Föstudagur, 12. september 2008
Er þjóðarsátt um mesta hagsmunamál samtímans?
Það eru gleðitíðindi að hagdeildir aðila vinnumarkaðarins skuli komast að sömu niðurstöðu. Lausnin á þeim miklu og tíðu sveiflum í efnahagsmálunum og því óheyrilega tjóni sem þær valda er sú að taka upp evru. Þessu er ég og algjörlega sammála.
Þar er líka ljóst að hér er við ramman reip að draga því þó þjóðin sé klofin í afstöðu sinni til aðildar að Evrópusambandinu og upptöku evru þá er þingflokkur Sjálfstæðisflokksins það ekki. Svo einkennilega vill til að engir hafa komist á þing fyrir Sjálfstæðisflokkinn í rúman áratug nema þeir séu harðir andstæðingar Evrópusambandsins og helst í trúnaðarstöðum með fyrrverandi ráðherra Alþýðubandalagsins, Ragnari Arnalds, í Heimsýn. Fyrir harðan Evrópusinna og Sjálfstæðismann eins og mig hafa síðustu ár því verið erfið.
Fyrir mig er Samfylkingin samt ekki valkostur. Ég vil sjá Sjálfstæðisflokkinn koma til móts við okkur Evrópusinnana í flokknum. Annars verður einfaldlega að bjóða upp á nýjan valkost fyrir okkur sem erum hægrimenn og viljum inn í Evrópusambandið.
Það er hinsvegar þannig að það hafa ekki verið stjórnmálamennirnir okkar sem hafa verið örlagavaldar í okkar mestu hagsmunamálum á síðustu áratugum. Það hafa verið samtök launþega og atvinnurekenda. Þessi samtök hafa barið í geng okkar mestu þjóþrifamál.
Því segi ég, áfram með ykkur forystumenn launþega og atvinnurekenda, keyrum á upptöku evru innan fjögurra ára og inngöngu í Evrópusambandið.
Vilja ekki krónuna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:53 | Facebook
Athugasemdir
Hvernig kemst fólk allajafna á þing fyrir Sjálfstæðisflokkinn? Í gegnum prófkjör. Og hverjir kjósa í prófkjörunum? Við sjálfstæðismenn.
Es. Og sem sagnfræðinema langar mig annars að leiðrétta þá staðreyndavillu að Ragnar Arnalds hafi verið í Þjóðvaka sem Jóhanna Sigurðardóttir stofnaði þegar hún gekk úr Alþýðuflokknum um miðjan 10. áratug síðustu aldar. Það var hann aldrei mér vitanlega.
Hjörtur J. Guðmundsson, 12.9.2008 kl. 11:00
Um að gera að gefast upp við fyrstu hindrun og ganga Brussel á hönd. Það er þá kannski hugsanlegt að nýr Jón Sigurðsson fæðist í kring um 2800 og berjist fyrir sjálfstæðinu sem við létum af hendi því við vorum orðin svo slöpp að við gátum ekki staðið á eigin fótum.
Væri það annars ekki fyndið ef Sjálfstæðisflokkurinn afsalaði sjálfstæði þjóðarinnar?
Villi Asgeirsson, 12.9.2008 kl. 11:02
Takk fyrir þessa ábendingu Hjörtur. Heimsýn heita samtök andstæðing Evrópusamtakanna og þar er Ragnar Arnalds formaður. Þetta er leiðrétt hér með.
Friðrik Hansen Guðmundsson, 12.9.2008 kl. 11:57
Væri það annars ekki fyndið ef Sjálfstæðisflokkurinn afsalaði sjálfstæði þjóðarinnar?
Ahahah, jú, það væri nett fyndið :)
En hvað þessu máli snýst, þá er ESB ekki þessi draumalausn sem fólk virðist halda, til langs tíma litið skaðar ESB meira en það bætir.
Ég hef það sterkar skoðanir á aðild að ESB að mitt atkvæði í næstu kosningum mun standa og falla með stefnu flokkanna varðandi ESB aðild.
Jóhannes H (IP-tala skráð) 12.9.2008 kl. 12:12
Því að ganga í ESB má líkja við að lækna sár á fingri með að höggva fingurinn af, þ.e. þú lagar eitt vandamál en kemur með annað í staðinn. Það er vissulega staðreynd að með inngöngu í ESB séum við að fá stöðugri gjaldmiðil og líklega lægri vexti. En á móti kemur að við erum að fórna því sjálfstæði sem er einmitt svo mikilvægt fyrir litla þjóð í útnára alheimsins. Landfræðilega erum við nefnilega staðsett þannig að við þurfum að hafa ákveðið svigrúm í okkar innanríkismálum til að geta boðið upp á samkeppnishæft viðskiptaumhverfi gagnvart meginlandi Evrópu, þar sem flest hinna ESB landanna eru staðsett. Með inngöngu í ESB erum við að færa ráðamönnum í Brussel hálfgert alræðisvald yfir öllum okkar málefnum og þar á meðal viðskiptaumhverfi og alþjóðlegum samningum, sem gerir það að verkum að við getum ekki boðið upp á öðruvísi og meira aðlaðandi umhverfi fyrir fyrirtæki en hin ESB löndin, því slíkt svigrúm er ekki til staðar innan ESB. Þannig fengjum við færri fyrirtæki inn í landið og minna erlent fjármagn. Auk þess myndi Brussel hafa yfirráð yfir okkar helstu auðlind, fiskinum og gæti vel tekið upp á því að gjörnýta okkar fiskimið "til hagsbóta fyrir heildina", en það er akkúrat það sem ESB snýst um, þ.e. að fórna hagsmunum einstakra ríkja fyrir heildina, og eins og dæmið lítur út fyrir mér þá hugsa ég að Ísland muni oftar en ekki bera skertan hlut frá því borði.
Muddur, 12.9.2008 kl. 14:48