Miðvikudagur, 15. október 2008
Rétt ef Ísland væri eins og Danmörk
Ég efast ekki um að mat Lars Christensen er rétt ef Ísland væri eins og Danmörk. Við erum hins vegar ekki eins og Danir. Munurinn er að við getum ráðist að vandmálum með áhlaupi. Nú þarf slíkt áhlaup. Við þurfum að taka á gengis- og bankahruninu með áhlaupi. Gerum við það ekki mun spá Lars Christensen ganga eftir.
Það sem þarf að gera er að ríkisstjórnin þarf að tilkynna strax að á Íslandi er skollin á vertíð og að nú sem aldrei fyrr sé þörf fyrir allar vinnandi hendur.
Ég vil sjá alþingi taka á þessu máli eins og þegar neyðarlögin um bankana voru samþykkt og þingið samþykki ný neyðarlög. Í þessum nýju neyðarlögum verði eftirfarandi samþykkt:
· Nýju bankarnir koma með birtu, yl og súrefni inn á markaðinn og tryggt verið að þeir muni halda hjólum atvinnulífsins gangandi.
· Bankarnir lána 80% lán til kaupa á íbúðarhúsnæði.
· Samþykkt verði 20% aukning í fiskveiðum.
· Landsvirkjun byrji á virkjunum í neðri hluta Þjórsá fyrir áramót,
· Samþykkt verði stækkun og flýting á framkvæmdum í Helguvík,
· Samþykkt verði olíuhreinsistöð í Kvestu.
· Flýtt verði framkvæmdum við álveri á Húsavík.
· Greidd verði leið allra þeirra sem áhuga hafa á að koma hingað og setja upp starfsemi sem skapar gjaldeyri.
Það verður að gefa þjóðinni tækifæri á að vinna sig út þess og þá á ég við í alvörunni að vinna sig út úr þessu.
Ég skora á stjórnvöld að koma með einhver slík útspil. Þjóðin þarf á framtíðarsýn að halda og þarf að vita hvað er framundan. Ætla menn að velja dönsku leiðin eða taka íslenska slaginn og kalla menn til vinnu í vertíðinni framundan?
Spáir 75% verðbólgu á næstunni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:48 | Facebook
Athugasemdir
Heyr heyr.
Axel (IP-tala skráð) 15.10.2008 kl. 12:28
Heyr heyr
Brynjar (IP-tala skráð) 15.10.2008 kl. 12:30
og afnema verðtrygginguna tímabundið. og það sem fyrst.
jonas (IP-tala skráð) 15.10.2008 kl. 12:49
Þú vilt semsagt að Ísland skuldsetji sig meira fyrir framkvæmdum, og hætti ekki bara að standa við fjárhagslegar skuldbindingar sínar heldur fari líka að hunsa umhverfismat og gefi þannig náttúrunni og öllum heiminum langt nef? Þrátt fyrir góða fyrirætlan þá hljóma þessar lausnir bara einsog hugmyndir alkahólista um að redda sér áfengi fyrir næsta fyllerí, í stað þess að stoppa við horfast í augun við raunveruleikann.
Hér er bara allt í kalda kolum; við erum að taka yfir skuldbindingar sem eru margföld þjóðarframleiðsla Íslands og við getum því ekki skuldsett þjóðina meira. Nú þurfum við bara að treysta að sjávarútvegurinn, sú stóriðja sem hefur þegar verið byggð upp og mannauðurinn sem við höfum safnað að okkur muni vinna inn fyrir skuldum okkar og byggja upp hér nýtt og betra efnahagslíf. Allar hugmyndir sem brjóta gegn alþjóðlegum skuldbindingum okkar - einsog að byrja ofveiða fiskistofna, hunsa umhverfismat á framkvæmdum og þess háttar - eru því miður ekki raunhæfar. Nú þarf bara að vinna úr hlutunum, ekki redda þeim fyrir horn.
Jónas Tryggvi Jóhannsson, 15.10.2008 kl. 12:52
Sæll Jónas
Þú hugsar eins og dani.
Friðrik Hansen Guðmundsson, 15.10.2008 kl. 12:58
Sammála Jónasi, að "redda hlutunum" er ekki nóg. Spurning hvort að það sé bara ekki allt í lagi að fá nokkrar hugmyndir lánaðar frá dönum. Það eina sem íslendingar eiga eftir er náttúran, á nú að eyðileggja hana líka.
Arnþór Guðjón Benediktsson, 15.10.2008 kl. 21:20
Allir á dekk. Ég sé að þú ert lagður af stað frændi. Kær kveðja.
Eyþór Árnason, 15.10.2008 kl. 21:40
Sæll Arnþór, það er nákvæmlega ekkert að því að fá lánaðar hugmyndir frá dönum. Við getum lært mikið af þeim. Við höfum verið að fjarlægjast norðurlandaþjóðirnar of mikið á undanförnum árum og verið að breyta samfélaginu og mikið í átt til þess breska og bandaríska. Það er óheillaþróun.
En við verðum líka að horfast í augu við það að hér á landi hefur átt sér stað hrun. Einstaklingar og fyrirtæki hafa tapað gríðarlegum fjármunum. Þessa peninga mun vanta sárlega inn í atvinnulífið á næstu misserum. Að óbreyttu mun atvinnustigið hrynja. Öll störf í samfélaginu eru nú í uppnámi. Engin veit hver verður í vinnu í febrúar á næsta ári. Alls staðar er að dragast saman kaup á vörum og þjónustu. Tekjur ríkisins og sveitarfélaga eru að minnka. Afborganir af lánum að hækka.
Mikill ótti, órói og óvissa er að grafa um sig í samfélaginu vegna óvissu í atvinnumálunum. Þjóðarbúið er að taka á sig gríðarlegar skuldir vegna bankanna í útlöndum. Sér ekki fyrir endann á þeim skuldaklafa sem mun hvíla eins og myllusteinn um hálsinn á okkur á næstu árum. Til að ríkið ráði við að greiða af þeim skuldum eru fyrirséðar miklar skattahækkanir og niðurskurður á þjónustu hins opinbera. Þá fara opinberir starfsmenn líka að missa vinnuna. Íslenskir iðnaðarmenn eru byrjaðir að leita sér að vinnu á hinum norðurlöndunum og á Grænlandi. Ef fer fram sem horfir missum við iðnaðarmenn, bankamenn og margt af okkar unga fólki úr landi.
Nú kemur þú hér og segir að það megi ekki nýta auðlindir okkar til sjávar og sveita til að fá upp í skuldir, til að minnka fyrirsjáanlegt atvinnuleysi og minnka fyrirséðan samdrátt í þjónustu hins opinbera. Harðindaveturinn 1918 var öllum þeim er hann lifðu minnisstæður. Við þessir sem nú lifum erum að fara inn í okkar harðindavetur. Fyrirséð er að þeir geta orðir fleiri en einn.
Að segja það nú við þessar aðstæður að það megi ekki nýta orkuauðlindirnar er eins og segja við bændur í Skagafirði 1918 að þeir mættu ekki nytja Drangey. Þar mætti hvorki tína egg né veiða fugl.
Meðan fugl verpir í Drangey og meðan vötn falla til sjávar á Íslandi og meðan þetta land er byggilegt þá eigum við nýta þær endurnýjanlegu auðlindir sem hér er að finna, allt eftir því hvað hentar á hverjum tíma. Eftir 100 ár verður orka úr fallvötnum á Íslandi hugsanlega jafn eftirsóttari auðlind og eggjataka í Drangey er í dag. Eggjataka í Drangey bjargaði lífi margra þegar Skagfirðingar þurftu á því að halda að nýta þær auðlindir sem þar var að finna.
Nú þarf að búa til tekjur, störf og gjaldeyri. Í dag þurfum við á öllum okkar "Drangeyjum" að halda ætlum við að koma í veg fyrir það atvinnuleysi og þann fólksflótta sem blasir við.
Friðrik Hansen Guðmundsson, 16.10.2008 kl. 12:27