Laugardagur, 6. apríl 2013
Verða "Árna Páls lögin" og "110% leiðin" grafskrift Samfylkingarinnar?
Með "Árna Páls lögunum" var reynt að hafa hundruð milljarða af skuldugum heimilum landsins með lögbrotum sem Hæstiréttur á endanum stöðvaði.
Með "110% leiðinni" hans Árna Páls fóru þeir skuldsettustu úr öskunni í eldinn.
Þegar Árni Páll breytti einhliða vísitölunni á öllum verðtryggðum lánum úr því að vera bundin lánskjaravísitölu yfir í að vera bundin launavísitölu þá var verið að taka snúning á skuldsettum heimilum landsins. Með þessum gjörningi þá var verið að plata skuldug heimili landsins til að pissa í skóinn sinn. Hlítt fyrst en svo kemur kuldinn fyrir alvöru.
Þrátt fyrir fögur fyrirheit og ég efa ekki góðan vilja margra þingmanna og ráðherra Samfylkingarinnar, þá verður ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur ekki minnst fyrir aðgerðir hennar í skuldavanda heimilanna.
"Árna Páls lögin" er skýrasti vitnisburður þess að hagsmunir bankana voru teknir fram yfir hagsmuni heimilanna. Lögin setti Árni Páll, núverandi formaður Samfylkingarinnar, þegar hann var efnahagsráðherra, 18. des 2010. "Árna Páls lögin" voru sett í framhaldi af dómi Hæstiréttar þar sem gengislánin voru dæmd ólögleg. "Árna Páls lögin" voru sett í þeim tilgangi einum að minnka útlánatap bankana vegna þessa dóms. Samkvæmt "Árna Páls lögunum" áttu samningsvextir á þessum lánum ekki að gilda heldur skildu vextir á þeim vera sömu og vextir Seðlabankans á óverðtryggðum útlánum. Endurreiknuð gengislán sem bankarnir buðu og miðuðust við "Árna Páls lögin" voru í flestum tilfellum þannig að mánaðarlegar afborganir af þeim og heildargreiðsla var hærri en af óbreyttum gengislánunum. Ljóst var frá upphafi að það yrði látið reyna á vaxtaákvæði "Árna Páls laganna" fyrir dómi. Hæstiréttur dæmdi þennan gjörning Árna Páls tveim árum síðar ólöglegan, 18. okt. 2012. Þegar dómsmálin um "Árna Páls lögin" stóðu sem hæst. þann 31. des 2011, hrökklaðist Árni Páll úr ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og hverfur á braut úr ráðuneytinu með ráðgjöfum sínum, ráðgjöfum sem höfðu ráðið honum svo "heilt" í hans ráðherratíð. "Árna Páls lögin" urðu þess valdandi að uppgjör á öllum erlendum lánum drógst um meira en tvö ár. Eftir að Hæstiréttur dæmdi "Árna Páls lögin" ólögleg þá átti ríkistjórn Jóhönnu Sigurðardóttur sinn besta leik fyrir skuldug heimili landsmanna. Ríkistjórnin ákvað að gera ekki neitt og lét dóminn standa. Í dag hafa þeir sem tóku gengistryggð lán verið á síðustu mánuðum og misserum að njóta endurgreiðslna af bílalánum sínum og húsnæðislánum þar sem höfuðstóll lækkar um allt að 50%. Og merkilegt nokk, bankarnir blómstra sem aldrei fyrr þrátt fyrir það. "Árna Páls lögin" töfðu hins vegar þetta uppgjör um tvö ár. Þessi dráttur hefur kostað marga einstaklinga mikið. Á þessum tveim árum hafa margir misst íbúðir sínar og eignir, íbúðir og eignir sem þetta fólk hefði ekki misst ef höfuðstóll erlendu lánanna hefði verið skrifaður niður um 50% fyrir tveimur árum.
Til þess að bankar þyrftu að afskrifa sem minnst af lánum sínum til skuldsettustu heimilanna þá var 110% leiðin hönnuð. Lyklafrumvarpi Lilju Mósesdóttur var hafnað og 110% leiðin valin. Leið sem gerði bönkunum kleyft að teygja sig enn lengra í innheimtuaðgerðum sínum með því að "halda lífi" í lántakendum sem annars hefðu lýst sig gjaldþrota og bankarnir tapað kröfum sínum að fullu. 110% leiðin er fyrir bankana, ekki heimilin. Af hverju var þessu fólki ekki einfaldlega gefinn kostur á því að ganga út og skilja lyklana eftir?
Þriðji nöturlegi gjörningur Árna Páls gegn skuldugum heimilum landsins var þegar hann ákvað einhliða að breyta grundvelli allra verðtryggðra lána í landinu þannig að lánin eru ekki miðuð við lánskjaravísitölu heldur launavísitölu. Þessi breyting var gerð einhliða með lagabreytingu, 2011, þegar laun voru í sögulegu lámarki en verð á innfluttum vörum hátt, þ.e. kaupmáttur var í sögulegu lámarki. Launamenn munu á næstu árum og áratugum sækja tapaðan kaupmátt sinn. Þegar kaupmáttur eykst þá munu lán tengd launavísitölu hækka meir en lán tengd verðlagi / lánskjaravísitölu. Út á þetta gengur þessi snúningur bankana. Þeir munu græða meira í framtíðinni á lánum tengd launavísitölunni en lánum tengd lánskjaravísitölunni. Þessi glaðningur frá Árna Páli mun bíða skuldsettra heimila þegar atvinnulífið fer að ná sér á strik og laun fara að hækka umfram verðlag. Margir sáu í gegnum þennan gjörning Árna Páls og bankana og hlupu til og kröfðust þess að lán þeirra yrðu áfram miðuð við óbreytta vísitölu, það er lánskjaravísitöluna. Það er hins vegar ljóst að meirihluti skuldsettra heimila landsins áttaði sig ekki á þeim snúningi sem bankarnir voru að taka á þeim og efalaust munu margir hugsa hlýlega til Árna Páls á komandi áratugum þegar lánin þeirra eru orðin töluvert hærri en gömlu lánskjaravísitölulánin.
Það er ekki beint akkur fyrir Samfylkinguna að fara nú í kosningabaráttu þar sem eitt aðal kosningamálið er skuldavandi heimilanna með Árna Pál sem formann, mann sem annað tveggja skildi aldrei hvað hann var að gera þegar hann var efnahagsráðherra og lét ráðgjafa sína ráða för eða Árni Páll hreinlega barðist fyrir hagsmunum bankana og aðstoðaði bankana við að taka hvern snúninginn af öðrum á skuldugum heimilum landsins.
Telur Samfylkingin virkilega að einhver sá sem skuldar bíla- eða íbúðalán eða einhver sem þekkir einhvern sem skuldar bíla- eða íbúðalán muni kjósa Samfylkinguna?
Lýðræðisvaktin vill lækka verðtryggðar skuldir heimilanna. Það viljum við gera á ábyrgan hátt þegar staða ríkissjóðs og bankana liggur fyrir þannig ekki hljótist meira tjón en gagn af þeim aðgerðum sem gripið verður til. En þessi verðtryggðu lán ætlum við færa niður.
Tillögur Framsóknar valda bólgu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 7.4.2013 kl. 00:04 | Facebook