Miðvikudagur, 18. júní 2008
Hvítabjörn felldur á Hrauni á Skaga
Eftir að hafa fylgst með atburðarásinn á Hrauni á Skaga úr öruggri fjarlægð héðan úr Reykjavík þá sitja í kollinum fjöldi spurninga.
Var leigð sérstaklega heil þota til að fljúga með þennan danska sérfræðing og timburkassann sem nota átti undir ísbjörninn frá Kaupmannahöfn til Akureyrar?
Hverjum datt í hug að fá Dana úr dýragarðinum í Kaupmannahöfn sem aldrei hefur veitt ísbjörn, og að því er virðist aldrei veitt neitt, til stjórna aðgerðum? Hann hefði ekki einu sinni geta komist í gott skotfæri við hrossin á Hrauni hafi hann ætlað að nálgast þau úr bíl.
Var ekki hægt að fá senda á faxi/tölvupósti teikningu af þessum timburkassa sem nota átti undir ísbjörninn? Trésmíðaverkstæðið á Blönduósi hefði með slíka teikningu geta slegið saman slíkum kassa á tveimur tímum.
Hverjum datt í hug í alvöru að það væri forsvaranlegt að eyða tugum milljóna króna í að reyna að fanga þennan ísbjörn lifandi? Frá landnámsöld hafa öll bjarndýr sem hingað hafa komið verði drepin. Það er hefðin, það er reglan. Nei, nei, í dag er þyrla og varðskip send á staðinn, umhverfisráðherra drífur sig frá útlöndum og er á þjóðhátíðardaginn mættur í kaffi í stofunni á Hrauni á Skaga. Hefur gripið hér um sig slíkt náttúruverndaræði að öll skynsemi er á bak og burt?
Fyrst Umhverfisráðuneytið hefur svona rúm fjárráð og getur eytt botnlausum fjármunum í fár eins og þetta þá er rétt að benda þingmönnum og fjárlaganefnd á Kraft Stuðningsfélag fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur þess. Níu manna hópur á vegum þess félags ætlar að sigla í kringum Ísland í sumar til að safna fjárframlögum.( http://www.krafturikringumisland.com/page/18299/ ) Er skattfé okkar og annarra ekki betur varið til slíkra málefna en að umhverfisráðuneytið sé að soprtast við að reyna að ná lifandi ísbirni í æðarvarpinu á Hrauni á Skaga?
Á Grænlandi er sá háttur hafður á að ef ísbjörn þvælist í nánd við bæi eða þorp þá eru þeir umsvifalaust skotnir. Ég á von á að sömu reglur gildi í Kanada, Noregi og Svíþjóð. Á Grænlandi segja menn að birnir sem einu sinni hafa lagt leið sína í nánd við mannabústaði þeir munu koma þangað aftur, þetta er orðið hluti af veiðislóð viðkomandi dýrs. Það skapi íbúunum stórhættu í framtíðinni og því eigi og verði að fella slík dýr.
Fyrir einu eða tveim sumrum síðan varð ísbjörn konu að bana á Svalbarða, vinkona hennar komst við illan leik til byggða en þær höfðu farið þangað til að ganga um eyna. Þessi atburður rifjast upp þegar ég hugsa til þessa að til stóð að ég færi að veiða í þessum fengsælu vötnum á Skagaheiðinni nú fyrrihluta júní. Þar eru í dag sjálfsagt á annan tug mann við silungsveiðar. Fyrri björninn gekk um þær veiðislóðir. Ég er sæll með það í dag að hafa ekki farið og ég mundi hugsa mig tvisvar um í dag að fara til silungsveiða upp á Skagaheiði með flugustöngina og vasahnífinn einan að vopni.
Ef eyða á fjármunum í eitthvað í tengslum við þessar bjarndýrakomur er þá ekki rétt að senda vopnaða menn með hunda um Skagaheiðina og um norðanverða Vestfirði og ganga úr skugga um hvort fleiri dýr kynnu að vera hér á ferð, svona áður en aðal ferðamannatíminn fer í hönd?