Sunnudagur, 15. júlí 2012
Einangrun og fátækt hlutskipti okkar Íslendinga næstu áratugi?
Í mínum huga skiptir litlu hvort heldur Seðlabankinn hefur rétt fyrir sér eða Heiðar Már Guðjónsson þegar kemur að mati á því hvort kaupmáttur launa sé eins og var fyrir tæpum áratug eða tveim áratugum.
- Raunveruleikinn er sá að við Íslendingar höfum tapað ávinningi allra launahækkana síðustu eins til tveggja áratuga í því hruni sem hér varð í boði fjórflokksins.
- Raunveruleikinn er sá að við verðum að öllu óbreyttu föst í þessari láglaunagildru í a.m.k. einn til tvo áratugi.
Launahækkanir síðustu ára gera varla að halda í við verðbólguna. Frá hruni hefur því lítill sem engin kaupmáttaraukning orðið. Landið er lokað inni í gjaldeyrishöftum sem engin sér fyrir endann á. Að óbreyttu mun það taka á annan áratug að greiða út þær erlendu innistæður sem streymdu hér inn í landið í formi Jöklabréfa og vegna þess mikla vaxtamunar sem hér var í boði á árunum fyrir hrun. Hávaxtastefnu sem keyrði um þverbak í ríkisstjórnartíð Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks.
Gengið og þar með launin eru stillt þannig af að tryggt er að vöruskiptajöfnuðurinn er hagstæður um tugi milljarða á mánuði. Þannig er hægt að standa við umsamdar afborganir af erlendum lánum og borga eitthvað út af erlendu innistæðunum eftir hávaxtaævintýri ríkisstjórnar Geirs Haarde. Þannig þarf staðan að vera a.m.k. næstu 15 árin ætli þjóðin sér að komast út úr sukkinu frá árunum fyrir hrun.
Á sama tíma og vöruskiptajöfnuðurinn er þetta hagstæður hefur fjárfesting í atvinnulífinu verið í sögulegu lágmarki. Það þýðir að framundan er stöðnun og áframhaldandi kaupmáttarrýrnun.
Í mínum heimi þá þarf að fara rúman aldarfjórðung aftur í tímann, til áranna fyrir 1990, til að finna sambærilega stöðu og launafólk á Íslandi er í gagnvart nágrönnum okkar á hinum Norðurlöndunum. 1988 fór ég í mitt fyrsta byggingaverkefni á Grænlandi. Ég man hvað það kom illa við mig þegar ég áttaði mig á því að íslensku verkamannalaunin sem við vorum þá að greiða okkar mönnum voru um helmingi lægri en grænlensku fiskverkakonurnar voru með. Þá eins og nú eru greidd dönsk laun á Grænlandi.
Nú aldarfjórðungi síðar þá er staðan því miður ekkert betri en þá. Lágmarkslaun byggingaverkamanna á Íslandi, 6 flokkur, eftir 7 ára starf er 1.065 íkr/t.
Samsvarandi lágmarkslaun í Danmörku eru 108 ddk/t eða 2.376 íkr/t. Í Noregi eru samsvarandi lámarkslaun 187 nok/t eða 3.927 íkr. Skatthlutfall og skattar eru sambærilegir og hér.
- Í samanburði við hin Norðurlöndin þá er almennt launafólk á Íslandi í dag að minnsta kosti aldarfjórðungi á eftir hinum Norðurlöndunum í lífskjörum.
- Í samanburði við hin Norðurlöndin þá býr íslenskt láglaunafólk við fátækt.
En þetta er "íslenska leiðin", leiðin sem miðar að því að hagsmunir íslenskra útvegsmanna eru látnir hafa allan forgang þegar kemur að stjórn efnahagsmála.
Íslenska leiðin er samfélag fátækts verkafólks og modríkra útgerðarmanna. Samfélagi sem er haldið í eins mikilli einangrun og hægt er frá tæknivæddustu og ríkustu löndum heims, okkar næstu nágrönnum í Norður Evrópu.
Er ekki kominn tími á breytingar og uppbyggingu?
Staða launa eins og 2004 | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:04 | Facebook
Athugasemdir
Hefurðu upplýsingar um, hvað sama húsgagn í Íkea, kostar hér og í þessum tveimur löndum ?
Björn Jónsson, 15.7.2012 kl. 17:41
Þetta er hárrétt há þér, greinin flott og vel skrifuð. En þú spyrð í lokin þessarar spurningar.
"Er ekki kominn tími á breytingar og uppbyggingu?" Mitt svar er. Þótt fyrr hefði verið en en því miður,,, er það of SEINT í dag,,, skaðinn er skeður...
Kristinn J (IP-tala skráð) 15.7.2012 kl. 17:42
Hver er þá leiðin Friðrik? Að ganga í ESB? Ekki hverfa skuldirnar við það! Að "lokka" að erlenda fjárfesta? Sem ekkert eru æstir í að koma, að auki er nú þegar, eins og Heiðar bendir á góður hluti af arði Íslendinga sendur út til fjármagnseigenda þar. Enda er það að fá erlenda fjárfesta stundum fínt orð yfir það að selja frá sér mjólkurkýrnar. Þ.e. auðlindirnar. Hrunið er staðreynd, við getum kent ýmsu um, krónunni a.m.k. misnotkun hennar, klúðri stjórnmálaflokka í aðdraganda hrunsins og klúður eftir það hefur ekki bætt úr.
Málið er hvað er hægt að gera. Ég sé aðeins eitt ráð. Halda genginu lágu, greiða niður erlendar skuldir.
Í framhaldi af því,spara,forðast æfintýralausnir fjármálaspekúlanta,auka skatta á hátekju fólk t.d. með hækkuðum fjármagnstekjuskatti,hætta við núverandi lífeyriskerfi,leggja af glórulausar væntingar þess og tryggja öllum í staðin lágmarkslífeyri (með sanngjörnum tekjutengingum) sem er greiddur af skattfé eftir því sem til er hverju sinni. Leiðrétta ruglaða vísitölu og leggja hana svo af tryggja rétt einstaklingsins gagnvart fjármálafyrirtækjum (sbr.lyklafrumvarp), ábyrgð,ábygð,ábyrgð og aðhald í ríkisfjármálum. Gleyma auðlindagjaldi á sjávarútveg en leggja þess í stað á sérstakan lágengisskatt, svona c.a. næstu 10 árin. Þegar grynnkar á erlendum skuldum og gengið fer að verða eðlilegt, má leggja hann af,eftir það á eðlilegur skattur að duga til að tekjur af auðlindinni gangi til íslendinga. Leggja rækt við innlenda framleiðslu,sérstaklega þá sem helst í landinu en hverfur ekki si svona ef forráðamenn einhverra fyrirtækja fyrtast.
Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 15.7.2012 kl. 23:52
Sæll Bjarni
Ég held að eina færa leiðin sé að feta slóð þekktra og öruggra lausna. Lausna sem hafa fært Þýskalandi, Hollandi, Danmörku og Svíþjóð gríðarlega hagsæld á síðustu 40 árum.
Við höfum í heilan mannsaldur reynt að feta þá leið sem þú lýsir hér að ofan. Það hefur gengið í nokkur ár. Þá fáum við menn eins og Gunnar Thoroddsen sem stjórnar hér í 3 til 4 ár með 80% verðbólgu á hverju ári þessi ár sem hann var við völd sem forsætisráðherra. Eða mann eins og Steingrím Hermannsson, þennan áratug sem hann var forsætisráðherra þá var verðbólga að jafnaði 50% á ári. Geir Haarde og Ingibjörg Sólrún slógu síðan öll fyrri met í "árangursríkri hagstjórn".
Þessi íslenska leið er því miður ófær nema ef ætlunin er að Ísland verði áfram þessi verstöð sem Ísland hefur verið alla síðustu öld. En þá verðum við heldur aldrei neitt annað en það sem við erum í dag, verstöð og hráefnisútflytjandi sem greiðir þegnum sínum lægstu laun sem greidd eru í Norður Evrópu.
Friðrik Hansen Guðmundsson, 16.7.2012 kl. 01:08
Raunveruleikin er að hrunið er í boði fjórfrelsisins enda er peningamálastefnan frá 2001 skilgetið afkvæmi þess. Einkavæðing bankana er skilgetið afkvæmi fjórfreslsisins og er peningamálastefna(hávaxtastefnan) frá 2001 afleiðing af þeirri kröfu ESB að einkavæða skuli bankana vegna fjórfrelsisins í EES samningnum. Skjólstæðingar fjórflokksins gripu fegins hendi kröfu ESB um einkavæðingu bankana enda gafst þá gullið tækifæri að stunda bankarán um hábjartan dag og það í boði ESB/EES.
Íslendingar munu þurfa að greiða fyrir þessa misheppnuðu fjórfrelsistilraun ESB/EES næstu áratugina með lakari kjörum þ.e ef núverandi ESB lyddur eru við stjórnvölin. Sá danski banki sem varaði við hruninu segir að raungengi krónunar sé rangt skráð um 30%, þ.e of lágt skráð, sem kemur heim og saman við þá kjaraskeriðing sem launamenn þurfa að bera fyrir þessa tilraun með EES. Á sama tíma gleymist að gengi t.d Norsku krónunnar er ofskráð um c.a 60% og gengi Dönsku krónunnar um c.a 30%. Þessi ofursterka olíukróna Norðmanna er þegar farinað hafa alvarlegar afleiðingar fyrir iðnað í Noregi og ekki talin geta staðist til lengdar frekar en Íslenska krónan þegar hún var ofmetin um 30 - 40% vegna innflæðis erlends fjármagns í leit að ofurvöxtum peningamálastefnu SÍ fyrir hrun.
Það sem gleymist í samanburði á launum milli norðurlandana er að lífeyrisgreiðslur eru allar inni í krónutölu tímakaups á hinum norðurlöndunum en hér kemur stór hluti þessara lífeyrisgreiðslna ekki fram enda flokkast það sem launakostnaður atvinnurekanda, í dag er þessi upphæð 10%. Þetta sýnir líka að skattar eru hæstir á Íslandi af öllum norðurlöndunum og er það skilgetið afkvæmi núverandi stjórnarflokka. Ef gengið er rangt skráðum 30% og 10%% af laununum okkar eru "launakostnaður" launagreiðenda þá er munurinn á milli Íslands og Danmerkur ekki mikill sérstaklega þegar tillit er tekið til þess að Norska, Sænska og Danska krónan eru ofskráð svo nemur tugum prósenta.
Eggert Sigurbergsson, 16.7.2012 kl. 07:57
Tek undir með með þér Friðrik upplifun mín af launamun á milli Íslands og hinna norðurlandana er svipuð og þú bendir á, ég vann við byggingavinnu í Færeyjum 1984 ,nú í Noregi og get ekki betur séð en að þetta stemmi.
Eggert þetta er athygliverður pistill hjá þér sem auðvelt er að vera sammála í flestu. Þó eru atriði sem þurfa skýringa við af þinni hálfu.
Hvernig færðu það út að lífeyrisgreiðslur séu allar inn í krónutölu tímakaups á hinum norðurlöndunum?
Samkvæmt mínum launaseðlum er ekkert af lífeyrisgreiðslum inn í krónutölu tímakaups sem gerir aftur samanburðinn á himinháum sköttum íslenska ríkisins enn ískyggilegri. Eins er skráning gjaldmiðla norðurlanda staðreynd sem kemur þessum samanburði ekki við, eru meira fílósóferingar um ef og hefði.
Magnús Sigurðsson, 17.7.2012 kl. 08:50