Miðvikudagur, 22. desember 2010
Fólk sem hatar svarta sanda.
Mikil viðbrögð urðu við frumvarpi umhverfisráðherra þar sem lögð eru drög að því að koma einhverjum böndum á landgræðslu og skógrækt í landinu. Hingað til hefur andi "villta vestursins" ríkt í þessum málum. Það er, hver og einn gerir það sem hann vill.
Landgræðsla og skógrækt hefur hingað til gengið út á það að klæða eigi allt landið gróðri og það helst skógi. Til að ná þessu markmiði þá eru öll meðöl leyfð. Allt má nýta og allt má gera ef upp vex gróður.
Landgræðsla og skógrækt er líklega eina svið þessa samfélags þar sem hver og einn má gera það sem honum dettur í hug. Fyrir löngu er t.d. búið að koma böndum á okkur byggingakallana. Ekki fáum við að byggja það sem okkur langar til, þar sem okkur dettur í hug. Ekki er heldur hægt að flytja til landsins þær dýrategundir sem manni dettur í hug og byrja að rækta þær hér. Mér dettu í hug ferskvatnsrækja, "ferskvatnssteinbítur" og ýmsar aðrar fisktegundir sem án efa myndu þrífast hér í lækjum og vötnum. Sömuleiðis má nefna sauðnaut, héra, úlfa, hirti og elgi.
Þeir sem stunda landgræðslu og skógrækt er hins vegar heimilt að flytja til landsins hvaða tegundir sem er og dreifa fræjum af þessum erlendum tegundum þar sem þessu fólki dettur í hug.
Nú er ég ekki á móti skógrækt og landgræðslu. Ekki frekar en ég er á móti húsum og mannvirkjum. En hús og mannvirki eiga ekki heima allstaðar og þar sem hús og mannvirki eru sett niður þá þarf og á að gera það eftir fyrirfram ákveðnu skipulagi. Sama á að gilda um landgræðslu og skógrækt, tala nú ekki um ef notaðar eru erlendar blómjurtir og trjágróður.
Sérstaklega er mér orðið sárt um svörtu sandana okkar. Þessar náttúruperlur sem gera Ísland að því sem Ísland er. Að aka í dag Mýrdalssand er er ekki svipur hjá sjón miðað við það sem var hér fyrir áratug. Nú ekur maður á stórum hluta leiðarinnar í gegnum lúpínubreiður. Fallegasti hluti sandsins er sá hluti þar sem ekki eru lúpínur. Þar ræður fjölbreytt flóra íslenska holtagróðursins för. Þar er fjölbreytileikinn í fyrirrúmi og þar er sandurinn allur að gróa upp af sjálfdáðum.
Virkjunarsvæðin við Þjórsá og Tungná eru öll að verða undirlög af lúpínu. Hvað liggur svona ofboðslega á að dreifa lúpínu um þessa sanda? Þessir sandar gróa upp af sjálfu sér á nokkrum áratugum ef þessi svæði eru friðuð fyrir beit.
Og vita menn ekki að þessi mikla gróðurmoldamyndun á láglendi er til komin vegna svifryks ofan af fjöllum?
Vita menn ekki að þegar þessar rykagnir svífa um loftið þá binst t.d. kalí í loftinu við þessar rykagnir fyrir utan þá málma og snefilefni (fosfór, flúor, mangan) sem eru hluti af þessu svifryki. Þetta svifryk er áburður fyrir allan gróður á láglendi alveg á sama hátt og askan úr Eyjafjallajökli. Ef við sökkvum öllum þessum svörtu söndum í lúpínu á næstu áratugum þá hættir þessi sjálfvirka áburðargjöf. Hvað er fengið með því?
Ég vil friða þessa svörtu sanda okkar fyrir ágangi landgræðslu- og skógræktarfólks og fyrir beit.
Fyrir mér eru svartir sandar ekki forljótar eyðimerkur. Fyrir mér eru þetta náttúrperlur sem er eitt helsta einkenni okkar sérstaka eldfjallalands. Að breyta þessum svörtu söndum í lúpínuakra er eyðilegging á einu sérstakasta náttúrufyrirbæri landsins.
Og fyrir hverja er verið að rækta upp þessa sanda?
Erlenda ferðamenn?
Fólk sem hatar svarta sanda? Fólk sem fer á "límingunum" þegar það sér svarta gróðurvana sanda og fær þessa ofboðslegu þörf fyrir að rækta þá upp? Og eigum við að láta það ráða för?
Ég styð umhverfisráðherra í því að koma einhverju skipulagi á þennan málafokk.
Mynd: Gönguleiðin upp Esju
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:26 | Facebook
Athugasemdir
Friðrik, nú vill svo til að ég tek fyllilega undir með þér að gróður og tré eiga alls ekki alls staðar við. Hins vegar er einhverskonar ofstæki ráðandi í Umhverfisráðuneytinu. Nýlega fékk Skógræktarfélag Kópavogs úthlutað stóru svæði. Þá eru einhver möppudýr sem ætla að ákveða hvaða tré mega vera þar og hvaða ekki. Ofstæki kerfiskallanna á heldur ekki að ráða. Það er full ástæða að taka umræðuna, en ef ég þarf að velja á milli ofstækinu frá kerfisköllunum og ,,frjálslyndi" ræktunarsinna vel ég frelsið.
p.s. Annars þegar ég sá þig síðast varstu ekki klæddur í föt í sauðskinnslitunum. Vil beita mér fyrir reglugerð hvað það varðar. Litir eru innflutt óþarfavara, eða þannig.
Sigurður Þorsteinsson, 22.12.2010 kl. 21:08
Hverju orði sannara Friðrik.
Þó er full langt gengið ef það er rétt sem heyrst hefur að sumarhúsaeigendur verði að fá leyfi til að planta á sinni lóð. Reyndar tel ég þetta vera sögusögn.
Gunnar Heiðarsson, 22.12.2010 kl. 22:52
Viltu friða sandinn?????????? þetta er, held ég ,það heimskulegasta sem ég hef lesið á blogginu í dag,,,til lukku
Casado (IP-tala skráð) 22.12.2010 kl. 22:54
Núna er ég sammála þér að nokkru leiti. Ég vil ekki sjá íslensku sandana hverfa en ég vil hledur ekki og mikið skrifræði og að ríkið sé með puttana í hvers manns lífi. Mér minnst þessar svörtu eyðimerkur stórkostlegar!
jon jonsson (IP-tala skráð) 23.12.2010 kl. 09:37
Meðalhófið er miklu best i málum eins og þessu. Ég þekki Mýrdalssand mjög vel enda ferðast marg oft um hann allan,allt ofan frá jökli niður að sjó. Ég hef ferðast um hann í bíl á hesti og gangandi í sandbil og logni í góðu veðri. Ég held að ef byggja á landið allt þá verðum við að laga svo til fyrir okkur að það sé hægt. Ég get til dæmis ekki fallist á það að ég sem á heima fyrir austan Mýrdalssand geti ekki leitað til læknis vestur til Víkur vegna sandbils vegna þess að einhver maður sem fer kannski tíu sinnum á ári yfir sandinn vill hafa þar bara sandauðn til að horfa á. Þó ég sé því mjög fylgjandi að farið sé með allri gát gagnvart umhverfinu,þá er ég mjög ósáttur við sumt af þeirri öfgafullu umræðu sem á sér stað um þau mál. Ekki meira núna.
Gissur Jóhannesson (IP-tala skráð) 23.12.2010 kl. 11:04
Litlu hefur verið kostað til við uppgræðslu Mýrdalssands enda mun allri mögulegri uppgræðslu þar skola á haf út í næsta Kötlugosi. Melgresi og lúpína geta bundið sandinn svo hægt sé að fara yfir hann á þess að skemma bíla sína í sandfoki.
Skrýtið samt að meta fegurð svartra sanda meiri en gróðurs. Á Íslandi er enn gríðarmikið af svörtum söndum og mun verða um langan aldur svo þú þarft ekki að vera í vandræðum Friðrik við að leita slíkt uppi.
En Friðrik, það tjaldar samt enginn á svörtum sandi sér til ánægju. Fólk tjaldar frekar þar sem gróðursælt er eins og t.d. í Húsafelli. M.ö.o fólk vill heldur vera þar sem gróður er, frekar en á svörtu söndunum þínum.
Davíð Pálsson, 23.12.2010 kl. 12:39
Sælir Gissur og Davíð.
Þetta eru góðir punktar hjá ykkur. ´
Ég segi líka í pistlinum að ég er ekki á móti landgræðslu og skógrækt, bara að hún verði í sátt við alla og hún lúti t.d svipuðum reglum og hvar hús og mannvirki eru sett niður.
Þó ég hafi tekið Mýrdalssand sem dæmi þá finnst mér öðru máli gegna um þessi svæði í byggð. Uppgræðsla sands við Þorlákshöfn finnst mér vera allt annað dæmi en lúpínubreiðurnar á Heklusöndunum á Dómadalsleið, rétt við Búrfelli.
Ef landgræðslan og skógrækt fer að lúta sömu eða svipuðum leikreglum og t.d. mannvirkjagerð, þá er engin hætta á að Stórasandi eða Veiðivötnum verði drekkt í melgresi og lúpínu.
Ég er að vona að þetta frumvarp umhverfisráðherra verði skref í þá átt.
Friðrik Hansen Guðmundsson, 23.12.2010 kl. 15:47
Mér er illa við svarta sanda. Hvaða reglum fóru þeir eftir sem eyddu skóg og gróðri á landinu með ofbeit öldum saman?
Ég verð að viðurkenna að ég á bágt með að skilja þá sem vilja horfa upp á landslag sem ber merki þessarar slæmu meðferðar. Ég geri mér grein fyrir því að margir sjá ekki, og skilja ekki hversu illa landið er farið vegna þess að þeir sjá það á hverjum degi og halda að það hafi alltaf verið svona og eigi að vera svona.
Hörður Þórðarson, 23.12.2010 kl. 18:48
Sæll Hörður.
En er þá ekki málið að friða umrædd svæði fyrir beit?
Það hefur sýnt sig um allt land að á einum eða tveim áratugum þá grær þetta lofbeitta land upp. Það þarf ekkert að planta eða sá í þessi svæði, bara gefa þeim grið.
Svo geta menn ákveðið að vera með skógægt hér og nytjaskóg þar, ekkert að því. Alveg eins og ákveðið er að vera með sumarbústaðabyggð hér og virkjun þar.
Að slást við ofbeit og afleiðingar ofbeitar með lúpínuræktun er bara svo skrítin lausn. Af hverju ekki friða viðkomandi svæði fyrir beit í stað þess að sá í svæðið lúpínu?
Um leið og búið er að sá lúpínu í svæði þá er það hvort sem er ónýtt til beitar. Skepnur éta ekki lúpínuna en þær sem það gera drepast af því.
Er ekki alveg eins gott að friða þessi svæði fyrir beit í stað þess að setja í þau lúpínu?
Friðrik Hansen Guðmundsson, 23.12.2010 kl. 21:19
Við þurfum að fá á Íslandi frjálslyndan borgaralegan stjórnmálaflokk, sem treystir þegnunum til að gera rétt, en slær á puttana, ef þeir gera órétt. Meginreglan á að vera sú, að allt sé leyft, sem ekki er bannað.
Mest af þeirri skógrækt og landgræðslu, sem unnið er að í landinu er skipulögð. Þar á ég við skógrækt á bújörðum, sem skipulögð er af vel menntuðu fólki, sem hlustar auvitað á bændurna, hvað þeir vilja, enda eiga bændurnir landið og vilja landinu flestir vel - eða það skyldi maður ætla. Af hverju ætti einhver ráðherra eða ríkisforstjóri í Reykjavík að segja bændum fyrir verkum, t.d. um hvaða tegundir þeir megi nota við skógrækt eða landgræðslu? Ég fullyrði, að ekkert yrði hægt að gera í skógrækt í landinu, ef taka ætti tillit til allra sjónarmiða. Sumir vilja ekki skóg þar sem er framræst mýri, aðrir ekki á svörtum söndum. Sumir vilja "hlífa" lyngmóum við skógrækt (þar er um að ræða gróðurhverfi, sem er skapað af árhundruða beit aðfluttra tegunda dýra). Til er fólk, sem vill ekki að skógur sé ræktaður í fjallshlíðum og alls ekki þar sem eru klettar. Svo má gott ræktarland ekki skrýðast skógi, rétt eins og skógur geri landið ónýtt til ræktunar líkt og malbik! Eru ekki ca. 90% af akurlendi jarðar fyrrverandi skóglendi?
Mér finnst skógur fallegri en skóglaust land og gildir þá einu, hvaða tegundir vaxa í skóginum. Skógur er líka skjólgjafi og þar vill fólk njóta útiveru í veðrum, sem gera skóglaust land lítt ákjósanlegt til slíks. Svo má ekki gleyma því, að aukin þekja skóga mun í framtíðinni geta orðið ný auðlind - einkum ef notaðar eru tegundir, sem geta orðið stórvaxnar. Þannig væri hæglega hægt að rækta skóga á Íslandi, sem yrði jafnokar fiskimiðanna sem uppspretta arðs og atvinnu. Er ekki nóg að hafa á Íslandi einn flokk, sem er á móti flestri atvinnuskapandi starfsemi? Ég held að slíkur flokkur sé núþegar til.
Sigvaldi Ásgeirsson (IP-tala skráð) 3.1.2011 kl. 16:55