðu sér að sitja saman í ríkistjórn næsta áratuginn og í framhaldi af því hætta í stjórnmálum.

En það sem gerðist á síðasta ári var ekki bara að bankarnir urðu gjaldþrota og hér skall á gjaldeyrisskreppa. Stefna Sjálfstæðisflokksins sem hefur farið með forsætis- og fjármálaráðuneytið í sautján ár hefur beðið skipbrot.

Ekki veit ég hvað er að gerast á stjórnarheimilinu en er eins og fleiri að reyna að lesa í þau spil sem okkur almenningu eru sýnd og þar hefur fernt vakið athygli mína.

a) Bjarni Ben segir af sér stjórnarformennsku í N1 og dregur sig alveg út úr umsvifum í fyrirtækjarekstri. Er hann að gera ráð fyrir að breytingar verið á hans högum sem óbreytts þingmanns og seta hans í stjórn stórfyrirtækis eins og N1 er þá orðin óheppileg? Þar gæti tvennt komið til, ráðherrastóll eða trúnaðarstaða í Sjálfstæðisflokknum.

b) Kristján Arason hættir sem framkvæmdastjóri innlendra útibúa Kaupþings. Tengist það eitthvað eiginkonu hans, Þorgerði Katrínu? Eru að verða einhverjar breytingar á högum Þorgerðar Katrínu að seta hans sem einn af gömlu framkvæmdastjórum í bankanum er talin óheppileg? Hvaða breytingar gætu orðið á högum Þorgerðar Katrínar? Hún er jú varaformaður Sjálfstæðisflokksins og ráðherra. Ætlar hún að bjóða sig fram til formanns á komandi Landsfundi Sjálfstæðisflokksins?

c) Breytingar á eftirlaunalögunum taka ekki gildi fyrr en í sumar. Af hverju og fyrir hverja / hvern er verið að gera þetta? Þeir sem hafa hér mestra hagsmuna að gæta og eru að missa mest eru þeir sem voru með bestu sérkjörin. Þeir sem voru með bestu sérkjörin voru ráðherrar og formenn stjórnmálaflokkanna. Ég held það sé ljóst að það er verið að fresta gildistöku þeirra til að gefa einhverjum tækifæri á að hætta í lok vorþings á fullum eftirlaunum samkvæmt gömlu kjörunum. Var þetta gert fyrir einhverja af formönnum flokkanna; Valgerði, Steingrím, Ingibjörgu, Guðjón eða Geir. Þeir sem er komnir með full réttindi sem ráðherrar og geta í vor hætt á gömlu kjörunum eru; Sturla, Einar, Árni, Björn og Geir. Það er ljóst að Geir mun „tapa mest“ hætti hann ekki í vor. Með því að halda áfram er Geir að skerða væntanleg eftirlaun sín verulega.

SjálfstæðisFálkinnd) Fylgi Sjálfstæðisflokksins er í sögulegu lámarki og jafn tísýnt um hvenær það lagast og hvenær kreppan lagast. Það getur tekið mörg ár. Gjaldeyriskreppan sem hér geisar og það tjón sem hún er að valda er afleiðing þeirrar stefnu Sjálfstæðisflokksins að halda í krónuna og hafa ekki ljáð máls á að ganga í ESB og taka upp evru. Gjaldþrot bankana er afleiðing þess regluverks sem gildir um bankastarfsemi hér heima og hvernig þeir störfuðu og fengu að starfa með stuðningi ríkisstjórnarinnar. Sá stuðningur kemur meðal annars fram í ummælum Forsætisráðherra í sjónvarpsviðtali síðast í apríl þar sem hann fullyrðir að þó skuldbindingar bankakerfisins væru tíu sinnum meiri en þjóðarframleiðslan þá væri það í góðu lagi. Í ljósi fylgishruns Sjálfstæðisflokksins og þess gríðarlega tjóns sem hér hefur orðið og þar með þess skipbrots sem stefna Sjálfstæðisflokksins hefur orðið fyrir þá verður ekkert auðvelt fyrir Geir að mæta og óska eftir endurkjöri á Landsfundi flokksins. Enginn formaður Sjálfstæðisflokksins hefur mætt á Landsfund með fylgi flokksins í jafn slæmri stöðu. Enginn formaður Sjálfstæðisflokksins sem jafnframt er Forsætisráðherra hefur áður mætt á Landsfund með þjóðarbúið nánast gjaldþrota. Hann hlýtur að búast við mótframboði.

Eins og ég tók fram í upphafi þá eru þetta mínar hugleiðingar hér í byrjun árs. Niðurstaðan er tilgáta og mín tilgáta er sú að á komandi Landsfundi Sjálfstæðismanna muni Geir fara að fordæmi Guðna Ágústssonar og hætta sem formaður, Þorgerður mun bjóða sig fram í formanninn og Bjarni Ben í varaformanninn.

 
mbl.is Ráðherra segi af sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Gunnarsson

Geir er auðvitað ekki formaður flokksins í eiginlegum skilningi. Flokkurinn er sundruð hjörð og það sem flestir virðast eiga þar sameiginlegt er óttinn við fyrrverandi formann. Þorgerður Katrín virðist hafa tapað sínum leiðtogahæfileikum og er að verða eins og huggulegur feministi. Mér sýnist hún leggja mest upp úr að halda til haga sínum kvenlega þokka sem lítið pláss er fyrir þessa dagana í stjórnmálunum. Mér sýnist Bjarni Ben hafa útlit sem gæti gert hann vinsælan leiðtoga Vöku, félags lýðræðisinnaðra stúdenta. Engin pólitísk þyngd og aldrei tekið af skarið með myndugleik, enda á hann ekki þann eiginleika svo ég fái séð.

Litlu máli mun skipta hvernig kosningar fara. Þessi flokkur þarf sterkan leiðtoga og hann er ekki sýnilegur í dag nema ef vera skyldi Hanna Birna.

B.kv.

Árni Gunnarsson, 8.1.2009 kl. 16:11

2 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Þú segir nokkuð. Þegar ég les um þennan feril svona í samfellu, þá er þessi tilgáta þín býsna sennileg. Ekki er ég undrandi á því að Geir sé búinn að fá nóg í þessari orrahríð sem nú stendur yfir. Ég skynja hann sem friðsemdarmann og ÞK er mun meiri baráttujaxl og svo á góðum aldri til að taka slaginn. Hún er mikið foringjaefni og hefur margoft sannað það. BB veit ég minna um enda hefur hanna ekki ekki verið mikið áberandi.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 8.1.2009 kl. 17:36

3 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Ég er ekki sammála ÁG um að ÞKG sé ekki foringjaefni. Hún hefur boðið DO byrginn og mun gera það enn frekar sem formaður. Konur geta sýnt af sér þokka og verið hæfileikaríkar um leið. Hanna Birna er til dæmis vel "þokkaleg" og sköruleg í leiðinni. Hættið svo strákar að nudda okkur stelpunum upp úr þessu "kynþokkaþvaðri" og farið að líta á okkur sem skyniborna menn

Hólmfríður Bjarnadóttir, 8.1.2009 kl. 17:41

4 Smámynd: Gylfi Björgvinsson

Ég hef trú á að formannsskipti í þessum gamla og gróna flokki hafi meiri og lengri aðdraganda. Sjálfstæðisflokkurinn  er íhaldsamasti flokkurinn í okkar stjórnmálum sem gerir allar breytingar flóknar.  Sjáið til að mynda ESB dæmið, bara það er búið að taka þá fleiri fleiri ár að taka það til umræðu á landsfundi. mál sem þeir hefðu átt að vera að tala um fyrir svo sem tíu árum síðan. Ég vil líka vona að Geir verði áfram sem formaður, af einafldri ástæðu, Hann virðist vera eini ráðherrann sem eitthvert vit er í um þessar mundir og hefur menntun til að takast á við ástandið sem hér ríkir.

Enn Geir er ekki öfundsverður að koma til landsfundar undir þeim formerkju sem þú nefndir.

Enn fínar pælingar hjá þér Friðrik.

Gylfi Björgvinsson, 8.1.2009 kl. 18:07

5 identicon

sæll Friðrik

Þetta er afar athyglisverð tilgáta sem þú leggur hér fram og rökstyður mjög vel. Ég tel þó að Geir hafi mikið fylgi innan flokksins og meira  en ÞK hefur. Einnig er hún ekki nógu skelegg sem formannsefni að mínu mati. Sjálfstæðisflokkurinn er testósteron flokkur og því mun það aldrei gerast að þar stjórni pylsklæddur formaður, nema það sé þá nýbúi af skoskum ættum. 

Haraldur A. Haraldsson (IP-tala skráð) 8.1.2009 kl. 22:32

6 identicon

Voðalegar athugasemdarfærslur eru þetta, hvað á þetta að fyrirstilla? ha?

andskotinn  -  Svartur á leik

Krímer (IP-tala skráð) 9.1.2009 kl. 00:00

7 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Sæll Krímer

Eins og ég tvítók í þessum pistli mínum þá eru þetta hugleiðingar mínar hér í byrjun árs þegar ég horfi yfir þá stöðu sem við erum í og þau átök og já hrein og klár slagsmá sem eru í gangi og eru væntanlega framundan.

Enginn sá fyrir hinn óvænta leik Guðna Ágústssonar að hætta skyndilega sem formaður og hætta öllum afskiptum af stjórnmálum. Þess vegna flökraði það að mér að það hlyti að hafa flökrað að Geir að gera slíkt hið sama. Við hljótum að ætla að Geir sé mannlegur eins og aðrir og hann hlýtur að leiða hugann að því að ef hann heldur áfram þá er hann að rýra eftirlaun sín verulega.

Nú veit ég, Krímer, ekki hvernig ég á að öðru leiti að taka þessari athugasemd þinni. Er þetta tilraun til ritskoðunar, ertu að fara fram á að ég fjarlægi þessar hugleiðingar og þessa tilgátu af blogginu mínu? Má ekki skrifa um Landsfundinn og hugleiðingar um hugsanleg formannsskipti sem þar gætu orðið ef Geir ákveður óvænt að segja af sér eins og Guðni Ágústsson?

Hvað áttu við með "andskotinn - Svartur á leik"?

Er þetta hótun? Hver ert þú og hverju ert þú að hóta?

Friðrik Hansen Guðmundsson, 9.1.2009 kl. 11:35

8 Smámynd: Óðinn Þórisson

Ég á ekki von á mótframboði til formanns enda hefur t.d Þorgerður sagt að sá eintaklingur væri stórlega að ofmeta stöðu sína ef hann/hún ætlaði í framboð á móti GHH.
Annars er aldrei að vita hvað gerist á þessum fundi - ÞKG hlýtur að fá mótframboð.

Óðinn Þórisson, 11.1.2009 kl. 14:00

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband