Þriðjudagur, 7. janúar 2025
Helreið Bjarna Benediktssonar með Sjálfstæðisflokkinn loks lokið
Þegar Bjarni Benediktsson, BB, tók við formennsku í Sjálfstæðisflokknum 2009 var hann nýkominn úr flóknu ferli margra stórra gjaldþrota í íslensku atvinnulífi. Án þess að fara að rekja þá sögu má nefna Vafnigsmálið og bótasjóð Sjóvár Almennra sem hvarf o.s.frv.
Alvarlegustu mistök Bjarna sem formanns Sjálfstæðisflokksins er að hann klífur flokkinn með því að reka Evrópusinnana úr flokknum með mjög harðri og einstrengingslegri afstöðu og ummælum um Evrópusambandið, ESB. Bjarni í raun neyðir þetta fólk, 2014, til að fara úr Sjálfstæðisflokknum og stofna nýjan flokk, Viðreisn. Sjálfstæðisfólk sem hafði þá skoðun að það er ekki á valdi stjórnmálamanna að taka þetta mál af dagskrá heldur er það þjóðin sem á að fá að ráða því, með kosningum, hvort Ísland heldur áfram viðræðum og hugsanlega gengur í ESB í framhaldi. Alvöru stjórnmálamaður hefði aldrei látið þennan klofning eiga sér stað. Alvöru stjórnmálamaður hefði talað á þann veg að hann hefði haldið þessum sjálfstæðismönnum innan Sjálfstæðisflokksins. Allir hinir flokkarnir er líka klofnir í þessu máli en þeir ná samt að halda í sitt flokksfólk, þó skoðanir séu skiptar. Allir nema BB.
Sjálfstæðisflokkurinn fékk rúm 19% í kosningum 2024, Viðreisn fékk 15%, samtals er þetta 34 %. Ef BB hefði haldið með sama hætti á spilunum og formenn hinna flokkanna, verið alvöru forystumaður sem safnar að sér fólki og fylgi í stað þess að bíta það af sér, þá má ætla að þessi 34%, það væri fylgi óklofins Sjálfstæðisflokks í nýafstöðnum kosningum og Þorgerður Katrín væntanlega enn varaformaður flokksins. Með öðrum orðum þá er fylgi flokksins í rúst eftir BB.
Í annan stað býr BB til pólitískt hugmyndafræðilegt tómarúm í Sjálfstæðisflokknum. Í þeim kosningum þar sem BB leiddi flokkinn þá var eina hugmyndafræðin að standa vörð um óbreytt ástand. Eftir 16 ár af þessu hugmyndafræðilega tómarúmi þá veit engin í dag fyrir hvað flokkurinn stendur. Landfundarsamþykktir segja eitt en formaðurinn og þingflokkurinn eru að gera og segja eitthvað allt annað. Með öðrum orðum, hugmyndafræðilega er flokkurinn í rúst eftir BB.
Í þriðja lagi þá er aðkoma BB að fjármálum Íslenska ríkisins á mörgum sviðum mjög sérstök. BB sem fjármálaráðherra stöðvar skattrannsóknir á málum sem upp komu í framhaldi af hruninu. Hann selur i tvígang hluti í Íslandbanka til óþekktra erlendra fjárfesta sem selja sinn hlut samdægurs með a.m.k. 10% hagnaði. Þessa hluti keyptu lífeyrissjóðir landsmanna sem ekki var boðið að vera fyrstu kaupendur. Hagnaðurinn af fyrsta snúningnum með hluti í bankanum varð að renna til erlendra fjárfesta. Það hlýtur að koma að því að fleiri spyrji, hverjir voru þessir erlendu aðilar sem fengu að kaupa í bæði skiptin og af hverju? Að ekki sé nú minnst á að faðir BB fékk að kaupa og var í hópi þeirra 140 einkafjárfesta sem fengu forkaupsrétt á að kaupa í síðustu sölu. Skuggi ótrúverðugleika vegna þessara fjármála gjörninga BB í hans embættistíð í fjármálaráðuneytinu hefur síðan fallið á Sjálfstæðisflokkinn. Með öðrum orðum trúverðugleiki Sjálfstæðisflokksins er í rúst eftir BB.
Þegar dregin er saman aðkoma BB að Sjálfstæðisflokknum þá er flokkurinn í rúst. Flokkurinn er klofinn, flokkurinn er hugmyndafræðilega gjaldþrota, fylgið er hrunið og dökkur skuggi ótrúverðugleika hvílir yfir flokknum. Þessi helreið sem BB hefur verið með Sjálfstæðisflokkinn á síðustu 16 ár hafa mörgum verið ljós lengi enda hafa tveir af helstu forystumönnum hans á síðustu árum boðið sig fram til formanns á móti BB til að reyna að stöðva þessa helreið, fyrst 2017 og svo 2020. Það tókst ekki og nú kveður BB Sjálfstæðisflokkinn eftir 16 ár sem formaður og skilur við flokkinn í svipuðu ástandi og fyrirtækin voru í sem hann kvaddi 2009.
Nýr formaður flokksins hefur verk að vinna. Eitt af hans verkum ætti að vera að tala fyrir sameiningu Sjálfstæðisflokksins og Viðreisnar og móta nýja stefnu byggða á hinum gömlu gildum flokksins. Nýjum formanni er óskað alls hins besta.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 8.1.2025 kl. 09:38 | Facebook