Sunnudagur, 17. júní 2012
Grikkir hafna "Íslensku leiðinni", leið einangrunar og fátæktar
Meirihluti Grikkja hafnaði "Íslensku leiðinni" í grísku þingkosningunum á þjóðhátíðardegi Íslendinga.
Það er ljóst að skynsemin hefur náð yfirhöndinni í Grikklandi og þeir valið áframhaldandi samstarf við Evrópusambandið. Grikkir hafa þar með hafnað "Íslensku leiðinni", leið sem Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn hafa haft forystu um að fara hér heima.
Grikkir þekkja það vel að vera með ónýtan gjaldmiðil eins og við Íslendingar því þeir hafa einungis haft evruna í 6 eða 7 ár.
Þeir vita því nákvæmlega hvað felst í "Íslensku leiðinni" annars vegar og hins vegar hvað felst í því að vera með evru og vera þátttakandi í efnahagssamstarfi Evrópuríkjanna.
Niðurstaðan er einföld - Grikkir hafna því að fara "Íslensku leiðina".
Eftir stöndum við Íslendingar, einangruð útkjálkaþjóð og höldum að við getum staðið utan ESB með eigin gjaldmiðil eins og ríkasta land Evrópu, olíuríkið Noregur - þvílík blekking.
Löngu er tímabært að launafólk taki í taumana og hugi að eigin hagsmunum og hætti að láta ruglaða hugmyndafræði og hagsmuni LÍÚ stjórna þessum málum.
Nýtt lýðræði sigraði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 18.6.2012 kl. 06:45 | Facebook
Athugasemdir
Góður pistill Friðrik. Sviss er einnig utan ESB, enda ríkari en Noregur. Þeir hafa hugvitið og þekkinguna, sem er er verðmætara en olían. En það kemur að því að Sviss gangi í ESB. Tæpur helmingur þjóðarinnar er því þegar hliðhollur.
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 17.6.2012 kl. 22:11
Sælir; Friðrik síðuhafi og Haukur, sem aðrir gestir Friðriks !
Ósvinna væri nú; að láta ykkur komast upp, með þetta óviðfelldna ESB skjall piltar gagnrýnislaust, þó við séum sammála, á ýmsum sviðum, öðrum.
Noregur; nirfilpúkaríkið í austri - og EKKI frændaland Íslendinga, er ekki ríkasta þjóð Evrópu, nágranna álfu okkar, í austri.
Það er Rússland; ágætu drengir (að; meðtöldum Asíuhluta sínum, að nokkru)
Svisslendingar; muna enn, skotfimi Vilhjálms Tell - og munu því sjálfstæðir verða, um langan aldur, enn.
ESB; drauma fabrikka ykkar félaga, er 2. virkasta leppríkjabandalag Bandaríkja manna - á eftir Saudi- Arabíu og fylgiríkjum hennar, en tæpast vil ég trúa því, að þið séuð hlynntir áframhaldandi drápum NATÓ/ESB samsteypunnar, á vopnlausu fólki, austur í Írak og Afghanistan - með því að Ísland niðurnjörvaði sig enn frekar, en orðið er, með NATÓ slátrurunum, Friðrik og Haukur - eða; hvað ?
Með beztu kveðjum; sem oftar - öngvu, að síður /
Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 18.6.2012 kl. 00:45
Ég skil grikki vel en ég skil einnig að vilja losna undan oki bankanna (fjármálaeigendamafíunnar). Sjálf hefði ég kosið hægri flokkinn Nýtt lýðræði, ef ég væri grikki.
Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 18.6.2012 kl. 01:00
Íslendingar eiga nóg af auðlindum og hugviti til að geta lifað allir góðu lífi.Það vitlausasta sem þjóðin gæti gert væri að láta blekkja sig til að ganga í Evrópusambandið þettað risastóra stjórnsýsluapparat sem ekki getur komið sér saman um neitt af viti. tökum sem dæmi fiskveiðistjórnunamálin þeir komu sér saman um daginn um að reglur um bann við brottkasti kæmu til framkvæmda eftir 7 ár ESB sjómenn henda sem vitað er um 1,3 milljónum tonna í hafið árlega eg er það örugglega bara toppurinn af ísjakanum banna þarf brottkst STRAX én nei 7 ár koma þeir sér saman um einhverjir kerfiskratar sem hafa hundsvit á því hvað þeir eru að ákveða. Svipað rugl er í gangi í efnahagsmálunum hver hendin upp á móti annari. Þessi innlimunatilraun lítils sérhagmunahóps hér á landi sem er með Evrópusambandið á bakvið sig mun algjörlega misheppnast og þegar þjóðin verður orðin upplýst um allt þetta landráðaplott bóluna-hrunið og leppstjórnina mun ekki hvarfla að nokkrum Íslendingi að láta innlima landið í þetta apparat sem stefnt að að verði stóríki Evrópu. Reyndar er meirihluti þjóðarinnar algerlega mótfallin þessu nú þegar.
Örn Ægir (IP-tala skráð) 18.6.2012 kl. 01:32
smá villa þarna í textanum á að vera kerfiskrata sem EKKI af hundsvit á því hvað þeir eru að gera við horfum úpp á bullið í þessum kratabjánum hér
Örn Ægir (IP-tala skráð) 18.6.2012 kl. 01:36
Í fyrsta lagi komast niðurskurðarflokkarnir ekki til valda í krafti meirihluta atkvæða heldur 50 sæta reglunnar, þ.e sá flokkur sem flest atkvæði fær - Nea Demokratia rétt marði það - fær 50 bónussæti. Þannig verður það mögulegt fyrir ND og PASOK að mynda meirihlutastjórn með minnihluta atkvæða á bak við sig.
Í öðru lagi er ástandið miklu mun betra hérna en í Grikklandi. Þótt við höfum ákveðið að fara leið "einangrunar og fátæktar", þ.e að setja aðra hluti í forgang en að tryggja að þýskir og franskir bankar fá greitt af útlánum sínum, þá erum það við en ekki Grikkir sem erum með sæmilegt atvinnustig, hagvöxt og eigum enn lyf á spítulum.
Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 18.6.2012 kl. 16:29
Króatía nýtur góðs af því að vera ekki komin inn i Evrópusambandið og síðan fljótlega sjálfkrafa inn á evrusvæðið, eins og skylt er nýjum Esb-ríkjum. Þeir í Zagreb hafa sinn eigin gjaldmiðil og lentu ekki í vanda Grikkja við bankakreppuna, heldur aðlöguðu gengið að staðreyndum eins og við og njóta þess í mun betri stöðu ríkisins og þjóðarbúsins en ella hefði orðið.
Friðrik Hansen Guðmundsson kemur mér á óvart hérna fyrir einfeldni sína i þessum málum. Ég vísa til góðs innleggs Hans Haraldssonar hér á undan og til orða Styrmis Gunnarssonar á Evrópuvaktinni (Jóhanna getur glaðst vegna þess að hugmyndir hennar hafa ekki náð fram að ganga), sem vitnað var til í Staksteinum í dag, þar sem segir í inngangi:
"Styrmir Gunnarsson vék að þjóðhátíðarræðu Jóhönnu Sigurðardóttur á Evrópuvaktinni í gær og benti á að mál hefðu þróast á annan veg hér ef Ísland hefði verið innan ESB eins og hún óskar sér." Og svo orð Styrmis:
"Þá hefði ríkissjóður Íslands orðið að taka á sig skuldbindingar einkarekinna íslenzkra banka gagnvart eigendum skuldabréfa bankanna eins og Írar voru þvingaðir til að gera og sjá ekki enn fram úr.
Þá hefði Alþingi og ríkisstjórn orðið að knýja fram, sennilega með lögum, verulega lækkun launa á Íslandi, bæði hjá opinberum starfsmönnum og í einkageiranum vegna þess, að þá hefði gengislækkun eigin gjaldmiðils ekki komið að þeim notum, sem gengislækkun krónunnar gerði.
Þá hefði Alþingi og ríkisstjórn, sennilega með lögum orðið að lækka verulega öll eftirlaun í landinu, eins og Grikkjum, Írum, Portúgölum og nú Spánverjum hefur verið gert að gera.
Þá hefði atvinnuleysi náð svipuðum hæðum og í þeim evrulöndum, sem verst hefur gengið vegna þess að gengislækkun krónunnar hefði ekki verkað sem innspýting í útflutningsatvinnugreinar, sem hún hefur gert.
Þannig mætti lengi telja. Nýjustu fréttir af stöðu Íra eru þær að þeir verði líklega áfram háðir lánveitingum frá ESB/AGS/Seðlabanka Evrópu, ekki vegna þess að þeir hafi ekki staðið sig heldur vegna þess ástands sem nú ríkir á evrusvæðinu.
Ætli Jóhanna Sigurðardóttir og félagar hennar geri sér grein fyrir að hefðu þeirra óskir um aðild Íslands að ESB og evrunni náð fram að ganga fyrir bankahrun væri nú örbirgð á Íslandi?" (Tilvitnun í orð Styrmis lýkur.)
Ef þú ert enn í Sjálfstæðisflokknum, Friðrik, ættirðu að endurskoða þína afstöðu hér í ljósi staðreyndanna, sem og í ljós eindregins vilja landsfundar flokksins að halda Íslandi utan Evrópusambandsins og þar með evrusvæðisins.
Jón Valur Jensson, 18.6.2012 kl. 19:12
Sæll Örn Ægir
Ég er þér bara alls ekki sammála að við eigum hér "nóg af auðlindum og hugviti til að geta lifað allir góðu lífi".
a) Við eigum smávegis af raforku sem við höfu virkjað, alls um 2.000 MW. Við framleiðum því í dag jafn mikla raforku og sænska Barseback kjarnorkuverið rétt fyrir utan Malmö. Svíjar sem aldrei hæla sér af því að vera ríkir og eiga mikið af auðlindum hafa verið með áforum um að hætta rafmagsnframleiðslu í þessu veri. Sú aðgerð samsvarar því að við myndum hætta allri rafmagframleiðslu á Íslandi. Þetta segir okkur að í öllu samhengi í þessum heimi þá er þessi rafmagnsframleiðsla hér heima smotteríið eitt. Villtustu draumar Landsvirkjunar i dag er að tvöfalda þessa orkuframleiðslu sína. Þá myndi tvöföld rafmagnsframleiðsla Landsvirkjunar samsvara tveim Barseback eða tveimur af fimm ofnum í japanska kjarnorkuverinu Fukushima sem laskaðist í jarðskjálftunum í fyrra. Þetta eru öll þessi "ónýtt auðæfi" okkar Íslendinga í orkumálum, auðæfi sem samsvara Bareback kjarnorkuverinu eða einu ofni í Fukushima verinu. VÁ. maður. Og þessum eina "ofni" á þjóðin að lifa næsta aldarfjórðunginn!
b) Við höfum hagað málum okkar þannig í efnahgasmálum að í sjávarútvegi þar erum við hráefnisútflytjendur og látum kaupendum okkar í Evrópu eftir að fullvinna fiskinn fyrir neytendamarkað. Í dag starfa um 30.000 manns í hinum ýmsu löndum Evrópu við þessa fullvinnslu, störf sem gætu auðveldlega verið hér heima ef hagsmunir LÍÚ væri ekki látnir ráða ferðinni. Meðan Ísland stendur utan ESB sem þýðir að fullunnar fiskafurðir eru tollaðar inn í Evrópu þá munu þessi störf vera áfram niðri í Evrópu, Ísland mun áfram verða sú verstöð og hráefnisútflytjandi sem Ísland hefur alla tíð verið. Þar mun engin breyting varða á og í þessari grein munu ekki skapast fleiri störf né meiri tekjur.
c) Ferðaþjónusta er um allan heim láglaunagrein. Hvergi eru greidd há laun fyrir að þrífa, búa um rúm eða bera fram veitingar. Þar sem við Íslendingar búum að fleiri ófaglærðum starfsmönnum en önnur ríki Evrópu þá hentar okkur því vel þessi aukning í ferðaþjónustu. En þetta er 90% láglaunastörf, því miður.
d) Íslendinar eru ekki vel menntað fólk. Mælt í fjölda háskólaborgara per 1000 íbúa þá er Ísland í botnsæti ríkja Evrópu. Mælt í fjölda doktora per 1000 íbúa þá þarf að leita til Afríku til að finna samjöfnuð.
e) Meðan við höldum í krónuna og höfnum tollfrjálsum aðgangi fyrir fullunnar fiskafurðir á markaði í Evrópu þá munu enginn nýr atvinnuvegur rísa upp á Íslandi. Sveiflurnar í gengi krónunar sjá til þess. Við verðum áfram þessi verstöð í norðri með sitt einhæfa atvinnulíf og þau fyrirtæki önnur en útgerðarfyrirtæki sem ná hér einhverjum vexti þau flytja starsemi sína að stærstum hlut úr landi um leið og þau hafa burði til.
Þetta er því miður staðan.
Raunveruleikinn endurspeglast svo í laununum. Lámarkslaun á Íslandi eru í dag um 1.200 kr/t. Í Danmörku er þau um 110 ddk/t eða um 2.200 kr/t. Í Noregi eru þau 173 nok/t eða um 3.600 kr/t. Skattar eru þar sambærilegir vaskur um 25% og tekjuskattur 35% til 40% af þessum launum. Það sem bætir að auki stöðuna í Skandinavíu er að inni í þessum sköttum er lífeyrissjóðurinn. Hann kemur hér heima til viðbótar þessm 43% tekjuskatti sem hér er lagður á.
Samanburður á launum og sköttum hér heima og á Norðurlöndunum er bara skelfilegur. Fyrirséð er að þetta mun lítið breytast næstu 10 árin ef ekki næstu 25 árin.
Með óbreyttir stefnu í efnahags og atvinnumálum þá blasir ekkert annað við hér heima en einangrun og fátækt, því miður.
Friðrik Hansen Guðmundsson, 18.6.2012 kl. 20:28
Sæll Hans
Samkvæmt gögnum frá ASÍ þá segja þeir að raunverulegt atvinnuleysi á íslandi sé á bilinu 15% til 20%. Ástæða þess að atvinnuleysi mælist ekki nema 7% er vegna þess að þúsundir manna og kvenna starfa nú erlendis. Fjöldi fóks hafi hætt á vinnumarkaði og fjöldi fólks hafi horfið inn í skólakerfið.
Ég minni á að um 15.000 störf töðuðust bara í framkvæmda- og byggingageiranum, álíka margir og eru á atvinnuleysisskrá. Engin ný störf hafa orðið til í þessum geira frá hruni. Stærstur hluti þessa fólks vinnur nú erlendis.
Það sem verra er að vegna þess að við voru með krónuna og í tengslum við hrunið þá féll krónan um 50% sem þýðir að lífeyrissjóðirnir okkar töpuðu 50% af öllum sínum innistæðum mælt í dollurum, pundum og evrum. Árið 2007 áttu lífeyrissjóðir landsins um 2000 ma. Í dag eiga þeir um 2000 ma. skv. nýjustu fréttum. Vandamálið er bara að þessar krónur er 50% verðminni en fyrir hrun.
Tap launafólks á því að við voru hér með okkar eigin sjálfstæða gjaldmiðil í hruninu er gríðarlegur og mælist í þúsundum milljarða.
Launafólk í Evrópu sem er með evru eða gjaldmiðil landsins bundinn við evru tapaði í hruninu hvergi nærri því eins mikið og launafólk hér heima. Tap launafólks hér heima er af allt annarri stærðargráðu en tap t.d. launafólks á Grikklandi.
Friðrik Hansen Guðmundsson, 18.6.2012 kl. 20:44
Ég er hættur í Sjálfstæðisflokknum og vinn ásamt fleirum að stofnun hófsams flokks á hægri væng íslenskra stjórnmála, flokk sem við köllum Lýðfrelsisflokkinn sjá hérwww.lydfrelsisflokkurinn.net.
Ein ástæða þess að ég hætti er sú að Sjálfstæðisflokkurinn stóð fyrir stærsta ráni sem framið hefur verið í Evrópu frá stríðslokum þegar flokkurinn hafði forystu um setningu neyðarlaganna og gerði innistæður að forgangskröfum á kostnað þeirra erlendu fjármálafyrirtækja sem voru í viðskiptum við gömlu bankana.
Setning neyðarlaganna er eitt stærsta rán sem framið hefur verið í Evrópu frá stríðslokum þegar Alþingi ákvað að ræna allar helstu fjármálastofnanir heims, þ.e. lánadrottna gömlu bankana, og nota fé til að tryggja allar innistæður að fullu og þar með langt, langt umfram lög og reglur.
Þessi gjörningar varð til þess að fjöldi lánastofnana mun ekki næsta mannsaldurinn lána til Íslands og þær lánastofnanir sem hingað lána munu gera það sem sérstöku "Íslandsálagi".
Þó bankar á Íslandi fari í þrot og kalla þurfti á AGS til aðstoðar þá hefði það ekkert eyðilagt orðspor okkar. En það að við breyttum spilareglunum á fjármálamarkaðnum, gerðum þristinn hærri en ásinn, það olli því að enginn mun treysta Íslending á hinum alþjóðlega fjármálamarkaði næsta mannsaldurinn.
Þær verða dýrkeyptar þjóðinni þessar 90% innistæðna sem 2% innistæðueigenda áttu hér heima inni í bönkunum.
Skelfilegt er þegar menn eins og Styrmir er að verja þennan þjófnað eins og gert er í þessari tilfitnun þinni. Það er ljóst að maðurinn er algjörlega siðblindur. Hann skilur þetta ekki og sér ekki þjófnaðinn frekar en Árni Jhonsen hér um árið.
Og þó Styrmir sé tilbúinn að gera hvað sem er fyrir auðmenn Íslands þá er ég það ekki Jón Valur?
Ég vel frekar það hlutskipti sem Íra völdu sér, Jón Valur, að vera heiðarlegur en skuldugur frekar en það hlutskipti sem Styrmir og Sjálfstæðisflokkurinn valdi fyrir okkur Íslendinga að vera skuldlítll þjófur. Þegar upp er staðið þá verður staða Íra alltaf betri. Engin treystir þjóf.
Það að forysta Sjálfstæðisflokksins og meirihluti Alþingis á sínum tíma hafi ákveðið að gera mig og þjóðina að þjófum er ófyrirgefanlegt. Bara út af þessum neyðarlögum og þessu ráni þá hefði átt að banna Sjálfstæðisflokkinn frá sjórnmálaþátttöku næsta aldarfjórðunginn, eins og Þjóðverjar bönnuðu Nasistaflokkinn eftir seinni heimstyrjöldina.
Að gera þjóð sína að þjófum til að bæta auðmönnum Íslands það fé sem þeir glötuðu í gjaldþroti bankana er er einhver skelfilegast glæpur sem framinn hefur verið í íslenskri stjórnmálasögu.
Þessa menn, Jón Valur, þessa gömlu hugmyndafræðinga Sjálfstæðisflokksins eins og Styrmi, þessa menn eigum við að láta ofaní skúffu og hætta að hlusta á þá. Þeir eru hugmyndafræðilega gjaldþrota eftir að hafa leitt þjóðina með bundið fyrir augun inn eitt í mesta hrun í efnahagssögu Vesturlanda. Þeirra lausnir og þeirra leiðir hafa sýnt sig að leiða bara til glötunar. Þessir "snake oil salgesman" sem hafa því miður tröllriðið allri umræðu hér síðasta aldarfjórðunginn þjóðinn til óbætanlegs tjóns.
Friðrik Hansen Guðmundsson, 18.6.2012 kl. 21:47
Ég tek undir með Jóni Vali, að hér kemur Friðrik bloggritari á óvart. Svo virðist sem skautað sé gersamlega yfir raunverulega stöðu Evrunnar, Suður- Evrópu, ESB gagnvart þjóðríkjunum, Seðlabanka Evrópu gagnvart bönkunum og þjóðunum osfrv. osfrv. Þar að auki telur höfundur einn fárra að neyðarlögin hefðu ekki átt að vera sett á, heldur ættu amk. 10 þúsund milljarðar krána í viðbót að hafa fallið á íslenska skattgreiðendur í stað erlendra banka!
Friðrik hlýtur að horfa á fréttir í sjónvarpinu með bundið fyrir augun og með Wagner í heyrnartólunum á á fullu...
Ívar Pálsson, 18.6.2012 kl. 21:48
Sæll Ívar
Mat frjálsra Grikkja á "raunverulegri stöðu evrunnar og ástandinu í , Suður- Evrópu, ESB gagnvart þjóðríkjunum, Seðlabanka Evrópu gagnvart bönkunum og þjóðunum osfrv. osfrv" er ljóst. Þeir velja evruna í stað gömlu drökmunar.
Í þeirri stöðu sem upp kom haustið 2008 lá svo mikið á að bæta innistæðueigendum það fé sem þeir töpuðu í gjaldþroti bankana að það var aldrei rætt við lánadrottna gömlu bankana. Neyðarlögin voru einhliða aðgerð framkvæmd að nóttu til í þeim tilgangi að tryggja það að ákveðnir aðilar, 2% innistæðueigenda sem áttu 90% innistæðna, að þeir töpuðu ekki fé sínu.
Fyrir liggur að með samningum þá hefðu þessar fjármálastofnanir hvort sem er afskrifað stærstan hluta lána sinna. Í versta falli hefðum við farið í Parísarklubbinn og fengið aðstoð við þessa nauðasamninga.
En að gera okkur íslendinga að þjófum Ívar....
Friðrik Hansen Guðmundsson, 18.6.2012 kl. 22:06
Grikkir eru gjaldþrota, það liggur ljóst fyrir. Þessi naumi meirihluti sem náðist núna (þar sem gamlir fjandmenn reyna að mynda stjórn) er ekkert endilega að kjósa Evruna, heldur "björgunarpakkann" þar sem tugir milljarða Evra í einu eru sendir inn á skrifstofu ESB/IMF í Aþenu, greiddir vextir og afborganir af fyrri lánum og smáræði látið ganga að lokum áfram til aums lýðsins, sem tekur á sig heildarskuldina að hætti Icesave og þakkar pent fyrir hjálpina. Engin leið í víti er til þess að "hjálpin" verði endurgreidd.
Nú tók það markaði nokkrar klukkustundir að komast yfir jákvæða kaflann sem svona fréttir skapa, en næsta land í röðinni, Spánn, fór með ávöxtunarkröfu skuldabréfa (10 ára) í 7% sem er 400% hærra en Þýskaland, en það hakerfi getur ekki búið við slíkt til langframa.
Mínusinn af falli Grikklands fyrir skattgreiðendur Evrulanda er líklegur til þess að verða hrikalegur, kannski 300-400 milljarðar Evra, hvað þá þegar Spánn og Frakkland horfa á banka sína falla vegna þessa. Af hverju ættum við að taka þátt í þessari skuldasöfnun?
Þegar þetta er ritað eru tillögur um nýjar reglur í smíðum innan Evrulanda og ESB um yfirbankavald og raunar yfirþjóðlegt vald, gegn stjórnarskrám landanna, til þess að leysa vanda þeirra, sem er raunar ekki hægt. Neyðarlausnir ESB eru orðnar svo margar, ætli innganga Íslands eigi ekki að verða ein af þeim?
Ívar Pálsson, 18.6.2012 kl. 22:26
Það lofar okkur enginn "wine and roses" göngum við í ESB og tökum upp evru.
Það opnar okkur hins vegar möguleikann á auknum erlendum fjárfestingum, afnámi verðtryggingar og lægri vöxtu ásamt auðvita niðrfellingu gjaldeyrishafta. Með inngöngu í ESB þá opnast möguleiki á því að á næstu 10 til 20 árum náum við að vinna okkur upp í laun svipað og er á hinum Norðurlöndunum.
Með óbreytta stefnu í efnahagsmálunum þá er lítil sem engin von til þess að það muni takast. Við komumst ekki upp með það að falsa gengi krónunar og hækka laun í gegnum botnlausar lántökur gömlu bankana eins og síðast. Nú verða það að vera raunveruleg verðmæti sem standa undir verðmætasköpuninni. Og hvaða atvinnuvegir og fyrirtæki gefa borgað okkur laun í samræmi við það sem gerist á Norðurlöndunum? Og hvernig ætlum við að fá þau til landsins með gjaldreyrishöft og íslenska krónu? Og þá er ég ekki að tala um fyrirtæki sem hingað koma til að kaupa ódýrustu raforku í heimi. Þau fyrirtæki gefa lítið af sér.
Þessari kreppu í Evrópu líkur á endanum eins og alltaf og ljóst er að ríki Evrópu vilja ekki fara úr ESB. Það sannast á Grikkjum. Þetta efnahagsbandalag mun því halda. Spurning bara hve mikið þarf að afskrifa og hvort kreppan tekur 2 eða 3 ár í viðbót. Og þá kemur bylgjan upp á við og hvar viljum við þá vera?
Með aðild að ESB og upptöku evru á eigum við að minnsta kosti von á að öðlast betri lífskjör, stöðugleika og verða virkir þátttakendur í þessu fjölþjóðlega samfélagi sem Evrópa er.
Friðrik Hansen Guðmundsson, 18.6.2012 kl. 23:12
Friðrik: Það er alveg rétt að hluti atvinnulausra hefur flutt úr landi eða farið í skóla - hér eins og annarstaðar. Ég sé ekki að samanburður á atvinnuleysistölum hér og annarstaðar hafi neitt minna gildi þótt þessir þættir komi til.
Þú þyftir að skýra það betur hvernig launafólk hefði átt að eiga þúsundir milljarða sem engin innistæða er fyrir í þjóðarbúinu ef gjadmiðillinn hefði heitið eitthvað annað.
Annars langar mig til að benda á eitt varðandi fullvinnslu fiskafurða. Dmæmi um fullunnar fiskafurðir eru frosnir fiskistautar eða fiskimjöl. Peningurinn er í fersku gæðahráefni.
Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 18.6.2012 kl. 23:18
Vextir á Íslandi myndu ekki lækka við inngöngu í Evrópusambandið. Allur vaxtaskalinn er í Evrulandi, frá 1,5% ávöxtunarkröfu skuldabréfa í Þýskalandi upp í gjarnan 35% í Grikklandi og hin löndin með allt þar á milli. Ísland er nú þegar á miðjum skalanum þótt vandræðalöndum þeirra sé gleymt. Við fáum ekki þýska vexti. Vandræði Spánverja skópust þegar þeir fengu endalaust lága Evruvexti. Ef við uppfylltum Maastricht skilyrðin (til þess að komast í Evru- restina) þá þyrftum við ekki inngöngu í Evruna og værum með enn lægri vexti, enda ræður markaðurinn vöxtunum alfarið, ekki Brussel. Svo ákveður skuldatryggingarálagið líka um þá stöðu, semsagt markaðurinn. Nú er Evrópumarkaður þannig að þau lönd sem hafa minnst tengsl við Evruvandræðin hafa hvað bestan aðgang að fjármagni.
Úrelt er að raða upp gömlum slagorðum og mýtum sem eiga sér enga stoð lengur og halda að fólk kjósi svo í blindni. Doðinn eftir hrunið er ekki svo hrikalegur.
Ívar Pálsson, 19.6.2012 kl. 00:27
Mjög góð ábending þetta frá Ívari um vaxtamálin; vert að geyma á góðum stað í viðlögum!
En Friðrik Hansen Guðmundsson, það er þá alveg ljóst, að þessi nýi "flokkur" þinn (hve margra?), Lýðfrelsisflokkurinn, er enn einn Evrópusambandsflokkurinn, ásamt Samfylkingu og Svartri framtíð fyrir Ísland ("Bjartri framtíð" Guðmundar Steingrímssonar). Svo erum við með Esb-vafagemlingana í Dögun, Samstöðu og Vinstri grænum (þ. á m. með einn 10 milljóna Esb-styrkþega, sem þeir gerðu að formanni utanríkismálanefndar og lykilmanni í Evrópusambandsbrallinu!).
Skýrasti valkostur fullveldissinna um þessar mundir er hinn nýi flokkur Guðmundar Franklíns Jónssonar, Hægri grænir, sem nýlega komust upp í 7% í skoðanakönnun. Ekki mikið, þó þrefalt á við Dögun (samsetning úr fjórum áttum, þ.m.t. þriggja flokka), og Hægri grænir eru rétt að byrja ...
Með frekari svikum Sjálfstæðisflokks-þingmanna --- eins og þegar varaformaður flokksins og þingflokksformaður létu ekki sjá sig í þingsal til að greiða atkvæði gegn IPA-mútustyrkjunum daginn eftir 17. júní, en fyrrverandi varaformaður (ÞKG) sat hjá auk Ragnheiðar Ríkharðsdóttur --- þá er mjög líklegt, að Hægri grænir haldi áfram að tryggja sig í sessi fyrir næstu kosningar.
Jón Valur Jensson, 23.6.2012 kl. 14:13